Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 10:54:35 (8129)

2002-04-23 10:54:35# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[10:54]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki reiknað með því fyrir fram að það tækist á 40 mínútum að sannfæra hv. þm. um ágæti þessa máls. Ég hafði kannski eitthvað annað í hyggju með því.

Varðandi það sem hv. þm. fjallaði um, þessar sértæku aðgerðir og almenn skilyrði í efnahagslífinu, þá verður hv. þm. að sætta sig við það að sú áhersla sem verið hefur á hin almennu skilyrði í atvinnulífinu síðan 1991 hefur skilað árangri, hefur skilað mjög miklum árangri. Hv. þm. verður líka að sætta sig við það að á þessum tíma frá 1991 hefur líka verið beitt ýmsum sértækum aðgerðum í atvinnumálum sem hafa sumar hverjar einnig skilað árangri, sumar reyndar ekki. En sumar hafa skilað ágætisárangri.

Það sem ég var að draga fram í framsöguræðu minni var að áherslan í efnahagsstjórninni á þessar almennu aðgerðir, hin almennu skilyrði, hefur skilað árangri en það var stefnubreyting frá því sem var þar á undan þegar hin almennu skilyrði voru ekki í lagi, en menn ætluðu að bjarga öllu með þessum sértæku aðgerðum og ráðum. Þegar upp er staðið er spurningin við hvaða skilyrði menn beita sértækum ráðstöfunum, hvert markmið með þeim er. Það verður að vega það og meta en þær mega aldrei vera gerðar eða eitt aðalatriðið á kostnað hinna almennu skilyrða sem atvinnulífið býr við. Það er ekki svo í þessu tilviki.