Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 19:16:42 (8060)

2002-04-20 19:16:42# 127. lþ. 124.63 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. meiri hluta EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[19:16]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 1262 sem er 562. mál þingsins. Þetta er nál. um frv. þar sem lagðar eru til ýmsar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Meginbreytingin felst þó í því að verið er að taka upp svokallað veiðigjald, að lagt verði veiðigjald á veittar veiðiheimildir samkvæmt lögunum eins og nánar er útskýrt í frv. Ætlunin er að þessi gjaldtaka hefjist á árinu 2004 og hækki smám saman fram til ársins 2009 og verði eftir það 9,5% af gjaldstofninum.

Það var nokkuð rætt í nefndinni hvernig bæri að skilgreina þetta veiðigjald. Menn höfðu ýmsar hugmyndir um það hvort þetta væri þjónustugjald, skattur eða auðlindarenta. Þetta mál var krufið nokkuð til mergjar og niðurstaðan varð sú eins og fram kom í nefndinni að eins og gjaldið væri sett fram í frv. stæðist það formkröfur sem eru gerðar til gjaldsins hvernig svo sem menn líta á það, þannig að í rauninni eru ekki sérstök pólitísk álitaefni í þessum efnum. Aðalatriðið er að það hefur ekki efnislega pólitíska þýðingu.

Ég vil í þessu sambandi líka nefna það áður en ég kem að sjálfum breytingartillögunum að í nefndinni var töluvert mikið rætt um áhrif þess að gjaldstofninn byggist á þorskígildunum, mælieiningunni þorskígildi. Það voru ýmsar ábendingar um að þorskígildið væri kannski ekki alveg hlutlaus mælikvarði, gæti haft það í för með sér að það stýrði veiði með ýmsum hætti, það væri ívilnandi fyrir þá sem væru að veiða stærri fiskinn og væri þess vegna torveldandi fyrir þá sem væru að veiða smærri fiskinn. Þess vegna er það niðurstaða meiri hluta sjútvn. að leggja það til að ofan í þessi mál verði farið alveg sérstaklega og einnig reglur um slægingarstuðul og kvótanotkun og taka á spurningunni um yfir- og undirstöðu vegna stærðar fisks. Við teljum nauðsynlegt að þessari endurskoðun verði lokið þannig að hægt sé að gera breytingar sem geti tekið gildi við upphaf fiskveiðiársins 2003/2004, en út af fyrir sig væri hægt að gera hluta af þessum tillögum virkar fyrr ef þær fela ekki í sér lagabreytingu.

Eins og hér kom fram í síðasta máli er í frv. lagt til að hækka stærðarmörk krókaaflamarksbáta úr 6 brúttótonnum í 15 tonn. Eins og mönnum er ljóst eru rökin fyrir þessu fyrst og fremst tvenns konar, annars vegar að auka öryggi við sjósókn og tryggja jafnari hráefnisöflun í fiskvinnslu sem fyrst og fremst vinnur úr afla smábáta. Það er auðvitað kominn nýr veruleiki sem þessir bátar vinna eftir með tilkomu krókaaflamarksins 1. september sl. og þau rök sem áður voru fyrir því að hafa þessa báta minni eru þess vegna ekki fyrir hendi með sama hætti. Það er hins vegar, eins og gert er ráð fyrir í sérstöku frv., tryggt að það hafi ekki áhrif á tekjur Landssambands smábátaeigenda.

Ef ég fer yfir helstu breytingartillögurnar þá er gerð sú brtt. við 1. gr. að opnað verði á það að fleiri en Hafrannsóknastofnun geti stundað fiskirannsóknir og veitt fisk í því skyni án þess að hafa til þess veiðiheimildir að öllu eða einhverju leyti. Þetta er að okkar mati mjög mikilvægt skref í þá átt að opna á virkari þátttöku fleiri aðila. Það hefur orðið mikil breyting í okkar þjóðfélagi, menntun hefur aukist og þessi þekking er til víðar í þjóðfélaginu og þess vegna eðlilegt að opna á þennan möguleika.

Eins og menn muna var við breytingar á lögunum um krókaaflamarkið á sl. hausti ákveðið að hafa veiðiskylduna, möguleikann á kvótaframsali, eins og hann hafði verið í þorskaflahámarkinu, 30%. Það hafa hins vegar komið ábendingar frá smábátasjómönnum, þar á meðal Samtökum smábátasjómanna, um að eðlilegast væri að hafa þetta 50% eins og er í almenna alflamarkskerfinu og það er niðurstaða meiri hlutans að verða við því. Enn fremur hefur, eins og mönnum er ljóst, krókaaflamarkið verið að þróast og menn hafa verið að færa aukinn veiðirétt inn í það kerfi á yfirstandandi fiskveiðiári og ekki öll kurl komin til grafar þar enn þá. Það er því ljóst að til þess að tryggja að ekki falli niður neinar heimildir, þarf að gefa mönnum möguleika á því að færa með sér heimildir að öllu leyti yfir á næsta fiskveiðiár. Það er líka ábending Landssambands smábátaeigenda og við verðum við því.

Það hefur verið deilt töluvert mikið um þær reglur sem hafa verið uppi varðandi hámarkskvótahlutdeild eða aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila. Í frv. var gert ráð fyrir því að hækka þetta svokallaða kvótaþak talsvert mikið. Við leggjum hins vegar til í meiri hlutanum að ganga veginn til baka og lækka þetta frá því sem frv. gerir ráð fyrir eins og það er nánar útskýrt og teljum einfaldlega að sú reynsla hafi fengist af þessu að ekki sé ástæða til þess að gera róttækar breytingar á kvótaþakinu.

Síðan eru hér ýmsar breytingar sem út af fyrir sig eru ekki efnislegar frá núverandi framkvæmd varðandi skyldu opinberra aðila til að veita sjútvrn. og Fiskistofu nauðsynlegar upplýsingar. Gert er ráð fyrir því, sem er mjög mikilvægt, að koma til móts við sjónarmið aflamarksbáta, sérstaklega þeirra báta sem eru með litlar aflaheimildir með því að svokallaður 3.000 lesta pottur sem hefur verið úthlutað úr árlega og átti að úthluta úr árlega til ársins 2006, verði gert varanlegt. Hér er þó ekki um það að ræða að þessir bátar fái þennan afla sem hlutdeild, heldur verði hér eingöngu um að ræða árlega úthlutun á aflamarki en lagt er til að sólarlagsákvæði sem var í lögunum hverfi burtu og þannig skapast auðvitað meira rekstraröryggi fyrir þennan flokk báta.

Svipað má segja varðandi sérstakar aflaheimildir sem Byggðastofnun hafði til úthlutunar og áttu að renna út frá og með fiskveiðiárinu 2005/2006. Hér er gert ráð fyrir því að þeim aflaheimildum verði úthlutað áfram án tímatakmarkana, en að þær verði færðar undir forræði sjútvrn. eins og eðlilegt er eftir að fiskveiðiárinu 2005/2006 lýkur.

Ýmsar breytingar eru lagðar til varðandi gildistökuákvæði frv. eins og þar er nánar útskýrt. Ég vil þó sérstaklega nefna að það er ákveðið að sjútvrh. muni að höfðu samráði við Byggðastofnun úthluta á þessu fiskveiðiári allt að 500 tonnum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem hafa lent í vandræðum vegna samdráttar í sjávarúvegi. Þarna er raunverulega verið að opna á þriðjungs úthlutun á fyrirhuguðum byggðakvóta sem frv. gerði ráð fyrir að yrði settur upp.

Síðan er hér mál sem lætur kannski ekki mjög mikið yfir sér þegar menn skoða þetta í heild sinni, en er þó merkilegt. Það hefur orðið mikil þróun varðandi uppbyggingu þorskeldis í landinu. Það eru ákveðnir hlutir sem hafa staðið því fyrir þrifum sem hér er m.a. verið að bregðast við með því að opna á heimild til ráðherrans til þess að úthluta sérstökum aflaheimildum til þeirra sem stunda þessa þróunarvinnu og það er auðvitað afar mikilvægt.

Ég vil, virðulegi forseti, áður en ég lýk þessu aðeins segja að það hefur oft verið rætt um byggðakvóta og þau mál öllsömul og þau eru meira í deiglunni núna en stundum áður, þau verða auðvitað alltaf í umræðunni í hvert einasta skipti sem þessum heimildum er úthlutað. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að við höfum á undanförnum árum gengið býsna langt í þessum efnum. Þegar allt er til tekið eru um 7.600 tonnum úthlutað á ári hverju í formi byggðakvóta með einum eða öðrum hætti. Það er í fyrsta lagi þessi byggðakvóti sem er í ferskustu minni, 2.300 tonn. Það eru 2.300 tonn sem hæstv. sjútvrh. hefur úthlutað til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir mikilli skerðingu, m.a. vegna þess að orðið hefur rækjubrestur, og byggir á tiltekinni grein fiskveiðistjórnarlaganna eins og mönnum er kunnugt um. Það er líka heimild sem Byggðastofnun hafði í þessu sambandi og þegar þetta er allt saman lagt saman, þá eru þetta um 7.600 tonn og síðan eru 3.000 tonn sem úthlutað er með sérstökum hætti til báta sem hafa aflamark innan við 200 tonn og hafa hlutfallslega komið best þeim sem eru með tiltölulega litlar aflaheimildir.

Ég vil vekja athygli á þessu og ég held að menn þurfi að íhuga það mjög hversu langt þeir vilja ganga í þessum efnum. Ég veit að um þetta eru menn ekkert endilega sammála og síst af öllu í stjórnarmeirihlutanum og ég held að það væri æskilegt að menn reyndu að finna leið til þess að feta sig frekar út úr þessu og finna aðrar leiðir til þess að styrkja þessar byggðir. Í því sambandi hef ég mínar ákveðnu meiningar um þau mál.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þeim breytingartillögum sem verið er að gera á frv. sjálfu. Það er auðvitað ekki verið að gera grundvallarbreytingar á hugmyndunum varðandi veiðigjaldið, en það er hins vegar verið að gera ýmsar breytingar á frv. að öðru leyti sem ég held að geti haft góð og farsæl áhrif frá því sem annars hefði orðið.