Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 11:43:37 (8090)

2002-04-22 11:43:37# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. 1. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[11:43]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki er nú runnin upp sá dagur að ég hafi verið keyptur til stuðnings við þessi mál sem hv. þm. hefur verið að lýsa. Ég hef ekki verið með í þeim kaupskap. Hann hefur gengið á milli þeirra sem hafa verið í meiri hluta. Minni hlutinn hefur ekki tekið þátt í honum. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það koma úr hörðustu átt þegar hv. 1. þm. Norðurl. e. ber mönnum á brýn að þeir hafi ekki gott pólitískt siðferði hvað varðar þessi mál. Hann hefur sjálfur flutt hér heilu langlokuræðurnar þar sem greinilega er ekki hægt að skilja hann öðruvísi en að hann sé fullkomlega á móti þessum sértæku aðgerðum en réttir síðan alltaf upp höndina þegar til á að taka eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson lýsti svo vel í viðtali við Dagblaðið. Þegar ríkisstjórnin vill skal höndin upp.