Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 10:59:58 (8133)

2002-04-23 10:59:58# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[10:59]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einu sinni þannig að það er ekki létt verk að tosa út úr Eftirlitsstofnun EFTA svör við spurningu sem er spurt með stóru efi fyrir framan. Gangur þessara mála er einfaldlega þannig að það er lagt upp með ákveðið mál sem er þá samþykkt mál af hálfu íslenska ríkisins og það er spurt hvort það gangi upp. Síðan taka menn ákvarðanir í framhaldi af því.

Það er ekki þannig að íslenska ríkið eða stjórnmálaflokkar eða hagsmunasamtök geti beint spurningum til ESA og fengið þeim svarað svona eftir viku eða svo. Það virkar ekki þannig, heldur er þetta þannig að það er tekið fyrir af því að þetta er samþykkt mál, alvörumál af hálfu ríkisstjórnarinnar og þá er farið í gegnum það.