Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 12:49:21 (8017)

2002-04-20 12:49:21# 127. lþ. 124.38 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, PHB
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[12:49]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég skrifa ekki undir þetta nál. hv. iðnn. þó ég eigi þar sæti og hafi verið viðstaddur. Ég er á móti þessu fyrirkomulagi, þ.e. niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar og mun sitja hjá við afgreiðslu málsins. Ég er á móti því vegna þess að verið er að skekkja markaðsstöðuna en markaðurinn gefur vísbendingar um hvað er skynsamlegt og hvað ekki.

Við erum komin í þá stöðu að til þessa málaflokks eru veittar 1.000 millj. kr. Það kom fram í hv. iðnn, að þetta eru um 1.400 fjölskyldur, þannig að styrkur á hverja fjölskyldu er um 700 þús. kr. á ári. Afleiðingin er sú að menn fara ekki út í framkvæmdir sem eru þjóðhagslega skynsamlegar, virkjarnir og annað slíkt, vegna þess að þeir geta ekki keppt við niðurgreiðsluna og ódýra rafmagnið. Til þess að vinna á móti því eru menn komnir í nákvæmlega sömu stöðu og var í sovétríkjunum gömlu. Menn eru farnir að styrkja skynsamlegar aðgerðir með sama fé. Fyrst taka menn markaðinn úr sambandi með því að niðurgreiða orkuna og síðan þurfa þeir að fara að styrkja skynsamlegar framkvæmdir. Þá kemur náttúrlega í ljós að erfitt getur verið að finna út úr hvað er skynsamlegt vegna þess að markaðurinn er ekki til staðar. Þá þurfa hv. þm. og ráðuneytið að setjast niður og skilgreina hvað er skynsamlegt. Það hefur komið fram hér og kristallaðist í umræðunni áðan um hvort bæjarlækurinn væri skynsamleg fjárfesting eða ekki.

Þetta er akkúrat afleiðingin af því þegar menn leyfa sér að taka markaðinn úr sambandi með þessum hætti. Ég tel að menn ættu að skoða þetta kerfi í heild sinni og athuga hvort ekki sé skynsamlegt að láta bara hverja fjölskyldu fá hálfa milljón á ári. Svo getur hún keypt orku á því verði sem býðst, hvar sem hún býðst.