Framhald þingfundar

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 20:13:11 (8071)

2002-04-20 20:13:11# 127. lþ. 124.91 fundur 530#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[20:13]

Forseti (Halldór Blöndal):

Af þessu tilefni vil ég segja í fyrsta lagi að ég hef ekki kannað það sérstaklega hvenær fundir hafa verið á laugardögum og væri kannski ástæða til þess að athuga hvaða þinghefðir eru í því sambandi. Hinu man ég eftir að það liggur fyrir úrskurður forseta um það að heimilt sé að halda áfram þingfundi eftir kl. 6 á miðvikudegi í dymbilviku og ekki er talið að helgispjöll séu þó að það sé gert.

Í annan stað vil ég segja að þegar ég ræddi um það og bauð það fram að það mál sem hér er til umræðu yrði ekki rætt fyrr en á mánudag þá var það að samkomulagi við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar að málið yrði tekið fyrir síðari hluta dagsins í dag. Þegar mér var svo bent á það og ég tók við þeirri ábendingu að ræða á undan mál sem er ekki stórt í sniðum, 64. mál, Fiskveiðar utan lögsögu Íslands, stjfrv., þá átti ég ekki von á því að umræður um það mál yrðu teygðar svo á langinn að menn gætu síðan í stjórnarandstöðunni staðið upp og sagt að ég væri að brjóta samkomulag með því að ég ætlaði að taka á dagskrá mál sem ég ræddi sérstaklega við formenn stjórnarandstöðunnar í gær um að yrði tekið á dagskrá í dag. Það er því öldungis ljóst að ég gat ekki búist við öðru en við það yrði staðið að það yrði a.m.k. möguleiki á því í dag að framsögumenn nefndarálita í sjútvn. hefðu tækifæri til þess að gera grein fyrir sínu máli á fundi í dag og að um það yrðu ekki gerðar athugasemdir af hálfu stjórnarandstöðu.

Ég vil af því tilefni og vegna þess, sem ég fagna, að það er mikill sáttavilji sem fram kemur hjá formanni Samfylkingarinnar og formanni þingflokks Vinstri grænna gera hlé á þessum fundi í 10 mínútur til þess að eiga fund með formönnum þingflokkanna, þeim sem hér eru, um það hvernig haga skuli umræðum um það dagskrármál sem við erum nú að ræða.