Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 10:02:38 (8119)

2002-04-23 10:02:38# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. meiri hluta VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[10:02]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um heimild til handa fjmrh., fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og sent það til umsagnar allmargra aðila og enn fremur fengið á sinn fund fjölmargt fólk. Þessa er alls getið í nál. Nefndin gerir smávægilega tillögu um breytingu á frumvarpstextanum í því skyni að skýra betur það sem við er átt þannig að örugglega sé enginn misskilningur á ferðinni um hvað frv. snýst.

Frv. hefur orðið tilefni allmikillar umræðu í nefndinni og eins víðar í þjóðfélaginu en þetta mál kemur mjög seint fram í þinginu og um það eru greinilega skiptar skoðanir.

Þegar um þetta mál er fjallað er rétt að ræða aðeins um það í samhengi við atvinnustefnu stjórnvalda almennt. Eitt af helstu hlutverkum stjórnvalda hverju sinni er að viðhalda samkeppnishæfni efnahagslífsins og atvinnulífsins. Á undanförnum árum hefur verið mikið um það rætt að áherslu ætti að leggja á almennar aðgerðir í efnahagsmálum, skapa almenn skilyrði fyrir fyrirtæki til þess að vaxa og dafna en forðast eftir því sem unnt væri sértækar aðgerðir.

Engin tilviljun er að á síðustu árum hefur verið mikil áhersla á almennar aðgerðir í atvinnulífinu. Ástæðan er fyrst og fremst sú að það tímabil þar sem almenn skilyrði atvinnulífsins voru ekki í lagi gekk það ekki vel upp. Þegar hin almennu skilyrði atvinnulífsins voru í miklu ólagi gripu menn gjarnan til sértækra ráðstafana til þess að tjasla í það sem miður fór og reyndu með slíkum björgunaraðgerðum að bjarga einstökum málum og einstökum fyrirtækjum fyrir horn. Þá var líka mikið um það að menn reyndu að grípa til hinna og þessara töfralausna sem áttu að skila þjóðinni og atvinnulífinu miklum framförum en urðu síðan því miður að hálfgerðum slysum og sorgarsögum áður en yfir lauk. Þess vegna var það svo að fyrir rúmlega tíu árum vildu menn gjarnan snúa af braut hinna sértæku aðgerða og styðjast fyrst og fremst við almenn skilyrði fyrir atvinnulífið. Á þeirri braut höfum við verið síðan og það með góðum árangri. Hin almennu skilyrði atvinnulífsins hafa verið góð en gerðar hafa verið ýmsar ráðstafanir, allt frá því að ganga í Evrópska efnahagssvæðið og til þess að huga mjög að umbótum í skattamálum atvinnulífsins. Fjármagnsmarkaðurinn hefur tekið stakkaskiptum og allt þetta hefur þýtt að atvinnulífið hefur vaxið og dafnað og mikið hagvaxtarskeið hefur runnið upp.

Það hefur hins vegar ekki þýtt að engar sértækar aðgerðir í atvinnumálum væru gerðar lengur. Það er einu sinni þannig að við erum með mikið af sértækum ráðstöfunum í atvinnumálum en þær eru hins vegar ekki aðalatriðið í atvinnustefnunni og þær hafa ekki verið aðalatriðið í stjórn efnahagsmála. Þær hafa verið undantekning og eiga sér allar miklar ástæður og forsögu.

Ef ég nefni nokkrar af þeim sértæku ráðstöfunum sem eru gerðar fyrir atvinnulífið, þá get ég tekið sérstaka skattasamninga við álverksmiðjur. Það höfum við gert vegna þess að við höfum talið að þær mundu ekki byggjast upp hér á landi nema á grundvelli slíkra sérstakra skattasamninga. Ég nefni starfsemi Nýsköpunarsjóðs þar sem ríkið starfrækir sjóð til þess að veita fé inn í sprotafyrirtæki í atvinnulífinu og stunda ýmsa aðra starfsemi sem hlúir að nýsköpun í atvinnulífinu. Um þann sjóð hefur verið ágætissátt. Ég nefni t.d. tryggingarnar á flugvélunum sem við tókum að okkur í kjölfar 11. september, sem var mjög sértæk ráðstöfun sem kom upp með mjög sérstökum hætti og ég veit ekki betur en að sæmileg sátt hafi verið um það mál og hvernig að því hefur verið staðið.

Síðan nefni ég sértækar ráðstafanir eins og starfsemi Byggðastofnunar og ýmsar aðgerðir sem verið er að gera á sviði byggðamála. Um þau mál hefur verið í heildina séð þokkaleg sátt og menn hafa talið að þær aðgerðir væru nauðsynlegar þrátt fyrir að menn deildu oft um fyrirkomulag eða einstaka þætti.

Ég nefni einnig löggjöfina um alþjóðleg viðskiptafélög sem var ákveðin sértæk ráðstöfun til þess að byggja upp slíka starfsemi hér á landi. Áhugi hefur síðan minnkað á því af hálfu ríkisstjórnarinnar að fylgja þeirri uppbyggingu eftir en hins vegar hefur sú starfsemi sem þar hefur verið hafin og það kynningarstarf sem hefur verið unnið vegna þess sýnt að mörg tækifæri eru fyrir okkur Íslendinga að byggja upp starfsemi á sviði alþjóðlegrar fjármögnunarstarfsemi, mýmörg tækifæri sem hægt væri að nýta með tiltölulega litlum aðgerðum í skattamálum. Það mundu vera býsna sértækar ráðstafanir til að byggja upp slíka starfsemi hér á landi og við mundum vera í mikilli samkeppni við nokkrar aðrar þjóðir á því sviði.

Síðast en ekki síst er stuðningurinn sem við erum með við landbúnaðinn afar sértæk ráðstöfun, en ég hygg að nokkuð góð sátt sé um þann stuðning sem við höfum veitt landbúnaðinum á hinu háa Alþingi á undanförnum árum.

Þessi dæmi nefni ég til að draga það fram að sértækar ráðstafanir í atvinnumálum eru í sjálfu sér ekki liðin tíð en það sem er liðin tíð er að þær sértæku ráðstafanir séu aðalatriðið og undirstaða efnahagsstefnu og atvinnustefnu stjórnvalda með sama hætti og var á árum áður. (Gripið fram í: Þú gleymdir byggðakvótanum.) Gleymdi byggðakvótanum, bendir hv. þm. á. Ég hefði talið að það ætti heima undir umfjöllun um Byggðastofnun og byggðastefnuna og það sem henni viðkemur en þar hefur vissulega sértækum aðgerðum í atvinnumálum verið beitt.

Það sem ég er að benda á með þessari upptalningu er að sértækar ráðstafanir og sértækar aðgerðir í atvinnulífinu eru ekki einstakar heldur hafa þær verið hluti af atvinnustefnunni og efnahagsstefnunni en þær hafa ekki verið aðalatriði efnahagsstefnunnar. (ÖJ: Ekki fyrr en núna.) Ekki fyrr en núna, bendir hv. þm. á. Ég hygg að það sé rangt hjá honum og hef áhyggjur af því að hann hafi ekki fylgst með umræðum og þeim breytingum sem gerðar hafa verið í atvinnumálum hér í þinginu undanfarin ár sem kemur manni á óvart vegna þess að hv. þm. hefur tekið mikinn þátt í þeim umræðum en kannski kemur það heldur ekkert á óvart að hv. þm. skuli geta tekið þátt í umræðum án þess að hafa nokkra hugmynd um um hvað verið er að tala, (ÖJ: Áburðarverksmiðjan.) en það er svo sem ekki nýtt.

En hin almennu skilyrði sem atvinnulífinu hafa verið búin á undanförnum árum hafa skilað mjög góðum árangri og skilað landinu miklum hagvexti.

[10:15]

Íslendingar eru að sjálfsögðu í mikilli samkeppni við aðrar þjóðir um uppbyggingu atvinnulífs og margar þjóðir gera ýmsa hluti til þess að byggja upp atvinnulíf, bæði almennt og einstakar greinar. Ef við lítum á þær þjóðir sem eru í næsta nágrenni við okkur getum við tekið fjögur lönd. Við getum tekið Írland, Lúxemborg, Sviss og Holland og aðeins spáð í hvað þessar þjóðir hafa verið að gera á undanförnum árum til þess að byggja upp atvinnulíf sitt. Þær hafa allar náð miklum árangri. Írar tóku fyrir allmörgum árum, eftir að þeir gengu í Evrópusambandið, upp mjög ákveðna stefnu í því að laða til sín atvinnurekstur og beittu ótæpilega skattalegum aðgerðum í því skyni auk ýmissa styrkja. Þessi stefna þeirra hefur skilað árangri en þó kannski á allt öðrum sviðum en þeir lögðu upp með þegar þessi stefnubreyting varð á sínum tíma. Írar hafa náð að byggja upp mjög öfluga starfsemi í hvers kyns þekkingariðnaði og samhliða því hvað þeir hafa verið að gera í skattamálum til þess að laða að sér fyrirtæki hafa þeir líka byggt upp mjög öflugt menntakerfi og náð þess vegna mjög miklum árangri. Þau fyrirtæki sem komu fyrst til Írlands á grundvelli lágra launa og lágra skatta eru mörg hver farin. Eftir situr mjög mikil þekkingarstarfsemi, fjármálastarfsemi, hátæknistarfsemi sem er að skila þeim mjög miklu. Írar hafa breyst frá því að vera ein fátækasta þjóðin í Evrópusambandinu í það að núna eru þeir komnir í gott meðaltal og horfa fram á að þurfa að fara að leggja af mörkum og greiða til Evrópusambandsins í stað þess að þiggja frá því.

Lúxemborg byggði á sínum tíma sem aðildarþjóð að Evrópusambandinu upp mikinn fjármálaiðnað í krafti sértækra ráðstafana í skattamálum og sérstaks umbúnaðar og umgjarðar um fjármálastarfsemi í landinu. Þeir hösluðu sér líka völl á sviði fjarskiptaþjónustu með afar sértækum ráðstöfunum með stuðningi ríkisins og náðu með þessu að veðja á tvær mjög góðar atvinnugreinar sem hafa virkilega skilað þeim miklum árangri, en lífskjör í Lúxemborg eru eins og kunnugt er þau hæstu í Evrópu.

Sviss hefur í gegnum tíðina beitt mjög sérstökum aðferðum til þess að laða til sín og byggja upp fjármálastarfsemi. Það tengist ýmsum skattalegum ráðstöfunum en þó fyrst og fremst stífri bankaleynd. Svisslendingar eru með mjög víðtæka löggjöf, t.d. um alþjóðleg viðskiptafélög. Ég var að lesa það bara í síðustu viku að í Genf einni eru 350 slík alþjóðleg viðskiptafélög starfandi og einhver þeirra hafa allt að 350 manns í vinnu. Þetta eru félög sem stunda viðskipti milli landa með sambærilegum hætti og við höfðum hug á á tímabili að koma hér upp. (ÖJ: Brjóta alþjóðlegar siðareglur.) ,,Brjóta alþjóðlegar siðareglur``, segir hv. þm. Ég hygg nú að Svisslendingar geti alveg farið í samkeppni við Íslendinga um siðareglur. (ÖJ: Nei, þeir eru í banni hjá OECD.) Hv. þm. er greinilega mjög vel heima í efnahagslífi Sviss. En ég held að Sviss sé að mörgu leyti mikil fyrirmynd fyrir okkur Íslendinga á afar mörgum sviðum.

Síðan getum við nefnt land eins og Holland sem hefur byggt upp mjög mikla starfsemi í kringum eignarhaldsfélög. Allt er þetta gert á grundvelli skattalegrar stöðu slíkra fyrirtækja.

Síðast en ekki síst er mér mjög minnisstætt að ég fór í ferð þegar verið var að opna verksmiðju Íslenskra sjávarafurða sem var í Newport News í Virginíu. Þar hélt ríkisstjóri Virginíu ræðu og lýsti því í áhrifamiklu máli hvað fylkið Virginía hefði lagt af mörkum til þess að fyrirtækið kæmi með þessa verksmiðju til Newport News. Hann taldi upp allan þann stuðning sem Íslenskar sjávarafurðir fengu á þeim tíma og mig minnir að það hafi verið 1,5 millj. dollara í ýmsu formi sem þeir fengu til þess að koma þessari verksmiðju upp þarna.

Við lifum í heimi þar sem við þurfum að hugsa um samkeppnishæfni okkar. Við þurfum að hugsa um hvað við erum að gera og við þurfum að hugsa um hvað aðrir eru að gera. Við erum ekki ein í þessum heimi og þess vegna þurfa þau skilyrði sem við búum atvinnulífi okkar að vera samkeppnishæf á flestum sviðum. Við getum að sjálfsögðu ekki slegið af í því að bjóða atvinnulífinu upp á góð almenn skilyrði. Það gera allar þær þjóðir sem ætla sér að ná árangri í atvinnulífinu. Á tímabili var það ekki talið skipta miklu máli hér á landi. Það reyndist rangt. Það er nauðsynlegt að atvinnulífinu séu sköpuð þessi sterku almennu skilyrði.

En það getur og er líka nauðsynlegt að við hugum að því hvað aðrir eru að gera á einstökum sviðum og að við hugum að því hvort við eigum að taka þátt í slíkri samkeppni sem getur oft og tíðum þýtt að við þurfum að beita ýmsum sértækum ráðstöfunum á hinum einstöku sviðum. Það getur verið á sviði skattamála. Það getur verið á sviði menntamála. Það getur verið á margvíslegum sviðum sem snúa að fjármagnsmarkaðnum og einu og öðru sem við þurfum að grípa til til þess að tryggja að við missum ekki fyrirtæki sem eru staðsett hér og sem tryggja að við fáum þá til okkar starfsemi sem mundi að öðrum kosti byggjast upp annars staðar. Þess vegna getur atvinnustefna aldrei í sjálfu sér falist í því að það eigi að afskrifa allar slíkar sértækar aðgerðir eða ráðstafanir heldur verða þær að vera í samhengi við annað og í samhengi við það sem aðrir eru að gera og til þess fallnar þegar upp er staðið að efla samkeppnishæfni okkar í það heila tekið.

Þá ætla ég að víkja að frv. sem snýst um að veita Íslenskri erfðagreiningu ríkisábyrgð á 200 millj. ... (Gripið fram í: ... fá þessa ábyrgð?) Hv. þm. spyr um hvort það sé deCODE sem eigi að fá þessa ábyrgð. Það er móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar sem á að fá ábyrgðina en ábyrgðin er veitt vegna starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar. Ef það hefur farið fram hjá hv. þm. er það hér með upplýst. (Gripið fram í.)

Það er eðlilegt að menn spyrji sjálfa sig að því hvort þessi ráðstöfun, eins og hún er hér lögð til, sé áhættunnar virði, hvort þetta sé ráðstöfun sem skynsamlegt sé að fara út í og vil ég nú fjalla um það í nokkru máli.

Segja má að ef allt fari á versta veg í þessu þá sé verið að taka 200 millj. dollara áhættu, ekki bara fyrir íslenska ríkið heldur mundi líka þar til viðbótar allt eigið fé Íslenskrar erfðagreiningar tapast. Það er ekki bara íslenska ríkið sem er að taka mikla áhættu með þessu heldur er fyrirtækið ekki síður að taka áhættu og má segja að fyrirtækið sé lagt undir í þessu máli öllu líka. Áhættan sem ríkið tekur fellur ekki á ríkið. Ábyrgðin fellur ekki á ríkið nema búið sé að ganga að fyrirtækinu áður og það reynir þess vegna ekki á hana nema fyrirtækið sjálft verði gjaldþrota í raun.

Ef við reynum að spá í þetta frá sjónarhóli fyrirtækisins og hvernig þessi mál standa frá sjónarhóli þess þá hefur Íslensk erfðagreining ákveðið að fara út í þessa starfsemi og byggja hana upp. Einfaldasta leiðin til þess að gera slíkt væri með því að sameinast starfandi fyrirtæki, væntanlega í Bandaríkjunum. Sameiningin mundi þá fela það í sér að gengið yrði inn í annan rekstur sem væri í gangi, reynt að finna fyrirtæki sem væri fjárhagslega tiltölulega vel sett og skiptast á hlutabréfum í fyrirtækjunum þannig að fyrir sameininguna yrði greitt með hlutabréfum í deCODE.

Önnur leið af hálfu deCODE væri að gefa út hlutabréf í fyrirtækinu sem væri líka fær leið. En frá sjónarhóli fyrirtækisins mundi það vera óheppilegra en að sameinast öðru fyrirtæki vegna þess að verð á hlutabréfum í þessum fyrirtækjum er almennt mjög lágt þessa dagana. Verðþróun hlutabréfa í deCODE hefur verið nánast í samræmi við verðþróun hlutabréfa á Nasdaq-hlutabréfamarkaðnum. Eftir því sem hann hefur hækkað hefur verðið í deCODE hækkað og síðan öfugt. Því má segja að frá sjónarhóli fyrirtækisins séu hlutabréfin á hálfgerðri útsölu í dag. Ef þeir væru að fá inn nýtt fé með því að gefa út aukið hlutafé mundu þeir sem eru núverandi eigendur fyrirtækisins vera að þynna allmjög út eignarhlut sinn til þess að ganga inn í þetta verkefni. (SJS: Hefur markaðurinn rangt fyrir sér um verðmæti fyrirtækisins?)

Hv. þm. spyr hvort markaðurinn hafi rangt fyrir sér um verðmæti fyrirtækisins. Því er til að svara að markaðurinn er ákveðin niðurstaða af mismunandi sjónarmiðum á því hvort menn telja að verðið sé of hátt eða of lágt. Hlutabréfamarkaður gengur yfirleitt út á það að þessi mismunandi sjónarmið séu til staðar. Ef allir væru sannfærðir um að verðið á hlutabréfunum væri of lágt annars vegar eða allir væru sannfærðir um að verðið á hlutabéfunum væri of hátt hins vegar þá mundu engin viðskipti með bréfin eiga sér stað. En vegna þess að þarna er markaður í gangi þá byggir hann á því að skoðanir á því hvort verðið sé of hátt eða of lágt eru mismunandi. Markaðsverð á hverjum tíma er þess vegna niðurstaða af mismunandi skoðunum. En það að segja að eitt sé rétt og annað sé rangt í þessu tilviki á ekki við.

Hv. þm. brosir að þessu en þetta er svona undirstaða þess hvernig hlutabréfamarkaður virkar. Það að hann skuli brosa yfir þessu segir meira um skilning hans á hlutabréfamörkuðum en hlutabréfamarkaðina.

Varðandi það hvort Íslensk erfðagreining eigi að fara út í að kaupa fyrirtæki í Bandaríkjunum eða sameinast þar með því að skipta á bréfum þá mundi það að mörgu leyti vera áhættuminna fyrir fyrirtækið að því leyti til að þá væri hægt að velja einhvern rekstur sem hentaði fyrirtækinu og hægt væri að komast inn í. Hins vegar er svo spurning fyrir fyrirtækið hvort þeir kostir sem í því fælust séu það miklir að ekki sé líka hægt að skoða þá leið að byggja þessa starfsemi upp hér á landi. Fyrirtækið hefur verið að byggja sig upp hér á landi með góðum árangri. Það hefur verið tiltölulega auðvelt fyrir fyrirtækið að laða hér að fólk og sá vinnumarkaður sem hér hefur verið hefur verið móttækilegur fyrir starfsemi af þessu tagi. Það er mat fyrirtækisins að það væri að mörgu leyti æskilegt að byggja upp áframhaldandi starfsemi hér á landi.

Þá er spurningin frá sjónarhóli fyrirtækisins hvað réttlætti slíka uppbyggingu hér á landi. Eins og staðan er frá sjónarhóli fyrirtækisins þá væri mjög ólíklegt að nokkurn tíma væri hægt að réttlæta það að gera slíkt ef ríkið eða opinberir aðilar kæmu þar ekki að. Þarna er því á ferðinni tækifæri sem mundi sigla fram hjá okkur nema við stöldruðum við og skoðuðum hvort ríkið ætti að gera eitthvað til þess að ná þessari starfsemi til okkar og byggja hana upp hér á landi.

Þá er rétt að spá í af hverju við ættum að fara út í slíkt, af hverju við ættum að gera það, þ.e. byggja þessa starfsemi upp hér á landi. Þá verður það að hafa einhvern, að ég tel, annan tilgang en beina aðstoð við Íslenska erfðagreiningu. Það verður að hafa einhvern tilgang sem í raun þolir að allt fari á versta veg þannig að við getum tekið ákveðna áhættu á að allt fari á versta veg og að stór hluti af þessum peningum tapist.

Hverju erum við að sækjast eftir? Við erum fyrst og fremst að sækjast eftir því að hér á landi byggist upp þekkingarklasi, klasi þekkingar á þessu sviði, að mikið af fólki setjist hér að, hasli sér hér völl á þessu sviði, sem hefur mikla þekkingu, mikla menntun, vinnur í hálaunuðum störfum á þessu sviði, fólk sem borgar háa skatta, leggur mikið af mörkum til þjóðfélagsins, bæði peningalega og eins á öðrum sviðum. Eftir þessu erum við að sækjast. Og eins því að þetta verði til þess að ungt fólk hasli sér völl á þessu sviði, fari að leggja stund á nám á þessu sviði, að þeir Íslendingar sem hafa verið að læra erlendis finni sér vettvang hér á þessu sviði þannig að ákveðin fjölbreytni verði í þessum störfum, ekki bara hjá Íslenskri erfðagreiningu heldur að þetta verði til þess að önnur fyrirtæki geti líka komið inn á þetta svið þannig að mikið flæði fólks og þekkingar verði á milli nokkurra öflugra fyrirtækja og að þúsundir Íslendinga og innflytjenda vinni við þessi störf. Þetta verða þá fyrst og fremst hátæknistörf, störf sem kalla á mikla menntun en skapa einnig mörg tækifæri fyrir fólk sem ekki hefur langskólanám. Eftir þessu erum við í raun að sækjast. Þetta er í rauninni það sem menn hafa verið að velta fyrir sér hvort þoli þá áhættu sem verið er að taka. Um það er í sjálfu sér aldrei hægt að segja fyrir fram hvort það gangi upp eða gangi ekki upp. Þetta er áhætta sem verið er að taka.

En ef við lítum á þetta frá sjónarhóli fyrirtækisins aftur og spáum í þessa áhættu út frá sjónarhóli þess þá lítur það þannig út að hlutabréfin eru á útsölu. Hlutabréfamarkaðir eru almennt í lægð og gengið á bréfunum í deCODE er í lægð líka.

[10:30]

Nú má velta því fyrir sér hvað þessi lægð á hlutabréfamörkuðunum stendur lengi en ég hygg að flestir sem eru að spá í markaðina ímyndi sér að þeir muni einhvern tíma innan fárra ára taka við sér og að verð á hlutabréfum almennt, t.d. á Nasdaq-markaðnum og eins á einstökum fyrirtækjum sem eru skrásett á þessum markaði, muni fara hækkandi. Það þýðir að þau skuldabréf sem gefin verða út munu mjög líklega breytast í hlutafé í deCODE en eins og skuldabréfaútgáfan er fyrirhuguð þá er miðað við það að við ákveðin skilyrði, ákveðið gengi á bréfunum, verði fyrst réttur en síðan skylda til þess að umbreyta þeim í hlutafé. Frá sjónarhóli fyrirtækisins er að sjálfsögðu verið að vonast til þess að innan fimm eða sjö ára verði þessi skuldabréf orðin að hlutafé í deCODE og muni þess vegna ekki koma til greiðslu sem skuldabréf.

Í framhaldinu er í sjálfu sér hægt að velta því fyrir sér hvert slíkt gengi ætti að vera. Frá sjónarhóli ríkisins væri eðlilegt að þetta gengi væri ekki mjög hátt, frá sjónarhóli fyrirtækisins væri sjálfsagt reynt að hafa það heldur hærra sem snýst alltaf um það á hvaða gengi nýir hluthafar eiga að koma inn í reksturinn. Það þýðir þegar upp er staðið, ef menn hafa trú á því að hlutabréfamarkaðirnir muni ná sér, að gengi bréfanna í deCODE muni ná sér, að þá minnkar áhættan af hálfu ríkisins allverulega við það þegar þessi bréf geta breyst svona í hlutafé. En engu að síður er alltaf ákveðin áhætta til staðar.

Annað sem þarf að spá í í sambandi við þessa áhættu er að það er ákveðinn möguleiki fyrir fyrirtæki af þessari tegund að stýra áhættunni. Í öllu þessu ferli geta menn ýmist verið að stunda starfsemi sem er gerð í samstarfi við aðra eða menn geta tekið áhættu með því að fara út í einhverja starfsemi sem menn ætla sér að fá eitthvað út úr og selja síðan niðurstöðurnar en halda áfram þróuninni. Þannig er á því tímabili sem ríkið ábyrgist þessi bréf hægt að stýra áhættunni og ná inn tekjum vegna starfsemi og krefjast þess að meiri tekjur verði myndaðar með samstarfssamningum en að fyrirtækið sé sjálft að taka eigin áhættu. Þess vegna er þetta enn þá einn þáttur sem hægt er að grípa til til þess að draga úr þeirri áhættu sem verið er að taka.

Ef við í lokin lítum á framhald þessa máls, hvernig því muni reiða af ef að lögum verður, þá hefur fjmrn. þegar kynnt þetta mál fyrir Eftirlitsstofnun EFTA en það er lagt upp á þeim grundvelli að það falli undir leyfða ríkisaðstoð vegna rannsóknar- og þróunarstarfsemi.

Nú skal ég ekkert segja eða fullyrða um það hvernig niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA verður í þeim efnum en það er ljóst að það verður lagt eitthvert mat á það hvers virði þessi stuðningur er og hann gæti komið út upp á það að vera einhver hundruð milljóna á hverju ári sem þetta gengur yfir og þá er það borið saman við það hve hár slíkur styrkur má vera í hlutfalli af þeirri fjárfestingu sem verið er að leggja í og hvað þetta er í rauninni mikilvægt í það heila fyrir allt verkefnið.

Ég held að eftir að það liggur fyrir þá sé að sjálfsögðu komin ákveðin lína í þetta. Þá liggur alla vega fyrir hvort þessi nálgun á málinu gengur upp, hvort Eftirlitsstofnun EFTA metur þetta gilt rannsóknar- og þróunarverkefni eða hvort hún gerir það ekki. Ef Eftirlitsstofnun EFTA gerir það ekki og þetta fer undir almennan ríkisstuðning, þá vaknar spurningin hvort menn vilji þá breyta um kúrs og nálgast þetta mál sem byggðastyrk eða slíkt eða hvort menn vilji hafa þetta sem ríkisaðstoð sem er þá greitt fyrir fullu verði. Það getur ýmislegt komið til greina í því sambandi og það mundi þýða að Íslensk erfðagreining yrði þá nánast að kaupa þessa ríkisábyrgð ef greiða ætti fyrir hana fullu verði eða þá að farið væri með þessa starfsemi út fyrir bæjarmörkin og hún ekki byggð upp í 101 Reykjavík heldur í einhverju öðru póstnúmeri sem félli undir það að starfsemin sé styrkt og þá þarf ekki að fara lengra en norður fyrir Hvalfjörð til þess að komast í slíkt umhverfi. (SvH: Eða til Reyðarfjarðar.) Eða til Reyðarfjarðar, já. En ég var ekki kominn svo langt í hringferðinni um landið, hv. þm., að ég væri kominn austur.

Ég vil einungis vekja athygli á því að skattasamningurinn sem gerður var við Norðurál var réttlætanlegur á þeim grundvelli að það væri leyfilegur byggðastyrkur við fyrirtækið.

Það er líka ljóst að aðrir aðilar munu koma til greina og munu sækja á um sambærilega fyrirgreiðslu og deCODE hefur fengið. Ég tel líka að þetta mál sé liður í einhverju sem hefur annan og meiri tilgang en þann að styrkja eitt fyrirtæki sem slíkt. Í mínum huga snýst þetta mál ekki um að styrkja Íslenska erfðagreiningu heldur um það hvort við Íslendingar viljum hasla okkur völl á þessu sviði almennt séð. Það getur þá teygt sig inn á ýmis svið en fyrst og fremst erum við að spá í hvort við viljum byggja upp slíka þekkingu í lyfjaþróun á Íslandi sem tengist þá ekki endilega Íslenskri erfðagreiningu heldur því að byggja upp þennan þekkingarklasa sem ég ræddi um fyrr. Eitt fyrirtæki, Lyfjaþróun hf., hefur lagt fram gögn um sína starfsemi og það fyrirtæki er reyndar í því ferli núna að reyna að ná í fjármagn til sinnar starfsemi hjá erlendum aðilum og var þess vegna í rauninni tilbúið með öll sín kynningargögn og með öll sín mál klár þannig séð, það fyrirtæki hlýtur að koma til skoðunar þegar ljóst verður hvort Eftirlitsstofnun EFTA vill makka með í þessu máli eða ekki. Þá verður kominn grundvöllur til þess að skoða þeirra mál og þá fleiri í framhaldinu.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að biðja neinnar afsökunar á því að hafa haldið líklega lengstu framsöguræðu sem ég hef flutt með máli í þinginu en ég taldi að þetta mál væri þess eðlis að það réttlætti það að gerð væri nokkur grein fyrir því af hálfu meiri hluta nefndarinnar. Ég legg til að málið verði samþykkt með þeim brtt. sem ég hef hér rakið. (SvH: Þú gleymdir að vitna í samþykktir Verslunarráðsins.)