Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 17:51:26 (8051)

2002-04-20 17:51:26# 127. lþ. 124.64 fundur 670. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (norsk-íslenski síldarstofninn) frv. 50/2002, Frsm. 2. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[17:51]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel reyndar að vandinn sé ansi mikill hvað þessa hluti varðar. Mér finnst raunar engin nothæf leið til staðar önnur en að opna veiðar með frjálsum hætti og láta menn keppa um þau réttindi sem um er að ræða. Ég tek undir það sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson var að segja, að í raun er allur þessi veiðiréttur í uppnámi. Hann hefur í raun ekki neitt á bak við sig, ekkert eðlilegt umhverfi. Þar á ofan kemur dómurinn sem segir að umhverfið sem þarna var hafi verið brot á stjórnarskránni.

Skásti kosturinn hjá þeim sem vilja fara leið eins og þessa hefði verið að úthluta á grundvelli þeirrar veiðireynslu sem hefur orðið til eftir dóminn. En það er ekki nógu gott heldur. Sú veiðireynsla er líka fengin í vitlausu umhverfi af því að menn hafa verið að veiða á grundvelli reglna sem voru komnar á. Þannig bítur þetta mál í eigið skott.

Samt sem áður tel ég að ástæða væri til að lögspekingar færu í gegnum þetta. Mér finnst í sjálfu sér að allur veiðiréttur sem orðið hefur til á Íslandsmiðum eftir þennan dóm, sem byggist á einhverri veiðireynslu, hljóti að vera í uppnámi ef menn velta þessum hlutum fyrir sér.