Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 16:13:49 (8097)

2002-04-22 16:13:49# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. 2. minni hluta GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[16:13]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að þegar menn eru búnir að búa til nýjan veruleika, þá þurfa þeir að taka mið af honum. Það sem ég hef verið að vekja athygli á þegar ég hef verið að draga þetta fram er það að ég tel að sá veruleiki sem m.a. hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur stuðlað að að við stöndum frammi fyrir núna, sé ekki eftirsóknarverður veruleiki þó að hann sé raunveruleiki eins og málum er hagað í dag og þess vegna ekki til bóta. Þess vegna segi ég það sem mína skoðun að ég tel að mér sé skylt að berjast gegn því að slíkur veruleiki, sem hv. þm. hefur stundum nefnt í ræðum sínum að sé nútímaveruleiki, verði til, en að því hafa þingmenn stjórnarflokkanna staðið og þeirri stefnumótun og framkvæmd er ég andvígur eins og hún hefur komið út fyrir þjóðina.