Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 17:53:26 (8052)

2002-04-20 17:53:26# 127. lþ. 124.64 fundur 670. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (norsk-íslenski síldarstofninn) frv. 50/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[17:53]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 151 27. des. 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Eins og fram hefur komið hófust veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum aftur hér við landi árið 1994, þá eftir 27 ára hlé. Íslendingar byrjuðu á því að veiða 21 þús. lestir af síld þegar veiðarnar hófust.

Ég hef undirritað nál. frá meiri hluta sjútvn. með fyrirvara. Ég er áheyrnarfulltrúi í sjútvn. og hef ekki stöðu þar sem fulltrúi í nefndinni. Ég geri í sjálfu sér ákveðna fyrirvara við frv. þótt ég velji þá leið að hafa fyrirvara við nál. Ég hef fyrirvara við að aflahlutdeildinni skuli úthlutað varanlega. Ég byggi það á því að við gerum okkur auðvitað öll vonir um að þessir stofnar eigi eftir að stækka og dafna. Við erum að vísu búin að bíða í mörg ár eftir því að hann gangi hér inn að Íslandsströndum og það hefur látið á sér standa þrátt fyrir góðar og miklar væntingar á undanförnum árum. En vonin er ekki úti.

Við sem munum síldarárin vonumst til þess að norsk-íslenska síldin taki aftur upp sitt fyrra hegðunarmunstur og við getum veitt hana frá ströndinni og gert úr henni mikil verðmæti. Þess vegna finnst mér að við hefðum ekki átt að fara út í aflahlutdeildarúthlutun og byggja hana á veiðireynslu frá 1994--2001. Ég tel að farsælla hefði verið að úthluta aflamarki og þar með ekki varanlegum kvóta heldur gera það með úthlutun frá ári til árs miðað við þá kvóta sem við semjum um við viðsemjendur okkar, þ.e. Norðmenn, Rússa og Evrópusambandið. Eins og ég segi bindum við miklar vonir við að kvótarnir stækki í framtíðinni og ekki síður við að síldin gangi inn í lögsögu okkar, komist nær ströndinni og þar með sjávarbyggðum.

Ég hef líka sterkan fyrirvara vegna þeirrar staðreyndar að síldar- og loðnuveiðiflotinn fékk á erfiðleikaárum sínum úthlutað þorski, þorskígildum. Það mun hafa verið 1991. Ég tel að koma hefði átt inn í þetta frv. innköllunarákvæði á þeim kvóta og legg stuðning minn við það.

Ég batt vonir við að menn byggðatengdu kvótann og ég sagði það í fyrri ræðu minni um þetta mál. Ég hefði viljað sjá möguleika á byggðatengingu ef um aukningu yrði að ræða og síldin færi að ganga líkt og við vöndumst af henni á árum áður þannig að sjávarbyggðir við ströndina, stærstu síldarstaðir frá Húnaflóa og austur um Norðurland og suður um Austfirði, hefðu hlutdeild í þeim stækkunarmöguleikum sem væru fyrir hendi.

Ég geri þessa miklu fyrirvara en geri mér samt grein fyrir því að um veiðar uppsjávarfisks hefur ríkt tiltöluleg sátt, held ég að megi segja. Það hefur gengið vel í þessum útgerðarflokki og engin stórátök orðið. Það má segja að stærstu átökin um fiskveiðar við Íslandsstrendur séu um bolfiskveiðarnar enda eru þær langafdrifaríkastar hvað sjávarbyggðir landsins varðar. Það er mikið til á þeim grunni sem ég hef ekki séð ástæðu til að amast mikið við þessu frv.

Þó vil ég segja það að mér finnst mjög athyglisvert mál hafa komið upp í umræðunni hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, þ.e. um Valdimarsdóminn. Miðað við það sem fram kom í ræðu hans varðandi það að miði menn við veiðireynslu fyrir Valdimarsdóm, eins og hér er verið að gera, geti það hreinlega verið ólöglegt og við lent í miklum barningi með það á seinni stigum þegar búið er að samþykkja lögin. Þessi mál hafa ekki komið sterkt upp í umræðunni og raunar ekki í sjútvn. þegar fjallað var um málið. Eftir að hafa hlýtt á mál hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar varðandi þetta atriði held ég að við neyðumst til --- ég fer þess á leit, virðulegi forseti, við hv. formann sjútvn. --- að skoða málið milli 2. og 3. umr.

Að mínum dómi færir hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson svo sterk rök fyrir því --- raunar hv. þm. Jóhann Ársælsson líka --- að e.t.v. séum við þarna að fremja lagabrot að það þurfi aldeilis að skoða vel áður en lengra er haldið. Verr væri af stað farið en heima setið ef við lendum strax í uppnámi með þetta. Þegar maður skoðar þetta í því ljósi virðist augljóst að hér sé um að ræða viðmiðun sem tekur til tímans fyrir Valdimarsdóminn. Það kallar e.t.v. á átök seinna, að menn vilji ræða réttindi sín og komast til botns í þessu máli.

[18:00]

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson benti réttilega á að við höfum ekki staðið frammi fyrir svona úthlutunum frá því dómurinn féll. Í sjútvn. var þetta mál ekki rætt ítarlega. Ég held að við hefðum átt að kveikja á því fyrr og fá ítarlega úttekt á þessum hluta málsins. Þá er nú staðan sú að við þyrftum, virðulegi forseti, e.t.v. að salta þetta mál, skoða það í nýju ljósi og nota gamlar úthlutunaraðferðir enn um sinn þangað til við erum búin að komast til botns í því hvernig við ætlum að skipa þessum málum til framtíðar.

Virðulegur forseti. Ég set þessa sterku fyrirvara við þetta mál. Hlutur Íslands úr leyfilegum heildarafla hefur síðan 1995 verið 132--233 þús. lestir á ári. Ég gat þess áðan í ræðu minni varðandi bollaleggingar um aflahlutdeild eða aflamark, að auðvitað gerum við okkur öll vonir um að þessi síldarstofn stækki og gangi inn í lögsöguna. 132--233 þús. lestir í okkar hlut eru ekki verulegt magn þegar við lítum á síldveiðar okkar í sögulegu samhengi. Ætli við höfum ekki verið að veiða á bestu árunum í kringum 600 þús. lestir.

Hér er náttúrlega um mikinn mun að ræða frá því sem áður var. Ég vona að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson leiðrétti mig ef ég fer með rangt mál en ég held að 600 þús. lestir hafi veiðst hin bestu veiðiár.

Á grunni þessara laga er alveg ljóst að með því að fá aflahlutdeild eygja viðkomandi aðilar möguleika á gríðarlegum verðmætum, þ.e. ef við höfum í huga þann möguleika að stofninn stækki og okkar hlutur verði stærri. Það eru staðreyndir málsins. Þess vegna held ég að það hefði átt að vera inni í lögunum að útgerðarfélögum með veiðireynslu í þessu væri úthlutað aflamarki og síðan aukningu eftir því sem verkast vill og helst með byggðatengingarákvæðum, þ.e. þeirri aukningu sem væntanlega kæmi í okkar hlut með samningum við Norðmenn, Rússa og Evrópusambandið. Ég tel mikilvægt að þetta komi fram í umræðunni.

Síðan nefndi ég innköllunina á kvóta sem þessi útgerðarflokkur fékk vegna minnkandi loðnuafla. Það er í sjálfu sér eðlilegt að frá þeim hluta flotans sem fékk frá öðrum vegna erfiðleika, sjái hann fram á betri tíma og aukningu, séu innkallaðar þær veiðiheimildir sem þeim voru veittar til að koma sér yfir erfiðasta hjallann. Þeir fengu þær veiðiheimildir frá öðrum þannig að mér finnst það eðlilegt.

Virðulegi forseti. Ég held að ég fari ekki mikið fleiri orðum um þetta mál. Ég hef gert grein fyrir fyrirvörum mínum við þetta frumvarp. Ég hef fylgst með umræðunni og, eins og við þrír hv. þm. höfum bent á, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson og hv. þm. Jóhann Ársælsson og ég, hvatt til skoða stöðu málsins í ljósi þess að hér er um aflareynslu að ræða sem aflað var fyrir Valdimarsdóminn. Það held ég að sé mál málanna í þessari umræðu núna, að frv. gæti verið á mjög veikum grunni reist og kannski ólöglegum þegar upp er staðið. Ég held að við ættum að fara fram á það í umræðunni, við formann hv. sjútvn., að þetta mál verði skoðað af lögfróðum mönnum og við setjumst niður við fyrsta tækifæri til að fara yfir það á nýjan leik. Í því ljósi þarf að skoða allt dæmið upp á nýtt.