Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 15:08:53 (8095)

2002-04-22 15:08:53# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. 2. minni hluta GAK
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[15:08]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Guðjón A. Kristjánsson) (frh.):

Herra forseti. Við erum að ræða hið svokallaða sáttafrv. sjútvrh. eins og ég hef kosið að kallað það, þ.e. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem ætlað var að búa til sátt í þjóðfélaginu um það fyrirkomulag sem viðgengist hefur. Hyggst ég nú, herra forseti, að víkja að nokkrum atriðum í brtt. meiri hlutans og hefja mál mitt í þriðja sinn á því.

Í fyrsta lagi er í brtt. meiri hlutans gert ráð fyrir því, og reyndar búið að breyta því frá því sem var í frv., að fleiri aðilar en Hafrannsóknastofnun geti stundað rannsóknir og þurfi ekki að hafa kvótaheimildir fyrir þeim afla sem hugsanlega kæmi við rannsóknirnar. Þó er í 1. gr. mismunur á Hafrannsóknastofnun annars vegar og öðrum aðilum hins vegar en efnisgreinin hljóðar svo:

,,Þá er ráðherra heimilt að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar að ákveða að afli sem fenginn er við vísindalegar rannsóknir annarra aðila skuli ekki að hluta eða öllu leyti reiknast til heildarafla.``

Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvers vegna menn kjósa að hafa þessa grein svona. Hvers vegna á það að vera Hafrannsóknastofnun og það vera skilyrt að ráðherra sé heimilt að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar, hvers vegna á það að vera þannig að það skuli vera Hafrannsóknastofnun sem skuli samþykkja rannsóknaáætlanir annarra vísindamanna ef þær eru lagðar upp í samstarfi manna sem hafa þekkingu og hafa lært í þessu fagi, t.d. einhverra tiltekinna sjómanna sem mundu vilja stunda rannsóknir hér við land? Þá er ráðherra heimilt að veita það en það skal þó vera að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna Hafrannsóknastofnun á að fá þetta hlutverk, þ.e. að mæla með eða hafna rannsóknum annarra manna. Mér finnst þetta ekki góður svipur á málinu og hefði talið eðlilegt að sjútvrh. væri fullbær til þess að leggja mat á það hvaða rannsóknir hann vildi leyfa. Eðlilega getur hæstv. sjútvrh. aflað sér umsagnar eða látið Hafrannsóknastofnun skoða þessi mál eða Fiskistofu eða einhverja af þeim stofnunum sem starfa í sjávarútvegi, en að það eigi að vera bundið í lagatexta að ráðherra sé þetta heimilt að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar, það finnst mér algjör óþarfi. Ég sé ekki hvers vegna það eigi að vera svo. Þetta er svipað og ef menn mundu setja einhver ákvæði um að það þyrfti að spyrja stofnunina Háskóla Íslands að því hvað menn hygðust gera norður á Akureyri í einhverjum kennslufræðum eða menntun, svo ég taki einhverja samlíkingu. Það má örugglega finna samlíkingu við eitthvað annað sem er með sambærilegum hætti. Mér finnst það óeðlilegt, ekki síst í ljósi þess hversu umdeild ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er í þessum málum og hvernig okkur hefur til tekist við uppbyggingu botnfiskstofnanna sem er mesta deilumálið í kvótakerfinu, að þá skuli það vera lagt undir að það skuli fylgja umsögn Hafrannsóknastofnunar til þess að þetta megi heimila. Þetta tel ég óþarft að hafa í lagatexta.

Síðan koma svo sem ekki miklar efnisbreytingar í frv. Það er verið að breyta orðalagi í lögunum þar sem kemur inn orðið ,,veiðitími``. Það er svo sem ekki mikið um það að segja, en í 3. tölul. brtt., um að við bætist ný grein er verði 5. gr. og orðist svo, þar segir:

,,Á hverju fiskveiðiári skal úthluta árlega 3.000 lestum af þorski. Þessum aflaheimildum skal úthlutað til báta sem höfðu aflahlutdeild 1. desember 1998 og voru þann dag minni en 200 brúttótonn, enda hafi þeir landað þorskafla á fiskveiðiárinu 1996/1997 eða 1997/1998.``

[15:15]

Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort þessi tilvitnun, sem byggir á því að menn hafi landað þorskafla 1996/1997 eða 1997/1998, eigi að vera sem viðmiðun fyrir áframhald þessa lagatexta, hvort ekki væri rétt að færa sig nær í tímanum og fara að skoða það hvort þeir bátar sem þessa úthlutun hafa fengið og eiga að fá hana áfram hafi í raun og veru verið áfram við veiðar og landað afla.

Síðan segir: ,,Við útreikning þennan skal miða við aflahlutdeildarstöðu þeirra 1. desember 1998, úthlutað heildaraflamark fiskveiðiársins 1998/1999 og verðmætastuðla á því fiskveiðiári, þó þannig að enginn bátur fái meira en 100% aukningu á þorskaflamarki og enginn hærri úthlutun en 10 lestir miðað við óslægðan fisk. Aldrei skal þó úthlutun samkvæmt þessari grein leiða til þess að heildaraflaheimildir einstakra skipa verði meiri en 450 þorskígildislestir samtals. Verði breytingar á skipakosti útgerðar er henni heimilt að flytja rétt til úthlutunar samkvæmt þessari grein yfir á annan bát í sinni eign.``

Þegar þessar 450 þorskígildislestir voru settar inn í lögin voru þær byggðar á afla á þessum viðmiðunarárum og stærð skipanna í brúttótonnum 1. desember 1998. Nú hafa aflamörk breyst síðan þá og þess vegna velti ég því fyrir mér hvort þorskígildislestirnar 450 eru sams konar viðmiðun sem hlutfall af heildaraflanum í dag og þær voru á því tímabili sem þarna er notað sem viðmiðun eða hvort þessi tala ætti að vera einhver önnur. Það er kannski frekar útfærsluatriði hvernig að þessu er staðið en ég leyfi mér að setja spurningarmerki við þetta. Þarna er verið að búa til sérstakan pott til þess að bæta upp afla hjá aflamarksskipum sem eru undir 200 tonn að stærð og út af fyrir sig er ég ekki að mótmæla því. Eins og staðan hefur verið varðandi stjórn fiskveiða á undanförnum árum tel ég að þegar það var sett inn á sínum tíma hafi það verið til bóta, sérstaklega fyrir þennan flota sem hefur stundað veiðar innan lögsögunnar og ekki hefur getað verið að vinna sér inn ný réttindi eins og t.d. togaraflotinn hefur getað gert í úthafskarfa og veiðum á öðrum fjarlægum miðum og auðvitað nótaflotinn í norsk-íslensku síldinni og kolmunna og fleiri tegundum. Mér hafa alltaf fundist rök fyrir því að skoða stöðu þessara báta með tilliti til þess hvernig kvótakerfið hefur fært öðrum nýjar tekjur og nýjar auðlindir á sama tíma og sá floti hefur svo getað leigt frá sér heimildir sem einmitt þessi floti hefur verið að leigja af þeim og í raun og veru að hjálpa til við að fá þessar nýju heimildir. Þess vegna kem ég aftur að því, herra forseti, sem ég vék að varðandi síldarmálið að mér finnst óeðlilegt að ekki skuli eiga að vera innskilaregla þar. Ég færði fyrir því rök í máli mínu og ætla ekki að endurtaka það en ég tel að þar sé óeðlilega að verki staðið.

Síðan eru breytingar varðandi hámarkshlutdeildina og er verið að lækka það frá því sem var í frv. en samt sem áður er verið að hækka markið eins og ég kom að í máli mínu fyrr í morgun þar sem ég gat þess að það væri verið að hækka eignarhlutfallið í þorski sem eitt fyrirtæki mætti eiga um 20%, það væri verið að hækka eignarhlutfallið í ýsu um 100% frá því sem nú er í lögum og það væri verið að hækka eignarhlutfallið á karfa um 75% frá því sem nú er í lögum. Nóg um það. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það en bendi á að þó að hér sé verið að breyta frá frv. niður á við aftur þá er samt sem áður verið að leggja til að færri fyrirtæki geti átt eina fisktegund. Sem dæmi, þrjú fyrirtæki með 35% reglu geta átt allan karfakvóta á Íslandsmiðum. Varla verður það til þess að auðvelda framkvæmdina á fiskveiðistjórninni ef svo skyldi fara á næstu árum að allir væru undir það seldir að eiga viðskipti við einhver þrjú fyrirtæki sem eiga karfakvótann ef þeir hugsanlega fá einhvern meðafla af karfa nema þá að þeir verði að nota sér 5% regluna um að landa afla utan aflamarks og þá renni í raun og veru allur karfinn til Hafró. Ég held að menn verði að skoða heildstætt hvað verið er að gera þegar slíkum lögum er breytt, að ekki sé verið að búa til reglu þar sem tiltölulega fáir og í þessu tilfelli mjög fáir fá algjört sjálfdæmi um heila tegund þegar þeir leggjast í það að safna saman aflaheimildum í karfa og menn eigi þá ekki annan kost en þann að landa karfanum annaðhvort undir 5% reglunni þannig að andvirðið renni að mestum hluta til Hafrannsóknastofnunar eða þá að leigja karfann af þeim fyrirtækjum sem hafa eignast hann. Þetta er auðvitað hættan á því sem við erum m.a. að útfæra í frv. með því að hækka þessar heimildir, hvað hvert fyrirtæki má eiga mikinn afla.

Síðan kemur ákvæði um það, og það er í 5. lið brtt. meiri hluta sjútvn., að fara þá leið að á hverju fiskveiðiári sé einungis heimilt að flytja af fiskiskipi aflamark, umfram aflamark sem flutt er til skips, sem nemur 50% af samanlögðu aflamarki sem fiskiskipi er úthlutað. Þessi setning svona orðuð þýðir einfaldlega að smábátaflotinn sem hefur þurft að veiða 70% af sínum aflaúthlutunum á nú ekki að þurfa að veiða nema 50% á hverju ári og er þá verið að auka leigumöguleikana í því kerfi til samræmis við það sem er í stóra kerfinu. Ég sé eiginlega enga sérstaka þörf á að fara þessa leið með þetta ákvæði og bendi á að það er a.m.k. í andstöðu við það sem sjómannasamtökin hafa verið að fjalla um að veiðiskyldan skyldi fara upp.

Í 6. tölul. brtt. meiri hluta sjútvn. er bætt orðunum ,,opinber stofnun``. Hér er verið að tala um lánshæfi og annað slíkt og hér er það tryggt að opinber stofnun er sett upp að hliðinni á öðrum lánastofnunum sennilega til þess að tryggja veðsetningu í aflaheimildum. Síðan er í b-lið 6. tölul. þessarar tillögu bætt inn sérstakri tilkynningarskyldu:

,,Eigendaskipti á fiskiskipi, eða aðra breytingu á útgerðaraðild fiskiskips, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, skal innan 15 daga frá undirritun samnings tilkynna til Fiskistofu. Bæði seljandi og kaupandi, eða leigusali og leigutaki þegar um leigu er að ræða, ...`` Það er svo sem ekki mikið um þetta að segja. Þetta er tilkynningarskylt ákvæði.

Síðan er vikið að þeim greinum í 7. lið sem í raun og veru er meginefni þessa frv., þ.e. að taka upp veiðigjald, að finna stað hinni miklu sátt í sjávarútvegi. Útfærslan á því birtist í frv. eins og það var lagt fyrir af hæstv. sjútvrh. og síðan eru hér þær breytingar sem meiri hlutinn gerir og eru svo sem ekki miklar breytingar heldur eingöngu verið að lagfæra tölur. En þó er lagt til að orðin ,,þó aldrei umfram það sem þegar hefur verið greitt`` í 3. mgr. e-liðar 10. gr. frv. falli brott.

Þá erum við komin að ýmsum bráðabirgðaákvæðum sem í frv. eru og verið er að breyta en þar er verið að lagfæra texta sem núna er í lögunum og þar segir að ákvæði XXV til bráðabirgða í lögunum falli brott, enda er búið að færa það að langmestu leyti með brtt. meiri hlutans inn í 9. gr. sem verður núna 9. gr. a, þ.e. þessar 3.000 lestir, úthlutun til báta undir 200 rúmlestum. Síðan er talið upp að við ákvæði XXVI til bráðabirgða í lögunum bætist ný málsgrein er orðist svo:

,,Í lok fiskveiðiársins 2005/2006 skulu 1.500 þorskígildislestir bætast við þær aflaheimildir sem ráðherra hefur til ráðstöfunar skv. 9. gr. og skulu þær bætast við þær aflaheimildir sem ráðherra er heimilt, að höfðu samráði við Byggðastofnun, að ráðstafa til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.``

Hér er verið að leggja til að ákvæði sem núna er í lögunum um stjórn fiskveiða haldi áfram en það ákvæði, herra forseti, kveður á um að stjórn Byggðastofnunar eigi að hafa hönd í bagga með úthlutun svonefnds byggðakvóta og ákvæðið í lögunum um breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða sem segir m.a. að á fiskveiðiárinu 1999/2000 til og með fiskveiðiársins 2005/2006 hafi Byggðastofnun árlega til ráðstöfunar aflaheimildir í þorski, ufsa, ýsu og steinbít sem nema 1.500 þorskígildum til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Skal þeim úthlutað í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir í samræmi við 4. lið þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001. Síðan segir í skýrslu Byggðastofnunar sem ég ætla að lesa núna úr, með leyfi forseta:

,,Í krafti áðurnefnds ákvæðis í lögum voru settar viðmiðunarreglur um skiptingu byggðakvótans milli byggðarlaga og nánari skilyrði fyrir þeirri úthlutun. Byggðakvóta er í fyrstu úthlutað til fimm ára en skulu forsendur endurskoðaðar árlega.``

Hér er sem sagt verið að tala um þann kvóta sem úthlutað var til byggðarlaga, en það voru 115 tonn til Flateyrar, 102 tonn til Suðureyrar, 170 tonn til Þingeyrar og þessum heimildum var öllum ávísað á Þingeyri á sínum tíma vegna þeirra vandamála sem þar voru uppi í byggðarlaginu. Í lögunum er sem sagt verið að festa í sessi að þessi byggðakvóti haldi áfram á fiskveiðiárinu 2006/2007. Við erum sem sagt komnir það langt í þessum lögum að við erum að festa niður byggðakvóta sem á að taka gildi á kosningaárinu 2007 þannig að menn eru farnir að sjá vel fyrir vandræðin í þessu máli öllu saman og eru hér að reyna að tryggja sig með einhverjum hætti til þess að taka á þeim vandamálum sem eru innbyggð í kvótakerfið og farnir að sjá fram yfir heilt kjörtímabil í þeim efnum hvaða vandamál munu áfram fylgja þessari útfærslu. Ég verð að segja það að ég fagna því í sjálfu sér að stjórnarþingmenn skuli vera búnir að átta sig á því að inni í þessum lögum eru innbyggð öll þessi vandamál sem menn eru að fást við og að menn skuli vera orðnir svo framsýnir að þeir sjá meira að segja fram á það að fiskveiðiárið 2006/2007 verði öll þessi vandamál varðandi byggðirnar enn þá til staðar og hafi jafnvel versnað.

[15:30]

Það kom fram í máli hv. formanns sjútvn. að ástæða væri til að vekja athygli á því að með þeim breytingum sem hér eru lagðar til væru menn komnir yfir 7.500 tonn í svokölluðum byggðakvótaútfærslum og allar eru þær til komnar vegna þess að menn sjá hvernig þessi vandamál fara með mörg byggðarlög þar sem allt er sett í uppnám, atvinnulífið og afkoma fólks vegna þess að frá þeim byggðarlögum hefur verið seldur allur veiðiréttur. Þess vegna er þetta hérna inni. En ég verð hins vegar að segja alveg eins og er að mig undrar það að menn skuli endalaust velja þá leið að fara með skóbæturnar á kerfið vitandi að það koma endalaust fleiri göt á skóna, til þess að reyna að láta kerfið í einhverju lagi halda velli. Menn ætla í ríkisstjórnarflokkunum að láta berja sig til hlýðni með það að halda áfram með þetta skóbótakerfi inn í framtíðina og eru komnir svo langt á þeirri þróunarbraut að þeir eru búnir að finna þess stað að það skuli komið með sérstakan byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2006/2007 til að tryggja það að hægt verði að bera eitthvað í bætifláka fyrir þá galla sem kerfinu fylgja í stað þess að setjast niður og takast á við vandamálið sem kerfinu fylgir og því óréttlæti sem því hefur fylgt í gegnum árin.

Ég rakti það fyrr í ræðu minni að iðulega þegar menn hafa verið að fara í gegnum þessar kvótaúthlutanir þar sem verið er að bera fram mismunandi úthlutun til manna þannig að sumir verða ánægðir og telja sig himin höndum hafa tekið, hafa eignast kannski 25 millj. eins og smágreifarnir sumir fá í dag en aðrir fá ekki neitt. Þetta er aðferð sem er vel þekkt og kallast að deila og drottna. Útdeilum mismunandi réttlæti, þá fara allir að rífast innbyrðis og allir verða ósáttir og þá getum við drottnað yfir lýðnum því samstaða hans er engin. Þetta er aðferðin sem notuð er, svo koma menn með skóbótaaðgerðina til þess að bæta í brestina þar sem alverstu dæmin eru því að ekki þola menn það að fólk sé algjörlega afkomulaust í heilu byggðarlögunum. Það telja menn of sárt og kvótakerfið muni ekki þola það og ákveða þess vegna að hafa alls konar potta til að sjá til þess að þetta hrynji ekki innan frá á ósætti fólksins.

Samt er það svo að í skoðanakönnunum mörg undanfarin ár hefur fólk ekki séð, sem eðlilegt er vegna þess að það er ekki inni í kerfinu, að atvinnuréttur þess og afkoma sé tryggð. Það er alls ekkert inni í þessu kerfi og eins og ég vakti athygli á í morgun er það fólkinu í landinu mest virði að það sé hagur útgerðarinnar og sá eini til tekjumöguleika að sækja sjó því að í sjósóknarréttinum fólst atvinnuréttur fólksins. Meðan það fór saman að útgerðin gat ekki búið sér til tekjur öðruvísi en að sækja sjóinn, hafði engan leigu- og sölurétt á aflaheimildum, þá fór auðvitað saman sá réttur fólksins að það myndaði atvinnu af aflaheimildunum sem að landi komu og eins sjómönnunum sem sóttu aflann. En þarna var skilið á milli og útgerðarmönnunum fenginn nýr réttur, sölu- og leiguréttur til viðbótar við veiði- og nýtingarréttinn en það var einmitt veiði- og nýtingarrétturinn sem var fólkinu í sjávarbyggðunum svo mikils virði og skipti höfuðmáli til þess að menn hefðu vissu fyrir því að byggðirnir héldu velli, að atvinnuréttur fólksins væri til staðar og þar með væri eignarstaða fólksins á húsum sínum og íbúðum nokkuð trygg. Allt þetta er nú horfið eða er úti í vindinum og þess vegna eru menn á þessari vegferð hér að reyna að tryggja það með einhverjum hætti að til séu pottar til að taka á sárustu vandamálunum sem gætu ella sprengt kerfið upp.

Ég verð að segja að mig undrar það ef íslensk þjóð ætlar að láta það yfir sig ganga að til framtíðar skuli vera hægt að stjórna þessum málum svona í stað þess að fara í gegnum endurskoðunina upp á nýtt og leggja það að meginmarkmiði að útgerðirnar hafi veiði- og nýtingarrétt en ekki leigu- og sölurétt og að atvinnumál landsbyggðarinnar sem tengjast auðvitað sjávarútveginum mikið séu tryggð. Ég hef oft talið að það þyrfti að viðurkenna strandveiðirétt byggðanna og saman ætti að fara við útfærslu á svokölluðum dagróðraflota eða strandveiðiflota eins og ég hef oft kosið að kalla hann, veiðiréttur strandveiðiflotans og atvinnuhagsmunir byggðarlaganna, þannig að gegn því að menn fengju útfærslu á því hvað væri strandveiðifloti og hvaða forgang hann fengi, þá yrðu menn líka að una því að þeir gætu ekki selt þennan veiðirétt í burtu.

Ég tel og hef löngum talið að það væri allra best til farsældar upp á framtíðina að gera að slíkur réttur væri sóknartengdur fiskveiðiréttur. Þar sætu menn við þá útfærslu að geta sótt sjó frá byggðarlögunum, gætu ekki selt frá þeim aflaréttinn eða atvinnuréttinn en gætu eingöngu skapað sér tekjur af sjósókninni sjálfri.

Herra forseti. Nú er sennilega rétt að taka til umfjöllunar það sem á að vera meginefni þeirrar miklu sáttar sem hér á að vera til umræðu og fjalla um það hvernig útfærslan er á því ákvæði sem tengist veiðigjaldinu í frv. hæstv. ráðherra. Eins og menn vita er útfærslan þannig að meginstofni til að það á að finna út afkomu útgerðarinnar á ákveðnu tímabili á árinu á undan áður en gjaldið er lagt á, en það segir í frumvarpstexta á bls. 4:

,,Til grundvallar veiðigjaldinu skal leggja aflaverðmæti miðað við tímabil sem hefst 1. maí næstliðið ár og lýkur 30. apríl. Frá aflaverðmætinu skal draga reiknaðan olíukostnað, reiknaðan annan rekstrarkostnað og reiknaðan launakostnað á sama tímabili.``

Þessi útfærsla á sem sagt að ráða upphæð gjaldsins, sett á þorskígildin sem menn mega veiða árið á eftir og af því eiga að koma þær tekjur sem menn gera ráð fyrir að fáist út úr þessu veiðigjaldi. Það er auðvitað þannig að innheimta gjaldsins hefst ekki fyrr en á árinu 2004 og fer þá stighækkandi fram til 2009 en á þá að vera orðin 9,5% af þeim stofni sem svona er fundinn út og gæti þá hugsanlega gefið, ef ég man rétt, rúma 2 milljarða.

Ég hef ýmislegt við þessa hugsun og útfærslu að athuga. Í fyrsta lagi velti ég því upp hvers vegna menn ætli að finna upphæð gjaldsins miðað við afkomu og veiðar ársins á undan og leggja það síðan ofan á þorskígildin árið á eftir. Burt séð frá því hvernig veiðarnar ganga fyrir sig árið á eftir eða hvert markaðsverðmæti fisksins er sem veiddur er árið á eftir miðað við árið á undan. Það getur verið eins og allir þekkja mjög breytilegt á milli ára hvernig verð leggur sig á einstökum fisktegundum. Og þegar ég kem að einstökum fisktegundum þá er það auðvitað þannig að það eru mismunandi hlutar flotans sem veiða einstakar fisktegundir og hafa þar af leiðandi mismunandi afkomu eftir því í hvers konar útgerðarmunstri þeir eru, sem dæmi hörpuskel, rækja, síld, loðna, almennur botnfiskur o.s.frv. Allt eru þetta tegundir sem hafa tekið miklum sveiflum eins og þekkt er. Og þá spyr maður sig auðvitað: Er það þá sjálfgefið að veiðin í þorskígildum árið á eftir, af því að henni er úthlutað í þorskígildum, sé örugg veiði? Er ekkert lengur til í íslenskri sögu sem heitir sýnd veiði en ekki gefin? Hefur ríkisstjórnin breytt því? Er búið að breyta því þannig að sýnd veiði sé ávallt gefin og af því hafi menn ávallt tekjur og geti tryggt það? Ég held að svo sé ekki og þess vegna getur þessi útfærsla að mínu viti verið stórhættuleg vegna þess að hún getur komið mjög misjafnlega niður á útgerðarflokkunum, á útgerðarmunstri eftir svæðum sem ég hef ekki vikið að enn þá en ætla að gera nú. Og hvers vegna segi ég eftir svæðum? Það er vegna þess að það er þekkt í Íslandssögunni og hefur mér vitanlega ekki verið breytt og verður sennilega ekki breytt í náinni framtíð þó að ríkisstjórnin líti svo á að sýnd veiði eða úthlutuð þorskígildi sé ávallt gefin veiði, þá verður því ekki breytt að fiskur er smærri fyrir norðan land alla jafna, þ.e. þorskur, en hér sunnan lands. Það liggur fyrir að þegar sett er föst krónutala ofan á hvert kíló þorskígildis þá er slík skattlagning miklu dýrari fyrir þá sem veiða smærri fisk vegna þess að líffræðilegar aðstæður eru þannig á miðunum sem þeir stunda að þeir veiða að jafnaði smærri fisk, heldur en fyrir þá sem veiða að jafnaði stærri fisk. Það gefur augaleið að það munar miklu hvort menn fá verð fyrir fisk upp úr sjó á 150 kr. kg eða hvort menn fá 300 kr. fyrir kg. Þar af leiðandi hef ég haldið því fram og held því fram enn þá, og það hefur enginn getað fært rök fyrir því að svo sé ekki, að þessi útfærsla á veiðigjaldinu til viðbótar við okurverð leiguheimilda sem núna eru í gangi hljóti til viðbótar við þá slæmu útfærslu að ýta undir það að útgerð landsmanna færist frá þeim svæðum þar sem fiskurinn er smærri og minna verð fæst fyrir hann af þeim orsökum, eðlilegum náttúrulegum orsökum, og til þeirra svæða þar sem fiskurinn er stærri og þar sem hann gefur hærra verð. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að sá sem getur verið að gera út á fisk sem leggur sig á 250--300 kr. kílóið er betur settur gagnvart þessu gjaldi en sá sem er að gera út að jafnaði á 150 kr. kílóið. Þá er svo komið, herra forseti, að þessi útfærsla til viðbótar við þá útfærslu sem er almennt í stjórnkerfi fiskveiðanna og hefur reynst hinum dreifðu byggðum landsins flestum fjandsamlegt, ýtir enn frekar undir það að menn gefist upp við það að gera út í hinum dreifðu byggðum. Ég tel þetta stórhættulegt og skil ekki hvers vegna menn velja að fara þessa leið í útfærslunni, ekki síst með tilliti til þess að í lögunum er önnur útfærsla og hún er sú að 23 daga bátarnir borga gjald af veiddum afla. Þeir borga ekki gjald af úthlutuðu þorskígildi, enda er þeim ekki úthlutað neinum þorskígildum. Þeir borga gjald af veiddum afla. Ég sé ekki hvers vegna ekki hefði verið hægt að útfæra það ef menn ætluðu að gera þetta svo að þessi hætta væri ekki innbyggð í þetta að menn borguðu þá alla vega gjald af lönduðum afla. Það væri a.m.k. til bóta. En það breytir ekki því að það er ekki tekið á þessu vandamáli með stærri og minni fisk þó að þetta sé fært yfir í landaðan afla. Það vandamál er enn þá til staðar með þessari útfærslu, að maðurinn sem veiðir að jafnaði 2 kg fisk norður á Bakkafirði borgar hlutfallslega hærra veiðigjald en maðurinn sem veiðir frá Vestmannaeyjum eða Þorlákshöfn (Gripið fram í: Hárrétt.) fisk sem leggur sig á 3--6 kg og þaðan af meira. Það hljóta allir að sjá að krónutalan skiptir minna máli þegar menn fá 300 kr. fyrir hvert kíló heldur en þegar menn fá 150 kr. fyrir kílóið eða minna.

[15:45]

Er það þá svo að það sé enn þá stefna ríkisstjórnarinnar að halda áfram til viðbótar við leiguverðið, sem allt ýtir undir það að fiskurinn sé veiddur við suðvesturhornið, (Gripið fram í: Bara stærsti.) stærsti fiskurinn, þá eigi að halda áfram að ýta með þessari útfærslu enn frekar undir það að menn sjái sér hag í því að fara frá norðlægum slóðum, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum til vertíðarsvæðanna til þess að veiða sinn þorskafla úthlutaðan af þeim svæðum og þá helst á hrygningartímanum því að þá er hann enn þá verðmætari? Þá eru hrognin mikils virði og fiskurinn feitur og lifrarmikill.

Það ber allt að sama brunni. Þessi útfærsla til viðbótar við leigukerfið ýtir aflanum til þess að vera tekinn á suðvesturmiðunum eða á vertíðarsvæðunum, hinum hefðbundnu vertíðarsvæðum. Auðvitað er það svolítið breytilegt hvar fiskur gengur til hrygningar, það fer mikið eftir hitafari en við getum sagt að það er Breiðafjörður og austur um til Hornafjarðar að meginstofni til. Vissulega hrygnir fiskur á seinni árum víðar við landið eftir að sjór fór hlýnandi. En því verður ekki á móti mælt að á þessu svæði frá Breiðafirði og austur um að Hornafirði veiðist að jafnaði stærsti fiskurinn. Þar sem stærsti fiskurinn verður í boði þangað verður harðast sótt. Þetta er alveg í andstöðu við það, held ég, hvernig við þurfum að umgangast nýtingu okkar á fiskstofnunum. Ég held að þetta sé í algerri andstöðu við það. Við megum ekki hafa þetta þannig útfært að öll okkar sókn beinist í hrygningarfiskinn, a.m.k. ekki meðan hrygningarstofninn er ekki stór. Við gátum leyft okkur að vera með mikla sókn í hrygningarfiskinn meðan stofnstærðin í þorski á Íslandsmiðum var yfir 2 millj. tonna eða þaðan af meira. Þá gátu menn leyft sér að beina sókninni mikið í hrygningarstofninn, enda var hrygningarstofninn þá miklu stærri en hann er í dag (Gripið fram í: Meira að segja úthafs ...) og þoldi þar af leiðandi þessar veiðar. Enda var það svo að við vorum oft að taka meginhluta þorskaflans á hrygningartímanum en tiltölulegar litlar eða nánast engar þorskveiðar voru stundaðar utan hans. Á öðrum árstíma voru togararnir í karfa, síldarbátarnir á síld og síðan voru einhverjir sem fóru á handfæri yfir sumartímann þannig að alla jafna var ekki mikill þorskafli tekinn á heimamiðum yfir sumartímann en nýting okkar byggðist mest á stórum þorski á þeim árum, fyrir 20, 30, 40 árum.

Þetta er um þessa útfærslu að segja, herra forseti. Ég held að hún sé hættuleg eins og hún er. Ég verð að lýsa því að ég er andvígur því að fara þessa leið. Ég tel að í þessari útfærslu felist engin sátt. Ég hef getað tekið undir að það mætti nota gjald og gjaldstofn til þess að taka fyrir veiðiheimildir, ekki síst í því ljósi hvað útgerðarmenn sjálfir hafa á undanförnum árum komist upp með að gera þetta að ótrúlegu verðmæti, óveiddan fisk. En ég hef ævinlega litið svo á að færum við í gjaldtöku, þá ættum við að nota gjaldtökuna til að hafa áhrif á nýtingu fiskstofna, hvernig við stýrðum veiðunum. Það er auðvitað hægt að hafa hvort tveggja innbyggt, í fyrsta lagi að stýra veiðunum, að taka gjald eftir nýtingunni með það að markmiði að beina sókninni þangað sem eðlilegast er að beina henni hverju sinni. Ég hef alltaf séð þessa gjaldtöku þannig fyrir mér að hún væri tekin af lönduðum afla þannig að í raun væru menn að greiða gjald þegar þeir væru búnir að landa aflanum, þá myndaðist gjaldskylda sem útgerðarmenn yrðu svo að gera skil á innan ákveðins tíma. Þá er auðvitað hægt að hafa útfærsluna á gjaldtökunni með ýmsu móti og hafa áhrif á veiðarnar og stýra því með einhverjum hætti ásamt svæðalokunum og sóknarstýringum sem ég hefði talið að mundu falla vel að slíkri útfærslu.

Almennt má segja að þær tillögur sem eru í frv., þ.e. þessi tillaga og sumar aðrar, eru eingöngu til þess að festa kerfið í sessi. Það er verið að setja gjaldtöku inn í kerfið og íslenskir útgerðarmenn, þrátt fyrir mótmæli sín, ætla að láta það yfir sig ganga að greiða ákveðið gjald fyrir það að festa kerfið í sessi nánast óbreytt.

Þessu til viðbótar er svo í frv. verið að koma með skósólabætur á þau vandræði sem hljótast af þeirri almennu stefnumótun sem fylgt hefur kvótakerfinu og nú er verið að tryggja það að til framtíðar séu a.m.k. 7.500 þorskígildi sem skuli notuð við slíkar bætur. Út af fyrir sig er ég ekki að mótmæla því meðan menn eru svo ótrúlega stífir að vilja ekki skoða málin út frá raunverulegum vandamálum kerfisins heldur ætli sér að halda áfram í þessa veru. Þá liggur auðvitað ljóst fyrir að það verður að grípa til einhverra aðgerða og þó að menn kalli þetta hinn nýja veruleika eins og hv. formaður sjútvn., þá er þessi nýi veruleiki líka háður því að menn þurfa að vera með alls konar skóbætur til þess að taka á þeim vandamálum sem honum fylgja, sem fylgja þessari útfærslu, herra forseti. Það má lesa út úr þeim tillögum sem við erum hér að ræða.

Ég hef dregið það fram í umræðunni að ég teldi að stjórnarþingmenn sæju það fyrir og væru þess fullvissir að vandi sjávarbyggðanna mundi fara vaxandi og þeir væru m.a. að reyna að tryggja það að þessir byggðakvótar væru til staðar til þess að taka á þeim vanda sem lagaútfærslunni fylgir. Ég verð að segja það enn og aftur, herra forseti, að mér finnst það mjög misráðið að menn skuli ætla að láta berja yfir sig eina lagasetninguna enn og taka þátt í því að festa hana í sessi í stað þess að segja sem svo: Þessi útfærsla á kvótakerfinu hefur ekki verið okkur til góðs. Hún hefur fært okkur meiri vandamál en menn áttu von á og það ber auðvitað að setjast yfir þessi mál upp á nýtt og skoða þau algjörlega upp á nýtt. Ég minni enn á þá grein sem ég vitnaði til snemma í morgun úr Morgunblaðinu í gær sem Jónas Bjarnason skrifaði um stjórn fiskveiða, nýtingu okkar á fiskstofnum og annað slíkt, en þar bendir hann á að eðlilegt sé að taka upp aðra veiðistýringu en þessa kvótakerfisveiðistýringu og bendir m.a. á að sóknarstýrðar veiðar hljóti að koma mun betur út miðað við nýtingu og viðhald stofnsins og lífríkið heldur en það kerfi sem við erum með.

Herra forseti. Ég hef ekki vikið að því í máli mínu enn þá hvernig skuldastaðan hefur þróast í sjávarútvegi en það er alveg ljóst að skuldir sjávarútvegsins samfara þessu kerfi hafa farið vaxandi á undanförnum árum. Ef ég man rétt hafa þær vaxið um 60 milljarða á síðustu fimm árum og eru núna áætlaðar um 200 milljarðar þannig að það er fjölmargt sem við þurfum að hafa áhyggjur af og fjölmargt sem sýnir okkur að þessi útfærsla er ekki par glæsileg þegar ferill hennar er skoðaður.

Í svari við fyrirspurn hv. þm. Gísla S. Einarssonar um kostnað við stjórn fiskveiða kom einnig fram að kostnaður við eftirlit hefur aukist frá 1999 úr 207 millj. í 312 millj. árið 2001 og mun örugglega fara vaxandi á næstu árum með þessari sömu útfærslu og við búum við. Annað er óhjákvæmilegt þannig að það er eiginlega sama hvar við grípum niður. Skuldirnar vaxa, kostnaður við kerfið vex, kerfið hefur ekki fært okkur neina uppbyggingu eins og ég hef rakið í máli mínu. Uppbygging þorskstofnsins er engin, a.m.k. ef taka á mark á niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar varðandi stærð þorskstofnsins þá hefur engin uppbygging átt sér stað á þorskstofninum á 18 árum kvótakerfisins en eingöngu stefnt niður á við. Það er auðvitað hörmuleg umsögn um stjórnkerfið að þessar staðreyndir skuli liggja fyrir. En samt sem áður eru stjórnarliðar alveg ákveðnir í því að halda áfram að berja hausnum við steininn og lemjast um að koma þessu kerfi áfram til framtíðar. Ég skil það vel að þeir skuli grípa til þess ráðs að tryggja fleiri byggðakvóta til þess að staða byggðanna sé þó ekki algjörlega vonlaus, menn hafi eitthvað til að láta þangað. En þá erum við hins vegar komnir í þá aðferð að standa uppi með það að segja: Þú átt að fá, en þú átt ekki að fá, vinur. Þetta er ekki góð aðferð. Hún verður aldrei góð, jafnvel þó að við sjáum í nauðvörn að það sé betra að fara hana heldur en að rústa byggðunum. Þess vegna kann það auðvitað að vera svo að jafnvel stjórnarandstöðuþingmenn segja já við einhverjum þessara tillagna vegna þess að þeir vilja frekar sjá byggðirnar lifa einhver ár í viðbót heldur en hrynja eins og staðan gæti ella orðið.

Það ætti auðvitað að vera meginmarkmið nýrrar lagasetningar að skipa málum á nýjan leik og skipa málum þannig að atvinnuöryggi byggðanna væri tryggt og atvinnuöryggisrétturinn færi saman hjá fólkinu annars vegar, hjá fólkinu í byggðunum, landverkafólkinu, hjá fiskimönnunum og hjá útgerðinni. En slíkt fyrirkomulag kemur þegar sjósóknarrétturinn er orðinn útgerðinni mest virði en ekki veiði- og leigurétturinn. Þegar útgerðin þarf að fara á sjó til að sækja allar sínar tekjur, þá er hagur byggðanna í lagi vegna þess að þá veit fólk að atvinnurétturinn er enn þá til staðar og verður ekki söluvara frá byggðunum. Þetta held ég að þurfi að tryggja í nýjum lögum.

Ég hef sagt það oft í Alþingi og m.a. lagt fram þáltill. um það með sérstakri greinargerð hvernig ég vildi sjá að menn hæfu þá vegferð að komast út úr því kvótakerfi sem við búum við. Ég hefði talið að menn ættu að byrja að fást við það að skipta flotanum í aðgreinda útgerðarflokka þannig að það lægi ljóst fyrir að hægt væri að takast á við stjórnun á strandveiðiflotanum, og þá er ég að tala um allan strandveiðiflotann hvort sem hann er núna veiðikvótalaus eða ekki, þau skip sem hafa verið í útgerð, að takast á við það hvernig strandveiðiflotanum á að vera færður atvinnuréttur. Sá atvinnuréttur þurfi hins vegar að vera samstofna með atvinnurétti fólksins í byggðunum. Síðan væri auðvitað annar ferskfiskfloti þar fyrir ofan og svo frystitogara- og nótaskipaflotinn. Ég held að þessi skipting í þrjá útgerðarflokka sé lágmark auk þess smábátaflota sem við höfum í dag.

[16:00]

En hér er verið að breyta þessum smábátaflota úr því að vera 6 tonna bátar og heimila það að hann fari í 15 tonna báta. Ég er andvígur því að taka þetta skref svona og tel að það sé hámark að fara í það að stækka bátana í 10 tonn ef menn ætla að gera þessa breytingu. En ég hefði hins vegar talið eins og ég hef sagt áður að það væri miklu meira um vert að menn færu í endurskoðun á þessu kerfi í heild sinni með það að markmiði að vinna sig frá því. Ég hef sagt að það mætti jafnvel hugsa sér að fara þá sáttaleið að taka frystitogaraflotann og nótaflotann út fyrir sviga með þær heimildir sem þeir hafa í dag og segja: Þið getið verið áfram í ykkar stýrikerfi með sölu- og leigurétti í einhver ár, enda komið þið ekki inn í stýrikerfi annars hluta flotans. Síðan færu menn í það með næsta skrefi að útfæra veiðar strandveiðiflotans og rétt byggðanna til þess að halda atvinnu sinni. Þannig held ég að hægt væri að nálgast þetta mál á einhverjum tíma til sátta en það verður ekki hægt eins og hér er lagt upp með.

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi hafa skrifað undir það að þeir hefðu verið tilbúnir til þess, ef menn hefðu viljað reyna að ná meiri sáttum í málinu, að fara svokallaða fyrningarleið og reyna að finna á því flöt að þannig mætti smátt og smátt tryggja eðlilega innkomu í greinina fyrir þá sem vildu vera í útgerð og að menn leigðu þá til sín aflaheimildir til einhvers tíma. Það er auðvitað hugsanlegt að fara þá leið og útfæra hana. En það sem hér er verið að gera er ekkert slíkt. Hér er bara verið að festa kerfið í sessi eins og það er og á því ætla menn að byggja til framtíðar, þ.e. þeir stjórnarflokkar sem nú eru við völd, hvernig svo sem allt veltist.

Fram hafa komið hugmyndir um það með hvaða hætti mætti styrkja veiðar strandveiðiflotans, mjög einfaldar hugmyndir í raun og veru sem ætti að vera auðvelt að fara, m.a. sú tillaga að segja sem svo að kvótastuðull línuveiðanna skuli vera 0,8 á móti 1 hjá öðrum. Það mundi tryggja að línuveiðarnar næðu ákveðnum forgangi og ef þetta væri bundið við dagróðrabáta, þá væri þetta mjög atvinnuskapandi. Það skortir því ekki ýmsar hugmyndir til þess að byrja að fikra sig þá leið að breyta út frá núverandi kerfi en það skortir hins vegar algerlega vilja stjórnarmeirihlutans á Alþingi og það sem stjórnarmeirihlutinn hefur verið að aðhafast á undanförnum árum með frekari kvótasetningu, m.a. á smábátana, kalla menn núna að taka mið af hinum nýja raunveruleika, hinni nýju framtíð. Ég sagði í upphafi ræðu minnar í morgun að það er ekki sú framtíð sem ég vil sjá fyrir mér og ætla ekki að láta það eftir neinum að skipta um skoðun á því að berjast fyrir því hér að breyting verði á þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt eftir.

Það er fjöldamargt fleira, herra forseti, sem ég mundi vilja víkja að. Mér finnst hins vegar ekki rétt að ég haldi í fyrstu ræðu minni ræðustólnum fyrir öðrum þingmönnum langt fram eftir degi og mun því frekar kjósa að halda seinni ræður mínar þegar aðrir hafa komist að því að hér á að ríkja jafnrétti og menn eiga ekki að geta einokað þennan stól.

Ég vil þó að lokum, herra forseti, víkja að því að alveg frá því að kvótakerfið var sett á hefur endalaust farið fram alls konar endurröðun í kerfinu, alls konar úthlutun. Meðan við vorum með aflamark og sóknarmark voru til svokallaðir meðalkvótar, meðalkvótar á norður- og suðursvæðis og það gat auðvitað að hentað mönnum, sérstaklega ef þeir fréttu innan úr Hafró hvað gæti verið í farvatninu varðandi úthlutun, að ná sér í skip af suðursvæði og fara með það yfir á norðursvæðið og fá kannski 25% aukningu á þorskkvótanum eða öfugt. Síðan var grunnur kerfisins byggður á veiðireynslunni frá 1981--1983 og þeir sem þá voru í útgerð fengu veiðireynslu sína viðurkennda. Meðan sóknarmarkið var í gangi fengu menn sóknarmarkið viðurkennt þegar endanlega var úthlutað 1988 fyrst þegar sóknarmarkinu var breytt úr því að vera pottur sem hafði áhrif á aflamarksskipin yfir í það að vera pottur sem hafði bara áhrif innbyrðis, en frá 1988 til 1991 þegar lögin tóku gildi var auðvitað úthlutað út á reynslu sóknarmarksskipanna og þau breyttu sinni röð innbyrðis til viðbótar við það sem áður hafði verið þannig að þar fór fram ný úthlutun og ný endurröðun.

Þegar línutvöföldunin var tekin upp og þegar hún var lögð niður, þá fengu þeir sem voru í línuveiðum nýja úthlutun út á sína veiðireynslu. Þegar sett var inn í lögin svokölluð grálúðukvótajöfnun, þegar grálúðukvótinn var færður að stórum hluta af þeim skipum sem höfðu myndað veiðireynsluna til skipa sem jafnvel höfðu aldrei á grálúðu farið og höfðu aldrei sést á grálúðuslóð, þá fór fram ákveðin jöfnunaraðgerð innan kerfisins sem kom auðvitað harkalega niður á þeim útgerðum og þeim landsvæðum sem höfðu lagt grunninn að veiðum grálúðunnar en var fært til annarra. Þegar menn fóru að stunda úthafskarfaveiðar fengu þeir sérstaka uppbót í grálúðukvóta, 140 tonn á skip ef ég man rétt, fyrir þá sem stunduðu veiðar á grálúðu í ákveðið marga daga, mig minnir að það hafi verið 40 dagar. Þar fór auðvitað hluti af grálúðukvótanum.

Smábátarnir, 6--10 tonn, voru settir á kvóta einhvers staðar á vegferð kvótakerfisins og þeir fengu auðvitað úthlutað út á sína veiðireynslu. Menn fengu líka veiðileyfi út á kjöl skipa sem var búið að leggja fyrir einhverja ákveðna dagsetningu og fengu síðan úthlutað veiðireynslu á grundvelli þeirra með hliðsjón af afkomu annarra. Síðan fór fram ný kvótasetning á smábátana eins og menn vita á því fiskveiðiári sem hófst 1. september og hefur síðan smám saman verið að koma inn í kerfið til smábátanna allt þetta ár og alltaf eru menn að raða sér upp á nýtt í kerfinu nema þeir sem voru gerðir kvótalausir eftir 1990 og hafa síðan verið leiguliðar annarra. Sá hópur sem hefur átt þau skip og gert þau út hefur ekki fengið viðurkenndan veiðirétt af þeim heimildum sem hann hefur verið að veiða, ekki einu sinni að hluta til varðandi þessar kvótabundnu tegundir. Og þó. Fyrir örskömmu síðan fengu sumir þessara báta úthlutað slatta af keilu, löngu og sumir skötusel þannig að í dauðateygjunum var þeim sýndur örlítill vottur af hinu mikla réttlæti kvótakerfisins. Allan tímann hefur það verið atvinnuréttur útgerðarmanna einna sem hefur verið viðurkenndur. Atvinnuréttur skipstjóra, sem hafa menntað sig til þess í sjómannaskóla að veiða fisk, hefur ekki verið viðurkenndur nema því aðeins að þeir hafi verið útgerðarmenn skipa, t.d. smábáta. Þá hafa þeir lent í því að fá þá úthlutun sem átt hefur sér stað á undanförnum missirum og eru þar af leiðandi í dag orðnir það sem ég leyfi mér að kalla smágreifar. Ég hef oft sagt það áður að það er ekkert meira öryggi í því hjá fólkinu að eiga atvinnurétt sinn hjá smágreifa heldur en stórgreifa. Fólk hefur ekkert um það að segja hvenær slíkar heimildir eru seldur úr byggðarlaginu og það er megingalli þessarar kvótakerfisútfærslu. Atvinnurétturinn er útgerðarmanna. Það eru þeir sem geta leigt hann og selt og það er ekki við þá, íslenska útgerðarmenn, að sakast að lögin eru svona úr garði gerð. Það er við okkur að sakast hér á Alþingi að hafa sett þessi lög og gert þau svona úr garði, að það sé útgerðarmanna einna að taka ákvörðun um það í fyrsta lagi hvort skip sé gert út og myndi þannig atvinnu fyrir sjávarbyggðir og fólk í sjávarbyggðunum og tryggi eignarréttarlega stöðu þeirra í húsnæði sínu eða hvort þeir taki ákvörðun um það að leigja eða selja sem setur rétt sjómanna og fólks í sjávarbyggðunum algjörlega út á kaldan klaka. Þetta er megingallinn, herra forseti, að svona skuli hafa verið að verki staðið fyrir utan svo hinn megingallann að kvótakerfið hefur ekki byggt upp neina fiskstofna í almennum botnfiskveiðum og þar er því miður allt á verri veg. Þess vegna væri virkilega ástæða til þess af líffræðilegum orsökum að taka kerfið til endurskoðunar.