Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 12:46:26 (8014)

2002-04-20 12:46:26# 127. lþ. 124.38 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[12:46]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Í frv. felst að eigendur smávirkjana eiga kost á niðurgreiðslu á rafhitun. Í nokkrum tilvikum eru bæjarlækir virkjaðir á lögbýlum sem njóta niðurgreiðslu og hafa notið um árabil. Hugsunin er sú að ef viðkomandi aðilar virkja bæjarlækinn geti þeir fengið, eins og gert hefur verið með hitaveiturnar, sem nemur allt að fimm ára styrk, niðurgreiðslu, enda má segja að það sé langtímasparnaður fyrir ríkisvaldið. Með því er komið til móts við þann sem ætlar að virkja bæjarlækinn og þarf að leggja í töluverðan stofnkostnað vegna þess.

Niðurstaðan af því má segja að sé til hagsbóta fyrir ríkisvaldið, það sparar niðurgreiðslurnar til lengri tíma, en aðstoðar jafnframt viðkomandi bónda til að koma sér upp slíkri smávirkjun og gefur honum hugsanlega færi á að skapa sér tekjur.