Framhald þingfundar

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 14:58:50 (8041)

2002-04-20 14:58:50# 127. lþ. 124.93 fundur 532#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[14:58]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur kynnt formönnum þingflokkanna þann ásetning sinn að efna til kvöldfundar í dag. Það gerði hann fyrir nokkrum dögum. Okkur er sá vilji hans ljós. Við teljum það hins vegar óráðlegt og höfum mótmælt því og um það er því ekkert samkomulag.

Hins vegar hefur verið ágætt samkomulag um störf þingsins undanfarna daga. Ég tel mjög mikilvægt að við högum þinghaldinu þannig að áætlanir standist og vil fyrir mitt leyti greiða fyrir því að svo geti orðið.

Hins vegar er mjög óvenjulegt að efna til kvöldfundar á laugardegi. Það mun alger nýlunda nema þegar komið er að þingslitum eða þegar þingslitadagur er alveg fram undan. Svo er ekki núna. Okkur hefur miðað ágætlega í þingstörfum undanfarna daga. Það verður einnig sagt um daginn í dag. Ég beini því til hæstv. forseta að fundurinn verði ekki langur og ekki fram á kvöldið.

Hitt vil ég staðfesta að um fyrirkomulag þessa dags að öðru leyti er fullt samkomulag.