Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 18:06:31 (8053)

2002-04-20 18:06:31# 127. lþ. 124.64 fundur 670. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (norsk-íslenski síldarstofninn) frv. 50/2002, Frsm. 1. minni hluta GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[18:06]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er bara ein athugasemd sem ég vil gera. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir því að hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson taldi að þessi floti gæti skilað inn einhverju af þeim heimildum sem hann fékk á árunum 1991. Ég dró þetta m.a. fram í ræðu minni sem rök fyrir því að innskilareglan yrði nú tekin í gagnið.

Hvers vegna er ég að fara í andsvar út af þessu? Það er vegna þess að þær heimildir sem flotanum voru úthlutaðar 1991 eru ekki lengur til staðar á þessum flota. Útgerðir skipanna sem fengu þessar heimildir skiptu þeim út, þeir fengu úthlutað rækju og þeir fengu úthlutað botnfiskveiðiheimildum sem sérstökum uppbótum vegna loðnubrestsins. Síðan fóru menn að versla með þessar heimildir. Sumir skiptu þeim fyrir síld. Aðrir losuðu sig við þorskheimildirnar og fengu rækju. Sumir losuðu sig við rækju og fengu botnfiskheimildir og skiptu þeim síðar út fyrir síld.

Þær heimildir sem úthlutað var sem bótum er ekkert hægt að sækja til baka, menn eru búnir að gera þær að verslunarvöru. Þess vegna dró ég skýrt fram að eðlileg væri að ef fara ætti að úthluta þessum réttindum yrði flotinn látinn vinna með innskilareglunni. Ég tel að það sé eina aðferðin til að ná einhverju til baka inn í lögsöguna þar sem ekki var gert ráð fyrir því á sínum tíma að heimildirnar sem þeir fengu væru ekki framseljanlegar. Hefði það verið gert hefði það bara verið veiðiréttur og þeir hefðu orðið að skila hinu sama til baka þegar tíð þeirra batnaði. Þá væri ekkert vandamál að fara þá leið sem hv. þm. minntist á. Hún er ekki fær, þess vegna er innskilareglan svo mikilvæg í þessu máli.