Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 19:29:16 (8062)

2002-04-20 19:29:16# 127. lþ. 124.63 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[19:29]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Athygli mín hafði svo sem verið vakin á þessu atriði varðandi síðustu málsgreinina. Þar er það hins vegar þannig, eins og hv. þm. tekur eftir, að þar er um það að ræða að verið er að úthluta aflahlutdeild í þorski til aflamarksbáta og þeirri úthlutun hefur verið lokið þannig að sú aflahlutdeild er einfaldlega komin á bátana. Í þessum 3.000 tonna potti er ekki um að ræða, og það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því, það er ekki um að ræða úthlutun á aflahlutdeild heldur eingöngu úthlutun á aflamarki. Þess vegna þarf að hafa þetta svona. Aflahlutdeildinni var á sínum tíma úthlutað með þeim hætti sem gerð er grein fyrir í þessu bráðabirgðaákvæði og þar sem þeirri úthlutun er lokið, er einfaldlega engin þörf á því að kveða á um það í þessum lögum vegna þess að þetta er búið að taka gildi.