Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 17:49:20 (8050)

2002-04-20 17:49:20# 127. lþ. 124.64 fundur 670. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (norsk-íslenski síldarstofninn) frv. 50/2002, Frsm. 1. minni hluta GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[17:49]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel það styðja þau rök enn frekar, að við séum hér að ræða mál sem e.t.v. fá ekki staðist lagalega framkvæmd, að þær tvær úthlutanir sem þegar hafa farið fram á grundvelli laga nr. 151/1996, urðu fyrir daga hæstaréttardómsins í desember 1998, þ.e. úthlutunin á Reykjaneshrygg og á Flæmska hattinum.

Síðan Valdimarsdómurinn féll hefur engin úthlutun verið samkvæmt þessum lögum. Nú á hins vegar að úthluta heimildum m.a. út frá veiðireynslu sem Hæstiréttur dæmdi í raun ólöglegt að mynda, með þeim hætti að aðeins fáir útvaldir útgerðarmenn áttu kost á að afla þeirrar reynslu en ekki allir sem rétt áttu á samkvæmt Valdimarsdóminum. Samkvæmt stjórnarskránni var talið óheimilt að meina mönnum að fá veiðileyfi á skip sín og veiða úr þeim stofnum sem frjálst var að veiða.

Ég lít svo á að þó að við höfum þessi tvö fordæmi um úthlutun á úthafskarfanum annars vegar og á Flæmingjagrunninu hins vegar séum við í raun allt öðruvísi staddir í dag með þessa úthlutun. Hún byggir á að miða við veiðireynslu sem búið er að dæma rangt að veita mönnum einkarétt á að mynda, eins og var fyrir Valdimarsdóminn. Þess vegna er frv., sem byggir á að taka tillit til áranna frá 1994, meira en vafasamt. Ég tel vafa leika á að við förum með því að landslögum.