Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 13:54:29 (8027)

2002-04-20 13:54:29# 127. lþ. 124.8 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ekki mæli ég með samþykkt þessarar lagagreinar því þar eru þættir sem eru ekki ásættanlegir. Með þessari lagagrein er verið að draga úr skyldu þeirra sem vinna með persónuupplýsingar að láta viðkomandi einstakling vita eða afla heimilda Persónuverndar. Þannig segir t.d. á þá leið að ef hagsmunir hins skráða af því að fá vitneskju um upplýsingar sem öðrum eru veittar um hann þykja eiga að víkja fyrir veigamiklum einkahagsmunum eða almannahagsmunum þá sé það heimilt.

Hér erum við komin út á hált skilgreiningasvell og hef ég þá sérstaklega í huga hinar miklu deilur sem fram fara í þjóðfélaginu um meðferð heilsufarsupplýsinga, en einmitt á því sviði er mikilvægt að standa vörð um upplýst samþykki fólks, t.d. gagnvart handhöfum gagnagrunns á heilbrigðissviði.

Nú er það svo að gagnagrunnur á heilbrigðissviði er undanskilinn þessum lögum, en það gildir ekki um aðrar heilsufarsupplýsingar til annarra. Þess vegna get ég ekki stutt þessa lagagrein.