Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 18:37:44 (8057)

2002-04-20 18:37:44# 127. lþ. 124.65 fundur 729. mál: #A skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins# (krókaaflamarksbátar) frv. 88/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[18:37]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta mál um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun kom allt í einu upp á í fundi sjútvn., þeim síðasta sem haldinn var. Þá birtust menn allt í einu með þetta frv. Það hefur náttúrlega ekki hlotið eðlilega þingmeðferð og þarf auðvitað að fara fyrir nefndina eftir þessa umræðu. Það þarf að halda fund í nefndinni um málið.

(Forseti (HBl): Ég vek athygli hv. þm. á því að þetta mál hefur hlotið eðlilega þingmeðferð og er hér á dagskrá samkvæmt samþykki Alþingis, en það var samþykkt án mótatkvæða í dag að málið skyldi tekið fyrir og er Alþingi sjálft dómari um það hvað er þinglegt og ekki þinglegt í þessum efnum.)

Hæstv. forseti. Ég var ekki að ræða um það hvort þetta mál væri þinglegt eða ekki heldur var ég að tala um að þetta mál er flutt af meiri hluta sjútvn. Það hefur ekki verið sent til umsagnar og hefur ekki verið kallað í aðila sem eiga hlut að máli til að ræða um það með neinum hætti. Ég tel að alls ekki hafi verið fjallað eðlilega um það fyrr en nefndin hefur tekið málið upp aftur. Mér skilst --- ég stend alla vega í þeirri meiningu og verð leiðréttur ef það er rangt --- að mál sem flutt er með þessum hætti þurfi að fara aftur fyrir nefndina og nefndin að fjalla um málið eftir 1. umr. þess. Ég stend í þessari meiningu. Það var það sem ég átti við þegar ég sagði að það hefði ekki hlotið eðlilega þingmeðferð enn sem komið væri. Ég set ekkert út á það, enda tók ég þátt í því að afgreiða það í dag, að málið fái að koma á dagskrá.

(Forseti (HBl): Ég vek athygli hv. þm. á því að það er alsiða og að ég hygg venja að mál sem nefndir flytja gangi til 2. og 3. umr. án þess að þeim sé vísað til nefndar.)

Hæstv. forseti. Ég mótmæli þessu og tel afar óheppilegt ef þannig verður staðið að málum í þessu máli, einfaldlega vegna þess að hér er ekki um það að ræða að nefndin flytur málið. Hér er um það að ræða að meiri hluti nefndar flytur málið. Það er ekki nefndin sem slík sem flytur það heldur meiri hluti nefndarinnar. Ég tel fulla ástæðu til þess og mun færa rök fyrir því í máli mínu hér á eftir að kalla til hagsmunaaðila til að ræða um áhrif af þessari lagabreytingu.

Vegna þeirrar tillögu sem liggur fyrir um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða, sem eru hér á dagskrá og gert er ráð fyrir að ræða á eftir, er gert ráð fyrir að smábátar sem núna eru undir 6 tonna mörkum, þeir sem hlíta þeim reglum, geti stækkað eða fengið sér nýja báta, látið smíða eða keypt sér nýja báta sem eru allt að 15 brúttótonnum. Þegar menn fóru síðan að athuga málið kom í ljós að lögin um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun mundu komast í uppnám að því leyti að ýmsir af þeim sem greitt hafa til Landssambands smábátaeigenda, samkvæmt lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun, mundu ekki endilega gera það í framhaldinu, þeir gætu vikið sér undan því vegna þess að í lögunum er ekki gert ráð fyrir því að svo stórir bátar séu innan þess kerfis.

Af þessum sökum ákvað meiri hluti nefndarinnar á síðasta fundi hennar að flytja þetta mál. Það var lagt þar fram og kynnt í fyrsta skipti þannig að við höfum ekkert tækifæri fengið til að kynna okkur hvaða áhrif gætu hugsanlega orðið af málinu. Ég tel að full ástæða sé til að fara yfir þetta og skoða málið vel þar sem vel kemur til greina að einhver vandamál fylgi þessari breytingu. Við erum að tala um báta sem orðnir eru stærri en þeir sem nú tilheyra hópnum sem Landssamband smábátaeigenda hefur yfir að ráða, báta yfir 12 lestum og þá kemur til skylduskráning á bátum sem eru ekki undir þeim mörkum. Þarna getur ýmislegt komið til.

Síðan er annað, hæstv. forseti, sem er ástæða til þess að vekja athygli á. Hæstv. forsrh. hefur undanfarna daga ítrekað verið með yfirlýsingar um það, þess er skemmst að minnast þegar Samtök iðnaðarins birtu fræga skoðanakönnun um áhuga Íslendinga á að ganga í Evrópusambandið, að það væri kannski ástæða til að skoða hvort ríkið ætti ekki að hætta að innheimta gjöld fyrir Samtök iðnaðarins. Bíddu nú við, af hverju er ég að nefna þetta? Það er vegna þess að lögin um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun eru af nákvæmlega sama tagi og lögin þar sem verið er að innheimta gjöld til iðnaðarins, fyrir iðnaðinn á vegum hins opinbera. Sé það ólöglegt liggur það auðvitað í augum uppi að lögin um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun eru líka í uppnámi.

Er skynsamlegt að breyta þeim lögum, bæta inn í lögin eða stækka þann hóp sem undir þau fellur? Ég er ekki að halda því fram að ekki eigi að gera þessa breytingu. Ég held því hins vegar fram að ástæða sé til að skoða málið betur í nefndinni. Það gafst ekki tækifæri til þess á áðurnefndum fundi og þarf þess vegna að gera það á milli umræðna. Það ástæðan, hæstv. forseti, fyrir því að ég komst svo að orði í upphafi.

Það er á ýmsan hátt snúið að ræða um stærðir á bátum. En hér hafa menn lent í ýmsum vandamálum vegna stærðarmælinga. Þær eru ekki færri en þrjár mælingarnar, mismunandi mælingar sem gilda nú í smábátaflotanum. Þessi mælikerfi sem öll eru í gildi í smábátaflotanum voru fjögur á sínum tíma, þ.e. áður en tekin var upp brúttótonnamælingin yfir allan hópinn voru þessi mælikerfi fjögur.

[18:45]

Þegar þær reglur voru settar sem í gildi eru í lögunum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun, gerðu menn ráð fyrir því að nota mælikerfi sem byggist á rúmlestum. Þess vegna er talað um 10 rúmlestir þegar verið er að tala um þá sem eiga aðild að Landssambandi smábátaeigenda. Sá mælikvarði sem verið er að leggja til að verði notaður við stærðarmælingar á þessum bátum sem hér er um að ræða er 15 brúttótonn, sem er allt önnur mæling. Þetta ruglar auðvitað dæmið á ýmsan hátt.

Rétt er að nefna að á fund nefndarinnar komu fulltrúar Landssambands smábátaeigenda og lögðust gegn þeirri breytingu sem hér er verið að leggja til, þ.e. sem verið er að leggja til í breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða sem á að ræða hér síðar á fundinum. Þeir lögðust gegn þessu vegna þess að þeir töldu að verið væri að vega að samtökum sínum með því að leggja til að smábátakerfið færi upp í 15 tonn. Þar með væri verið að vega að samtökunum á þann hátt að stór hópur öflugustu útgerðarmannanna mundi fara út úr samtökunum og í önnur samtök sjávarútvegsins.

Nú held ég að það hafi kannski ekki verið hugmyndin á bak við þessa tillögu. Ég get alveg sagt frá því vegna þess að ég tók þátt í umræðu um hversu mikla stækkun ætti að leyfa í smábátakerfinu, í þeirri nefnd um endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða sem sat á liðnu hausti. Þar var rætt um þessa hluti. Ég lagði þar til að gerð yrði breyting í þá átt að þessir bátar mættu stækka upp í svona 8, 9 eða jafnvel 10 tonn. Þeir sem þekkja til þessara mála vita að ef 6 tonna bátar eru stækkaðir upp í 10 tonn samkvæmt því mælikerfi sem hér um ræðir, eru þetta orðnir býsna stórir bátar, líklegast meira en helmingi stærri en 6 tonna bátarnir eru í dag. Og miklu meira en helmingi stærri en margir af þeim þó þeir séu mældir 6 tonn.

Tillagan sem er um að þessir bátar verði 15 tonn, er í raun um það að þessir bátar stækki þrefalt og meira en það. Það er út af fyrir sig nokkuð sem ég get vel hugsað mér að verði samþykkt. En það veldur vandamálum sem þarna eru komin upp á yfirborðið og sem forustumenn Landssambands smábátaeigenda mótmæltu á fundi nefndarinnar.

Meiri hluti nefndarinnar bregst þá við með þessum hætti, að reyna að tryggja að Landssamband smábátaeigenda hafi áfram þennan hóp útgerðarmanna undir sínum verndarvæng, ef svo má að orði komast, með því að breyta lögunum. En ástæða er til að fara varlega í málið og a.m.k. að skoða vandlega hvort einhver önnur áhrif geti fylgt þessari breytingu.

En svo verður að hafa í huga að hæstv. forsrh. er búinn að vera með digrar yfirlýsingar, ekki einu sinni heldur oftar, um að allar líkur séu á því að ríkið verði að hætta svona löguðu, hætta að innheimta gjöld fyrir atvinnuvegina, t.d. iðnaðarmannasamtökin.

Það liggur sem sagt, eins og ég sagði, í augum uppi að hér er nákvæmlega sams konar mál á ferðinni. Þess vegna er ástæða til að gera kröfu um að þetta mál verði tekið inn í nefndina aftur á milli umræðna, að kallað verði bæði í hagsmunaaðila og þá sem best þekkja til hvað varðar lögfræðihliðina á þessu máli og áhrifin sem hugsanlega yrðu og fara yfir málið í nefndinni. Það var ekki gert einfaldlega vegna þess að enginn tími var til þess. Málið var kynnt undir lok síðasta fundar eins og ég er búinn að segja hér áður.

Þetta vildi ég segja um frv. og mér finnst að hæstv. forseti eigi að tryggja að þessi háttur verði hafður á. Ég hef staðið í þeirri meiningu, og vil gjarnan fara yfir það betur ef það er rangt, að ef einhver hluti nefndar, þó það sé meiri hluti, flytji mál sem ekki hefur verið lagt fram með venjubundnum hætti þá sé eðlilegt, a.m.k. ef einhver geri um það kröfu, að málið fari fyrir nefndina milli umræðna og að fjallað sé um það þar. Ég sé enga ástæðu til annars. Mér finnst það bara liggja í augum uppi að menn hljóta að verða við þeirri kröfu.

Það er alveg sérstök ástæða til þess að kalla í nefndina sem hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin skipaði núna á dögunum til þess að skoða hvort lög af þessu tagi sem notuð eru til þess að innheimta gjöld fyrir iðnaðinn í landinu og fyrir Landssamband smábátaeigenda, með þessum lögum sem hér er um að ræða, standist eða ekki. Fyrir liggur álit umboðsmanns Alþingis sem hæstv. forsrh. segir að geri mönnum skylt að fara yfir þetta og hæstv. forsrh. telur að líkur séu á því að það verði bara að hætta þessu, það verði bara að hætta innheimtu fyrir atvinnuvegina með þeim hætti sem hér er gert.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra núna, en ég sé ástæðu til þess að ræða málið og setja fram óskir mínar um að nefndin komi saman milli umræðna til þess að fara yfir það.