Uppsagnir hjá Landssímanum á Akureyri

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 10:04:15 (8075)

2002-04-22 10:04:15# 127. lþ. 125.91 fundur 534#B uppsagnir hjá Landssímanum á Akureyri# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[10:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það á ekki af þessu óskabarni þjóðarinnar, Landssímanum, að ganga. Það verður að segjast alveg eins og er. Ég hefði haldið að það fyrirtæki hefði öðru þarfara að sinna svona fyrstu mánuðina eftir veturinn í vetur en að fara að standa að málum með þeim hætti sem þarna hefur augljóslega verið gert norður á Akureyri, að segja upp með mjög hranalegum hætti traustum og góðum starfsmönnum með áratuga starfsreynslu að baki og stilla þeim upp við vegg og ætla þeim að ákveða örlög sín á fimm eða tíu mínútum, rétt fyrir lok vinnudags, þess sama dags og verið er að færa þeim fréttir um að þeir hafi misst atvinnuna.

Ég vil ganga það langt að fara fram á það við hæstv. samgrh. að hann beiti valdi sínu fyrir hönd okkar sem eigum þetta fyrirtæki og láti uppsagnir ganga til baka og reki af sér slyðruorðið. Það hefur ekki staðið á því að eigandinn gæti haft áhrif í fyrirtækinu þegar menn hafa talið sér það henta og þetta á ekki að líða. Hæstv. samgrh. á bara að grípa til fleygra orða og segja við þessa höfðingja sem þarna véluðu um: ,,Svona gera menn ekki`` og láta þetta ganga til baka. Þeir geta ráðið fólkið aftur. Síminn hefur vel efni á því. Ég veit ekki til þess að það sé sá verkefnaskortur á bænum að ekki sé hægt að færa þá til og alveg eins nálgast lausn þessara mála með því að tryggja því fólki sem er fastráðið og á kannski fáein ár eftir til þess að komast á eftirlaun verkefni þangað til það hefur lokið sínum starfsaldri hjá fyrirtækinu. Það er því alveg sama, herra forseti, hvernig á þetta er litið, þetta gengur þvert gegn allri viðleitni til þess að flytja verkefni og halda úti störfum. Menn blésu í lúðra og fögnuðu þegar tiltekin þjónusta, 118, var flutt þarna norður en það er ekki í miklu samræmi við það að láta svo uppsagnir hjá fyrirtækinu bitna sérstaklega á starfsmönnum á þessum sama stað.

Ég skora því á hæstv. samgrh., og ég hygg að hann sé í nokkurri þörf fyrir að reyna að vinna sér inn prik í þessum málum, að hann reki af sér slyðruorðið og gefi fyrirmæli um að ráða fólkið aftur.