Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 18:52:44 (8058)

2002-04-20 18:52:44# 127. lþ. 124.65 fundur 729. mál: #A skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins# (krókaaflamarksbátar) frv. 88/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[18:52]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Miðað við framsögu hv. formanns sjútvn., Einars K. Guðfinnssonar, kann mönnum að virðast að þetta sé nú frekar lítið mál. En svo er ekki þegar betur er að gáð vegna þess að þetta frv. um breytingu á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sem er á þskj. 1264, er afleiðing af ákveðnum tillögum sem eru í frv. um stjórn fiskveiða. Þær birtust okkur fyrst í þingsölum þegar hæstv. sjútvrh. kynnti það frv. því þá birtist í raun ástæða þess að þetta mál er flutt, en í 5. gr. frv. eins og sjútvrh. kynnti það í 1. umræðu um mál nr. 562, þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sagði:

,,Í stað orðanna ,,6 brl. eða 6 brúttótonnum```` --- sem er nú ekki alveg það sama og ekki alveg sama mælingin --- ,,í 2. málsl. 6. mgr. 11. gr. laganna kemur: 15 brúttótonnum.``

Þar kom sem sagt inn ástæðan fyrir því að síðar í meðförum sjútvn. tók meiri hlutinn þá ákvörðun að leggja fram sérstakt frv. um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Ástæða þess er þessi tillaga í 5. gr. áðurnefnds frv. um að breyta 6 brúttólesta viðmiðunum og 6 brúttótonna viðmiðunum í 2. málsl. 6. mgr. 11. gr. laganna í 15 brúttótonn.

Meiri hlutinn tók ákvörðun um fylgja þeirri tillögu eftir sem birtist í frv., en sú tillaga mun eiga rætur sínar að rekja í skýrslu hinnar margfræðu endurskoðunarnefndar sem oft hefur nú gengið hér undir nafninu sáttanefndin. (Gripið fram í.) Ég hef stundum nefnt hana svona innan gæsalappa ,,sáttanefndina miklu``, þá sem byggi til hina miklu sátt um framtíðina. En í þeirri skýrslu endurskoðunarnefndarinnar birtist tillaga um að e.t.v. væri rétt, og það var beinlínis lagt til, að leyfa stækkun á smábátunum upp í 15 brúttótonn. Ég hef skilið það svo að hæstv. sjútvrh. hafi ákveðið að taka þetta inn vegna þess að það kom fram á þeim stað.

Í greinargerð með frv. þar sem þessi 15 brúttótonn koma fyrst fram, segir um 5. gr., með leyfi forseta:

,,Hér er lagt til að takmarka beri stærð krókaaflamarksbáta við 15 brúttótonn í stað 6 brl. eða 6 brúttótonna eins og gert er í núgildandi lögum. Þykir 6 brl. eða 6 brúttótonna takmörkunin of þröng, m.a. af öryggisástæðum. Er þetta í samræmi við tillögur meiri hluta nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Þetta ákvæði á þannig einungis við krókaaflamarksbáta og gildir ekki um dagabáta.``

Nú ber svo við að strax þegar þessi tillaga kom frá endurskoðunarnefndinni --- ég held ég muni rétt eftir því --- kom fram hjá forustumönnum Landssambands smábátaeigenda að þeir væru algjörlega andvígir því að þetta yrði sett í lagafrv. eða gert að lögum, að slík stækkunarheimild yrði notuð miðað við tillögu endurskoðunarnefndarinnar og farið í 15 brúttótonnin, sem er svo ástæða þessa frv. um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Enda könnuðust þeir í Landssambandi smábátaeigenda ekki nokkurn skapaðan hlut við að þeir hefðu óskað eftir því á neinu stigi máls að þessi tillaga kæmi fram.

Þeir hafa lýst sig andvíga því að setja þessi tillögu fram í frv. Það var auðvitað ekkert hlustað á þeirra rök í þessu máli frekar en það var hlustað á rök smábátasjómanna eða Landssambands smábátaeigenda þegar kvótasetningunni var skellt á smábátana. Þó að menn hefðu bent á það með mörgum rökum að engin ástæða væri til þess að fara í þá kvótasetningu, í ýsu, ufsa og steinbít, þá var það auðvitað gert þrátt fyrir það. Hæstv. sjútvrh. hefur svo verið að dunda sér við það á síðasta ári og það sem af er þessu að úthluta í smáskömmtum einhverjum kvótum til krókabátanna í andstöðu við það sem þeir báðu um, því þeir vildu fá að vera áfram í sínu aflahámarkskerfi og færðu fyrir því þau rök að ýsustofninn væri mjög að braggast. Auðvitað þóttust sjómennirnir sjá það á sínum krókum að upp væri að vaxa stór ýsustofn. Það hefur svo komið í ljós núna í togararallinu að í fjöldamörg ár hefur ekki mælst annar eins ýsustofn. Ástæðan fyrir kvótasetningu ýsunnar var því engin og er það auðvitað eins og um fleiri verk þessarar ríkisstjórnar sem tekur sér ýmislegt fyrir hendur þó ástæðan fyrir því sé engin. Það er bara út í loftið, tómt bull og kjaftæði. En samt fara menn þessa vegferð á móti bæði sjómönnum sem vinna í þessu kerfi og hagsmunasamtökum þeirra.

[19:00]

Ég ætla ekki að halda því fram að ekki megi finna sjómann, herra forseti, einhvers staðar á landinu sem mundi vilja að þessir bátar stækkuðu í 15 brúttótonn. Ekki get ég nú haldið því fram. En ég verð hins vegar að segja að ég hef ekki hitt hann. Ég heyri það á einhverjum í sjútvn. að þeir telja sig hafa hitt menn sem vilja fá svona báta og því beri að fara í þá átt enda er vafalaust um tryggt atkvæði að ræða.

Samt sem áður fer þessi tillaga gegn áherslum og framsetningu Landssamtaka smábátamanna, eins og reyndar hefur verið gert núna í eitt, tvö ár, að fara ævinlega á móti því sem mennirnir á sjónum og í greininni vinna, hafa viljað hafa í starfumhverfi sínu. Það hefur bara verið mottó þessarar ríkisstjórnar að fara ávallt þær leiðir sem valdið geti nógu miklu ósætti.

Í þessu frv. koma menn síðan með sérstaka tillögu til að ná að færa afla á milli ára því honum hafi verið svo seint úthlutað. Það hafi ekki verið hægt að veiða hann. Við þessu var öllu varað. Menn lögðu það beinlínis til á síðasta sumri að kvótaúthlutuninni yrði þó alla vega frestað til áramóta þannig að mönnum gæfist kostur á að stunda veiðarnar með eðlilegu úthaldi. Menn þóttust sjá fyrir að úthlutunarstefnan og reglurnar mundu aldrei ná að klárast miðað við eðlilegt úthald flotans. Það var auðvitað reyndin. Margt hefur orðið til að framkvæmdin hefur eyðilagt útgerðarmynstur margra minni báta á síðastliðnu ári og síðastliðnu hausti, sérstaklega hvað varðar ýsuna.

Mér kemur ekkert á óvart þó margir bátar á Vestfjörðum séu t.d. núna við að klára þennan litla steinbít sem úthlutað var. Vafalaust verður eitthvað óveitt af honum af þeim heimildum sem úthlutað er á stærri skipin og notað í tegundatilfærslu til að framleiða grálúðu. Þetta er nú saga samvinnu stjórnvalda við smábátasjómenn um hvernig þeir hefðu viljað stjórna þessum veiðum og fara í þessar breytingar. En stjórnvöld hafa ævinlega séð sér hag í því, af einhverjum annarlegum ástæðum sem ég kann ekki skil á, að fara aðrar leiðir en þær að reyna að vera í samstarfi við þá sem eiga að vinna eftir lögunum. Það er einnig verið að gera hér núna í þessu 15 tonna máli. Og 15 brúttótonnin eru, eins og ég sagði, ástæða frv. um skipaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Hefði millileiðin orðið fyrir valinu, sem Landssamband smábátaeigenda taldi að þeir gætu kannski sætt sig við, að breyta þessum sex brúttórúmlesta og brúttótonna viðmiðunum í lögunum í tíu tonn, tíu brúttórúmlesta viðmiðun eða tíu brúttótonna viðmiðun, þá hefði þetta frv. um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun, herra forseti, aldrei þurft að koma fyrir þingið. Þá hefði greiðslugrunninum ekkert verið breytt því greiðslugrunnurinn til Landssambands smábátaeigenda byggir á því, eins og lögin eru í dag, að til þeirra sé greitt af skipum undir 10 brúttórúmlesta viðmiðunum. Reyndar er einhvers staðar grátt svæði þarna á milli, frá tíu og upp í tólf, því kjarasamningar annarra sjómanna, þ.e. Sjómannasambands Íslands, Farmannasambandsins og Vélstjórafélagsins, miða flestir við að greiðslutengt sé í gegnum greiðslumiðlun gjald til þeirra samtaka gegnum lögin um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun af skipum yfir tólf tonn eins og kjarasamningarnir kveða á um. Þannig að það er nú pínulítið grátt svæði þarna á milli. (JÁ: Það verður slagur um það.)

Já, það er rétt hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Það er mjög hætt við að einhver slagur geti orðið um þá sem þar hafa verið staddir. Ég hygg einnig að það séu til einhverjir aflamarksbátar sem hafi verið í Landssambandi íslenskra útvegsmanna.

Það sem hér er verið að leggja til, herra forseti, með þessu litla frv. sem lítur nú svona sakleysislega út, um breytingar á skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, er að mínu viti afleiðing þess að menn hafa tekið vitlausa stefnu varðandi stækkuanrmöguleika á krókabátunum. Ég tel að það hefði alveg nægt að fara t.d. í tíu brúttórúmlestir. Það er sama tillaga og Landssamband smábátaeigenda var með, þegar þeir sendu okkur tillögur sínar inn í sjútvn., þegar þeir komu á fund okkar.

Ég vil, með leyfi forseta, ef ég finn það í þessum gögnum lesa upp hver afstaða þeirra til málsins er. Hún er svona, með leyfi hæstv. forseta. Ég vitna hér í umsögn Landssambands smábátaeigenda til sjávarútvegsnefndar, en þar segir:

,,Í stað orðanna ,,6 brl. eða 6 brúttótonnum`` í 2. málsl. 6. mgr. 11. gr. laganna kemur: 15 brúttótonnum.``

Síðan kemur athugasemd Landssambands smábátaeigenda, með leyfi forseta, um þessa grein og hljóðar svo:

,,Frumvarp það sem hér er til umsagnar gerir ráð fyrir að heimilt verði að stækka krókabáta úr sex brúttórúmlestum eða sex brúttótonnum upp í 15 brúttótonn. Landssamband smábátaeigenda leggur til að þessu verði breytt þannig að miðað verði við 10 brúttórúmlestir.``

Síðar segja þeir, með leyfi forseta:

,,Helstu ástæður þess eru:

1. Tilkoma aflamarks á alla báta sex brúttórúmlestir að 10 brúttórúmlestum 1. janúar 1991`` --- þegar lögin nr. 38 tóku gildi --- ,,varð til þess að veiðiheimildir þessara báta fluttust í verulegum mæli á stærri skip. Bátunum fækkaði um nokkur hundruð og eru nú aðeins 130.`` --- Þ.e. bátar á milli sex og tíu brúttórúmlestir. --- ,,Veiðiheimildir þessara báta eru frá því að vera nánast engar upp í að vera viðunandi. Óveruleg nýsmíði hefur átt sér stað í þessum hópi, enda veiðiheimildir ekki gefið tækifæri til endurnýjunar. Með breytingartillögu Landssambands smábátaeigenda væri þessum aðilum gefið tækifæri á að komast inn í krókaaflamarkið, með meiri veiðiheimildir en þeir hafa í dag. Það er mat undirtitaðs að lækkun úr 15 brúttótonnum ...`` --- eins og ráðgert er í frv. og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson mælti fyrir áðan. Þar er tillaga um að hafa þá viðmiðun í þessu frv. um greiðslumiðlun.

Þá segir áfram, með leyfi forseta:

,,Það er mat undirritaðs að lækkun úr 15 brúttótonnum í 10 brúttórúmlestir, muni ekki leiða til stórfelldrar veðlækkunar báta í krókaaflamarki eins og veruleg hætta er á ef miðað væri við 15 brúttótonn.``

Þeir telja sem sagt að veruleg hætta sé á því að þessir bátar, á bilinu sex til tíu tonn falli verulega í verði við breytinguna sem hér er lögð til, að að þeim verði sérstaklega vegið. Þar er nú verið að tala um 130 báta.

,,Einkum er það vegna mikils mismunar á aflaheimildum báta milli sex og tíu og tíu til fimmtán, afkastagetu bátanna, endurbóta sem hefur verið talsverð á bátum milli tíu og fimmtán, en eins og áður sagði nánast enginn á bátunum á milli sex og tíu.

2. Við framgang laga um kvótasetningu krókabáta, lækkaði verðmæti bátanna um hundruð milljóna. Dæmi eru um verðlækkun einstakra báta 15 milljónir niður í 10 milljónir. Ástæðar þessa var skerðing á veiðiréttinum og að veiðum þeirra var ekki lengur stjórnað með fjöldatakmörkunum.``

Hér er enn ein lýsingin dregin fram á því hvernig kvótasetningin hefur farið með smábátaflotann en hún hefur aukist þar eins og við vitum.