Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 11:45:05 (8091)

2002-04-22 11:45:05# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. 2. minni hluta GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[11:45]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Áður en ég hef mál mitt vil ég láta þess getið að ég hef verið boðaður á fund forseta þingsins kl. 12. Hins vegar er alveg ljóst að ræðu minni verður engan veginn lokið svo að þetta liggi alveg fyrir. Ég fékk fundarboð frá forseta áðan.

(Forseti (ÁSJ): Vegna orða hv. þm. þá mun forseti gefa þingmanninum tækifæri á að hitta forseta þingsins kl. 12 og gera hlé á ræðu sinni í 10 mínútur eða svo.)

Ég þakka fyrir, herra forseti.

Herra forseti. Hér erum við að ræða mál sem hvað mestar deilur hafa verið um í íslensku þjóðfélagi í langan tíma. Deilurnar um kvótakerfið hafa í raun staðið allt frá því að það var sett á 1984. Sérstaklega held ég þó að rétt sé að segja að deilurnar hafi magnast eftir að það varð ljóst að íslensk stjórnvöld vildu stöðugt framlengja lögin. Lögin voru sett á við sérstakar aðstæður árið 1984 eins og margir þeir sem hér eru í salnum muna. Þá hafði þorskveiði og farið langt niður fyrir tillögur fiskifræðinga og í nokkru svartsýniskasti, eins og ég hef stundum orðað það, gripu menn til þess ráðs að setja lög um stjórn fiskveiða til eins árs til reynslu og settu á kvótakerfi. Síðan höfum við búið við að þau lög hafi verið framlengd, ýmist til árs í senn eins og fyrst framan af, tveggja ára og síðan þriggja ára. Síðan kom auðvitað umdeildasta lagasetningin í þessu máli þegar lögin voru framlengd árið 1990 með lögum nr. 38 ótímabundið. Við erum sem sagt enn þá að ræða um þau lög og breytingar á þeim.

Þau lög voru sett 15. maí 1990. Þá hafði staðið um þau þó nokkur umræða í þinginu. Það frv. var sett fram á lokadögum þingsins undir talsvert mikilli pressu og í blaðagreinum sem skrifaðar voru um málið á sínum tíma, sem ég var að skoða hér áðan, kom m.a. fram að menn höfðu sett lögin um stjórn fiskveiða til framtíðar eftir langar vökunætur og mikið annríki hér í þingsölum.

Herra forseti. Málið sem við ræðum nú bar þannig fyrir hv. Alþingi að upphaf þess er sennilega yfirlýsingar hæstv. forsrh. í síðustu alþingiskosningum, um að um stjórn fiskveiða skyldi leita sátta. Hann taldi nauðsynlegt að leita sátta við þjóðina um þetta mikla deilumál enda ekki ástæðulaust. Í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri hefur komið í ljós að mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur verið ósáttur við stjórnkerfi fiskveiðanna eins og það hefur þróast og þær tilfærslur og afleiðingar fyrir réttindi og stöðu byggðanna sem framkvæmd laganna hefur haft í för með sér. Undanfari frv. sem hér liggur fyrir var að fyrst var skipuð svokölluð auðlindanefnd sem ræddi m.a. um nýtingu auðlinda almennt, þó sérstaklega sjávarauðlindarinnar. Síðan var skipuð sérstök nefnd um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, nefnd sem löngum hefur meðal almennings gengið undir heitinu sáttanefndin. Á grundvelli þessarar vinnu og þeirra tillagna telur hæstv. sjútvrh. síðan að hann hafi lagt fram frv. sem geti orðið til að sætta þjóðina við þetta mál.

Í nál. 2. minni hluta, sem ég mæli fyrir, segir, með leyfi forseta:

,,Ætla má að sjávarútvegsráðherra telji að frumvarp þetta, eins og ráðherra kynnti það við 1. umr., sætti hagsmunaaðila og þjóðina. Allir hagsmunaaðilar sem komu fyrir sjávarútvegsnefnd hafna hins vegar meginefni frumvarpsins um veiðigjald á hvert þorskígildi.``

Landssamband smábátaeigenda hafnar jafnframt því að krókaaflahlutdeild verði aðeins flutt til báta sem eru undir 15 brúttótonn og eru andvígir því að krókabátarnir séu stækkaðir í þá tölu. En það er gert ráð fyrir því að 6 brúttórúmlesta og brúttótonna viðmiðunin hverfi út og viðmiðunin verði 15 brúttótonn. Þar af leiðandi verði krókabátarnir 15 brúttótonn eða geti orðið það samkvæmt frv.

Samkvæmt frumvarpinu verða sum byggðaákvæði núverandi laga færð inn í lögin en önnur felld brott. Eignarheimildir eins aðila á hlutfalli úr fiskstofni eru hækkaðar um 20% í þorski, 100% í ýsu, samkvæmt tillögum meiri hlutans og er þar búið að gera breytingar á frv. frá því að það var lagt fram, og 75% í karfa. Aðrar heimildir eru óbreyttar. Eftir þessa breytingu, ef að lögum verður, geta átta eða níu fyrirtæki átt allan þorskstofninn við Ísland, það er fræðilegur möguleiki á því. Fimm fyrirtæki allan ýsustofninn og þrjú fyrirtæki allan karfastofninn.

Varla leiðir það til aukinna sátta um fiskveiðistjórn ef þróunin færi á þann veg að hér kæmi upp meiri einokunaraðstaða þeirra stóru í sjávarútvegi með því að tiltölulega fá fyrirtæki hefðu eignarhald á vissum tegundum.

Gagnstætt tillögum sjómanna um hækkaða veiðiskyldu er hún lækkuð að því er varðar smábátana og framsalsmöguleikar auknir. Í frumvarpinu og breytingartillögum er gert ráð fyrir auknum byggðakvótum til að taka á vanda sem nú er við að glíma vegna kvótasölu úr sjávarbyggðum. Auk þess er tryggt að fleiri slíkir pottar, sem ætlað er að verja byggðir algjöru falli, komi inn á næstu árum. Síðasti potturinn kemur inn á nýja fiskveiðiárinu 2006/2007 og verður varla vanþörf á ef stjórn fiskveiða framkallar fleiri vandamál en stjórnarliðar geta séð fyrir og leyst með sérstökum viðlagaákvörðunum.

Hins vegar er rétt að vekja athygli á að þessi pottur sem heldur áfram fiskveiðiárið 2006/2007 kemur að nýju inn á kosningaári eftir fjögur ár. Það er ekki að ástæðulausu að menn sjá langt fram í tímann fram á vandræðaganginn sem frv. mun valda og tryggja sig að þessu leyti.

Þess sér einnig stað í breytingartillögum að sjávarútvegsráðherra bjó til svo mikil vandamál með stjórnarverkum sínum við kvótasetningu smábátanna á þessu fiskveiðiári að nú þarf sérstaka neyðarlausn svo bjarga megi veiðimöguleikum krókaaflamarksbátanna. Þetta er gert með því að heimila sérstaka færslu aflaheimildanna á milli ára vegna þess að þeim var bæði seint úthlutað og auðvitað fylgdi mikil óvissa kvótasetningunni. Málið hefði allt verið í betri búningi ef hæstv. sjútvrh. hefði fallist á þá tillögu sem menn þóttust sjá fyrir á sl. hausti, að fresta alla vega kvótasetningu á smábátana til áramóta. Það hefði gert það að verkum að þessi staða sem núna er komin upp, að heimila að færa allan aflann milli ára sem óveiddur er hjá smábátunum, hefði sennilega ekki verið til staðar fyrir utan það að útgerðarmynstur smábátanna á sl. hausti hefði auðvitað orðið allt annað og menn getað hagað róðrum í samræmi við veður og veiðiálag en ekki í samræmi við kvótastöðu sem þeir höfðu alls ekki í hendi.

Það verður líka að segjast að vandi minni aflamarksbáta er alveg óleystur þrátt fyrir frv. sem við ræðum. Auðvitað eru margir af þessum minni aflamarksbátum mjög illa settir eftir kvótasetningu undanfarinna ára.

Svo komum við auðvitað að einu spurningarmerki sem rétt er að velta fyrir sér, þ.e. hvað varðar veiðireynslu þeirra leiguliða sem til margra ára hefur ekki fengist viðurkennd þótt alltaf sé verið að úthluta til annarra á grundvelli veiðireynslu. Þarna er í einni setningu vikið að mjög stóru máli vegna þess og ég mun auðvitað rekja það í ræðu minni síðar í dag að í gegnum tíðina hefur kvótasetningin verið byggð á veiðireynslu hinna ýmsu hópa eða tilfærslum sem heimilar hafa verið. Menn hafa alltaf verið að búa sér til nýja og nýja veiðireynslu nema þau skip í aflamarkskerfinu sem kvótalítil hafa verið eða kvótalaus. Þó að þeir sem hafa gert þau út í áratug hafi leigt til sín óhemjumagn af veiðiheimildum hefur veiðireynsla þeirra í engu verið viðurkennd þó að veiði annarra á sama tíma hafi verið viðurkennd með ýmsum hætti.``

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill minna hv. þm. á að gera hlé á máli sínu þegar vel stendur á.)

Herra forseti. Ég er að ljúka við að fara yfir þennan texta úr nál. Ég á bara eina setningu eftir sem ég ætla að víkja að áður en ég fer að ræða almennt um lögin. Ég mun ljúka máli mínu um leið og ég hef vikið aðeins að því. En þar segir:

,,Frumvarp þetta leysir ekki vandamálin sem samfara eru kvótabraskkerfinu né getur orðið um það nein sátt. Þessi veiðigjaldsleið er ófær, er þá betur heima setið en af stað farið.``

Hér held ég að sé þægilegt, herra forseti, að gera hlé.