Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 10:50:06 (8126)

2002-04-23 10:50:06# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[10:50]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekkert undrandi á þessum svörum formanns nefndarinnar vegna þess að hann skilur ekki frekar en ég afstöðu Verslunarráðs Íslands og treystir sér greinilega ekki til þess að túlka hana í ræðustól. Það er enginn undrandi á því þegar uppi eru þrjár afstöður í málinu og hv. formaður efh.- og viðskn. er settur í þá óþægilegu stöðu af ríkisstjórninni að þurfa að þjóna tveimur herrum, annars vegar Davíð Oddssyni og ríkisstjórninni og hins vegar Verslunarráðinu, þannig að hv. þm. er auðvitað í afleitri stöðu. Það er náttúrlega mjög slæmt þegar við erum að reyna að átta okkur á afstöðu hagsmunaaðila í þessu máli að við skulum ekki fá botn í afstöðu Verslunarráðsins til þessa máls. Þetta er aðili sem hv. þm. leggur alltaf til að fái öll mál til umsagnar og er fastagestur í nefndinni, Birgir Ármannsson, þannig að það er litið aðeins til skoðana þeirra.

Það er athyglisvert að Verslunarráðið er eini aðilinn í hópi aðila vinnumarkaðarins og fjármálastofnana sem hefur ekki eina afstöðu í þessu máli heldur þrjár. Allir hinir eru á móti málinu. En Verslunarráðið hefur þrjár afstöður.

Er ekki hægt að fá, herra forseti, fram nánari afstöðu Verslunarráðsins heldur en hér hefur komið fram?