Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 11:40:52 (8088)

2002-04-22 11:40:52# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. 1. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[11:40]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann vel að vera að ég hafi ekki greitt atkvæði gegn sértækum aðgerðum sem hér hafa verið gerðar til að bjarga byggðarlögum í vanda. Ég hef gert mér vel grein fyrir vandanum sem hefur orðið til í þessum byggðarlögum og hef ekki verið að halda ræður um að hann hafi ekki verið fyrir hendi.

Ég hef hins vegar marglagt hér fram tillögur um hvernig sé hægt að stjórna fiskveiðum með almennum aðgerðum án þess að nota úthlutanir sem byggjast á einhverjum sértækum leiðum til þess að koma veiðiréttinum í hendur á einhverjum sérstökum aðilum eins og gert hefur verið í gegnum tíðina. Ég hef talið að jafnræði til þess að nýta auðlindina væri aðalatriði málsins. Þess vegna held ég að hv. þm. sem hefur sjálfur endalaust talað gegn þessum sértæku aðgerðum ætti að líta í eigin barm. En ekki kannast ég við að hann hafi greitt atkvæði gegn þeim. Ég man ekki eftir því. Hv. þm. leiðréttir mig ef það er rangt.