Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 21:36:26 (8111)

2002-04-22 21:36:26# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[21:36]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég á sæti í sjútvn. og skrifa undir nál. sem hv. þm. Jóhann Ársælsson mælti fyrir í morgun. Sjálf hefði ég gjarnan viljað fá að ræða það nál. fyrr á þessari dagskrá en af því gat ekki orðið sakir þess að ég var ekki stödd hér á laugardaginn þegar þingfundur var, þó ekki samkvæmt starfsáætlun Alþingis, og málið var tekið á dagskrá án þess í rauninni að mér væri kunnugt um það. Það er hins vegar ákvörðun forseta að röð ræðumanna yrði sú sem hún varð og þar af leiðandi sit ég uppi með það að tala um þetta mál nú þegar klukkan er að verða tíu.

(Forseti (HBl): Ég vil taka fram af þessu tilefni að þingmenn hafa tekið til máls í þeirri röð sem þeir báðu um orðið.)

Þingmenn hafa tekið til máls í þessari umræðu í þeirri röð sem þeir báðu um orðið, herra forseti, það er rétt. Ég hef hins vegar aldrei fyrr orðið fyrir því sem nefndarmanneskja að mér væri meinað að skipta um stað í röð ræðumanna við annan samflokksmann minn, ekki fyrr en í dag. Því geri ég þetta að umræðuefni vegna þess að þetta hefur skákað mér með þann hlut sem ég tel mig eiga hér sem nefndarmann og sem aðila að nefndaráliti aftur til klukkan að verða tíu. Mér finnst full ástæða til að nefna það í upphafi máls míns.

Herra forseti. Þegar þetta frv. hæstv. sjútvrh. var fyrst kynnt voru það fyrstu viðbrögð mín að vekja á því athygli að hér væri svo sem ekki mikið að gerast hvað varðaði veiðigjald, auðlindagjald eða hvað svo sem menn vildu nefna það, það væri ekki mikið að gerast umfram það að menn væru að skipta um nafn á gjöldum sem sjávarútvegurinn greiddi. Í staðinn fyrir þróunarsjóðsgjald og gjald fyrir veiðieftirlit átti að koma eitt gjald sem héti veiðigjald, það átti síðan að skiptast á Fiskistofu og Hafrannsóknastofnun. Í góðu ári yrði kannski eitthvað aðeins umfram það og átti nú að skilgreinast sem greiðsla fyrir aðgang að auðlindinni.

Það verður þá að segja, herra forseti, og vegna þess að menn hafa jánkað því og staðfest í sjútvn. meðan á vinnslu málsins hefur staðið að menn eru tilbúnir til þess að viðurkenna að menn líta svo á, útvegsmenn líta þannig á að þeir séu að greiða fyrir aðgang að auðlindinni og mér finnst að sú viðurkenning skipti máli vegna þess að í henni felst viðurkenning á því að útvegsmenn eru ekki eigendur þessarar auðlindar. Útgerðin í landinu á ekki þá auðlind heldur felst í þessu viðurkenning á því sem segir í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða að það er íslenska þjóðin sem er eigandi þessarar auðlindar eins og svo margra annarra mikilvægra náttúruauðlinda.

Það liggur fyrir núna en jafnframt liggur fyrir og er ástæða til að halda því líka til haga vegna þess að eftir því var sérstaklega spurt með sérstöku spurningablaði sem sent var Lagastofnun Háskólans og Sigurður Líndal kom á fund nefndarinnar og reyndi eftir föngum að svara, að menn telja ekki að þetta frv. breyti í sjálfu sér réttarstöðu manna með nokkrum hætti. Að minnsta kosti gátum við ekki fengið nein þau svör sem sannfærðu okkur eða sögðu okkur að svo væri. Niðurstaðan er því þessi, herra forseti, að það er óbreytt ástand. Það stendur sem við sögðum strax þegar frv. kom fram. Fyrstu viðbrögð standa. Hér er ekkert að gerast utan það að verið er að breyta um heiti á gjöldum sem sjávarútvegurinn borgar.

Hitt er þó rétt að nefna og halda einnig til haga að sú aðferð sem menn beita við innheimtu þeirra gjalda er kannski dálítið sérkennileg miðað við það hve í rauninni ómerkileg aðgerð þetta er. Menn hafa bent á að í dálítið mikið sé ráðist að vera að reikna út hvernig afkoman var árið á undan til þess að nýta sem álagningarstofn vegna ársins á eftir og það hefur jafnframt truflað bæði mig og aðra að stjórnarliðar virðast ekki alveg hafa verið vissir um það hvað þeir voru að gera, þ.e. þeim virðist ekki hafa verið ljós tilgangur þessa nema þá að hver bjó til sinn tilgang og síðan töluðu menn má segja út og suður. Sumir litu á málið sem skatt og menn geta þá velt því fyrir sér af hverju þeir sem líta á þetta sem skatt samþykkja að skattleggja með þessum hætti. Af hverju var ekki farin hin almenna skattlagningarleið ef þeim aðilum fannst ástæða til að skattleggja sjávarútveginn umfram aðrar atvinnugreinar og halda þá áfram að innheimta þau kostnaðargjöld? Aðrir litu öðruvísi á þetta og það endaði með því að fenginn var skattasérfræðingur frá ríkisskattstjóra til þess að fara yfir það hvort þetta gjald gæti kallast skattur eða ekki. Niðurstaðan varð sú að það gæti í sjálfu sér verið skilgreiningaratriði og hvað menn kölluðu gjöld eins og þetta gæti út af fyrir sig farið eftir því hvorum megin borðsins menn stæðu, en hins vegar að þó að gjaldið hefði að mörgu leyti karakter skatta, af því að það væri skilgreint til hvers gjaldið ætti að renna, þá fengi það kannski síður þetta skattayfirbragð. Að minnsta kosti, herra forseti, hefur farið fram í sjútvn. ágæt umræða um þetta gjald þó að mér fyndist að menn hefðu mátt gefa sér betri tíma og má kannski segja að önnur stór atriði sem frv. inniheldur hafi farið nokkuð forgörðum eða ekki fengið þá athygli sem þeir verðskulduðu af því að menn voru svo uppteknir af þessari nafnabreytingu og hvaða hugsanlegu áhrif hún hefði.

[21:45]

Til að undirstrika hversu lítið mál er á ferð þegar veiðigjaldið er annars vegar er við hæfi að halda því til haga að formaður endurskoðunarnefndarinnar sálugu kom á fund nefndarinnar. Þar var gengið nokkuð á hann með skoðun á uppbyggingu þessa gjalds og hvort það dýpkaði ekki ákveðna mismunun sem væri fyrir í kerfinu og hér hefur verið gerð að umtalsefni, ekki síst af hálfu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, en hann hélt því beinlínis fram að menn mundu varla finna fyrir þessari breytingu því að þetta væri svo lítið.

Herra forseti. Þetta fannst mér vera gleggsti vitnisburðurinn um það á hvaða vegferð menn voru og hversu burðug þessi meinta sáttargjörð ríkisstjórnarflokkanna er.

Ég tók eftir því í umræðunni fyrr í kvöld að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson taldi sig mega vænta þess að hann fengi fræðilegan fyrirlestur um auðlindanefnd og hvað hún hefði lagt til. Ég vil ekki valda honum vonbrigðum með því að nefna það ekki í ræðu minni --- að því mun koma --- en ég vil að gefnu tilefni rifja það upp fyrir hv. þm. Einar Odd Kristjánsson að líklega hefur hann á sínum tíma samþykkt að auðlindanefnd yrði til. Það gerði sú sem hér stendur hins vegar aldrei. Ég sat hjá eins og aðrir jafnaðarmenn þegar hér var ákveðið að setja auðlindanefnd á koppinn. Mín tilfinning var strax í upphafi sú að þarna væri verið að hleypa af stokkunum ákveðnu leikriti, ákveðinni töf. Ég vil minna á að þetta var ári eftir að hæstv. forsrh. taldi að ef menn vildu fara út í veiðileyfagjald væri það lítið mál ef menn væru tilbúnir að hafa það svo sem eins og 1 milljarð. Það væri eins og lítils háttar skattbreyting, vel innan skekkjumarka --- sem sé kannski sú niðurstaða sem við sitjum uppi með í dag. Ég hafði a.m.k. á tilfinningunni á þessum tíma að hér væri rétt einn loddaraleikurinn að fara í gang þannig að ég sat hjá við afgreiðslu þessa máls ásamt ýmsum fleiri þingmönnum en ríkisstjórnarflokkarnir höfðu stokkið á málið og fannst að þarna væri komin ágæt lausn til að setja þetta mikla deilumál, deiluna um hvort útgerðin ætti að greiða fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind, bara í nefnd og salta það þar fram yfir kosningar. Þetta var vorið 1998.

Það stóð enda að nefndin hafði engu skilað af sér vorið 1999 þegar komnar voru alþingiskosningar. Þá hafði ýmislegt gerst sem hafði haft áhrif á störf þessarar nefndar sem ég vil taka fram að var af hálfu stjórnarflokkanna prýðilega skipuð mönnum sem var mjög ánægjulegt og gefandi að vinna með. Ýmislegt hafði samt gerst í ferlinu sem hafði áhrif á viðhorf manna, ekki bara til þess hvort útgerðin ætti að greiða fyrir aðgang að auðlindum eða hvort þeir sem fengju að nýta náttúruauðlindir okkar Íslendinga ættu að greiða fyrir það heldur líka hvernig. Það var hinn svokallaði Valdimarsdómur sem féll haustið 1998 og gerði mönnum ljóst að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar var farin að virka inn í dóma með öðrum hætti en reiknað hafði verið með. Hún varð þess vegna að mörgu leyti það leiðarljós sem menn höfðu kannski ekki gert ráð fyrir í upphafi nefndarstarfsins.

Í framhaldi af niðurstöðu Hæstaréttar var lögunum um stjórn fiskveiða síðan breytt. Þing var kallað saman fljótlega eftir áramótin 1998/1999 og lögunum um stjórn fiskveiða var þá breytt. Þar kom inn þetta ákvæði um endurskoðun laganna. Ákvæðið kom inn þá vegna þess að bæði ég og ýmsir fleiri töldu að svo mikið væri búið að krukka út og suður í lögin og sumt í svo miklu hasti að tímabært væri að menn færu yfir löggjöfina og skoðuðu hvort hlutir stæðust innbyrðis. Svona virka þeir hver á móti öðrum. Þetta bráðabirgðaákvæði í lögunum varð stjórnarflokkunum hins vegar tilefni til þess að lofa sáttum í málinu, að sú nefnd sem yrði skipuð á grundvelli þessa bráðabirgðaákvæðis yrði nefndin sem kæmi í kjölfar auðlindanefndarinnar með hina einu sönnu niðurstöðu. Eftir henni er enn beðið. Þessi nefnd skilaði nokkrum álitum og miðað við forsögu málsins er afskaplega hæpið að tengja þetta frv. sjútvrh. og þau atriði sem þar eru inni við þá vinnu sem á undan hafði verið unnin. Það er hægt með góðum vilja og nokkru ímyndunarafli vegna þess að mér sýnist, herra forseti, eins og ég sagði áðan að hér séum við kannski að gera það sem hæstv. forsrh. sagði 1997, við erum að fara í minni háttar skattbreytingu innan skekkjumarka. Í leiðinni eru menn svo að fikta í einu og öðru sem þeir geta fundið stað í tillögum nefnda en þó jafnan í öðru samhengi.

Ég vildi aðeins nefna þetta áður en ég færi inn í minn fræðilega fyrirlestur um niðurstöður auðlindanefndar fyrir hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. En ég vil líka, herra forseti, áður en lengra er haldið tala svolítið um sértækar aðgerðir í atvinnumálum. Núna, þegar fyrir liggur að hæstv. ríkisstjórn vill koma með 20 milljarða kr. ríkisábyrgð fyrir fyrirtæki sem ætlar að vera með nýjungar í atvinnulífi eða eftirsóknarverðar breytingar, hafa menn hrokkið upp við það að einhvern tíma snemma á ferli sínum mun hæstv. forsrh. hafa sagt að héðan í frá væri öllum sértækum aðgerðum í atvinnulífinu lokið. Þetta var þegar menn voru rétt að byrja að uppskera eftir þjóðarsáttarsamninga. Þjóðarsátt og EES-samningar voru að byrja að skila og ríkisstjórnin reið bylgju velgengni í efnahagsmálum. Þá var svo auðvelt að vera billegur og segja slíka hluti, að nú væri tíma sértækra aðgerða í atvinnulífinu lokið. Menn trúðu þessu, það er svo skrýtið vegna þess að síðan hafa menn stöðugt verið á kafi í sértækum aðgerðum í atvinnulífinu.

Þetta frv. sem hér liggur fyrir er alveg ótrúlega sértæk aðgerð í atvinnulífinu að ýmsu leyti. Við sem sitjum í sjútvn. erum búin að sjá þau nokkur á þessum árum. Við höfum líka tekið þátt í að vinna frv. sem hafa orðið að lögum um stækkanir á álverum eða ný álver þar sem allt morar í ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum vegna þess að þessi fyrirtæki hafa ekki getað lotið íslenskum skattareglum og hafa þurft að fá ýmis sérákvæði. Auðvitað hafa líka verið veittar ríkisábyrgðir og menn hafa verið tilbúnir til þess vegna þess að ef menn hafa viljað fá erlenda fjárfestingu inn í landið --- sem okkur finnst ýmsum eftirsóknarverð ---- virðist hún ekki geta komið í nokkrum mæli inn á markað nema með sértækum aðgerðum, ríkisábyrgð og ýmiss konar þrátt-fyrir-ákvæðum vegna skattalaga okkar þannig að þetta með sértæku aðgerðirnar í atvinnulífinu hefur hreint ekki stoppað. Ég hef satt að segja verið dálítið undrandi þegar ég hef séð menn sem ég hef talið að fylgdust bærilega með, jafnvel athafnamenn sem hafa tekið sig til og komið sér fyrir í Sjálfstfl., sitja jafnvel á Alþingi fyrir Sjálfstfl., koma í ræðustól og tala eins og þeir hafi bara ekki orðið varir við sértækar aðgerðir í atvinnulífinu fyrr en allt í einu núna að þeir virðast hafa afgreitt það út úr þingflokkum sínum að fara í 20 milljarða kr. ríkisábyrgð fyrir fyrirtæki úti í bæ.

Þetta er smáinngangur að því sem mig langar til að fjalla um líka, herra forseti, sem hluta af því máli sem hér er verið að fjalla um en það er markaðsvæðing atvinnulífsins. Menn halda nefnilega líka að þeir hafi verið að markaðsvæða atvinnulífið, jafnvel tala menn dálítið um að hér hafi verið einkavætt eitthvað að gagni enda þótt sú skýrsla sem tekin var saman um breytingar á eignarhaldi og samkeppni í atvinnulífinu hafi leitt hið öndverða í ljós, þ.e. að á sama tíma og hið almenna atvinnulíf í landinu hefur stækkað um þriðjung hefur umfang ríkisins vaxið mun meira á tilteknu árabili á undanförnum árum.

Niðurstaðan er sú að mikil ríkisvæðing hefur átt sér stað á Íslandi á þessum tíma. Það hve mikið menn hafa talað um einkavæðingu hefur kannski blekkt og menn halda að hér hafi einhver býsn verið einkavædd en þegar málið er skoðað kemur í ljós að þetta er misskilningur. Þetta er líka ein af þessum sérkennilegu niðurstöðum þegar menn skoða hvernig íslenski markaðurinn er. Þó að menn hafi verið að háeffa fyrirtæki, og hafi jafnvel ekki tekist að selja þó að þeir hafi ætlað sér með háeffinu, hafa menn varast það eins og heitan eldinn að skapa þær aðstæður að hér gæti orðið samkeppni á markaði. Við erum með fyrirtæki og heilu atvinnuvegina sem bera ákveðin sameiginleg einkenni, og útgerðin er hluti af þessu umhverfi. Þetta eru fyrirtæki þar sem lánin hafa verið með ríkisábyrgð, fjárfestingarnar hafa verið ábyrgðar, ekki kannski bara með ríkisábyrgð heldur líka með bæjarábyrgðum. Þetta eru fyrirtæki eða heilu atvinnuvegasviðin þar sem opinberir styrkir og fjárframlög hafa verið alfa og omega.

Varðandi útgerðina vil ég nefna að ágætir hagfræðingar sem hér er stundum vitnað til, t.d. bandaríski hagfræðingurinn Gary Becker og sá íslenski, Benjamín Eiríksson, hafa verið sammála um að úthlutun veiðiheimilda án þess að menn greiddu fyrir þær væri ekkert annað en ríkisstyrkur. Þær atvinnugreinar eða fyrirtæki hafa haft ákveðna einokun, og menn vita að einokun hefur ákveðið peningavirði. Þessi fyrirtæki hafa verið ríkisbankarnir eins og menn þekkja, Landssíminn, orkufyrirtækin og útgerðin. Þau hafa öll þessi einkenni.

Þegar menn fóru í það að leita eftir heimild til að selja Landssímann var alveg ljóst að menn ætluðu að selja einokunina. Menn ætluðu ekki að búa fyrirtækið þannig úr garði eða selja það með þeim hætti að hér gæti orðið til alvörusamkeppni á markaði, fjarri því. Sama er með ríkisbankana. Í rauninni var mjög merkilegt að upplifa það að mönnum datt helst í hug að byrja á því að sameina ríkisbankana áður en þeir yrðu seldir til að fullkomna einokunarstöðu þeirra.

[22:00]

Varðandi orkufyrirtækin sýnist mér, miðað við það frv. sem liggur fyrir til nýrra raforkulaga og það hvernig menn ættu að fara í þá hluti, að þar standi ekki til að breyta neinu í þeirri stöðu sem uppi er. Ens og menn þekkja eru stór fyrirtæki eins og Landsvirkjun með alla bestu virkjanakostina og síðan eru önnur fyrirtæki sem eru meira og minna ráðandi í dreifingu og sölu á orku til neytenda. Það er sem sagt ákveðin verkaskipting þar á markaðnum og einokun. Jafnvel þó að menn séu að tala um samkeppni sýnist mér að ekki eigi að skapa þá stöðu að hún geti orðið nema að mjög takmökuðu leyti.

Þegar við komum svo að útgerðinni sýnist mér að menn forðist það ekki síst eins og heitan eldinn að þar geti átt sér stað samkeppni. Í Morgunblaðinu á laugardaginn var grein eftir Guðmund Örn Jónsson verkfræðing sem spyr þessarar spennandi spurningar: Hvernig verða Íslendingar ríkasta þjóð í heimi? Hugmyndir hans eru ekki að gera Ísland að vettvangi auðhringa eða eins konar Las Vegas norðursins eins og menn hafa heyrt frá sumum hugmyndafræðingum ríkisstjórnarinnar. Nei, hann bendir á að þjóðir sem hafa náð miklu forskoti byggi á ákveðinni sérhæfingu og ákveðinni þekkingu umfram aðrar. Það má kannski segja að við höfum það að ákveðnu leyti þegar sjávarútvegur er annars vegar. Hann getur þess að það hafi tekið þær þjóðir langan tíma að byggja upp forskot sitt og það forskot byggist á aðgengi að nauðsynlegum framleiðsluþáttum, bæði hráefni og þekkingu. Með því að leggja áherslu á það sem þjóðirnar eru bestar í gætu þær náð ákveðnu forskoti. Menn næðu því ekki með því að gera eins og aðrir heldur öðruvísi. Þetta er svipað og við erum að upplifa hvað listamenn okkar varðar. Þeir sem ná árangri eru þeir sem gera hlutina öðruvísi. Síðan getur hann þess að eitt sé sameiginlegt með þeim öllum og það er öflug samkeppni á innanlandsmarkaði sem einkennist af leikreglum sem stuðla að nýliðun. Þetta er mjög athyglisvert. Inngangur þessa pistahöfundar Morgunblaðsins er einmitt byggður á því að hann er að velta fyrir sér hvaða fyrirkomulag menn leggja til varðandi útgerð á Íslandsmiðum.

Hann getur þess að trygging árangurs í viðskiptum með sérleyfum í stað samkeppni takmarki þjóðarauðinn vegna þess að það hindri nýliðun og þar með framfarir. Hann bendir líka á að takmarkanir á nýliðun hafi áhrif á áhuga fólks á því að mennta sig í tilteknum greinum. Ég tók eftir því áðan, herra forseti, að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vildi gjarnan nefna menntamálin í tengslum við sjávarútvegsmál. Það er eðlilegt að menn hafi áhyggjur af því hvernig sú þróun hefur verið, hvernig áhugi ungs fólks hefur dvínað á því að mennta sig til starfa í sjávarútvegi. Er þá sama hvort um er að ræða útgerð eða fiskvinnslu. Í þessari grein er getum leitt að því að þegar menn átti sig á því að möguleikar á nýliðun séu takmarkaðir þá dvíni áhugi þeirra einfaldlega á því að mennta sig í viðkomandi grein vegna þess að menn fara hvorki að eyða tíma né peningum í að mennta sig inn á svið sem þeir síðan komast kannski aldrei að við. Þessi maður, Guðmundur Örn Jónsson, endar á því að benda á að fyrningarleiðin gæti verið leið okkar til þess að hafa hér jákvæðari áhrif og spyr hvort verið geti að skortur á nýjum mönnum með nýjar hugmyndir sé farinn að hafa áhrif á útgerðina í þá veru að afkoman sé lakari en hún þyrfti að vera.

Herra forseti. Mér finnast þessar spurningar og hugleiðingar allar vera mjög gildar inn í þá umræðu sem hér fer fram. Ég fór yfir þá þætti sem lúta að samkeppnis- og markaðsvæðingu vegna þess að mér fundust þeir vera í mjög góðu samhengi við það sem hér er leitt til þeirrar niðurstöðu að ef menn ætla að stunda hér arðbæran sjávarútveg, ef menn ætla þessari atvinnugrein að vera áfram sá burðarás sem hún hefur verið í efnahagslífi þjóðarinnar þá þurfi þeir að vera menn til þess að innleiða þá samkeppni sem nauðsynleg er til þess að við séum með þá við vinnuna sem hæfastir eru hverju sinni og að einhverjir vilji mennta sig fyrir greinina. Ég kann að koma að þessu síðar, herra forseti. En nú ætla ég að víkja aðeins að umfjöllun um byggðaþróun og byggðamál í tengslum við sjávarútvegsmál.

Eitt af því sem menn hafa mjög mikið rætt og notað sem rök fyrir skoðunum sínum þegar þeir fjalla um þær á Alþingi og víðar er staða byggðarlaganna vegna stjórnkerfis fiskveiða. Ég er sammála því að kvótakerfið hefur haft ákveðin mjög sársaukafull félagsleg áhrif á ýmsar byggðir í landinu. Atvinnuháttabreytingar hafa tilhneigingu til þess að taka mjög á. Það er afskaplega erfitt að þurfa að upplifa það þegar staðir þurfa félagslega að raða sér upp á nýjan leik. Hér var í dag talað um litla og stóra sægreifa eða kvótakónga og það er alveg ljóst að þessir litlu taka ekki minna í en þeir stóru þegar um það er að ræða að fólki finnist óeðlilegt hvernig fjármunir skiptast, hvernig völd í framhaldi af því skiptast, hverjir hafa vald á lífi þess og framtíð, hverjir hafa það í hendi sér í rauninni að svipta það aleigunni sem gjarnan liggur í húseign vegna þess að við vitum það auðvitað að húseignir hafa tilhneigingu til þess að lækka í verði og jafnvel verða verðlausar þar sem atvinnan er lítil og stefnir í að verða jafnvel engin.

Því segi ég að það er alveg ljóst að kvótakerfið hefur haft mjög erfiðar félagslegar afleiðingar og efnahagslegar afleiðingar fyrir þá sem fyrir því hafa orðið að staðurinn sem þeir treystu á og ákváðu að setja sig niður á reyndist ekki lengur sú miðstöð atvinnu sem vænst hafði verið.

Ég vil hins vegar andmæla þeim sem telja að eitthvað sem heitir byggðakvóti geti verið lausn á þessu máli. Ég held að sú aðferð að reyna að líkja sem mest eftir því ástandi sem var áður en kvótakerfið komst á sé í rauninni eina aðferðin sem er boðleg. Hvað er ég þá að tala um? Jú, þá er ég að tala um að allir greiði fyrir veiðiheimildirnar, að við viðurkennum það sem allir verða að viðurkenna og engin leið er fram hjá. Þó að menn reyni að tala eins og hér sé enn opinn aðgangur að auðlindinni og allir geti veitt og haft það eins og þeim sýnist þá skulum við viðurkenna það í þessari umræðu að veiðiheimildir, veiðirétturinn er kominn með ákveðið verðgildi. Ég hefði alla vega gaman af að heyra rökstuðning fyrir því að frá því yrði bakkað. Það held ég að verði ekki gert, herra forseti. Ef við viljum leyfa byggðum landsins að njóta nálægðar við auðug fiskimið, auk þess að njóta þeirrar þekkingar og getu sem er heima fyrir, sem hefur alltaf verið grundvöllurinn fyrir því að byggð gæti orðið til á Íslandi, byggðin við ströndina, þá þurfum við að bæta þessum þætti inn, þ.e. þeim þætti að viðurkenna að fyrir veiðirétt þarf að borga. Því er sú aðferð að bjóða veiðiréttinn út í raun eina aðferðin sem brúkleg er, nothæf. Öðruvísi getur þetta ekki gerst. Allar aðrar aðgerðir eru alltaf með eitthvað sértækt í farteskinu, stundum meira að segja eitthvað mjög sértækt, eins og byggðakvóta og endalausar breytingar á smábátakerfi, þ.e. það sem við höfum verið að takast á við á undanförnum árum.

Þjóðhagsstofnun skilaði skýrslu til endurskoðunarnefndarinnar um stjórnkerfi fiskveiða og byggðaþróun. Þessi skýrsla er ekki mikil að vöxtum. Þær hafa margar sést stærri sem fjalla um þessi mál. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að mönnum hefur ekki gengið neitt óskaplega vel að sanna að kvótakerfið eitt og sér hafi hin afgerandi áhrif á færslu veiðiheimildanna. Áður en það kom til skjalanna voru menn að kaupa og selja skip og það var kannski mannauðurinn þá eins og nú sem endanlega réði, þ.e. hvað menn höfðu mikinn kjark og getu. Ég ætla á eftir að vitna í Guðna Einarsson frá Súgandafirði svona rétt til þess að undirstrika það vegna þess að mér finnst athyglisvert það sem hann er að segja. Menn hafa alla vega í leit sinni að samkvæmni í kvótakerfi annars vegar og breytingum á byggðunum hins vegar þurft að horfa til þess að þetta samband er miklu flóknara en svo að eingöngu sé hægt að kenna stjórnkerfi fiskveiða um. Menn verða auðvitað að horfa til þess að byggðin í landinu, byggðin við ströndina, tók á sig þá mynd sem hún gróft byggir á enn í upphafi síðustu aldar. Kannski má segja að ártalið 1902 sé það ártal sem skiptir máli, en þá var, eins og menn þekkja vel, sett vél í fyrsta bátinn vestur á Ísafirði. Segja má að byggðin í landinu hafi síðan þróast með tilliti til þess hvaðan best var að gera út á vélbátum. Auðvitað hefur ýmislegt gerst á þessari vegferð. Menn hafa m.a. gjarnan viljað horfa til þess hvaða breytingar voru gerðar um 1970 sem urðu til þess að menn hættu að fara á vertíð og farið var að taka fiskinn allt í kringum landið í meira mæli en áður hafði verið. Öld skuttogara gekk í garð. Alla vega er alveg ljóst að tæknin hefur ráðið því að stórum hluta hvaðan hefur verið gert út og hvaðan ekki hefur þurft að gera út lengur. Þær eru ýmsar verstöðvarnar sem menn notuðu áður en vélar voru settar í báta sem eru löngu komnar í eyði sakir þess að menn þurftu ekki að notfæra sér þá aðstöðu sem í því fólst að gera út frá þeim tilteknu stöðum af því að hægt var að gera það betur frá öðrum stað eftir að tæknin hafði komið manninum til aðstoðar.

Þannig mun þetta verða áfram. Það er alveg ljóst að sókn mannsins eftir betri lífskjörum ræður því hvernig byggðin þróast. Við getum út af fyrir sig reynt að hafa áhrif á það tímabundið en ég er nokkuð viss um það, herra forseti, að það er fyrst og fremst töf sem við erum að setja inn en ekki breyting. Þessu snúum við ekki til baka. Ýmsir aðrir hlutir skipta mun meira máli og ég mun koma að þeim á eftir.

[22:15]

En a.m.k. er ástæða til að fara yfir helstu niðurstöður Þjóðhagsstofnunar. Nú fer að verða hver síðastur að vitna til hennar, trúi ég, a.m.k. hvað varðar nýrri plögg, en helstu niðurstöður Þjóðhagsstofnunar, sem eins og ég sagði skrifaði greinargerð fyrir endurskoðunarnefndina, eru þær að samband búsetuþróunar og fiskveiðistjórnarkerfis sé afar flókið. Að öðru leyti eru helstu niðurstöður þessar, með leyfi forseta:

,,Hlutdeild samdráttarstaðanna í veiðiheimildum í þorski hefur minnkað verulega á undanförnum árum en hlutdeild vaxtarstaðanna hefur aukist á sama tíma.``

Á mannamáli þýðir þetta að það eru staðir á Íslandi sem hafa þróast á þann hátt að þar hefur útgerð verið að dragast saman af ýmsum ástæðum og hins vegar eru aðrir staðir þar sem útgerð hefur verið að aukast. Við getum velt því fyrir okkur hvort þetta hefði ekki gerst ef kvótakerfið hefði ekki komið til. Hefðu menn þá ekki keypt og selt skip? Hefði það ekki þróast þannig að sumir staðir hefðu ekki getað ráðið við í rauninni það sem þeir voru búnir að takast á hendur? Við vitum að hin mikla togara- og frystihúsavæðing gerðist auðvitað með þeim hætti að staðir sem höfðu ekki nokkurt afl til þess að takast á við það voru skyndilega komnir með tvo togara og stærðarinnar frystihús, höfðu aldrei hvorki mannskap, þekkingu né fjármagn til þess að ráða við slík verkefni. Ég endurtek spurninguna: Hefði þetta ekki getað gerst nema af því að kvótakerfið kom til sögunnar?

Það er einn ágætur hagfræðingur, Ásgeir Jónsson, sem vinnur á Hagfræðistofnun sem hefur skrifað greinar um byggðaþróun þar sem hann leiðir að því getum að það sem sé að gerast núna sé kannski fyrst og fremst það að menn eru að hoppa aftur fyrir hinar miklu fjárfestingar sem urðu við togara- og frystihúsavæðinguna eftir 1970, þær miklu fjárfestingar sem því miður var takmörkuð innstæða fyrir einfaldlega vegna þess að miðin voru takmörkuð. Sú mikla fjárfesting varð meiri en þeir staðir réðu við þó þeir séu nú á síðari árum beinlínis að aðlagast þeirri getu sem er þeim svona náttúrleg, bæði hvað varðar þekkingu, mannfjölda og möguleika á fjármögnun. Það sé hins vegar eins og við vitum afskaplega sárt að þurfa að aðlagast með þessum hætti. En á þeim stöðum sem hafi fyrstir gengið í gegnum þessa aðlögun og séu búnir að ná nýjum tökum á því hvernig sérstaða þeirra nýtist sé ástandið e.t.v. best. Annars staðar, þar sem þetta er að ganga yfir núna, sé ástandið mun erfiðara. Hvort sem þessi kenning Ásgeirs Jónssonar er rétt eða ekki er full ástæða til að nefna hana. Ég hef sjálf lengi haft það á tilfinningunni að þarna hafi verið farið fram með miklu offorsi, allt of miklu. Í rauninni hafi verið allt of mikið á marga litla staði lagt, staði sem höfðu kannski 300 íbúa, að ætla þeim að reka bæði tæknivæddan togara og tæknivædda fiskvinnslu, kannski tvo togara til þess að jafna hráefnisöflunina. Þetta var fyrir tíma fiskmarkaðanna og sums staðar má segja að þetta ævintýri hafi algerlega rústað þeirri menningu sem var á þessum stöðum. Ég er þó ekki að álasa þeim sem ákváðu að fara í þennan leiðangur á sínum tíma, menn héldu að sjálfsögðu að þetta væri það sem gæti dugað til lengri tíma. Þarna voru menn líka vanir því að vera með ríkisábyrgðir, jafnvel meira en 100%, og menn gátu tekið kannski stærri áhættu að ýmsu leyti en þeir mundu gera í dag. Þarna voru menn líka dálítið duglegir við að handstýra genginu eftir því hvernig á stóð og hið opinbera tók ábyrgð á fiskverði og þar með á bæði útgerð og fiskvinnslu.

En svo ég víki aftur að helstu niðurstöðum Þjóðhagsstofnunar, þá er það næsta sem hér er sett fram, með leyfi forseta:

,,Samband milli úthlutaðra og raunverulegra veiðiheimilda er margslungið, m.a. vegna þess hversu algengt er að útgerðarmenn breyti þeim með leigu og flutningi milli skipa sem geta verið gerð út frá mismunandi stöðum.``

Hér er á mannamáli verið að segja það sem oft hefur verið rætt, að atvinna á einstöku stað fer ekki endilega eftir því hversu mikill kvóti er eyrnamerktur staðnum vegna þess að menn hafa aðrar leiðir nú en þeir höfðu áður til þess að afla sér hráefnis til vinnslu og menn landa víðar en þeir gerðu. Þó er e.t.v. of mikil alhæfing fólgin í því að segja að menn landi víðar en þeir gerðu vegna þess að ef við förum aftur fyrir 1970, þá fóru menn mjög mikið á vertíð og lönduðu annars staðar og aflinn var unninn annars staðar. Það væri fróðlegt í rauninni að gera samanburð á því ástandi og ástandinu sem er núna, 30 árum síðar.

En a.m.k. er alveg ljóst að samhengið á milli atvinnu í landi og þess hvort kvóti er vistaður á staðnum er tiltölulega flókið og oft óljóst. Menn eru kannski tilbúnir til að rifja það upp hversu mikið írafár var þegar fyrsta byggðakvótanum var úthlutað og í ljós kom að á stað eins og Ólafsfirði, þar sem fiskvinnsla í landi stóð mjög höllum fæti, fékk engan byggðakvóta og á því var vakin rækileg athygli, er vistaður mjög mikill kvóti, líklega kvóti einna fimm frystitogara. Þar hefur hins vegar verið tekin sú ákvörðun að sá afli væri unninn úti á sjó. Þetta samband er því ekki alveg einfalt.

Það næsta sem segir í helstu niðurstöðum Þjóðhagsstofnunar, með leyfi forseta, er: ,,Ráðstöfun afla hefur breyst verulega á undanförnum árum. Á mesta samdráttartímanum lagðist útflutningur á óunnum afla nær alveg af. Útgerð verksmiðjuskipa hefur breytt ráðstöfun afla, en á þeim stöðum sem hér eru til athugunar er sú breyting ekki umtalsverð. Mesta breytingin er á því hversu miklu meiri afli fer til vinnslu utan heimahafnar skips.``

Hér er, herra forseti, áfram fjallað um það sem ég reifaði á undan, þ.e. hversu ráðstöfun afla hefur breyst kannski innan þessara 30 ára frá 1970 og sömuleiðis þær breytingar sem hafa orðið varðandi siglingar með fisk. Reyndar hefur ýmislegt verið gert til þess að hamla því að miklar siglingar væru með fisk en alltaf er þó tilhneiging til þess og hv. þm. Gísli S. Einarsson vakti á því athygli í ræðu sinni að það væri kannski ekkert sem væri hægt að kalla markaðslögmál sem réði því hvort útgerðarmenn kysu að flytja fiskinn á erlenda markaði eða selja hann á innlendum mörkuðum vegna þess að enda þótt verðið hér heima væri til muna hærra væri eigi að síður siglt með fiskinn. Hann hefur verið að kalla eftir upplýsingum um af hverju. Ég hef sjálf tekið þá umræðu upp áður og finnst full ástæða til að halda henni við og finnst gott að hv. þm. Gísli S. Einarsson skuli ganga af slíkri ákveðni fram í málinu því að sannarlega er eitthvað á ferðinni sem þarfnast frekari útskýringa.

Í fjórða lagi eru helstu niðurstöður Þjóðhagsstofnunar, með leyfi forseta: ,,Störfum í sjávarútvegi hefur fækkað á samdráttarstöðunum en fjölgað á vaxtarstöðunum. Samdrátturinn í sjávarútvegi virðist þó vera hluti af almennum samdrætti á samdráttarstöðunum enda er fækkun sjávarútvegsstarfa 38% af heildarfækkun starfa. Á vaxtarstöðunum hefur störfum í öðrum greinum ekki fjölgað þótt sjávarútvegurinn hafi eflst. Skýringanna er að einhverju leyti að leita í því að framleiðsluatvinnugreinar hafa dregist saman.``

Herra forseti. Það er ekki bara að aðrar framleiðsluatvinnugreinar hafi dregist saman heldur hafa þau störf sem unnin eru í sjávarútvegi einfaldlega dregist saman. Það er mikill munur á því hversu marga þarf til þess að afla og vinna við útgerð eða fiskveiðar nú eða fyrir 25--30 árum. Þarna hefur tæknin að mörgu leyti leyst mannshöndina af hólmi og enda þótt minna sé flutt út af fiski og meira sé unnið í landinu, þá eru mun færri sem þarf til þeirrar vinnslu þrátt fyrir að mjög stór hluti af því hráefni sem nú er unninn er fullunninn. Sá draumur hefur ræst mjög víða að aflinn er unninn nánast á disk neytandans. En af því að tæknin hefur svo víða komið inn hefur því fólki fækkað sem þarf beinlínis til þess að vinna við úrlausnina.

Á sama tíma hefur öðrum störfum auðvitað fjölgað, ýmsum þjónustustörfum í kringum þetta, tæknistörfum, því að öll þessi tækni þarf auðvitað sérhæfða starfsmenn til þess að viðhalda og vinna, og störfum í ýmiss konar rannsóknum hefur líka fjölgað. Þau störf hafa því miður ekki orðið til á sjávarútvegsstöðunum, a.m.k. ekki á þeim minni. Þau voru til á stærri stöðunum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. En Ísland hefur eins og menn vita haft ákveðna forustu á ýmsum sviðum hvað varðar þróun ýmiss búnaðar í sjávarútvegi sem síðan hefur verið yfirfærður í aðrar atvinnugreinar. Ég nefni fyrirtæki eins og Marel og Sæplast sem byrja heima vegna þess að heimamarkaðurinn er stór og góður og selja nú vörur sínar ekkert síður í annan matvælaiðnað.

Ég vil líka nefna, herra forseti, að á Ísafirði hefur jafnan verið unnið mjög merkilegt þróunarstarf hvað varðar tækni í sjávarútvegi, tækni til þess að leysa mannshöndina af hólmi í fiskvinnslu. Þannig gerist þetta einfaldlega. Þeim störfum sem unnin eru með höndunum hefur fækkað, en þeim störfum hefur fjölgað þar sem þekking og tækni hafa tekið við. Þar af leiðandi hefur orðið samdráttur á ýmsum þeim stöðum þar sem fólkið hefur ekki haft annað að hverfa til, ég tala ekki um þegar á sama tíma hefur gerst að landbúnaður hefur verið í umtalsverðum breytingum einnig og samdrætti.

Herra forseti. Ég undirstrika að þetta samband á milli fiskveiðistjórnarkerfis og byggðaþróunar er afskaplega flókið, en ég endurtek það sem liggur algerlega ljóst fyrir að mínu mati en það eru hin erfiðu félagslegu áhrif sem sannarlega hafa grafið undan tiltrú fólks á möguleikum þess að það gæti átt framtíð á tilteknum stöðum þar sem óöryggi er meira en víða annars staðar, þar sem ekki er að neinu öðru að hverfa ef sjávarútvegurinn lætur undan síga.

Menn hafa að sjálfsögðu vikið að upphafi kvótakerfisins og talað um að kvótakerfið hafi brugðist af því að fiskverndarloforðin hafi ekki ræst. Ég veit ekki hvort þeir aðilar sem svona tala hlustuðu aldrei á sömu ræðurnar og ég eða hafa ekki lesið sömu pistlana eða sömu þingræðurnar, en sannarlega var það svo, herra forseti, að þeir voru býsna margir sem gerðu sér algerlega grein fyrir því hvers konar kerfi þetta var þegar verið var að koma því á. Það voru til menn sem voru beinlínis búnir að tala fyrir þessu kerfi af því að þeir gerðu sér mætavel grein fyrir hinum efnahagslegu afleiðingum þess. Þeir vissu að það var ákveðin markaðsvæðing sem fólst í þessu kerfi og það er hún sem var verið að leita eftir. Hitt var svo alveg rétt að þær aðstæður voru nýttar til að koma kerfinu á þegar hægt var að benda mönnum á það að þetta væri á heldur erfiðri siglingu hjá okkur, þetta með að byggja fiskstofnana upp eða halda þeim í góðu jafnvægi. Svartar skýrslur höfðu sést og fiskifræðingar vöruðu við ofveiði.

[22:30]

Svo létu menn segja sér það ár eftir ár að nú væri þetta bara ár í senn, og það var farið yfir í sóknarmark í leiðinni. Smám saman, með eins konar teskeiðaraðferð eða kannski bara súpuskeiðaraðferð vegna þess að skammtarnir voru stundum stórir, var kerfið fest í sessi. Mat mitt er það að frv. sem liggur fyrir og á að ræða um á eftir, um breytingar á lögunum um fiskveiðar utan lögsögu, sé eiginlega staðfesting ríkisstjórnarinnar og þá þeirra sem samþykkja það á því að þetta kerfi hafi haft nokkurn sigur. Kannski allt of stóran sigur vegna þess að þar er, þrátt fyrir að meiri hluti sjútvn. hafi á sínum tíma verið með sérstakan fyrirvara í nál. sínu um að veiðireynslan skapaði ekki forsendur fyrir úthlutun aflahlutdeildar í síldinni, verið að festa það í sessi. Ég fæ ekki betur séð en að þeir aðilar sem voru með varnaðarorðin fyrir nokkrum árum skrifi allir upp á nál. núna þar sem þeir samþykkja málið óbreytt á þeim forsendum að sjútvrh. sé búinn að kvótasetja. Norsk-íslenski síldarstofninn er nú, frá þeim tíma sem búið er að afgreiða það mál, kvótasettur miðað við tilteknar forsendur og enginn sér svo sem fyrir hvernig það muni verða, hversu stór þessi gjöf er, en sumir hafa talað í þingsalnum um gjöf aldarinnar. Ég veit ekki hvort það kom fram í umræðunum á laugardaginn. Það kann að vera. Menn hafa bundið vonir við það að norsk-íslenski síldarstofninn ætti eftir að verða stærri og ganga í ríkara mæli inn í lögsöguna. Það kann að gerast ef það gengur eftir að sjór haldi áfram að hlýna og þessi kalda tunga sem menn hafa talað um að væri eins og veggur á milli Íslands og Noregs léti undan síga og síldin gæti gengið betur inn í lögsögu okkar. Þá eru menn ekki tala um neitt smáræði.

Eins og ég segi, herra forseti, finnst mér einhvern veginn að það mál sé kannski miklu meiri kóróna á það sköpunarverk en hitt málið sem við erum að ræða núna sem er í sjálfu sér bara eitthvert mál ,,lagfæringar`` því að ég verð að segja að mér finnst það sem hér er verið að gera ekki vera til bóta yfirleitt heldur miklu frekar til vansa.

Ég ætla þá, herra forseti, að víkja aðeins að byggðakvótum. Það er alveg ljóst að í þinginu hafa menn mjög gjarnan, þegar þeir hafa viljað sýna hvað þeir eru góðir við landsbyggðina, talað um byggðakvóta og hvað þeir væru mikilvægir. Þeir hafa talað eins og að byggðin sem varð til kannski um aldamótin 1900 væri eftirsóknarverð, menn skyldu líta meira aftur en fram og reyna að halda í þetta eins og það var, þ.e. lemja höfðinu við steininn og neita að horfast í augu við það að byggðaþróunin er ekki alveg svona einföld. Það eru ýmsir fleiri þættir sem spila inn í. Eins og ég gat um áðan eru menn að reyna að tefja fyrir tiltekinni þróun og ég virði út af fyrir sig að menn reyni það þó að mér finnist hins vegar fyrir neðan allar hellur að menn skuli þá ekki reyna að gera hlutina almennilega og fara í það kerfi sem eitt gæti gert ástandið þannig að hinar vænlegri byggðir fengju að njóta nálægðarinnar eins og þær fengu áður en kvótakerfið var sett á með því að veiðirétturinn væri boðinn út. Menn hafa frekar viljað viðhalda þessu einokunarkerfi en hafa síðan dregið undan hluta af veiðiheimildunum og þeim hefur verið úthlutað eftir ýmiss konar reglum undir ýmiss konar fororði.

Fyrsti byggðakvótinn sem var settur á var 500 lesta kvóti sem var úthlutað líklega fyrir kosningar 1999. Nei, nú misminnir mig, herra forseti, sá kvóti var kominn fyrr. Hinn nýi byggðakvóti kemur síðar. Látum kyrrt liggja, menn eru búnir að taka þetta í nokkrum þrepum. Framkvæmdin hefur verið með þeim hætti að orðið ,,byggðakvóti`` er að fá á sig heldur neikvæðan blæ. Auðvitað kemur í ljós að handvirk aðferð eftir þeim leiðum sem þar hafa verið reyndar mælist ekki betur fyrir en sú aðferð sem kvótakerfið almennt byggir á, þ.e. einhvers konar veiðireynslu í flestum tilfellum. Stundum er þó öðrum aðferðum beitt og mig undrar satt best að segja að menn skuli ætla að halda áfram á þessari vegferð eins og gert er í þessu frv. Mig undrar það vegna þess að ég hélt í sannleika sagt að eitthvað væri að marka það sem hæstv. sjútvrh. hefur sagt um þessi mál, og ég hélt að hann fengi einhverju ráðið. Ég hélt líka að ýmsir þeir sem hafa talað, ekki úr þessum ræðustóli heldur kannski meira annars staðar, mundu beita sér til að þessi þróun héldi ekki áfram með þeim hætti sem nú er. En með þessu frv., ef það verður að lögum, og þeim brtt. sem nú liggja fyrir frá meiri hlutanum sýnist mér að ef virt er til peninga, og það eigum við að gera vegna þess að veiðirétturinn hefur orðið verðgildi, séum við komin með á bilinu 6--7 milljarða sem Alþingi er að ákveða að beita með þessum hætti.

Ég spyr sjálfa mig þessarar spurningar: Ef Alþingi hefði 6--7 milljarða kr. til ráðstöfunar og vildi nota þá til að reyna að snúa byggðaþróuninni við, mundum við þá gera það svona? Mundum við kaupa varanlega kvóta og úthluta þeim með þessum tiltekna hætti? Mundi okkur finnast það vera leiðin og lausnin? Það getur vel verið að hér sé einhver hópur sem álítur það og það virðist vera meiri hluti fyrir því að rétt sé að verja 6--7 milljörðum kr. til þess. Ég hefði ekki valið þessa leið. Ég hefði horft á þessi mál frá allt öðrum sjónarhóli. Ég hefði reynt að horfa fram ekki síður en aftur. Ég hefði velt því fyrir mér, herra forseti, hvaða möguleikar, m.a. til atvinnuuppbyggingar, eru líklegir til að gagnast fólki til framtíðar, líklegir til að laða ungt fólk að, líklegir til þess að halda byggðamunstrinu í landinu þannig að við getum viðhaldið ákveðinni byggð með menningu, ekki bara sem safngrip heldur sem lifandi samfélögum fólks sem tækist á við veruleikann núna og í framtíðinni. Að einhverju leyti yrði það að sjálfsögðu tengt sjávarútvegi en ef við hefðum þessa peninga gætum við t.d. sett meiri fjármuni til menntamála, í ferðamál, í menningartengda ferðaþjónustu og í ýmislegt fleira sem menn telja svo mikilvægt. Sé horft til framtíðar hugsa ég að við gætum náð býsna góðum árangri, a.m.k. mjög víða.

Ég gat þess áðan að athyglisvert væri að lesa það sem Guðni Einarsson á Suðureyri segir og fjallað er um í DV í dag. Guðni þessi er býsna kraftmikill maður, býr á Suðureyri og hefur undanfarin ár rekið hausaþurrkunarfyrirtækið Klofning. Hann biður nú Súgfirðinga afsökunar á því að hafa reynt að bjarga sér á eigin spýtur í kvótakerfinu. Hann biðst afsökunar á því að vera svo öflugur að vera sjálfbjarga, að hafa sannað það að á Suðureyri er hægt að gera hlutina. Hvað er maðurinn að meina? Jú, af því að þar voru aðilar, á Suðueyri, sem gátu bjargað sér í þessu kerfi --- eins og sem betur fer gerist víða --- fékk Suðureyri engan byggðakvóta. Hvað er hér verið að segja? Guðni segir í samtali við DV að hann sé mjög ósáttur við að það sem hann er að reyna að gera sé látið bitna á öðrum.

Herra forseti. Mér finnst í rauninni það sem þarna kemur fram vera einhver stærsti dómur sem felldur hefur verið yfir þessum handstýrðu reddingum sem eru í gangi, harðasti dómur vegna þess að hér er beinlínis verið að tala um það sem hefur svo sem verið nefnt áður en menn virðast ekki hafa áhuga á að taka mark á, að þessi handstýrða aðferð við hliðina á hinni skekkir allar samkeppnisforsendur. Hún breytir í rauninni viðhorfum manna að ýmsu leyti. Hún gerir það að verkum að þeir sem hafa verið að beita þekkingu sinni og hugviti til að gera hlutina enn þá betur til hagsbóta fyrir samfélagið allt þurfa kannski ekki að gera það. Eða hver eru skilaboðin? Hver eru skilaboðin í þessu kerfi sem við erum með? Mér finnst, herra forseti, full ástæða til að menn velti þessu mjög alvarlega fyrir sér.

Af því að Guðni er frá Suðureyri sem er einn af þessum stöðum fyrir vestan sem fengu hina miklu togara- og frystihúsalausn á sínum tíma en hafa nú náð sér á strik á sínum forsendum er líka ástæða til að fara aðeins yfir það hvaða þátt ýmsir þingmenn Vestfirðinga hafa átt í ýmsum breytingum á lögunum um stjórn fiskveiða á undanförnum árum. Einn þeirra sagði áðan að þetta væri alls ekki komið á enda. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson orðaði það svo hér fyrr í kvöld að menn skyldu ekki halda að frv. sem hér væri verið að fjalla um væri eitthvað endanlegt í þessum efnum. Áfram yrði haldið við að breyta og laga og taka til hendinni. Ég á heldur ekki von á því að þetta verði síðasta breytingin vegna þess að mér hefur fundist að þingmenn Vestfirðinga sem hafa verið í stjórnarmeirihlutanum hafi allan tímann gengið þannig fram að lýsa yfir mikilli óánægju með ríkjandi kerfi og skapa nokkra spennu í kringum það. Síðan hafa hrossakaupin orðið og þeir hafa náð nokkrum árangri fyrir tiltölulega þröngan hóp. Ég veit ekki hvort hægt er að nefna alla með nafni sem stundum hafa notið þessa en a.m.k. hefur aðferðin verið þessi. Síðan er skilin eftir smáglufa sem hægt er að víkka aðeins út og halda áfram að þróa kerfið með tilteknum hætti og svo hefst sami leikurinn upp á nýtt. Alltaf koma ný frv. og alltaf koma nýjar breytingar og enn kemur frv. og áfram verða boðaðar breytingar.

[22:45]

Herra forseti. Þetta er það sem ég hef kallað söguna endalausu. Þarna eiga sér stað afskaplega sértækar aðgerðir í atvinnulífinu og þetta hefur haft þær afleiðingar að við erum býsna mörg með hálfgert óbragð í munninum þegar fjallað er um sjávarútvegsmál í þinginu. Þetta hefur jafnframt haft þær afleiðingar að okkur finnst kannski ekki mikil ástæða til að taka mikið mark á þessum mönnum þegar þeir eru að lýsa yfir andstöðu sinni við kerfið eða skoðunum sínum á þessum hlutum yfirleitt einfaldlega vegna þess að þegar til stykkisins kemur skrifa allir upp á meirihlutaálit, samanber síldina. Allir eru tilbúnir til þess að selja og kaupa. Það hefur eitthvað með veruleikann að gera, heyrðist okkur áðan á hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni sem var að svara öðrum þingmanni Vestfirðinga sem vildi aðeins hreinni línur í málið. En niðurstaðan er þessi, herra forseti: Allir virðast þeir tiltölulega sáttir við kerfið hvað svo sem þeir segja. Þeir hafa hins vegar notfært sér ímyndaða meinta andstöðu sína til þess að ná fram endalausum breytingum á því umhverfi sem ákveðnar tegundir fiskiskipa og báta hafa þurft að búa við. Þar á enginn endir að vera á. Það stendur ekki til að þessi atvinnugrein fái það umhverfi sem hún á skilið og ekki stendur til að þessi atvinnugrein búi við samkeppni eða eðlilega viðskiptahætti. Það stendur ekki til að þessi atvinnugrein fái öruggt starfsumhverfi. Hér verður haldið áfram að versla. Hér munu hrossakaupin áfram eiga sér stað. Hér hefur ekkert breyst.

Byggðakvótar eru síðan alfa og omega í þessum kaupskap öllum saman og nú eru þeir að verða varanlegir og smákóngar öðlast enn meiri völd en þeir höfðu áður. Til þess var jú leikurinn gerður, eða hvað? Nei, herra forseti. Það er heldur ógeðfellt í rauninni að taka þátt í umfjöllun um þessi mál eins og þau hafa þróast og ótrúlegt hvað menn leyfa sér þegar um er að ræða jafnmikilvæga atvinnugrein og íslenskan sjávarútveg.

Ég ætla að víkja að frv. sem hér liggur fyrir með beinni hætti en ég hef gert. Ég hef frekar verið að fjalla um umgjörðina. En ég ætla að víkja að frv. sjálfu og fara yfir greinar þess að svo miklu leyti sem ástæða er til að fjalla um þær sérstaklega. Sumar eru tiltölulega einfaldar. Snúast kannski fyrst og fremst um að fella eigi niður tilteknar greinar tæknilegs eðlis. Alla vega finnst mér ástæða til að dvelja strax við 1. gr. frv. þar sem lagt er til að afli sem veiddur er í rannsóknarskyni á vegum Hafrannsóknastofnunar falli ekki undir ákvæði laganna. Það þýðir á mannamáli að Hafrannsóknastofnun þarf ekki að eiga kvóta til þess stunda rannsóknir.

Þetta ákvæði hefur valdið þó nokkrum umræðum í sjútvn. Menn urðu að mínu mati flestir tiltölulega snemma sammála um að þetta ákvæði væri, eins og ég hefði viljað orða það, gamaldags ríkisafskiptaákvæði, þ.e. þetta er ákvæði sem gerir ráð fyrir því að einungis ein stofnun í landinu geti haft vit á því hvernig og hvort rannsóknir eru stundaðar og hvaða niðurstaða er þá löggilt.

Nú hafa menn mikið fjallað um hinar líffræðilegu forsendur og harma það að ekki hafi tekist betur til en svo að þorskafli á Íslandsmiðum hefur farið niður ár frá ári. Menn eru hættir að trúa því þegar vísindamenn Hafrannsóknastofnunar segja okkur að nú sé botninum náð vegna þess að við höfum haldið að við værum að botna ár eftir ár undanfarið. Menn hafa orðið áhugasamari um það á síðari árum en nokkru sinni fyrr að við fengjum það sem er kallað ,,second opinion`` eða annað álit. Þess vegna var fyrirspurnaþingið í haust sem hæstv. sjútvrh. efndi til til hreinnar fyrirmyndar. Þar voru menn kallaðir til, gátu að viðrað skoðanir og hlýtt hver öðrum yfir. Menn voru fengnir til þess að skrifa álit og það eru góð vinnubrögð. Hins vegar finnst mér niðurstaðan sem 1. gr. gerir ráð fyrir --- og ekki hefur hún batnað við brtt. meiri hlutans --- skref sem ekki hefði átt að stíga vegna þess að það er alveg rétt sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði áðan. Rannsóknirnar verða að vera frjálsar. Þegar menn eru komnir með Hafrannsóknastofnun sem hliðvörð, þ.e. að bara Hafrannsóknastofnun getur stundað rannsóknir fyrir ókeypis kvóta --- við skulum kalla hann ókeypis --- og svo þeir sem Hafrannsóknastofnun samþykkir þá finnst mér að við séum býsna stutt á veg komin. Af hverju á Hafrannsóknastofnun að vera sá sem samþykkir eða synjar þegar hér kemur einhver sem telur sig hafa eitthvað nýtt fram að færa og þarf að fá að stunda rannsóknir á Íslandsmiðum? Eru menn virkilega á því að Hafrannsóknastofnun, sem er kannski sú stofnun sem menn vilja fá annað álit gagnvart, sé rétti aðilinn til að meta hvort viðkomandi nýliði, aðkomurannsakandi, eigi að fá þessa heimild líka? Ég segi nei. Mér finnst þetta í rauninni fáránlegt og fráleitt.

Hér er í raun engu verið að breyta frá því sem var, kannski jafnvel að sumu leyti verið að gera hlutina verri vegna þess að formlega er verið að færa Hafrannsóknastofnun það vald í hendur að hún geti undir ákveðnum kringumstæðum ráðið því hverjir fái að rannsaka og hverjir ekki. Hér finnst mér, herra forseti, að menn séu að hjakka í sama farinu og að umræðan sem átti sér stað í nefndinni og var afar góð að mörgu leyti hvað varðar þetta ákvæði hafi ekki skilað neinu. Hér er því eitt þeirra ákvæða sem mér finnst, herra forseti, heldur vera af lakara taginu, heldur til vansa.

Um 2. gr. og 3. gr. er svo sem ekki mikið að segja. Reyndar er meiri hlutinn með brtt. við 2. gr. En þarna eru ekki á ferðinni stórmál þannig að ég ætla að víkja að 4. gr. Þar er verið að fjalla um Byggðastofnun og byggðakvóta. Ég ætla að vekja á því athygli, herra forseti, af því að ég er búin að tala almennt um byggðakvótana og þá pólitík sem í þeim er, að það er svolítið merkilegt að menn skuli alltaf vera að gera tilraunir með mismunandi orðalagi þegar kemur að þessum byggðakvótum. Ýmist er verið að heimila ráðherra að höfðu samráði við Byggðastofnun að ráðstafa svo og svo miklu til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi, til að styðja byggðarlög eða til að treysta betur stöðu þeirra byggðarlaga. Maður veltir því fyrir sér, af því að ekki gafst færi á umfjöllun í nefndinni um brtt. meiri hlutans, hvort þetta mismunandi orðalag hafi einhverja dýpri merkingu, hvort hér sé bara stílbragð á ferðinni eða hvort menn sé að hnika málum til svo að einhverju nemi. Geta menn bundið vonir við að þarna sé eitthvað nýtt að gerast? Ég held reyndar ekki. Það á sjálfsagt eftir að verða skemmtilegt að heyra frekari umfjöllun meiri hlutans um það af hverju menn séu alltaf að breyta um orðalag.

Svo ætla menn að koma með nýja 5. gr. Sú grein fjallar um stækkun krókaaflahámarksbátana. Það er svo merkilegt, herra forseti, að frv. virðist vera sett fram með þessari stækkun án þess að það hafi verið rætt við hagsmunaaðila. Nú er ég ekki endilega alltaf talsmaður þess að menn séu fyrir fram að ræða við hagsmunaaðila og endilega hlaupa eftir því sem þeir vilja eða segja. En í þessu tilfelli hefði mér ekki fundist óeðlilegt að ræða við landssambandið um að þessi breyting stæði fyrir dyrum, ekki síst vegna þess að, að mínu mati, hefur hún alls ekki fengið nægilega umfjöllun. Af því að frv. var frekar á hraðferð og menn voru með athyglina meira á öðru þá er mér a.m.k. ekki nægilega ljóst hvernig þetta getur gerst. Núna er verið að reyna að lappa upp á og breyta. Hér er frv., líklega þriðja mál á dagskrá, sem tengist þessu með ákveðnum hætti. Þar er verið að bjarga í horn því sem þarf að bjarga og ugglaust fleiru sem á eftir að koma. Við erum, eins og hér hefur komið fram, bara stödd einhvers staðar á þessari löngu leið við að breyta lögunum um stjórn fiskveiða. Landssamband smábátaeigenda er sem sé á móti þessari breytingu eins og hún er lögð til í frv. og leggur til að þessu verði breytt þannig að miðað verði við 10 brúttólestir. Ástæður þeirra eru, með leyfi forseta:

,,1. Tilkoma aflamarks á alla báta 6 brl. að 10 brl. 1. janúar 1991 varð til þess að veiðiheimildir þessara báta fluttust í verulegum mæli á stærri skip. Bátunum fækkaði um nokkur hundruð og eru nú aðeins 130. Veiðiheimildir þessara báta eru frá því að vera nánast engar upp í að vera viðunandi. Óveruleg nýsmíði hefur átt sér stað í þessum hópi enda veiðiheimildir ekki gefið tækifæri til endurnýjunar. Með breytingartillögu LS`` --- þ.e. að ekki yrði farið í 15 brúttólestir eða brúttótonn, eins og gert er ráð fyrir í frv. úr 10, --- ,,væri þessum aðilum gefið tækifæri á að komast inn í krókaaflamarkið með meiri veiðiheimildir en þeir hafa í dag. Það er mat undirritaðs`` --- sem er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda --- ,,að lækkun úr 15 brt. í 10 brl. muni ekki leiða til stórfelldrar verðlækkunar báta í krókaaflamarki eins og veruleg hætta er á ef miðað væri við 15 brt. Einkum er það vegna mikils mismunar á aflaheimildum báta milli 6 og 10 og 10 og 15, afkastagetu bátana, endurbóta sem hefur verið talsverð á bátum milli 10 og 15, en eins og áður sagði nánast engin á bátunum milli 6 og 10.

[23:00]

2. Við framkvæmd laga um kvótasetningu krókabáta lækkaði verðmæti bátanna um hundruð milljóna. Dæmi um verðlækkun einstakra báta 15 milljónir niður í 10 milljónir. Ástæður þessa var skerðing á veiðiréttindum og að veiðum þeirra var ekki lengur stjórnað með fjöldatakmörkunum. Afleiðingar þessa eru m.a. þær að eigendur bátanna hafa nánast engin veð til að sýna við lántöku sem ætluð er í að kaupa sér hluta af þeim aflaheimildum sem kvótasetningin hafði í för með sér. Með því að heimila stækkun upp að 15 brúttótonnum mundi verðmæti bátanna enn minnka þar sem allir bátar sem nú eru á stærðarbilinu 6--15 brúttólestir hefðu heimild til að fá veiðileyfi í krókaaflamarki. Tillaga um stækkun upp í 15 brúttótonn yrði ekki til að auðvelda aðlögun að gjörbreyttu starfsumhverfi.

3. Við smíði og breytingar þorksaflahámarksbáta var beitt ýmsum æfingum við mælingar. Við skoðun hefur komið í ljós að allir bátarnir eru óumdeilanlega minni en 10 brúttólestir. Stærðarmörkin 10 brúttólestir segði því betur til um stærð bátanna en 6 brúttólestir eða 6 brúttótonn og gæfi mönnum tækifæri til að útbúa bátana eins og þeir höfðu ráðgert án þess að fá endalausar athugasemdir frá Siglingastofnun.``

Herra forseti. Það kemur sem sagt í ljós að Landssamband smábátaeigenda er af ýmsum ástæðum alfarið á móti því að það verði farið upp í 15 brúttótonn eins og hér er lagt til og auðvitað er það að hluta til vegna þess að málið var ekki við þá rætt. Sú aðlögun sem þeir telja að þurfi að vera er ekki með þeim hætti að þeir hafi tekið þátt í að móta hana og eins og ég sagði finnst mér dálítið merkilegt hvernig hefur verið farið í þetta mál af hálfu ráðuneytisins og meiri hlutans vegna þess að þarna er um býsna stóra breytingu að ræða, ekki síst vegna þess að þarna er í rauninni skorið inn í þann bátaflokk sem Landssamband smábátaeigenda er í forsvari fyrir og sömuleiðis er þarna skorið inn í þann bátahóp sem annars vegar býr við kjarasamninga sem Landssamband ísl. útvegsmanna hefur haft með höndum fyrir 12 tonna báta og stærri og svo hina sem eru minni þannig að það má segja það, herra forseti, að hér sé farið dálítið óvenjulega að og þess vegna ekki að undra að menn hrökkvi kannski við þegar þetta ákvæði er skyndilega komið inn í frv. frá ríkisstjórninni. Rökin eru hins vegar þau að hér sé um að ræða aðgerð til þess að auka öryggi manna þegar menn eru komnir á aflamarksskip eins og krókaaflamarksbátarnir eru auðvitað orðnir og geta sótt allt árið, þá þurfi menn að eiga þá möguleika að geta útbúið skip sín betur heldur en þeir hafa gert undir þeim stærðartakmörkunum sem þeir hafa haft. Það er að sjálfsögðu hægt að hafa samúð með því sjónarmiði, enda hefur Samfylkingin í sínum tillögum horft til þess að það væri eðlilegt að hafa þessa skilgreiningu á öðrum stað en hún hefur verið og hefur viljað sjá svokallaða smábáta verða stærri til þess einmitt að það væri hægt að útbúa þá betur og að þeir væru þá þannig að slysahætta væri minni. Hins vegar er það svo staðreynd að það eru ekkert endilega þessir bátar sem lenda í verstu slysunum en auðvitað eiga menn alveg án tillits til þess að reyna á hverjum tíma að ganga þannig frá málum að slysahætta sé eins lítil og nokkur möguleiki er til.

Þá erum við komin að 6. gr. Það er kannski sú grein sem mest og líkust andstaða var við frá flestum aðilum. En það er rétt að nefna það að eitt af því sem landsmenn hafa haft áhyggjur af og hefur margoft komið fram er að veiðiheimildir færðust á fárra hendur, þ.e. að hér yrðu til örfá fyrirtæki sem hefðu vald á veiðunum við Ísland. Til þess að slá á þennan ótta var lögunum um stjórn fiskveiða breytt fyrir nokkrum árum og sett á það sem kallað hefur verið kvótaþak. Var bæði um það að ræða að það var heildarþak, þ.e. fyrirtækin máttu ekki vera handhafar nema tiltekins hlutfalls af aflaheimildum í heildina og svo einnig í einstaka tegundum.

Í þessu frv. var ákveðið að stíga býsna stórt skref til breytinga á þessu. Það var sem sé bæði ákveðið að þau skilyrði sem einstök fyrirtæki þurftu að hafa til þess að geta verið handhafar 12% heildaraflaheimilda yrðu rýmkuð og það er kannski ekki ástæða til að hafa stórar áhyggjur af því, herra forseti, vegna þess að þessi 12% mörk voru fyrir og það er ekkert fyrirtæki enn farið að reka sig upp í þau mörk. Þau eru í rauninni það rýmileg og breytingin er kannski ekki neitt til að hafa áhyggjur af en menn hrukku svolítið við þegar þeir sáu hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að breyta kvótaþakinu í ýsunni og sömuleiðis í ufsa, karfa og grálúðu, þannig að í stað þess að kvótaþakið væri 20%, þá var það fært upp í 50%, þ.e. það var tæknilega mögulegt að tvö fyrirtæki gætu haft ráð á öllum ýsukvótanum, öllum ufsakvótanum, öllum karfakvótanum og öllum grálúðukvótanum.

Þegar eftir því var spurt hvort það væri mikill þrýstingur á þessar breytingar, hvort hér væri verið að gefa eftir vegna þrýstings fyrirtækjanna, þá kom í ljós að svo var ekki. Það var enginn farinn að reka sig alvarlega upp í neitt þak og menn geta svo sem velt því fyrir sér af hverju var verið að setja þetta þak fyrir nokkrum árum síðan ef það átti bara að lyfta því jafnharðan og einhver fyrirtæki rækju sig upp í það. En það var sem sé ekki einu sinni sú ástæða fyrir þessari breytingu og af því að menn hafa verið að tala um sættir og sátt í málum, þá var þessi nálgun satt að segja einhver sú geggjaðasta sem hægt var að hugsa sér. Að ætla að bjóða upp á það sem sátt í máli sem ekkert er eins og ég sagði áðan, það eina sem út úr því kemur fyrir utan nafnabreytingu á gjöldum sé það að kvótaþakið sé tekið og því lyft með afgerandi hætti í nokkrum tegundum, að reikna með því að það sé fallið til sátta í samfélagi sem einkennist kannski miklu frekar af ótta við það að veiðiheimildirnar séu að þjappast á of fáar hendur, það var merkileg niðurstaða. Enda hefur það orðið niðurstaða meiri hlutans eftir umfjöllun um málið að hverfa til baka að nokkrum hluta og stíga skrefið þannig að hér verður ekki um umtalsverða breytingu að ræða nema í karfanum þar sem farið er upp í 35% úr 20%. Líklega er það, herra forseti, að gerast vegna þess að fram kom að fyrirtæki eins og Grandi er að nálgast það að reka sig upp í 20%, þá gerist það sem menn áttu kannski aldrei von á, og þó, að um leið og eitthvert fyrirtæki er farið að reka sig í, þá er lögunum breytt og þá spyr ég aftur: Af hverju var verið að setja þetta hámarksaflahlutdeildarákvæði inn ef ekki stendur til að láta það stýra neinu heldur eigi að gefa eftir í hvert skipti sem eitthvert fyrirtæki rekur sig utan í hámarkið?

Ugglaust er það svo, herra forseti, að einhver fyrirtækjanna taka nú tillit til þess hvernig þetta liggur vegna þess að það verður að segja það íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum til hróss að þau hafa sýnt afburða aðlögunarhæfni og hafa í rauninni getað gert ótrúlega góða hluti við erfiðar aðstæður oft og tíðum þrátt fyrir allar þær neikvæðu hliðar sem hægt er að finna á löggjöfinni og á starfsumhverfinu og á því hvernig ríkisvaldið hefur ætlast til þess á hverjum tíma að þessir hlutir gætu gengið upp. En það var merkilegt að sjá það gerast að menn teldu að það væri fallið til sátta meðal þjóðar sem hefur af því einhverjar stærstar áhyggjur að veiðiheimildir séu að þjappast á of fáar hendur að það ætti að viðhalda einokunarkerfinu en bara leyfa fyrirtækjunum að eignast ,,stærri hlutdeild í kvótanum``.

Herra forseti. Með brtt. meiri hlutans er gengið nokkuð til baka og ég held að það sé skynsamlegt í ljósi þess í hvaða stöðu þetta mál er en í leiðinni er líka hægt að segja: Hér er ekki mikið að gerast. Hér eru ekki stórir hlutir á ferðinni. Það stærsta sem hér er á ferðinni er auðvitað það að einhverjir héldu að þetta væri frumvarpið með ákveðnum greini, en eins og fram hefur komið, bæði hvað varðar frv. efnislega og sömuleiðis hefur það komið fram hjá t.d. hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, þá stendur það ekki til. Þetta er bara eitt af mörgum frumvörpum í langri röð frumvarpa og breytinga, sem þessi stjórnarmeirihluti hefur gert og ætlar sér að gera ef hann fær að ráða hér, á lögunum um stjórn fiskveiða. Það stendur ekki til að skapa hér neinn stöðugleika í starfsumhverfinu, það verður haldið áfram á þessari braut.

Hvað varðar 7. gr. frv. þá er þar líka um að ræða ákveðna breytingu af hálfu meiri hlutans sem ég ætla ekki að gera að umræðuefni en ætla hins vegar að nefna það að hér er komin brtt. sem lýtur að 10. gr., þ.e. það kemur inn ný 9. gr. og síðan kemur þó nokkur breyting á 10. gr. Sú breyting, herra forseti, lýtur m.a. að því að breyta þeim tölum sem voru komnar inn varðandi þau atriði sem eiga að vera til frádráttar áður en veiðigjaldið er lagt á, þ.e. það er verið að lækka gjaldið með fínlegum hætti þarna og sömuleiðis tekur hún á kaflauppsetningu og tæknilegum uppsetningaratriðum. Síðan komum við að 11. gr. þar sem verið er að fella út þau ákvæði til bráðabirgða sem hafa lotið m.a. að byggðakvótum til þess að gera þá varanlega og til þess að auka heimildir ráðherra til að úthluta byggðakvótum til viðbótar þegar á þessu ári.

Eins og ég gat um áðan, herra forseti, virðist sem byggðakvótar séu orðnir stuðningur við tilteknar byggðir upp á 6--7 milljarða og ég óska eftir því að menn velti því svolítið fyrir sér hvort það sé endilega svo að ef menn hafa þessa 6--7 milljarða til ráðstöfunar, sem þeir hafa þegar búið er að taka þessar heimildir frá því að það er gangverð þeirra á markaði, það væri hægt að selja þær fyrir þessa peninga, hvort menn mundu þá endilega verja þeim með þessum hætti, og eins og ég gat um áðan, dreg ég það í efa.

Ég ætla að víkja aftur, herra forseti, að greininni sem snýr að veiðigjaldinu vegna þess að þó svo að hér séu ekki stórir hlutir á ferðinni þá er full ástæða til að fara svolítið inn í þá umfjöllun sem hefur verið undanfarin ár og áratugi um aðgang að auðlindinni, um nýtingu náttúruauðlinda og með hvaða hætti væri rétt og eðlilegt að þeim aðgangi yrði háttað, hvernig farið yrði í þá hluti.

[23:15]

Ég hef lengi verið í hópi þeirra sem hafa talið að menn ættu að greiða fyrir aðgang að auðlindinni. Í mínum gamla flokki, Alþýðubandalaginu, var þó nokkuð tekist á um þessi mál þegar upp úr 1990 og skiptust menn þar í harðar fylkingar með og á móti. Ég verð að segja að það gleður mig að upplifa það hér á þessu kvöldi, eins og ég hef reyndar upplifað nokkrum sinnum áður í vetur að sumir af þeim sem voru harðir andstæðingar tala nú orðið um fyrningarleiðir og greiðslu eins og ekkert sé sjálfsagðara, eins og þeir hafi alltaf verið nokkurn veginn á þeirri skoðun. Þetta segir manni hvað umræðan hefur í rauninni þróast og hvað menn hafa smám saman áttað sig á þegar auðlind er takmörkuð, ég tala nú ekki um þegar hún er í þjóðareign, hvað það er þá í rauninni sjálfsagðara en hitt að þeir sem fá að nota þessa auðlind, greiði fyrir.

Það er nefnilega þannig, herra forseti, með auðlindir eins og önnur gæði sem eru takmörkuð að aðgangurinn eða nýtingin, rétturinn til nýtingar fær ákveðið verðgildi. Áður en menn kannski átta sig á því er markaðurinn búinn að verðleggja og þá kemur kannski í ljós hversu mikils virði aðgangurinn er og þar geta menn einmitt líka séð hver arðurinn er, hver rentan er sem alltaf er verið að leita eftir og sumir hv. þm. auglýsa eftir reglulega í þessari umræðu af því þeir segjast aldrei hafa skilið hana. Það vafðist hins vegar ekki fyrir fulltrúum Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar á fundum sjútvn. Þeir bentu á að það væri hægt að sjá það af því hvað menn væru tilbúnir til að greiða fyrir veiðiheimildirnar hver rentan væri, og að þeirra mati væri mun eðlilegra ef menn ætluðu að taka veiðigjald með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frv. að menn miðuðu þá við verð veiðiheimilda á markaði frekar en að menn væru að tala um verð á afla með þeim frádráttarliðum sem hér liggja fyrir. Það væri eðlilegra að grunnurinn að þessu gjaldi væri verð veiðiheimilda ef menn ætluðu sér að leita eftir rentunni. Sömuleiðis væri auðvitað eðlilegra að það væri litið til mismunandi útgerðarflokka og hver rentan væri heldur en að menn væru hér að vinna úr meðaltalstölum sem kæmi auðvitað mismunandi niður á mönnum þó að það væri jafnframt tekið fram að hér væri um svo lágt gjald að ræða að það mundi kannski ekki breyta mjög miklu. En það er nú einu sinni svo, herra forseti, að þegar menn hafa ákveðið að láta stjórnmálamenn ákveða gjaldið í staðinn fyrir að markaðurinn geri það þá eru kannski meiri líkur en hitt að þetta gjald hækki. Þess vegna skil ég ekki af hverju útgerðarmenn og þeir stjórnmálamenn sem þykjast bera hag hennar fyrir brjósti, ég segi þykjast og undirstrika það, vilja endilega að stjórnmálamenn ákveði upphæðina en það er annað mál og þeirra að útskýra. En mér finnst alltaf svolítið merkilegt þegar menn sem segjast vera markaðshyggjumenn, telja síðan þegar til stykkisins kemur að það sé rétt að stjórnmálamenn ákveði upphæðir og ákveði fyrirkomulag af því að markaðnum sé þegar allt kemur til alls ekki alveg treystandi og það sé betra að stjórnmálamennirnir ákveði þetta. Það er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Herra forseti. Samfylkingin lagði í haust fram mál þar sem liggur fyrir hvaða leið við teljum að heppilegast sé að fara, bæði til þess að innheimta auðlindarentuna og til þess að breyta þessu kerfi. Ég hef óbeint vikið að þessari aðferð annað veifið í ræðu minni en í stuttu máli er tillaga okkar sú að veiðiheimildir verði innkallaðar, þ.e. úthlutun aflahlutdeilda án endurgjalds verði afnumin í jöfnum áföngum en útgerðum fiskiskipa þess í stað gefinn kostur á aflahlutdeildarsamningi og útgerðirnar geti keypt veiðiréttinn á markaði þar sem öllum útgerðum sambærilegra fiskiskipa verði fenginn jafn réttur. Þetta er grundvallarhugmyndin, herra forseti.

Ég vitnaði fyrr kvöld í grein Guðmundar Arnar Jónssonar í Morgunblaðinu frá því á laugardaginn þar sem hann mælir með þessari leið af ýmsum ástæðum, m.a. þeirri að trygging árangurs í viðskiptum með sérleyfum í stað samkeppni takmarki þjóðarauðinn, hindri nýliðun og þar með framfarir. Og af því að menn taka sig alltaf til annað veifið og vorkenna útgerðinni og þeir eru einna duglegastir við það sjálfir að birta tölur um það hvað þetta gangi allt böksulega hjá þeim, þá spyr Guðmundur þessi, sem er titlaður verkfræðingur, með leyfi forseta: ,,Getur verið að skortur á nýjum mönnum með nýjar hugmyndir sé þegar farinn að hafa áhrif, og hafi leitt til verri afkomu?``

Þetta er auðvitað spurning sem menn hafa spurt með ýmsum hætti á undanförnum árum. Þegar menn eru að tala um það að kerfið okkar sé besta kerfi í heimi, það sé hagfræðilega svo straumlínulagað og gefi svo góðan árangur, þá hafa menn stundum spurt rétt eins og barnið um keisarann forðum: En hvernig stendur þá á því að þetta gengur ekki betur? Af hverju borga þeir ekki skatt nema í undantekningartilfellum? Það er sérstök frétt á Íslandi þegar útgerðarfyrirtæki borgar skatt. Af hverju sýna þeir ekki betri afkomu ef þetta er allt svona pottþétt og glæsilegt kerfi og kerfi sem hægt er að flytja út og stæra sig af meðal annarra þjóða? Auðvitað er það þessi spurning, herra forseti, sem þá vakir undir: Getur það verið? Sömuleiðis þetta varðandi menntunina þar sem hér er sett fram sú tilgáta að takmarkanir á nýliðun hafi óbein áhrif á það hvort fólk sækist eftir menntun í viðkomandi grein eða ekki.

Mér finnst ástæða til þess að geta fleiri hagfræðinga sem hafa verið að skrifa um þessa hluti, sem hafa verið að skrifa um uppboð veiðiheimilda, um möguleika þess. Einn af þeim er Jón Steinsson, ungur hagfræðingur sem er í framhaldsnámi í Bandaríkjunum og hefur tekið þátt í þessari umræðu og bent á þá möguleika sem eru í stöðunni en hann er sérfræðingur í uppboðum. Hann hefur skrifað margar greinar þar sem hann hefur rakið þá möguleika sem þar liggja af mikilli þekkingu. Hann segir í grein í Morgunblaðinu 5. mars sl. ,,Sjávarútvegsráðherra velur verri kostinn`` skömmu eftir að frv. ráðherra er komið fram, og hann skorar á þingmenn að hafna frv. sjútvrh. Það gerir hann með þeim rökum að það sé einfaldlega verið að fara verri leiðina, þ.e. leið sem hefur alla þá ókosti sem þessi sömu stjórnvöld hafa alla tíð notað sem rök gegn álögum á sjávarútveginn en, með leyfi forseta, segir Jón Steinsson í þessari grein:

,,Andstaða Sjálfstæðisflokksins og annarra við auðlindagjaldi í sjávarútvegi byggðist lengst af á hagkvæmnirökum. Talið var að innheimta auðlindagjalds myndi draga úr hagkvæmni í sjávarútvegi. Á síðustu árum hefur hins vegar komið í ljós að unnt er að útfæra slíka gjaldtöku þannig að komist er hjá óhagkvæmni. Raunar hafa verið færð fram rök sem hníga að því að fyrning aflaheimilda myndi ef eitthvað er auka hagkvæmni í sjávarútvegi. Aukin hagkvæmni kemur til af því að fyrning aflaheimilda myndi skapa virkari markað með slíkar heimildir og myndi því leiða til þess að aflaheimildir leituðu hraðar en ella til þeirra sem best gætu nýtt þær.``

Þarna, herra forseti, falla hugmyndir Jóns Steinssonar og kenningar saman við það sem ég var að vitna í áðan í grein Guðmundar Jónssonar. En Jón Steinsson heldur áfram, með leyfi forseta:

,,Það er því einkennilegt að stjórnvöld velji nú að hafna fyrningu aflaheimilda og leggja þess í stað á veiðigjald sem hefur alla þá ókosti sem þau hafa alla tíð notað sem rök gegn álögum á sjávarútveginn. Veiðigjaldið sem sjávarútvegsráðherra leggur til er eins og fyrr segir afkomutengt og hefur því sams konar óhagkvæmni í för með sér og aðrir tekjuskattar. Þar að auki er veiðigjald ekki markaðslausn og því hefur það ekki sömu kosti og fyrningarleiðin hvað hagkvæmni snertir. Í þessu máli er sú undarlega staða komin upp að ríkisstjórn undir forsæti Sjálfstæðisflokksins berst af öllu afli gegn markaðslausn sem allir vinstri flokkar landsins hafa fallist á að sé skynsamlegasta lausn málsins.``

Þetta er nauðsynlegt, herra forseti, að nefna hér um leið og ég er að víkja að frumvarpi okkar í Samfylkingunni. Það frv. er í rauninni framhald annarra samkynja frv. sem hafa verið flutt á þessu kjörtímabili og eðlileg þróun þeirra frv. sem jafnaðarmenn hafa áður flutt og í fullu samræmi við þau frv. sem jafnaðarmenn hafa einnig flutt, síðast á síðasta þingi um það hvernig ætti að fara með norsk-íslenska síldarstofninn, þ.e. að menn ættu að bjóða út veiðiheimildir.

Við höfum kappkostað, herra forseti, að vera sjálfum okkur samkvæm í þessum efnum og höfum verið það vegna þess að við gerum okkur í fyrsta lagi ljóst að sjávarútvegurinn er það mikilvæg atvinnugrein að hann þarf að hafa þá umgjörð að afrakstur geti verið sem mestur. Í öðru lagi erum við nokkuð viss um það að markaðslausn hentar hér best, ekki bara til að kalla það fram heldur einnig til þess að bæði byggðir og einstaklingar og fyrirtæki fái notið, þegar um byggðirnar er að ræða, nálægðar við auðlindina og sömuleiðis fyrirtækin og að þeir sem best kunna til verka geti þá fengið að njóta þekkingar sinnar og hæfileika.

Með sama hætti, herra forseti, hefur það verið liður í sjávarútvegsstefnu Samfylkingarinnar að afla veiddum á Íslandsmiðum væri landað á fiskmarkaði þannig að þar ætti sér líka stað ákveðin samkeppni sem leiddi til þess að þeir sem væru hæfastir til þess að vera við fiskverkun á hverjum tíma, þeir sem væru með bestu hugmyndirnar, gætu selt á dýrustu markaðina, væru framsæknastir, þeir hefðu möguleika á því að afla sér hráefnis fyrir sína vinnslu.

Ég vil nefna það, herra forseti, að þó svo að íslensk stjórnvöld hafi kosið að fara hér þá leið að víkjast undan markaðslausnum og viðhalda einokun, þá eigum við hagfræðinga eins og Jón Steinsson og ýmsa fleiri sem hafa komið auga á það hve fyrningarleiðin er í rauninni góður kostur og mun vænlegri kostur. Mín spá er sú að það muni verða endirinn á að sú sátt sem næst um íslenskan sjávarútveg og þá stefnu sem þar er muni á endanum byggja á slíkri leið enda, eins og hér hefur margoft komið fram, ekki verið að fjalla um sáttaleið með þessu frv. heldur fyrst og fremst verið að skipta um nöfn á gjöldum og setja inn ýmsar breytingar sem fæstar eru til bóta.

[23:30]

Jón Steinsson og ýmsir fleiri hafa líka fjallað um réttláta skiptingu arðs af aflaheimildum og þá vil ég, herra forseti, víkja að því sem skiptir ekki minnstu máli og er þá komið að fræðsluerindinu sem haldið verður sérstaklega fyrir hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. (Gripið fram í: Og formann Samfylkingar.) Formaður Samfylkingarinnar kann þetta erindi sjálfur þannig að hann þarf minna á því að halda en ég ætla af því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson auglýsti beinlínis eftir því að gera það fyrir þingmanninn að víkja að því.

Og kemur þá að því sem skiptir mestu máli þegar við fjöllum um það mál sem hæstv. sjútvrh. lagði fram undir því fororði að nú ætti loksins að fara að taka gjald fyrir afnot af auðlindinni. Það er auðlindastefna ríkisstjórnarinnar.

Ég ætla að rifja það upp að auðlindanefndin skilaði af sér tveimur skýrslum, tveimur bókum með ýmsum samantektum og greinargerðum sem voru unnar fyrir nefndina auk þess að skila áliti sínu. Þar var reynt að móta stefnu sem gæti átt við þegar um er að ræða nýtingu náttúruauðlinda sem væru annaðhvort í þjóðareign eða þjóðarforsjá. Þetta að vera í þjóðarforsjá átti kannski fyrst og fremst við um þær rafsegulbylgjur sem nýttar eru til fjarskipta en þeim er eins og menn vita úthlutað á alþjóðlega vísu, þ.e. við getum ekki sjálf tekið ein og sér ákvörðun um hvernig þeir hlutir gerast. Það þarf að vera um það fjölþjóðlegt samkomulag, en það er klárlega um takmörkuð gæði að ræða sem eru í þjóðarforsjá.

Það er athyglisvert að fara yfir þau lög og þau lagafrumvörp sem við höfum aðgang að og eigum í fórum okkar, og getum sótt á netið, og bera saman hvernig nálgun manna á þessu hefur verið. Það var t.d. afar athyglisvert að skömmu eftir að hæstv. sjútvrh. lagði fram frv. sitt til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða með því fororði að nú ætti að fara að breyta nafninu á gjöldunum af því að nú ætti það að heita að þetta væri fyrir aðgang að auðlindinni en ekki bara fyrir kostnaði, lagði hann fram frv. sem fjallaði um eldi nytjastofna sjávar. Þar átti hins vegar ekkert að greiða fyrir veitingu leyfis og ekkert fyrir nýtingu sameiginlegrar auðlindar og þannig afgreiddi meiri hluti Alþingis það mál. Þannig varð það að lögum.

Þó má segja að þegar kemur að lögunum um stjórn fiskveiða eru menn látnir greiða fyrir veiðileyfin, þó ekki sé um háar upphæðir að ræða. Menn greiða fyrir veiðieftirlitið en reyndar átti að borga eitthvert eftirlitsgjald í hinum tilfellunum líka. En ekki heyrir allt upp á sama daginn hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég verð þó að segja, herra forseti, að mér sýnist á þeim frv. og þeim lögum sem síðan hafa verið samþykkt sem komu úr iðnrn. örli æ meira á einhverju því sem hægt er að kalla auðlindastefnu, en það er löngu tímabært að menn taki þessi lög fyrir og reyni að samræma með einhverjum hætti hvernig menn vilja sjá þessa hluti gerast. Í fyrsta lagi að menn skilgreini hvaða auðlindir það eru sem hér eru í þjóðareign eða þjóðarforsjá. Tillaga auðlindanefndar var sú að ákvæði yrði sett í stjórnarskrá til nánari ákvörðunar um meðferð slíkra auðlinda og til þess að skilgreina réttindi bæði eigandans og þeirra sem fá að nýta slíkar auðlindir. Ég vil nefna það nú í umræðunni að í svari við fyrirspurn sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir flutti á Alþingi og ég var með á, gaf hæstv. forsrh. mjög þétt undir fótinn með það að á næsta vetri mundi ríkisstjórnin leggja fram frv. til stjórnarskipunarlaga þar sem horft yrði til þess hvaða tillögur auðlindanefnd lagði til varðandi meðferð þessara mála og að í tengslum við næstu kosningar yrði gert ráð fyrir breytingum á stjórnarskránni í þá veru.

Ég vil halda þessu til haga í umræðunni og í þeirri umfjöllun minni um auðlindamálin til þess að undirstrika það að mál eru örlítið að þokast þó að okkur finnist sumum að það gerist hægt og það þurfi að tala bæði oft, mikið og lengi um þessi mál til að fá áheyrn hjá hæstv. ríkisstjórn.

Ég ætla að hlaupa á þeim lögum, herra forseti, sem koma til álita þegar verið er að tala um náttúruauðlindir. Þau eru nokkur að vöxtum vegna þess að Íslendingar eru þjóð sem byggir tilveru sína og efnahagslegan grundvöll að stórum hluta og langstærstum hluta á nýtingu náttúruauðlinda. Auðvitað hefur sú nýting orðið eins hagkvæm þjóðinni og raun ber vitni vegna þess að menn hafa nýtt sér ýmiss konar þekkingu til þess að gera hlutina enn betur og enn hagkvæmar til að fá enn þá meira út úr þeim. Auðvitað er það svo að allar atvinnugreinar í dag sem taka máli eru orðnar þekkingaratvinnugreinar, þar á meðal sjávarútvegur, orkuvinnsla og allt slíkt en grunnurinn er náttúruauðlindir.

Segja má að vatnalögin frá 1923 séu ákveðin grundvallarlög. Í þeim hafa menn ekki miklar áhyggjur af því að verið sé að greiða fyrir afnot af auðlindum nema hvað þar eru ákveðnar ákvarðanir um með hvaða hætti sveitarfélög geta látið neytendur greiða fyrir vatn. En auðlindapólitík sem snýr að skilgreiningu eigenda auðlinda er þar lítil umfram það sem er staðfest í lögum sem ganga undir heitinu auðlindalög oft og tíðum en eru fyrst og fremst lög um rannsóknir og eignarhald á auðlindum í jörðu, ganga fyrst og fremst út frá einkaeignarrétti á landi og hver réttindi þess eru sem á land og er þá kannski fyrst og fremst verið að hugsa um einstaklinga eða lögaðila í því tilfelli.

Síðan eru við með orkulög frá árinu 1967 sem munu breytast mjög ef af því verður að Alþingi samþykki breytingar á lögum um orkumarkaðinn, ef ný raforkulög verða samþykkt. Við erum með sérstök lög um raforkuver og sérstök lög um Landsvirkjun sem sömuleiðis munu taka breytingum í takt við það en eru lög sem fjalla um nýtingu náttúruauðlinda. Við erum með þessi lög um rannsóknir á nýtingu auðlinda í jörðu eins og ég gat um áðan frá 1998. Þar er tekið fram að áður en nýtingarleyfishafi hefji vinnslu í eignarlandi þurfi hann að hafa náð samkomulagi við landeiganda og þá gildir kannski einu, herra forseti, hvort landeigandi er þjóðin samkvæmt þjóðlendulögum eða einkaaðili en á sama tíma voru einmitt lögin um þjóðlendur sett. Þau lög hafa auðvitað ef viðkomandi ráðherra vill mikil áhrif á það hvernig þessi mál þróast vegna þess að með því að beita ákvæðum þjóðlendulaga sem eru í þá veru að hægt er að láta menn greiða fyrir afnot af þjóðlendum, þar er auðvitað hægt að setja ákveðin fordæmi sem menn geta síðan nýtt sér og þar er auðvitað um ákveðna grundvallarlöggjöf að ræða, herra forseti, vegna þess að óhjákvæmilegt er að nefna það í þessari umfjöllun um náttúruauðlindir og þjóðareign að á grundvelli þjóðlendulaganna hefur auðvitað óbyggðanefndin verið að störfum og verið að úrskurða og hefur núna m.a. úrskurðað um að vatnsréttindi á Þjórsársvæðinu sem menn héldu að væru eign Landsvirkjunar og þjóðin gæti þá fyrst leyst til sín ef Landsvirkjun yrði seld, þau reynast vera allt annars eðlis en var hald manna. Í ljós kemur að þau réttindi sem Gnúpverjar á sínum tíma voru að selja Einari Benediktssyni og síðan Titanfélaginu reyndust ekki vera í eigu Gnúpverja heldur þjóðarinnar þannig að það sem selt var var aldrei til staðar.

Menn höfðu grun um að þetta væri á þennan veg en hafa nú fengið það staðfest þannig að það liggur ljóst fyrir að þau réttindi sem byrjuðu að ganga kaupum og sölum í upphafi síðustu aldar voru í rauninni aldrei söluvara heldur eign þjóðarinnar sem nú hefur verið úrskurðað. Þá er vont, herra forseti, að eiga enga löggjöf sem tekur heildstætt á auðlindamálum. Hvað ætla menn nú að gera í því efni? Ætla menn að hugsa málið upp að nýju og gera eins og Norðmenn, setja auðlindalöggjöf sem snýr að orkufyrirtækjunum og láta menn borga fyrir vatnsréttindin, borga fyrir nýtingarréttinn? Eða hvernig ætla menn að fara inn í samkeppnisumhverfi á orkumarkaði ef sum fyrirtæki eiga án þess að nokkuð sé að gert að njóta ríkisábyrgðar fortíðar og nútíðar og opinberra framlaga þegar þannig stóð á og einokunarréttar, hvernig á samkeppnisstaða nýrra fyrirtækja gagnvart þessum fyrirtækjum að vera?

Þetta er auðvitað mál sem við munum ræða þegar frv. til nýrra raforkulaga verður til umfjöllunar á Alþingi sem væntanlega verður á næsta þingi en nýlega hafa verið sett lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis sem snúa að leit og nýtingu á olíu eða gasi ef slíkt fyndist. Liður í því að gera það mögulegt er auðvitað sú vinna sem nú fer fram varðandi skilgreiningu á landgrunni Íslands og kröfugerð í samræmi við það. Það er eitt af stóru verkefnunum sem nú eru í gangi til þess að staðfesta réttindi okkar hvað varðar auðlindanýtingu. Við erum líka með lög frá 1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Þar er heimild til þess að taka endurgjald eða leigu fyrir töku eða nýtingu og þar á að verja tekjum til rannsókna á hafsbotni eða landgrunni þannig að menn eru aðeins komnir áleiðis þar með þá hugsun að eðlilegt þyki að menn greiði fyrir rannsóknir. Það er reyndar rétt að taka það fram að orkufyrirtækin hafa jafnfan greitt stærstan hluta þeirra rannsókna sem farið hefur verið í vegna þeirra eða vegna orkunýtingar.

[23:45]

Lögin um stjórn fiskveiða eru, eins og margoft hefur komið fram, einn af þessum stóru lagabálkum um nýtingu náttúruauðlinda; þjóðlendulögin, eins og ég gat um áðan, eldi nytjastofna sjávar. Frv. um líftækniiðnað sem nú liggur fyrir er eitt af þessum málum og svo frv. til nýrra raforkulaga. Alltaf reglulega hefur Alþingi síðan verið að samþykkja frv. sem verða þá að lögum um virkjanir og þannig nýtingu einstakra virkjunarkosta eða möguleika á orkusviðinu.

Þetta var smáyfirferð yfir þá lagabálka og þau frv. sem lúta að náttúruauðlindum og auðlindastefnu sem ég hef, herra forseti, oft saknað vegna þess að margt væri einfaldara í þeirri löggjöf sem Alþingi þarf að takast á við ef stefnan hefði verið mörkuð en ekki látið ráðast í raun hverju sinni hvernig niðurstaðan verður. Ég og minn flokkur, Samfylkingin, hefur gert sitt besta til þess að reyna að hafa línu í þessu máli og eins og ég sagði þá virðist mér sem svo ...

(Forseti (HBl): Ég vil spyrja hv. þm. hvort mikið sé eftir af ræðu hennar.)

Nei, svo vill til, herra forseti, að ég er að koma að lokaorðum í ræðu minni.

(Forseti (HBl): Mundu það vera tíu mínútur eða kannski bara tvær, þrjár mínútur?)

Það mundi vera svona fjórar, fimm mínútur, trúi ég, ekki meira.

(Forseti (HBl): Það kemur til greina að gera hlé á fundinum til að ræða við þingflokksformenn um framhald fundarins.)

Ég hygg að betra sé að ég ljúki ræðu minni áður en það hlé er gert. En ef forseti telur mjög brýnt að fresta fundinum núna þá mun ég líka fallast á það.

(Forseti (HBl): Ég er ekki að tala um að fresta fundinum. (SvanJ: Gera hlé.) En ef hv. þm. treystir sér til að ljúka ræðunni á næstu fjórum, fimm mínútum þá er best að hv. þm. haldi áfram.)

Ég hefði jafnvel verið búin núna ef þessi truflun hefði ekki komið.

Herra forseti. Ég var einmitt að ljúka ræðu minni á umfjöllun um mikilvægi þess að Alþingi kæmi á samræmdri auðlindastefnu þannig að ljóst væri á hverjum tíma þegar við erum að fjalla um frv. sem lúta að náttúruauðlindum hvaða reglur eigi þá að gilda, hver réttindi manna séu, hver réttindi eigendanna séu og að skilgreint væri hvaða náttúruauðlindir við litum á sem þjóðareign eða að séu í þjóðarforsjá og að menn leituðust eftir því að vera með samræmda stefnu gagnvart þessum auðlindum. Ísland er það land sem byggir að hvað stærstum hluta á nýtingu náttúruauðlinda og á þess vegna að vinna í þessum málum markvissar en gert hefur verið. Ég er nokkuð viss um það, herra forseti, að á næsta kjörtímabili þegar ný ríkisstjórn verður komin hér til valda mun þar verða breyting á. Þá munum við ekki þurfa að takast á við frv. um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða sem kemur svo skáhallt inn, ef svo á að orði komast, gagnvart öðrum málum eða hugmyndum sem hér eru uppi. En frv. sem nú er til 2. umr. breytir e.t.v. ekki miklu og miðað við það sem farið var yfir í nefndinni virðist það ekki munu hafa mjög mikil áhrif. Í öllu falli er nokkuð ljóst að hér er ekki um sáttafrv. að ræða. Hér er ekki um neinn lokapunkt að ræða á langri vegferð. Hér erum við enn þá stödd í miðju breytingaferlinu. Það má ráða bæði af efni frv. og þeim ummælum og þeirri umfjöllun sem það hefur fengið.

Herra forseti. Ég ætla nú að ljúka ræðu minni en mun víkja að þeim atriðum sem ég hef ekki tíma til núna í ræðu sem ég mun annaðhvort flytja í þessari umræðu eða í 3. umr. um málið.

(Forseti (HBl): Nú verður gert hlé á fundinum til þess að hægt sé að ræða við þingflokksformenn um meðferð málsins og það samkomulag sem gert hafði verið um fundarhald á þessum degi.