Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 18:35:52 (8056)

2002-04-20 18:35:52# 127. lþ. 124.65 fundur 729. mál: #A skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins# (krókaaflamarksbátar) frv. 88/2002, Frsm. meiri hluta EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[18:35]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Þetta frv. er flutt af meiri hluta sjútvn. sem skipa auk mín hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Sigríður Ingvarsdóttir, Hjálmar Árnason og Helga Guðrún Jónasdóttir.

Hér er einfaldlega brugðist við vegna ákvæðis í frv. til laga um stjórn fiskveiða þar sem kveðið er á um að bátar á krókaaflamarki geti orðið allt að 15 brúttótonn að stærð í stað þess að vera 6 brúttótonn eins og núna er.

Þetta hefur í för með sér að að óbreyttum lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun mundi það hafa áhrif á tekjustreymi til Landssambands smábátaeigenda. Það er hins vegar ekki meiningin með breytingum á stærðarmörkum smábátanna. Það er eingöngu verið að bregðast við hugmyndum margra smábátaeigenda sem telja mikilvægt að fá svigrúm til að stækka báta sína til að auka sjóhæfni þeirra og öryggi sjómanna og enn fremur til að tryggja betur hráefnisöflun til fiskvinnslufyrirtækja sem byggja allt sitt á smábátaafla. Af þessu leiðir að til að tryggja það að fjárstreymi til Landssambands smábátaeigenda breytist ekki þarf að flytja sérstakt frv. til að breyta lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun og það felst í frv. sem hér um ræðir.