Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 21:15:42 (8109)

2002-04-22 21:15:42# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[21:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka formanni sjútvn. fyrir þessar upplýsingar. Ég geri ekki lítið úr þeim. Ég fagna því að menn vilji fara ofan í saumana á þessum málum. Fróðlegt væri þá að vita hvort menn hafa komist eitthvað lengra áleiðis og hvort einhverjar hugmyndir liggi fyrir um hvernig að þessu starfi verður unnið.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson nefndi milliþinganefnd þingmanna, og ég teldi það vissulega jákvæða viðleitni ef hjá meiri hlutanum væri fyrir hendi vilji til að fara í slíkt starf. Það er sjálfsagt rétt að það er óraunhæft að slíkt gæti komið til framkvæmda fyrr en þá að einu eða einu og hálfu fiskveiðiári liðnu, þessu og næsta eða eitthvað svoleiðis. Það er þó góðra gjalda vert að fara eitthvað af stað.

Varðandi svo líffræðina og það sem hv. þm. nefndi um viðleitni núv. sjútvrh. í því að kalla til erlenda sérfræðinga og hafa þetta fyrirspurnaþing er það allt saman gott svo langt sem það nær. Orð eru til alls fyrst en einhvern veginn segir mér svo hugur að meira þurfi til og þar á meðal að stórefla hér ýmsa upplýsingasöfnun og rannsóknir. Það er dapurlegt að heyra fréttir af því t.d. að nýja og stóra rannsóknaskipið okkar skuli vera bundið við bryggju drjúgan hluta ársins af því að ekki eru til fjármunir til að gera það út. Þegar loksins þetta glæsilega tæki er komið í landið næstum ári seinna en til stóð er svo hart á dalnum að ekki er hægt að beita því af öllu afli til að framkvæma brýnar rannsóknir. Ég held því að miklu betur þurfi að taka á í þessum efnum. Síðan væri náttúrlega hægt að bæta því við sem við þurfum að haska okkur í í sambandi við eldi sjávartegunda og annað í þeim dúr af því að ýmsir hlutir eru að breytast í umhverfi þessarar greinar. Ef við Íslendingar ætlum að tryggja okkur velferðarsamfélag í landinu munum við þurfa að treysta á sjávarútveginn í verulegum mæli á komandi árum og þess vegna má ekki kasta til höndunum.