Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 20:19:01 (8103)

2002-04-22 20:19:01# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[20:19]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mun ekki hafa uppi mjög langar orðræður um þetta mál. Ég vísa til þess sem áheyrnarfulltrúi okkar í sjútvn., Árni Steinar Jóhannsson, hefur þegar sagt. Hann hefur gert grein fyrir afstöðu okkar og tillögum og þarf ekki að endurtaka það.

Það er ekki hægt annað, herra forseti, en að harma það sem ýmsir telja að séu að verða einhver málalok í þessu langa ströggli um endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar sem staðið hefur nú um nokkurt árabil með væntingum, a.m.k. framan af, um að í sjónmáli væru breytingar á löggjöfinni um stjórn fiskveiða og fyrirkomulaginu sem mundu laða fram betri sátt í þjóðfélaginu um þennan grundvallaratvinnuveg og málefni hans og þær leikreglur sem hann starfar eftir. Það er öllum ljóst sem fylgst hafa með umræðum bæði á Alþingi og annars staðar í þjóðfélaginu síðustu vikur og mánuði að þetta hefur mistekist. Þetta hefur mistekist svoleiðis með öllu að í raun og veru eru menn kannski að sumu leyti fjær því að í sjónmáli sé einhver skikkanlegur friður um þessa hluti en menn voru áður en allt þetta starf fór af stað, skipun auðlindanefndar og endurskoðunarnefndar og öll sú orka sem í það hefur farið. Ég segi fjær vegna þess að það er orðin mjög mikil og almenn tortryggni ríkjandi í þjóðfélaginu gagnvart því að það muni nokkurn tíma takast að breyta frá því kerfi sem við erum frosin föst í einfaldlega vegna þess að þau hagsmunaöfl séu svo voldug og þau hafi valdað svo vel stöðu sína, a.m.k. í tveimur stjórnmálaflokkum, að þar verði engu um hnikað.

Á hinn bóginn mætti segja að þessi vinna hafi að sumu leyti fært menn nær mögulegri niðurstöðu sem að mjög margra mati gæti haft í för með sér miklu skárri samstöðu um þessi mál, einhvers konar blandaða leið þar sem menn mundu a.m.k. að hluta til ef ekki að öllu leyti, losa réttinn út úr núverandi kerfi þó svo það tæki nokkurn tíma og endurráðstafa honum eða endurútdeila honum með einhvern veginn þannig aðferðum, kannski blöndu af leigu, byggðatengingu og afnotum af samningum við útgerðir sem þýddu að þó að enginn fengi kannski fram sína óskalausn þá ætti að felast í slíku miklu betri málamiðlun ólíkra sjónarmiða, ólíkra hagsmuna en nú eru í boði því að það er engin málamiðlun í boði. Það er keyrt áfram eftir hagsmunum eins aðila í þessu dæmi, þ.e. útgerðarinnar, það er alveg ljóst. Það er gefið með sama hætti í þessu spili eins og gert var árið 1983. Útgerðinni eru færð öll háspilin á hendur eða nær er að segja núverandi handhafar veiðiheimildanna sem annaðhvort á grundvelli gamallar veiðireynslu eða viðskipta í sjávarútvegi hafa náð þeim í sínar hendur.

Þess vegna held ég, herra forseti, að í raun og veru þurfi ekkert endilega að setja á langar ræður um þessa svokölluðu niðurstöðu sem hér er í sjónmáli vegna þess að þetta er engin niðurstaða og þessi svokölluðu málalok eru engin málalok. Ég held það hljóti að vera hverju einasta mannsbarni ljóst að þetta er ósköp einfaldlega ávísun á það að átökin halda áfram og barátta manna fyrir því að breyta þessu kerfi heldur áfram. Hún er dæmd til að gera það vegna þess að maður hefur enga trú á að þetta sætti á nokkurn hátt þannig andstæðurnar sem uppi eru í málinu milli útgerðar, milli byggða, fiskvinnslu, landverkafólks, sjómanna og í raun og veru þjóðarinnar, að það verði mikið hlé á þessari baráttu. Kannski eru menn þreyttir og það eru vissulega ýmsir orðnir sem eru búnir að lemjast um í þessu árum svo ekki sé sagt áratugum saman. Þeir eru orðnir svolítið slitnir í umræðunni og það er erfitt að láta sér detta mikið nýtt í hug. Það skal fúslega viðurkennt að ræðumaður er í þeim hópi, hafandi verið í þessu í 19 ár því að nú styttist mjög í að það séu 19 ár síðan svarta skýrslan kom út á vordögum 1983 sem var undanfari kvótakerfisins sem skellt var á rétt fyrir árslok 1983. En aðrir verða þá til þess að taka upp merkið og það er algjörlega ljóst að leitin að betri sátt um þessa hluti heldur áfram. Jafnvel þó það kæmi ekki til ætla ég að leyfa mér að gerast sá spámaður að þjóðin muni á næstu árum bera gæfu til þess að gera breytingar á þessu kerfi vegna þess að ég er algerlega sannfærður um að það þarf hún að gera. Annars stefnir hér illa. Ég held að eitt það hættulegasta og vitlausasta sem gæti gerst í íslenskum sjávarútvegi væri að svo til allar veiðiheimildir í bolfiski á Íslandsmiðum færðust á hendur þriggja, fimm eða þó þær væru sjö eða níu, fyrirtækja með tiltölulega mjög einhæfan rekstur, með tiltölulega einhæfa útgerðarþætti takandi aflann kannski að mestu eða svo til öllu leyti í eitt og sama veiðarfærið og með því álagi á tiltekin mið við landið sem því mundi fylgja.

Eitt er víst og það er að með slíkum breytingum hlytu menn að vera að taka mikla áhættu. Við höfum vissa reynslu af því hvernig blandaður sjávarútvegur þar sem saman voru togarar, vertíðarbátar, dagróðrabátar og grunnslóðafloti og trillur með allri þeirri blöndu af veiðarfærum sem hér var notuð um margra áratuga skeið í íslenskum sjávarútvegi, í raun og veru eftir að togveiðarfæri urðu útbreidd í flotanum, við höfum vissa reynslu af því hvernig sú samsetning gafst. Aflatölur t.d. frá stærstum hluta síðustu aldar eru að stofni til upprunnar í slíku mjög blönduðu kerfi og það er dálítið athyglisvert að fara í gegnum hlutföllin. Þau haldast tiltölulega stöðug á löngum árabilum, að vísu svolítið háð endurnýjun í flotanum þegar koma inn endurnýjunartímabil eins og í togaraflotanum. Í kannski þremur til fjórum megingusum á 20. öldinni verður þarna ákveðin breyting á en þó minni en maður skyldi ætla vegna þess að það varð líka uppbygging í bátaflotanum og síðan tengdist þetta útfærslu landhelginnar og því að við tókum síaukinn hlut sjálfir og að lokum allan í okkar þágu. En nú bjóða menn upp á kerfi sem er þannig saman sett að þetta gæti tekið og tekur mjög miklum breytingum. Hver eru vísindin á bak við það að í því sé ekki fólgin einhver áhætta? Eru menn ekkert orðnir þreyttir á kenningunum um að það skipti engu máli hvaða þorskur er tekinn og hvernig hann er tekinn upp í þessi tonn sem menn telja að megi veiða hverju sinni? Er ekki alltaf að verða veikara og veikara undir þeim faglega? Þetta ýtir til hliðar öllum kenningum um að það skipti máli hvernig veiðiálagið leggst á stofninn. Þetta horfir algerlega fram hjá því að þorskstofninn við landið kann að vera að hluta til staðbundnari en menn hafa hingað til viðurkennt o.s.frv. Ég held að menn hljóti að verða að horfast í augu við þetta og viðurkenna. En kerfið er keyrt áfram algerlega blint og kraftarnir á bak við það eru fyrst og fremst hagsmunir fjármagnsins sem liggur núna bundið í greininni og þeirra sem hafa arð af rekstrinum í óbreyttri mynd sinni dag frá degi um þessar mundir. Þetta er ekkert flóknara en það. Og á meðan menn láta algerlega undan kröfum og þrýstingi þessara aðila, þá koma menn engum öðrum sjónarmiðum að, engum öðrum mögulegum hagsmunum við svo sem eins og hagsmunum þjóðarinnar til lengri tíma litið af uppbyggingu og skynsamlegri og hófstilltri nýtingu þessara stofna, svo ekki sé talað um alla aðra hluti eins og umhverfissjónarmið og þróun greinarinnar í átt til sjálfbærra og vistvænna nýtingarhátta, byggðasjónarmið, atvinnuöryggi eða annað slíkt.

Þess vegna, herra forseti, er það samt sem áður dapurlegt þó að maður trúi því að hér sé ekki verið að festa í sessi niðurstöðu sem muni standa lengi óbreytt eða a.m.k. verði örugglega gerðar tilraunir til að hagga henni, þá er það á vissan hátt dapurlegt að hér skuli nakin málalok vera þau að þegar upp var staðið reyndist enginn vilji til þess að gera neinar þær breytingar á því kerfi sem máli skipta. Hann bara gufaði upp og hvarf til himna með öllu sáttahjalinu eða hvort það fór hina leiðina. Það er alla vega þagnað í dag. Það er sennilega rétt sem hv. þm. Sverrir Hermannsson hefur verið hvað drýgstur við að segja og fyrstur manna að það hafi kannski ekki verið miklar innstæður á bak við það. Þetta hafi að stærstum hluta til verið sviðsetning og leikrit sem menn settu á fyrir síðustu alþingiskosningar af því að þá höfðu menn hitann í haldinu og fundu að það var mikill þrýstingur úti í þjóðfélaginu.

Þetta er skurðpunktur málsins að mínu mati, þ.e. spurningin um átökin á milli þeirra sem leynt og ljóst og þó með einhverjum slaufum sé vilja keyra þetta kerfi óbreytt áfram og svo allra hinna sem væru fyrir sitt leyti tilbúnir til að gera á því einhverjar breytingar. Um það eru vissulega uppi ýmis sjónarmið, í hvaða átt þær ættu að ganga og hversu róttækar þær ættu að vera, allt frá því að það heyrast raddir eins og sú sem hér talaði síðast frá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, sem margendurtekið hefur velt upp þeim hugmyndum að leggja eigi aflamarskskerfið sem slíkt til hliðar af því að það sé í raun ónothæft og skili okkur ekki neinum árangri, og má til sanns vegar færa, yfir í hitt að menn eru að tala um einhverjar blandaðar leiðir þar sem kannski yrði áfram stuðst að verulegu leyti eða jafnvel alfarið við aflamarkskerfið en réttindin yrðu meðhöndluð með öðrum hætti, þeim yrði endurráðstafað eða þau innleyst og þeim síðan endurráðstafað. Þá geta að sjálfsögðu komið ýmsir möguleikar og ýmsar blöndur leiða til greina. Það skyldi nú ekki vera svo eins og oft vill verða að líklegast væri að sæmilegur friður gæti skapast um einhverja blandaða leið sem fæli í sér að eftir því sem mögulegt væri væri tekið tillit til þessara samsettu hagsmuna sem eru í þessari grein. En ef viljann skortir í grunninn til þess að breyta nokkrum sköpuðum hlut þá keyra menn þetta svona áfram.

[20:30]

Það sem ég held að sé alvarlegast við stöðuna í dag, herra forseti, er náttúrlega í fyrsta lagi það sem hv. síðasti ræðumaður nefndi einnig að kerfið hefur ekki skilað okkur árangri. Ég man vel ræðuhöldin um það að þetta mundi byggja stofnana upp á tilteknu árabili og reyndar er það svo dapurlegt þegar það er rifjað upp að fyrirmyndin sem notuð var til þess að selja mönnum kerfið hér 1983 var Kanada. Það var sagt að ef við innleiddum kvótakerfið mundum við geta farið svipaða leið og Kanadamenn til að byggja upp þorskstofninn og fletti menn þessu upp ef þeir trúa því ekki.

Hvernig er ástandið í Kanada í dag? Það hefur farið öðruvísi. Þorskveiðarnar undan austurströnd Kanada eru ekki miklar. Þar hefur þorskurinn verið alfriðaður á annan áratug og bólar lítið á því að hann sé að rétta úr kútnum þannig að við skulum ganga hægt um þessar gleðinnar dyr og hafa það í huga að það geta orðið katastrófur í lífríkinu. Sagan geymir dæmi um margar slíkar ef menn fara fram af brúninni. Stofnar geta farið svo illa, jafnvel þó að stórir og sterkir hafi verið eins og þessi gjöfulu mið við austurströnd Kanada voru auðvitað um áratuga skeið áður en gegndarlaus rányrkja þarlendra og erlendra flota fór þannig með hann að hann hrundi gjörsamlega og í ljós kemur að hann virðist ætla að taka áratugi að jafna sig.

Staðan er nákvæmlega eins og hún er og menn vita. Það er í rauninni mjög alvarlegt að ekki skuli vera meiri umræða um þennan þátt málsins, að kerfið hefur ekki skilað þessum árangri. Ætti það ekki að vera réttlæting þess að viðhalda því, í raun og veru eina réttlæting þess, að það væri að ná tilgangi sínum? Þetta kerfi var sett á til bráðabirgða í eitt ár undir svardögum um að síðan yrði því breytt af því að menn hefðu ekkert annað betra í höndunum og það ynnist ekki tími til þess að útfæra aðrar friðunaraðgerðir þannig að skárri sátt gæti orðið um en að skella þessum niðurskurði veiðiheimilda á menn í gegnum kvótakerfi sem las veiðireynsluna þrjú ár aftur á bak og síðan var veiðin frá fyrra ári skorin niður um um 20%.

Í öðru lagi held ég, herra forseti, að fyrir utan þetta, sem er náttúrlega langalvarlegast með ástand stofnanna, sé samþjöppunin í greininni hættulegust. Ég held að hún sé til lengri tíma litið varasömust, ekki vegna þess að það sé ekki gott fyrir íslenskan sjávarútveg að í bland séu þar stór og sterk fyrirtæki. Það er fínt. Menn verða væntanlega að setja því einhverjar skorður hversu yfirgnæfandi stór þau verða. En ég segi það alveg eins og er að út af fyrir sig mætti t.d. eitt fyrirtæki verða býsna stórt mín vegna. Það skapar ýmis vandamál og getur haft bæði landfræðilega og félagslega erfiða hluti í för með sér. En ef það væri bara eitt og síðan héldist fjölbreytnin í greininni að öðru leyti og hér væri gróskumikill bátafloti af mismunandi stærðum sem notaði mismunandi veiðarfæri og grunnslóðafloti, dagróðrafloti og trillur og áfram héldist sú fjölbreytni og sá kraftur í greininni sem ég held að séu lífsnauðsynleg og eigi að vera þar. En ef stóru fyrirtækin verða þrjú eða fimm og með svo til allar veiðiheimildirnar í landinu í sínum höndum, þá versnar í því. Þá hefði ég áhyggjur af ástandinu. Það getur að vísu vel verið að þetta mundi leita út í eitthvert leiguliðakerfi og einhverjir undirverktakar fengju að lifa í skjóli af risunum eins og þetta hefur sumpart þróast að undanförnu. En þá verða menn líka að svara því hvort þeir vilji það fyrirkomulag. Vilja menn höfuðból og hjáleigur á nýjan leik í einni af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar? Því að það er nákvæmlega það kerfi sem í raun og veru er að koma upp, ótrúlega líkt hjáleigukerfinu þar sem bændur á kotunum í kringum prestssetrin og höfuðbólin fóðruðu nokkrar kindur ókeypis fyrir prestinn sem svo bara kom á haustin og hirti þær og hafði af þeim öll gögn og öll gæði. Það er ekki mikill munur á því og sumu leiguliðafyrirkomulaginu sem manni er sagt af.

Ég held að þessi samþjöppun sé í fyrsta lagi hættuleg vegna þeirrar einhæfni í útgerðinni sem hún augljóslega stefnir í. Það hefur farið skelfilega sums staðar erlendis þar sem sambærilegir hlutir hafa gerst, þar sem fáein stórfyrirtæki, oft byggð upp með opinberum tilstyrk þess vegna, hafa verið sjávarútvegur landa og sópað upp miðum með ofveiði á stórum og öflugum skipum, nú eða þá erlendir flotar. Þegar maður fer um heiminn og skoðar sögu fiskveiða þá er það alveg ótrúlega sláandi hversu víða allt hefur endað með ósköpum þar sem menn hafa farið út í einhæfa útgerð stórra skipa með þessi afkastamiklu veiðarfæri og hefðbundin samsetning flota hefur glatast.

Ég veit ekki hvort virðuleg sjútvn. hefur haft aðeins fyrir því að kynna sér stöðu fiskveiða niður með ströndum Afríku núna. Vita menn hvar hinn verkefnalausi Evrópusambandsfloti er að bera niður núna í stórum stíl? Hafa menn farið yfir það, bæði við vestur- og austurströnd Afríku hvernig ástandið er að verða þar? Ég held að það væri fróðlegt fyrir menn að gera það. Þangað hafa í stórum stíl farið tugir og hundruð öflugustu togskipa t.d. úr úthafsveiðiflota Spánar og Portúgals og það eru ekki par fallegar sögur sem maður heyrir af ýmsu sem þar gerist núna þar sem hefðbundnar fiskveiðar láta undan síga. Sums staðar er það vegna þess að spillt stjórnvöld selja hinum erlendu flotum aðgang að miðunum á kostnað hefðbundinna nytja, kannski þeirra veikburða nytja sem fyrir voru, og afleiðingarnar láta oftast ekki á sér standa því að eftir nokkurra ára eða í besta falli áratuga veiðar er þar meira og minna sviðin jörð eftir.

Ég held að þessir hlutir, herra forseti, séu stórvarasamir og það sé mikil eftirsjá í því ef þessi eiginleiki íslenska sjávarútvegsins sem lýsti sér í mikilli fjölbreytni, bæði í útgerðarformum, rekstrarformum, þetta voru hlutafélög eða félög á félagslegum grunni í einstökum byggðarlögum og einyrkjar, allt í bland og það held ég að hafi verið hið eina rétta og góða fyrirkomulag. Í gegnum þetta bjó sjávarútvegurinn yfir mikilli aðlögunarhæfni. Það var alltaf eitthvað nýtt að gerast og má segja að ákveðin innbyrðis samkeppni hafi þannig verið til staðar. Og öfugt við það sem menn halda stundum að tækni, framfarir og hagræðing hljóti alltaf að byggja á stækkun þá held ég að það hafi sýnt sig að sum afkastamestu og tæknivæddustu og langöflugustu fiskiskip flotans núna eru trillur. Ef maður tekur það að einir tveir, þrír menn, eða þó þeir séu sex eða sjö í allt ef beitningamenn og aðrir eru taldir með, eru að taka kannski upp undir 1.000 tonn á 6 tonna trillu, það er ekki lélegur árangur við fiskveiðar. Ef maður reiknar saman allan þann kostnað sem þar er á bak við þá held ég að hljóti að teljast bærilegur árangur borið saman við stóru togskipin eða stóru vertíðarbátana o.s.frv.

Í þriðja lagi, herra forseti, held ég að áhyggjuefnin séu tengd þeirri röskun sem þetta markaðsvædda kerfi uppkaupa á veiðiréttindum í sjávarútveginum án nokkurra hólfa eða girðinga leiðir af sér í stórum stíl, stórfellda röskun á því atvinnu- og búsetumunstri sem var inngróinn hluti af sjávarútvegi landsmanna á grundvelli þeirra leikreglna sem hann hafði þróast á og byggst upp um áratuga skeið, mér liggur við að segja um alda skeið. Það var enginn stórkostlegur brestur í því fyrr en eftir að þetta kerfi kom til sögunnar. Auðvitað er alltaf einhver þróun í gangi og einhver staðbundin áföll að verða en menn gátu risið upp á nýjan leik og menn voru ekki útilokaðir með þeim afgerandi hætti frá því að byrja upp á nýtt eða koma undir sig fótunum eins og kerfið gerir í dag og allir vita. Smátt og smátt verður það ekki á færi annarra en þeirra sem hafa aðgang að gríðarlegu fjármagni að komast þarna inn. Það er nánast ógerningur nema ganga þvílík svipugöng fyrir menn án verulegs fjármagns að komast inn í greinina í dag að það þarf ekki að ræða það.

Þetta er ekki bara vandamál í sjávarútveginum sem slíkum. Þetta er ekki bara eitthvað sem snýr að ungum duglegum sjómönnum eða ungum mönnum sem vilja spreyta sig í útgerð, sjávarútvegsfræðingum eða skipstjórnar- eða vélstjórnarmenntuðum mönnum eða hverjum sem það nú væri. Látum það vera. Þetta er líka vandamál allra þeirra sem í gegnum tíðina hafa deilt örlögum í byggðunum með sjávarútveginum. Þetta er líka vandamál þjónustunnar í viðkomandi byggðarlögum. Þetta er líka vandamál þeirra sem eiga sitt íbúðarhús í viðkomandi sjávarplássi því það hangir allt á þessari spýtu í byggðarlögum sem hafa byggst upp á sjávarútvegi og þar sem hann hefur verið hinn stóri mótor á bak við allt saman.

Ég held að sú óvissa, herra forseti, sem þetta kerfi hefur í för með sér, sé kannski einn alvarlegasti hluturinn og það sem er t.d. í stórum stíl byggð við sjávarsíðuna á Íslandi í dag hættulegast því að jafnvel þó að menn búi í byggðarlagi sem enn hefur ekki orðið fyrir einhverjum náttúruhamförum eða stóráföllum í þessum efnum og þar sem enn er haldið uppi einhverri drift, þá er nagandi óvissan viðvarandi veruleiki. Það lesa sennilega engir blöðin og upplýsingar af Verðbréfaþinginu með jafnmikilli áfergju og þeir sem eiga allt sitt undir því t.d. að fyrirtæki þeirra hverfi ekki úr tölu lifenda eða verði gleypt af einhverjum á næstu dögum.

Ég held, herra forseti, að í fjórða lagi sé náttúrlega sú staðreynd að þetta fyrirkomulag, þetta fiskverndunarkerfi --- það er kannski allt í lagi að muna eftir að það á að heita að svo sé þó að það hafi ekki skilað miklum árangri þar --- það hefur opnað leið fyrir einstaka aðila til þess að hirða gríðarleg verðmæti út úr þessari atvinnugrein. Það hefur eðlilega valdið miklum deilum. Mönnum finnst það sérkennilegt að einstakir aðilar geti selt öðrum aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar fyrir stórkostlegar fjárhæðir og hirt þann gróða allan með sér hvert sem þeir svo vilja fara með hann. Það hefur reynst alveg ótrúlegt viljaleysi til þess að reyna á einn eða annan hátt að taka á þessu máli. Sá sem hér talar var lengi að reyna að þræða einhverjar leiðir í því að það væri a.m.k. hægt að ná aftur þessum hagnaði til ríkisins með skattalegum aðferðum af því að það væri ekki beinlínis ætlunin að einhver tiltekinn hópur í samfélaginu gæti gert sér að féþúfu með þessum hætti í einkagróðaskyni eitthvað sem væri sameign þjóðarinnar. Það gæti bara ekki verið. En ekki einu sinni það hefur fengist tekið til neinnar alvöruskoðunar og menn hafa yfirleitt drepið þær hugmyndir eins og margar fleiri í þessari umræðu með því að sjá á þeim einhverja annmarka, einhverja erfiðleika í sambandi við framkvæmd. Og þá allt í einu ber svo við að kjarkleysið er algjört og menn leggja ekki í það af því að það gæti reynst snúið í framkvæmd að einhverju leyti. Ég hélt að almennt væru býsna snúin í framkvæmd ýmis álitamál við að innheimta skatta. En menn hafa þó ekki hætt við það, ekki enn þá, þó að ýmsir vildu það sjálfsagt helst og hefðu þannig fullgilda ástæðu til þess að leggja ríkið niður. Ég veit ekki hvað hv. þm. Pétur Blöndal mundi vilja skilja mikið eftir af því ef hann fengi að ráða en það er ekki mikið. Það þyrfi ekki merkilega skatta á Íslandi til að reka þau ríkisumsvif sem hann væri talsmaður fyrir.

[20:45]

Í fimmta lagi, herra forseti, held ég að það sé líka áhyggjuefni að þó að umgengnin um auðlindina hafi vissulega að ýmsu leyti batnað, því vil ég halda til haga að það er langt í frá að það eigi að draga upp einhliða svarta mynd af því, þá finnst mér að það hefði átt að miða miklu hraðar í þeim efnum. Ég tel t.d. að það hafi verið hið mesta áfall fyrir Alþingi að gefast algjörlega upp fyrir því að menn kæmu almennt með þessi verðmæti að landi einfaldlega vegna þess að það gæti kostað útgerðina eitthvert óhagræði og hún hefði ekki mikið út úr því eða jafnvel bara tapaði einhverju á því t.d. að hirða hausa og annað slíkt og koma með það í land. Þá var bara gefist upp við það og menn slógu af á miðju sumri lög sem sjávarútvegurinn var búinn að hafa mörg ár til þess að aðlaga sig að.

Nú tek ég eftir því að einhverjir, ég held flokksbræður hæstv. sjútvrh., eru komnir með tillögu á nýjan leik um að setja þetta inn aftur og mér finnst það góðra gjalda vert og í raun og veru sjálfsagt að gera það en það verður þá væntanlega að fara í þann leiðangur á nýjan leik því ekki er hægt að skella slíku á fyrirvaralaust. Það verður að gefa mönnum einhverja aðlögun að því að uppfylla það og ætli það mál gæti þá ekki farið í nýjan hring? Það skyldi nú ekki vera. En það hefur satt best að segja, herra forseti, ósköp lítið verið uppi í umræðunni og lítil meðvitund verið í gangi gagnvart því að reyna eitthvað að taka á þeim umhverfislegu þáttum sem tengjast greininni. Hún er ekki að þróast á einn eða neinn hátt þannig að hægt sé að segja að það sé í vistvæna átt nema síður sé. Orkunotkun í flotanum er t.d. alveg óheft og óstýrð. Það er ekki nein viðleitni til þess að hafa þar einhverja stýringu í gangi, hvetja til orkusparnaðar eða ívilna þeim veiðarfærum sem hafa minni orkunotkun í för með sér eða t.d. velta því fyrir sér hvort réttlætanlegt væri að leggja eitthvert álag á vinnslu aflans úti á sjó í umhverfislegu tilliti af því að þar eru menn að nota innflutt jarðefnaeldsneyti í staðinn fyrir raforku í landi sem yfirleitt er framleidd úr vatnsafli o.s.frv., herra forseti.

Hvað á að reyna að gera? Er eitthvað hægt að gera eða á bara að gefast upp og láta kylfu ráða kasti og láta þetta keyra svona áfram næstu 5--10 árin og sjá til? Það er það sem menn vilja. Það er það sem núverandi stjórnvöld vilja. Ég er ekki viss um að það sé vegna þess að menn telji að það sé einhver stórfelld óvissa fólgin í því hvað því verði samfara. Ég held kannski að það sé vegna þess að ýmsir hafi tiltölulega mótaðar hugmyndir um hvert íslenskur sjávarútvegur eigi að þróast, það séu nefnilega mjög áhrifamiklir aðilar hér sem telja að hann eigi að enda í þremur til fimm fyrirtækjum og af og til missa talsmenn þessara sjónarmiða setningu út úr sér hér og aðra þar þar sem þeir segja sem svo að það þurfi náttúrlega að hraða sameiningu og stækkun fyrirtækjanna, það þurfi að fækka fiskimjölsverksmiðjunum um helming. Það eigi ekki verið nema svona tíu eftir í landinu o.s.frv. Þá eru menn greinilega komnir býsna langt í hugsun sinni um að endurskipuleggja greinina eins og þeir telja að eigi að gera að þeirra eigin vilja og þá ætla menn bara að móta þetta eins og leir í höndum sínum.

Ég held að það mætti með ráðstöfunum sem þyrftu ekki að teljast neinar stórkostlegar kollsteypur, ekki einu sinni á núverandi kerfi til að róa þá sem er það algjört hjartans mál að ekki verði raskað of mikið við því, eins og t.d. það að hefja að innleysa réttinn þó ekki væri nema að einhverjum hluta til, að endurráðstafa honum að hluta til með byggðatengdum aðferðum, bara strax einhver grunnur sem kæmi til sögunnar til byggðanna mundi breyta þarna miklu. Ég held að flokkun flotans þó seint sé, því það er auðvitað sorglega seint að fara út í einhverjar aðferðir af því tagi en það er þó enn hægt að gera mikið í þeim efnum, gæti bjargað miklu í þessum efnum. Það er reyndar umhugsunarefni að ég held að Íslendingar séu eiginlega eina þjóðin sem er með fiskveiðitakmarkanir hvort heldur það er aflamarks- eða kvótakerfi eða sóknartakmarkandi kerfi sem ekki byggir það á einhverri flokkun flotans. Ég held að Íslendingar séu nánast einir um það að keyra þetta allt í einu óhólfuðu kerfi.

Ég held að upptaka einhvers konar nýtingarstuðla, þar sem menn reyndu á faglegum og skynsamlegum grundvelli að lesa nýtinguna út frá því hvernig veiðiálagið kæmi við stofninn og líka út frá þeim verðmætum sem kílóin sem í land koma, ef menn eru með magntakmarkandi kerfi, aflamark, væru verðflokkuð, gæti breytt miklu. Ég held að það væri t.d. langbeittasta aðferðin í sambandi við brottkastið og það mundi væntanlega geta skipt mjög miklu máli í þeirri þróun þar sem við sjáum handhafa veiðiheimildanna nánast fá fiskinn á því verði til sín án tillits til eiginlegs verðmætis á markaði sem þeim hentar, eins og ég hygg að nefnd hafi verið dæmi um fyrr í umræðunni, að menn eru að láta veiða fyrir sig. Af því að þeir eiga kvótann eru þeir að láta veiða fyrir sig stóran fisk, 5--7 kg fisk kannski, sem fer á 240 kr. á kílóið á markaði en þeir borga 50 eða 70 kr. fyrir hann sjálfir af því að þeir eiga kvótann. Ég held t.d. að hlutir eins og að stórauka rannsóknar- og þróunarstarf og standa miklu betur að ýmsum faglegum málefnum þessarar greinar gæti hjálpað mikið til upp á framtíðina. Það er ekki beint glæsilegt ástandið í menntunarmálum og faggreinamálum sjávarútvegsins, er það? Hafa menn engar áhyggjur af þeim hlutum? Það er hluti af þessum vanda. Greinin er greinilega ekki meira aðlaðandi en svo að það er dvínandi aðsókn að öllu fagnámi, tómir skólar, niðurlægðir og stefnir í hreint óefni hvað varðar fagmenntun í sjávarútvegi fyrr en varir. Hvar eru áhyggjur manna af þessu og í hverju sér þess stað? Hvar eru þeir forustumenn um sjávarútvegsmál í stjórnarflokkunum sem eru að reyna að gera eitthvað í þessum efnum? Ég verð lítið var við þá, ég verð að segja það alveg eins og er. Það er kannski hægara sagt en gert að reyna eitthvað að hamla gegn þeim straumi en ég held að það sé ekki mjög björgulegt ef við verðum algjörlega ofurseld erlendu vinnuafli í þessari grein því að með sama áframhaldi styttist í að það þurfi að manna flotann líka með útlendingum. Menn skulu átta sig á því. Það skyldi ekki vera að útgerðarmenn væru búnir að átta sig á þessu sjálfir og vilji þess vegna fá meira olnbogarými til að skrá skipin þar sem þeim sýnist og ráða á þau þeirra þjóða sjómenn sem þeim sýnist? Væntanlega til þess að geta borgað þeim eitthvað lægra kaup og rekið þetta á þeim forsendum. Ég hefði gjarnan viljað sjá að eitthvað af þessu væri uppi á borðum líka.

Því er oft haldið fram, herra forseti, og rökin sem smátt og smátt hafa tekið við í margra munni fyrir þessu kerfi eru hagrænu rökin. Það eru fáir sem reyna að færa fram þau rök fyrir kvótakerfinu að það hafi skilað svo glæstum árangri í sambandi við fiskvernd og uppbyggingu stofna að það réttlæti áframhald þess en þá koma hagrænu rökin í staðinn og það er sagt að þetta kerfi hafi reynst svo gríðarlega hagkvæmt. Sömu rök færa menn fyrir því að þess vegna eigi líka að leyfa því að halda áfram að þróast. Það eigi jafnvel að létta af þeim þökum sem eru gagnvart stærð fyrirtækja í dag. Nú veit ég vel að það er ekki lagt til í þessu frv. og reyndar brtt. meiri hlutans sem betur fer heldur í hina áttina, en þessi umræða er uppi, og hver veit hvenær næsta áhlaup verður gert í þeim efnum, og þá eru menn að reyna að segja okkur að það liggi alveg á borðinu að þetta sé svo hagkvæmt. Hver eru vísindin á bak við það? Hvar eru þær greiningar og sú úttekt t.d. hvað varðar hagkvæmni þess að sækja fiskinn á mismunandi vegu sem liggur því til grundvallar? Eru þau togaraútgerðarfyrirtæki og stórfyrirtæki í sjávarútvegi, sem virðast ekki ráða við nema svona 70--80 kr. á kíló fiskverð, eru það sérstaklega rök fyrir því að þau sé svo hagkvæm að þau ein eigi að hafa veiðiheimildarnar notaðar á þann máta sem þau eru að gera? Ég spyr. Ég hef ekki séð þessi vísindi. Það hefur enginn sannfært mig um þetta. Ég held að það sé þvert á móti öfugt. Að minnsta kosti er stórhættulegt að trúa þessu. Staðreyndin er sú að það eru ekki markaðskraftarnir sem slíkir sem ráða þessu. Þetta er nefnilega mjög sérkennileg markaðsvæðing sem átt hefur sér stað vegna þess að hún byggir á þessu forskoti og þessari fyrir fram gefnu forsendu sem lögð var til grundvallar í byrjun. Og þó svo væri, herra forseti, að að bestu manna yfirsýn væri þetta þannig að þróunin hefði verið í átt til stórkostlega aukins hagræðis að þessu leytinu til, og ég neita því ekki að auðvitað hefur aukin verkaskipting og sérhæfing í sjávarútvegi og margt sem gerst hefur á undanförnum árum sumpart tengt fiskveiðistjórnarkerfinu og annað algerlega óháð því, víða skilað hagræðingu. Það er alveg ljóst mál. En það sannar ekki að stefnan þurfi og eigi að vera öll í eina átt, í átt til stækkunar fyrirtækja og útgerðar stærri skipa.

Ef allir kepptu á jafnræðisgrundvelli þá væri mjög ósýnt um það, held ég, hver þróunin væri í íslenskum sjávarútvegi í dag, ef allar veiðiheimildir væru leigðar út. Auðvitað tækju breytingar tíma því að menn hafa forskot í gegnum þau tæki og tól og þá uppbyggingu sem þeir hafa í höndum, en það væri miklu nær því að vera einhver mælikvarði á raunverulega framleiðni eða raunverulega hagkvæmni mismunandi útgerðar- og vinnsluforma heldur en núverandi ástand. Það held ég að öllum hljóti að vera ljóst.

Síðan er það auðvitað þannig, herra forseti, að við sem ekki trúum á óskeikulleika markaðarins og að hann sé herra lífs okkar, teljum að ýmis önnur sjónarmið séu jafnrétthá og í raun og veru rétthærri, t.d. manneskjan. Því til hvers er verið að standa í þessum þorskveiðum? Er það af því að mönnum sé illa við þorskinn og vilji hann feigan? Nei. Svo er ekki. Það er vegna þess að verið er að afla verðmæta og stunda atvinnustarfsemi til þess að draga björg í bú og gera mannlífið gott í landinu. Og megum við þá nokkuð gleyma þessu sama mannlífi þegar að því kemur að leggja niður leikreglurnar fyrir okkur í landinu hvað varðar þessa atvinnugrein? Ég held ekki. Hver skrifar upp á það að einhver eyðibýlastefna sé réttlætanleg og þess þá heldur óumflýjanleg ef það er afleiðingin, ef það er það sem er að gerast í gegnum þetta óbreytta kerfi? Á þá ekki að setja því einhverjar skorður? Á ekki að temja þennan fola sem menn eru þarna að ríða, þennan markað? Ég hefði haldið það.

Umhverfið og sú skylda okkar að umgangast miðin og auðlindirnar með siðuðum hætti og skila þeim af okkur í skikkanlegu ástandi er líka fullgild ástæða ein og sér til þess að grípa þarna í taumana ef okkur sýnist þess þörf og setja leikreglur sem við teljum að tryggi það betur en núverandi ástand að þetta verði ekki sviðin jörð þegar við sem nú erum á dögum höfum samsamast forfeðrum okkar. Þá ætla vonandi einhverjir að halda áfram að búa í þessu landi, einhverjir að sækja sjó og hafa af því tekjur og störf og draga verðmæti í bú fyrir þjóðina. En það er þá líka nauðsynlegt að þar sé eitthvað að hafa.

Ég held, herra forseti, að við eigum ekki að láta þvinga þessa umræðu og setja okkur í bóndabeygju eða út í horn eða stilla okkur upp að vegg í þessum efnum með slíkum rökum. Fiskverndarrökin draga lítið og hagrænu rökin eru algerlega háð þeim forsendum sem menn gefa sér þegar þeir taka að beita þeim og í hvaða samhengi þau eru við aðra mikilvæga hluti í landinu. Við skulum bara fjalla um þetta eins og það er.

Að síðustu er það þannig, herra forseti, að ég held að nýting lífrænna auðlinda og umgengni við umhverfi og náttúru sé kannski það svið sem hvað fjærst liggur því að markaðurinn, hin hráu græðgislögmál markaðarins megi ganga laus, leika lausum hala. Það er munur á hvers eðlis viðskiptin eða atvinnustarfsemin er og á hverju hún grundvallast. Það er það. Það er alveg klárlega eðlismunur. Við viðurkennum þetta með ýmsum hætti og setjum mismunandi leikreglur eftir því hvað í hlut á. Við leyfum mönnum ekki sambærilega hluti gagnvart helgustu hlutum mannlífsins, mannréttindum, lífi og heilsu og öðru slíku eins og við gerum kannski sums staðar annars staðar lengra í burtu úti á velli viðskiptanna. Það gildir að verulegu leyti það sama um hinar lifandi auðlindir. Þessu hafa menn áttað sig á jafnvel í hákapítalískum löndum eins og Bandaríkjunum. Þar er löggjöf sem setur rammann um nýtingu t.d. náttúruauðlinda á landi talsvert ströng og stórfyrirtæki og aðilar á þeim markaði þurfa að uppfylla ýmis skilyrði og taka á sig kvaðir og skyldur sem eru ekki til staðar t.d. úti á markaðnum þar sem menn eru að sýsla með peninga og eitthvað því um líkt. Þetta þekkja menn og við getum tekið dæmi úr bandarískum olíuiðnaði eða hvar það nú væri.

Ég held að við eigum líka að muna það, herra forseti, að við erum með viðkvæmt fjöregg í höndunum þar sem eru hinar lífrænu auðlindir þjóðarinnar, auðlindir sjávarins, og það hvílir mikil skylda og mikil ábyrgð á okkar herðum að vanda okkur í þessum efnum. Ég ætti þess vegna ekki í miklum vandræðum, nema síður sé, að taka undir þá tillögu sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson flutti úr ræðustólnum áðan að það verði farið í rækilegt starf þar sem t.d. nefnd þingmanna, milliþinganefnd, færi í það verkefni að fara mjög rækilega ofan í fiskverndunar- og lífræðilega þætti málsins og reyna að glöggva sig á nýjan leik á þeim hvort sem menn leggja þar til grundvallar skrif eins manns frekar en annarra. Það eru ýmsar hugmyndir uppi, bæði fræðimanna á þessu sviði og manna sem eru menntaðir og víðlesnir í þessari grein og leikmanna, sjómanna og annarra sem þekkja vel til í greininni sem draga meira á sjóði reynslu sinnar. Ég held að það gæti allt saman verið gagnlegt, að fara yfir það. Það hafa verið gerð smááhlaup að þessu á köflum á undanförnum árum en slíkt starf hefur kannski aldrei komist á þann skrið sem vert væri. Við vitum líka að hinn faglegi og vísindalegi grundvöllur er veikur. Við fórum t.d. sorglega seint af stað með fjölstofnarannsóknir, rannsóknir á hrygningu og á hrygningarslóðinni og öðru slíku sem við mundum örugglega njóta góðs af nú ef við ættum áratuga langar mælingar og rannsóknir að baki. Jafnvel einfaldur hlutur eins og fiskmerkingar duttu niður við Ísland um áratuga skeið. Hér var varla merktur tittur áratugum saman þannig að hið merka starf brautryðjendanna sem við bjuggum lengi að hefur ekki nýst sem skyldi af því að það komu göt í seríurnar og áratugum saman sinntu menn ekki eða höfðu ekki bolmagn til að sinna slíkum hlutum hér sem hlýtur að mega flokka undir algjör grundvallaratriði í þessum vísindum.

En það vantar ekki, herra forseti, að það væri að mörgu að hyggja og margt sem þyrfti að taka á ef menn vilja þá reyna að byrja að efna sér á nýjan leik í einhvern grunn að framtíðarstefnumótun og ákvarðanatöku um þessi mál, og ég held að öllum hljóti að vera ljóst að það bíður okkar. Það er ekki verið að reisa hér eitthvert hús á bjargi hvað varðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem sé líklegt til að standa óhaggað um ókomin ár. Ég held að ekki einn einasti maður hafi mikla trú á því nema ef vera skyldi sjútvrh. Ég veit ekki hvað hann spáir þessum breytingum eða þessu fyrirkomulagi langra lífdaga en það kæmi mér mjög á óvart ef hann reiknaði ekki með því að það yrði eitthvað hjólað í þetta, a.m.k. strax á næsta kjörtímabili. Kannski lifir það af næsta vetur.

Herra forseti. Þetta vildi ég sagt hafa. Ég lít svo á að hér sé í raun og veru að verða algjör magalending á allan hátt hvað varðar þessa endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða. Um þetta mál, þessa niðurstöðu getur því miður engin sátt orðið enda ekki upp á slíkt boðið og umræðan og baráttan fyrir því að ná þarna betri árangri hljóti því að halda áfram.