Uppsagnir hjá Landssímanum á Akureyri

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 10:02:18 (8074)

2002-04-22 10:02:18# 127. lþ. 125.91 fundur 534#B uppsagnir hjá Landssímanum á Akureyri# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[10:02]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. vekur máls á starfsmannamálum Landssíma Íslands hf. Hann hringdi í mig á ellefta tímanum í gærkvöld og greindi mér frá því, sem ég hafði þá ekki heyrt af áður, að verið væri að gera þær breytingar sem leiddu til fækkunar starfsmanna hjá Landssímanum á Akureyri.

Eins og þeirri framgöngu við uppsagnirnar er lýst, m.a. í tölvupósti til mín í morgun, þá tel ég augljóst að ekki sé staðið að þeim málum eins og eðlilegt væri og ekki ásættanleg framganga gagnvart viðkomandi starfsmönnum, ef rétt er. Hins vegar er ljóst að það þarf að fara yfir málið og kynna sér það áður en dómar eru felldir um það en þarna er að því er virðist, og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk í morgun, verið að gera þær breytingar annars vegar að færa tiltekna starfsemi í það form að verktakar sinni því og svo er hins vegar verið breyta þjónustustörfum sem leiðir þá til fækkunar starfsmanna. En þetta verður væntanlega skoðað. Stjórnin vissi ekkert af þessari breytingu, ég kynnti mér það í morgun, og ég vænti þess að forstjóri fyrirtækisins geri stjórninni grein fyrir því í dag hvers vegna staðið er að þessum málum með þeim hætti sem gert er, sem ég tel að sé fjarri öllu lagi.