Almenn hegningarlög og lögreglulög

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 13:48:10 (8025)

2002-04-20 13:48:10# 127. lþ. 124.6 fundur 494. mál: #A almenn hegningarlög og lögreglulög# (sendierindrekar, grímubann, starfslok lögreglumanna o.fl.) frv. 56/2002, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Fram til þessa hefur lambhúshettan ekki valdið miklum vandræðum á Íslandi og það er ekki ástæða til að gera því skóna að svo verði í framtíðinni. Hér er verið að heimila lögreglunni að banna fólki að bera lambhúshettur eða grímur í mótmælagöngum. Að sjálfsögðu er þessu beint gegn ofbeldisseggjum, það veit ég. En, herra forseti, þegar óeirðir brjótast út og einhverjir taka upp á því að hylja andlit sitt eins og t.d. gerðist í óeirðunum í Genúa á Ítalíu ekki alls fyrir löngu, halda menn að tilmæli lögreglu að taka vinsamlegast niður grímurnar hefðu breytt miklu? Ég held ekki. Við eigum ekki að setja lög sem setja skorður við framferði fólks að nauðsynjalausu og reyndar ekki fyrr en við erum beinlínis neydd til þess. Við eigum að verja frelsið og halda hvers kyns eftirliti og afskiptum lögreglu af fólki í algeru lágmarki. Slíkt styrkir lýðræðisandann í þjóðfélaginu. Það gerir þessi lagagrein hins vegar ekki. Ef við ætlum mönnum hið besta framöllum við jákvæða framkomu. Hið gagnstæða á einnig við.