Framhald þingfundar

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 15:00:21 (8042)

2002-04-20 15:00:21# 127. lþ. 124.93 fundur 532#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), BH
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[15:00]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég get staðfest það fyrir mína hönd að eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan er sá vilji hæstv. forseta okkur löngu ljós að til hafi staðið að hafa jafnvel kvöldfund, en ekki hefur verið samkomulag um það á meðal okkar. Ég verð að segja, herra forseti, að það er náttúrlega algerlega út úr myndinni að verið sé að halda kvöldfund á laugardegi ef nefndafundir eiga að vera. Búið er að boða formlega nefndafundi í tveimur nefndum þannig að mikilvægt er að það sé þá ljóst að af þeim fundum verði ekki ef halda á áfram hér fram á kvöldið.

Ég vil hins vegar lýsa yfir ánægju minni með og vil skilja orð hæstv. forseta þannig að hann geri ráð fyrir að fundi ljúki klukkan átta. Hann talaði um næstu fimm tímana. Það væri gott að fá það nokkuð skýrara hvort það sé ekki þannig að við getum sæst á að ekki verði fundað lengur en til klukkan átta því að ég vil taka undir það líka sem hér hefur komið fram að ekki er góður bragur á því að funda á laugardagskvöldi. Eins og komið hefur fram hefur það reyndar oft gerst en það er þá ef við erum á síðasta degi þingsins og erum að ljúka þingstörfum. En það er ekki þannig því miður. Það stefnir í --- eigum við ekki að orða það svo að við teljum okkur nokkuð góð ef við náum að halda okkur innan við þá áætlun sem við settum okkur. Ég hvet því hæstv. forseta til þess að kveða hér upp úr með að fundur verði ekki í kvöld heldur verði honum lokið í síðasta lagi um kvöldmatarleytið.