Uppsagnir hjá Landssímanum á Akureyri

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 10:07:52 (8078)

2002-04-22 10:07:52# 127. lþ. 125.91 fundur 534#B uppsagnir hjá Landssímanum á Akureyri# (aths. um störf þingsins), HBl
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[10:07]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég tel að það sé gott og gagnlegt að hv. 6. þm. Norðurl. e., Árni Steinar Jóhannsson, skyldi vekja máls á þessum atburðum hér og einnig er ég ánægður yfir þeim viðbrögðum sem ég heyrði hjá hæstv. samgrh. Hér er um það að ræða að verið er að fækka um sjö störf á Akureyri. Við skulum muna það og rifja það upp að á síðustu árum hefur verið unnið að því markvisst að flytja störf hjá Landssímanum út á land. Það er búið að flytja 40 störf til Akureyrar á síðustu árum. Það er verið að flytja störf til Egilsstaða, það er verið að flytja störf til Ísafjarðar.

Ég átti í morgun tal við forstjóra Landssímans, Óskar Jósefsson, og hann sagði mér að nú væri ein hæð auð í Landssímahúsinu á Akureyri og að unnið væri markvisst að því af framkvæmdastjórn Landssímans að taka þá hæð í notkun svo að önnur starfsemi gæti orðið þar þannig að hægt sé að flytja þangað ný störf og með þeim hætti efla starfsemi Landssímans á Akureyri. Ég tel nauðsynlegt að þetta komi fram. Við töluðum jafnframt um það, ég og forstjóri Landssímans, að við mundum hittast nú í næstu viku til að fara betur yfir þessi mál.

Auðvitað er það svo um þessi störf að sum þeirra verða unnin í bænum áfram, lagnirnar verða unnar á Akureyri eins og áður, en við skulum vona það, og ég tek undir áhyggjur manna, að hægt sé að vinna að því að þær konur sem þarna misstu atvinnu geti fengið aðra atvinnu í staðinn, og jafnvel hjá Landssímanum ef svo ber undir, og vildi ég vænta þess að hæstv. ráðherra hafi í huga hvort ekki sé hægt að greiða fyrir því.

Eins og ég sagði er aðalatriðið að hin auða hæð Landssímans verði tekin í notkun og þangað verði flutt starfsemi, jafnvel skráningardeild eða innheimta eða eitthvað þess háttar, til að efla þjónustu Landssímans á Akureyri.