Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 21:04:42 (8104)

2002-04-22 21:04:42# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[21:04]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því sjónarmiði hv. þm. að hér er ekki verið að festa í sessi eitthvert fyrirkomulag í eitt skipti fyrir öll. Sú breyting sem hér er lögð til er háð sínum annmörkum. Hún er ekki líkleg til þess að verða sú síðasta sem við gerum í þessum efnum og hún er heldur ekki líkleg til þess að vera óumdeild og vara að eilífu. Þess vegna held ég að sumar ræður sem hér hafa verið fluttar, byggðar á því sjónarmiði að með þeirri breytingu sem að væri stefnt í þessu væru menn búnir að stíga yfir einhver mörk sem þýddi að ekki yrði aftur snúið og engu breytt héðan í frá, séu á misskilningi byggðar. Ég er sammála því sjónarmiði að menn eru ekki að binda hendur sínar til áframhaldandi þróunar kerfisins þrátt fyrir þær breytingar sem nú er áformað að lögfesta.

Ég held hins vegar að það starf sem staðið hefur yfir undanfarin ár um endurskoðun þessarar löggjafar í tengslum við auðlindanýtingu hafi skilað miklum árangri. Það hefur skilað því að mönnum er miklu betur ljóst núna en áður hversu miklir fjármunir eru í spilinu í þessu kerfi, hversu mikið fé menn greiða nú þegar fyrir veiðiheimildir og að öll rök hníga að því að svo muni halda áfram þannig að deilurnar snúast um hverjir eiga að fá þessa peninga. Þau sjónarmið hafa verið mjög sterk uppi um að ríkið ætti að fá a.m.k. hluta þeirra vegna þess að þetta væru auðlindir í þjóðareign og með þessu frv. er það fest í lög að hluti af tekjunum renni til ríkisins án þess að vera eyrnamerkt tilteknum verkefnum tímabundið eins og verið hefur. Það er út af fyrir sig allnokkur árangur.