Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 19:32:43 (8064)

2002-04-20 19:32:43# 127. lþ. 124.63 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[19:32]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég hef sagt um þennan veruleika, það er bara veruleikinn. Það er þannig að þetta krókaaflamark tók gildi 1. september síðastliðinn, að vísu hafði lítil útgáfa af því tekið gildi árinu fyrr eins og menn muna. Okkur hafði tekist að fresta gildistöku laganna eins og við vitum tvisvar sinnum. Niðurstaðan varð hins vegar sú eins og við þekkjum að krókaaflamarkið varð til og þá var farið í það að auka veiðiréttinn í krókaaflamarkinu eins og menn hafa verið að gera og reyna að tryggja að þær byggðir sem yrðu ella fyrir mesta tekjutapinu fengju það bætt upp með einhverjum hætti og byggðakvótinn var sú aðferð sem niðurstaða varð um. Hann var auðvitað búinn til í þeim tilgangi að sjá til þess að aflaheimildirnar færu inn á þau byggðarlög sem annars fengu mestu skerðinguna, mestu hlutfallslegu skerðinguna á milli ára, þ.e. ef aflinn á síðasta árinu sem þorskaflamarkið var við lýði var borinn saman við úthlutunina á þessu fiskveiðiári. Út úr því kom það sem við þekkjum og er umdeilt og umdeilanlegt eins og úthlutanir af þessu taginu hafa alltaf verið.