Uppsagnir hjá Landssímanum á Akureyri

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 10:13:26 (8081)

2002-04-22 10:13:26# 127. lþ. 125.91 fundur 534#B uppsagnir hjá Landssímanum á Akureyri# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[10:13]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég undirstrikaði það í fyrri ræðu minni að að sjálfsögðu verður þetta mál skoðað næstu daga en auðvitað er það þannig að forstjóri fer með starfsmannamál fyrirtækisins. En það er alveg ljóst að hin nýja stjórn Landssíma Íslands hf. leggur mikla og ríka áherslu á trausta og öfluga starfsmannastefnu og hefur að sjálfsögðu eins og fyrri stjórn lagt áherslu á að eiga góð samskipti við starfsfólkið og laða fram það besta fyrirtækinu til hagsbóta. Þetta er grundvallaratriði.

Ég hef hlustað á hv. þingmenn tala hér og met það mikils að þeir beri traust til þess að á næstunni verði tryggt að Síminn standi þannig að málum að forsvaranlegt sé og eðlilegt gagnvart starfsfólki eins og að sjálfsögðu verður að gera.

Ég vil vekja athygli á því sem fram kom hjá hv. 1. þm. Norðurl. e. að störfum hefur verið fjölgað á vegum Símans á Akureyri og á fleiri stöðum, Egilsstöðum m.a. Frá árinu 1998 hefur verið fjölgað um 30 störf í þjónustu 118 á Akureyri og á Egilsstöðum var bætt við 10 störfum á þessu ári þannig að það er klár stefna stjórnvalda að færa verkefni, færa störf út á land þar sem það er hægt. Það er mjög víða hægt eins og ég hef vakið athygli á og kemur fram í svari mínu í þinginu um færslu verkefna á vegum stofnana samgrn.

En niðurstaðan er að sjálfsögðu sú að það skiptir miklu máli að ganga varlega fram í starfsmannamálum fyrirtækja, m.a. fyrirtækja sem eru í eigu ríkisins og ekki síst kannski.