Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 12:53:56 (8019)

2002-04-20 12:53:56# 127. lþ. 124.38 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[12:53]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er afskaplega ánægður með gagnrýni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hún undirstrikar og kristallar þann mismun á lífsskoðunum okkar. Hv. þm. trúir á að hægt sé að skipuleggja allt ofan frá með ríkisvaldinu. Ég trúi því ekki. Ég tel að best sé að láta markaðinn finna út bestu leiðirnar og ef það er svo að orka er ódýrari á einum stað en öðrum á það að verða til þess að fólk flytji þangað og búi frekar en á hinum staðnum. Ef það er svo að fiskur er nálægt einum stað þá á fólk að búa þar vegna þess að fiskurinn er nálægt. Við eigum ekki að reyna að stýra því héðan hvar fólk býr.

Það er eimitt þetta, skynsemi mannsins og markaðurinn, sem á að leiða til mestrar hagkvæmni fyrir þjóðfélagið. Ég er því mjög ánægður með að hv. þm. skuli vera óánægður með lífsskoðun mína.