Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 11:03:23 (8136)

2002-04-23 11:03:23# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 1. minni hluta JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[11:03]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í því nál. sem ég mæli fyrir eru færð fram rök 1. minni hluta í málinu. Niðurstaða 1. minni hluta er að við getum ekki stutt það og má segja að fyrir því séu í stórum dráttum þrenns konar rök. Í fyrsta lagi jafnræðisrökin sem ég mun skýra nánar í máli mínu, í öðru lagi samkeppnisrökin og í þriðja lagi áhætturökin.

Við í 1. minni hluta gagnrýnum hve Alþingi hefur gefist lítill tími til að fjalla um málið og brjóta það til mergjar í nefnd og við teljum líka að það sé hreinlega ekki boðlegt að veita þeim aðilum sem nefndin þarf að fá álit, umsögn og ráðgjöf hjá jafnstuttan tíma til að koma á framfæri við nefndina skoðunum sínum, enda var það svo, herra forseti, að margir umsagnaraðilar sem gjarnan hefðu viljað hafa meiri tíma til þess að skila skriflegu áliti gerðu það ekki vegna þess knappa tíma sem nefndinni var ætlað til að ljúka málinu á.

Það er ekki forsvaranlegt, herra forseti, þegar við erum að fjalla um svo stórt mál sem hefur svo gífurlega áhættu eins og ég mun koma nánar að, í máli mínu, að ætla þinginu örfáa daga til að afgreiða málið og gera það að lögum. Ríkisstjórnin þurfti a.m.k. tvo mánuði sjálf til þess að fjalla um þetta mál og hún getur ekki ætlast til þess að þingið þurfi minni tíma en ráðherrarnir til að skoða það, vega og meta afstöðu í málinu vegna þess að það er mjög flókið og sértækt og eins og ég mun koma að í máli mínu á það alls ekki að vera í verkahring þingmanna að taka afstöðu til slíkra mála.

Eins og ég sagði í stuttu andsvari áðan hefur frv. þetta mætt mikilli andstöðu hjá nær öllum þeim sem voru kallaðir til fundar við nefndina. Þar má nefna fulltrúa frá fjármálamarkaðnum eins og greiningardeildum banka og verðbréfafyrirtækja, fulltrúum frá atvinnulífinu, heildarsamtökum atvinnulífsins og heildarsamtökum launafólks. Sömuleiðis frá efnahagsstofnunum eins og Þjóðhagsstofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem og einstökum fyrirtækjum á vinnumarkaðnum sem starfa á sama sviði og Íslensk erfðagreining. Það er allt á einn veg hjá þeim umsagnaraðilum sem komu á fund nefndarinnar. Þeir gagnrýna mjög þessa sértæku aðstoð og raunar eru menn mjög undrandi yfir því að ríkisstjórnin skuli með þessum hætti hverfa frá stefnu sinni, eins og margir sögðu, og leggja til þetta mál. Það var aðeins ein afstaða sem var nokkuð óljós, kannski tveir umsagnaraðilar. Það er í fyrsta lagi Verslunarráðið eins og við höfum rætt. Það er mjög erfitt að átta sig á afstöðu þeirra í málinu en ég hygg að ef rýnt er í afstöðu stjórnar Verslunarráðsins, þá sé stjórn Verslunarráðsins mjög ósammála þeirri leið sem ríkisstjórnin er að fara og leggist jafnmikið gegn því og aðrir aðilar þó að hin sérstaka staða sem formaður efh.- og viðskn. er í geri það að verkum að þetta lítur hreinlega út eins og Verslunarráðið hafi þrenns konar afstöðu í málinu.

Síðan var það Seðlabankinn. Það er erfitt að átta sig á afstöðu hans í málinu sem reynir er að spila sig eitthvað hlutlausan í málinu þótt hér sé um að ræða stórt mál sem getur haft verulega áhættu í för með sér og áhrif inn á markaðinn, en þeir bera fyrir sig eins og kannski aðrir aðilar að þeir hafi haft mjög stuttan tíma til þess að fjalla um málið.

Aðkoma ríkisvaldsins og löggjafarþingsins að málinu er líka með öllu óeðlileg að mínu mati því hér er um að ræða sérstaka fyrirgreiðslu við eitt fyrirtæki í landinu en aðgerðin er úr samhengi við hlutverk bæði þings og framkvæmdarvaldsins. Jafnvel þótt litið sé til fortíðar og þeirra afskipta sem löggjafar- og framkvæmdarvaldið hafa oft og tíðum haft af atvinnulífinu með ýmsum sértækum aðgerðum og styrkjum, þá er það einsdæmi að svona gríðarleg fyrirgreiðsla og áhættusöm hafi verið veitt einu fyrirtæki. Undantekning þar frá er algert neyðartilvik eins og tímabundin ábyrgð ríkisvaldsins á tryggingu flugflotans vegna hryðjuverkanna í Bandaríkjunum í september sl. Þingmenn eru því settir í algerlega óviðunandi stöðu að þurfa að taka ákvörðun um 20 milljarða ríkisábyrgð til eins fyrirtækis. Þingmenn eru auðvitað ekki í neinni aðstöðu og eiga ekki að vera það til þess að velja eitt fyrirtæki úr og veita því fyrirgreiðslu umfram önnur sem þar að auki er gífurlega áhættusöm fyrir ríkissjóð og skattgreiðendur. Ef ríkisvaldið hefði viljað styðja sérstaklega við þekkingariðnaðinn eða hátæknigreinar til að skapa hér nokkur hundruð arðvænleg störf, þá eru aðrar leiðir til þess heppilegri sem ekki hefðu leitt til mismununar í atvinnulífinu og samkeppnisröskunar í einstökum greinum.

Vissulega er það svo að Íslensk erfðagreining er þýðingarmikið fyrirtæki fyrir nýja hátækniframleiðslu á sviði lífvísinda hér á landi og hefur um 600 hálaunuðum hátæknistörfum á að skipa sem skiptir auðvitað miklu máli fyrir þjóðarbúið. Ekki skal úr því dregið. Auðvitað er mjög brýnt að slíkum störfum fjölgi á Íslandi og að lagður verði grunnur að nýjum greinum og fyrirtækjum á sviði hátækni, þar á meðal líf-, vísinda- og lyfjaþróunar. En það á, herra forseti, að örva eflingu hátæknigreina með almennum hætti þar sem settar eru almennar reglur sem auðvelda starfsumhverfi slíkra greina eða fyrirtækja á jafnréttisgrunni. Almannahagsmunir eiga að vera í fyrirrúmi gegn sérhagsmunum og hinar óskráðu og skráðu reglur um jafnræði á ekki að brjóta.

Það er einmitt, herra forseti, fróðlegt að bera saman 20 milljarða ríkisábyrgð sem hér á að veita einu fyrirtæki á hátæknisviði við veltuna og mannafla í hugbúnaðariðnaðinum hins vegar. Áætluð heildarvelta hugbúnaðariðnaðarins og þeirrar greinar var tæplega 20 milljarðar í fyrra og um 2.900 manns starfa í greininni og þeim fjölgaði um 1.300 eða 81% frá 1997. Áætluð fjárfesting á þeim árum nam 8 milljörðum kr. Afkoman hefur verið mjög misjöfn og síðasta ár var mjög erfitt í þeirri grein. Þetta má auðvitað bera saman við þá 20 milljarða kr. ríkisábyrgð sem veita á einu fyrirtæki og margir telja að verulegar líkur séu á að geti fallið á skattgreiðendur. Heildarveltan í hugbúnaðargreininni var um 20 milljarðar í fyrra og það eru 2.900 manns sem starfa í greininni og þarna er um að ræða sömu fjárhæð og á að veita einu fyrirtæki.

Einnig má benda á að Íslensk erfðagreining sem nú á að veita 20 milljarða kr. ríkisábyrgð og margir telja að geti verið brot á bæði stjórnarskrá og samkeppnislögum hefur fengið mjög sérstaka aðstoð og fyrirgreiðslu hjá íslensku þjóðinni. Fyrirtækinu var fyrir örfáum árum veitt einkaleyfi til að starfrækja gagnagrunn á heilbrigðissviði til 12 ára og einkaaðgangur að heilsufarsupplýsingum þjóðarinnar. Eftir því var leitað í efh.- og viðskn. hvort greiðslur væru farnar að koma inn í ríkissjóð vegna þeirrar fyrirgreiðslu en upplýst var að svo væri ekki. Fjöldi fjárfesta hér á landi og einstaklingar hafa líka keypt hlutabréf í félaginu og lagt fjármagn í mikla áhættufjárfestingu en margir þeirra hafa tapað á því miklu fjármagni. Þetta fyrirtæki hefur því fengið áður mjög umdeilda, sértæka og einstaka aðstoð sem sýnir að þjóðin metur þá mikilvægu starfsemi á hátæknisviði sem Íslensk erfðagreining stendur fyrir og skapað hefur fjölda starfa í þekkingariðnaði.

Herra forseti. Hlutverk ríkisins er að skapa samkeppnishæft umhverfi fyrir atvinnulífið, t.d. í skattalegu tilliti og með almennum hætti þar sem jafnræði allra fyrirtækja og atvinnulífsins er í fyrirrúmi. Leikreglur á fjármálamarkaði og í atvinnulífnu eiga að vera með þeim hætti að þær vinni gegn einokun og samþjöppun valds og fjármagns í atvinnulífinu og með öflugri samkeppni á markaðnum. Þessi fyrirgreiðsla upp á 20 milljarða kr. gengur þvert á þá stefnu. Markmið einkavæðingar sem er m.a. að komast hjá ríkisábyrgð er líka þverbrotið með þessari sértæku aðstoð. Það er kaldhæðnislegt, herra forseti, að það skuli vera Sjálfstfl. sem á tyllidögum kennir sig við frjálsræði, samkeppni og einstaklingsframtak en gegn ríkiskapítalisma og einokun sem er í forsvari fyrir svona pilsfaldakapítalisma og gamaldags vinnubrögð.

Athygli vekur að Benedikt Jóhannesson framkvæmdastjóri, sem jafnframt er stærðfræðingur að mennt og stjórnarformaður fyrirtækja eins og Skeljungs og Nýherja, segir að enginn vafi sé á því að þessi hugmynd sé einhver hin ábyrgðarlausasta sem borin hefur verið upp á Alþingi frá upphafi vega. Hérna er mikið sagt, herra forseti, en ég hygg að sá ágæti maður sem er stærðfræðingur að mennt hafi mikið til síns máls þegar hann segir að þessi hugmynd sé einhver sú ábyrgðarlausasta sem borin hafi verið upp á Alþingi frá upphafi vega. Það er ekki hægt, herra forseti, annað en segja nei við því að veita svona sértæka aðstoð upp á 20 milljarða til eins fyrirtækis með allri þeirri áhættu sem henni fylgir fyrir skattgreiðendur.

[11:15]

Kaupþing hefur líka bent á að athygli vekji að fullyrt sé að aðkoma ríkisvaldsins sé ein meginforsenda þess að unnt sé að starfrækja fyrirtækið hér á landi. Segja þeir að þessi afstaða virðist nokkuð á skjön við þá þróun sem verið hefur á Vesturlöndum undanfarinn áratug, en beggja vegna Atlantsála hafi verið lagt kapp á að draga úr aðkomu ríkisins að almennum starfs- og fjármögnunarskilyrðum fyrirtækja. Þessi afstaða virðist nokkuð á skjön við þá þróun sem verið hefur á Vesturlöndum.

Herra forseti. Það vekur auðvitað mikla athygli í öllum þessum málatilbúnaði hvernig að honum er staðið. Það er eitt að taka ákvörðun um að veita þessa ríkisábyrgð og síðan er það auðvitað hin hliðin á málinu, þ.e. hvernig að því er staðið.

Ný lög um ríkisábyrgð voru sett á árinu 1997. Aðdragandi þess var að sett var á fót nefnd til þess að endurskoða ríkisábyrgðir, en hún starfaði undir forustu Birgis Ísleifs Gunnarssonar seðlabankastjóra. Í tillögum nefndarinnar sem fylgdu í greinargerð með frv. um ríkisábyrgðir sem lagt var fyrir 122. löggjafarþing kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Opinberir aðilar hafa orðið fyrir umtalsverðum skakkaföllum á liðnum árum vegna ábyrgða sem þeir hafa tekið á sig. Ábyrgðir á lánum einkaaðila hafa fallið á ríki og sveitarfélög, bein lán til atvinnufyrirtækja hefur reynst nauðsynlegt að afskrifa og eignir ríkisins í atvinnufyrirtækjum og fjármálastofnunum hafa rýrnað vegna tapa þessara aðila. Nefndin telur að stefna beri að því að draga úr ríkisábyrgðum einkum þar sem aðild ríkisins skekkir samkeppnisstöðu einkaaðila. Einnig telur nefndin brýna þörf á að reglur um veitingu ríkisábyrgða séu skýrar.``

Það er til marks um hversu óeðlilega sértæk þessi ríkis\-ábyrgð er að vikið er til hliðar nýlegum lögum um ríkisábyrgð sem sett voru til að tryggja vandaða málsmeðferð og lágmarka alla áhættu þegar ríkið í undantekningartilvikum veitir ríkisábyrgð. Þannig kemst ríkisvaldið hjá því að uppfylla ýmis skilyrði laganna sem kveða m.a. á um að umsögn Ríkisábyrgðasjóðs skuli liggja fyrir um mat á greiðsluhæfi skuldara. Það liggur ekki fyrir. Mat á afskriftaþörf liggur heldur ekki fyrir. Mat á tryggingum liggur heldur ekki fyrir. Mat á áhrifum á samkeppni á viðkomandi sviði liggur heldur ekki fyrir. Ekkert af þessu liggur fyrir. Ekkert af þessu var hægt að fá fram í nefndinni, en þetta er lagaskylda í nýlegum lögum sem Alþingi hefur sett til þess einmitt að hamla á móti ríkisábyrgðum, en þegar þær í undantekningartilvikum eru veittar þá skuli reistar eins miklar girðingar og hægt er til þess að tryggja að fé skattborgaranna tapist ekki. Ekkert þessara atriða þarf að uppfylla hér áður en málið gengur frá þinginu, en í samningum sem gera á við fyrirtækið verða einhver af þessum ákvæðum væntanlega sett inn og reynt að uppfylla þau. En það er með öllu óljóst hvernig það verður og þingið fær ekkert að vita um það áður en það þarf að greiða atkvæði í þessu máli hvernig þær lyktir verða.

Í lögunum er líka kveðið á um að ríkissjóði sé óheimilt að takast á hendur ríkisábyrgð nema að fullnægðum ákveðnum skilyrðum eins og að ábyrgðarþegi leggi fram viðeigandi tryggingar að mati Ríkisábyrgðasjóðs og ekki sé hægt að fullnægja lánsfjárþörf á almennum lánamarkaði. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að ekki er hægt að fullnægja þessari lánsfjárþörf á almennum markaði hér og heldur ekki erlendis eins og ég mun koma að síðar í máli mínu og það er auðvitað ástæða þess að leitað er eftir þessari ríkisábyrgð.

Herra forseti. Eina ákvæðið sem í gildi verður í ríkis\-ábyrgðalögunum er 5. gr. laganna um að árlega skuli halda afskriftareikning vegna veittra ábyrgða og afskriftareikningur Ríkisábyrgðasjóðs skuli á hverjum tíma gefa raunhæfa mynd af áætluðum afskriftum allra ábyrgða sjóðsins. Furðulegt verður þó að telja að ríkisvaldið telji ekki ástæðu til á þessu stigi að leggja til hliðar í afskriftasjóð vegna svona hárra ríkisábyrgða. Það vekur athygli að 6. gr. ríkisábyrgðalaganna er vikið til hliðar líka en þar er kveðið á um að hver sá sem ríkissjóður gengur í ábyrgð fyrir skuli greiða við ábyrgðarveitingu í ríkissjóði áhættugjald er nemi 0,25--4% af höfuðstól ábyrgðarskuldbindingarinnar fyrir hvert ár lánstímans. Það skiptir miklu máli hve hátt ábyrgðargjaldið verður. Ef miðað er við lægsta áhættugjald eins og kveðið er á um í lögunum, 0,25, þá mundi það gefa ríkissjóði allan lánstímann 350 millj. kr., en 4% sem er hæsta ríkisábyrgðargjaldið samkvæmt lögunum mundi gefa ríkissjóði 5,6 milljarða kr. Við erum að tala um annars vegar með lægsta ábyrgðargjaldi 350 millj. kr. samkvæmt lögunum en með hæsta ábyrgðargjaldi á lánstímanum erum við að tala um 5,6 milljarða kr.

Þingið veit ekkert þegar því er gert að afgreiða þetta mál hvert þetta ríkisábyrgðargjald verður. Það ræðst af ábyrgðinni, þ.e. hvernig ábyrgð verður veitt ef hún á annað borð verður veitt, er svarið þegar um er spurt. Það er sem sagt allt í óvissu um hvort eða hvernig ábyrgðargjaldið verður greitt vegna 20 milljarða ábyrgða af útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar. Það var upplýst í nefndinni að það lægi ekki fyrir fyrr en eftir nokkra mánuði hvort ESA telji ríkisábyrgðina geta fallið undir heimild til að veita sérstaka ríkisábyrgð til rannsókna- og þróunarverkefna, en um hana gilda minni kröfur um greiðslu markaðsverðs og tryggingar fyrir ríkisábyrgðina en ef um almenna ríkisábyrgð væri að ræða.

Ástæða er líka til að geta þess hér að fullkomin óvissa ríkir um hvort ESA gefi sína heimild til þess að hægt sé að veita þessa ríkisábyrgð. Í því sambandi ber að líta til þess að ríkisábyrgðin er mjög hátt hlutfall af heildarfjárfestingum eða um 60% af heildarfjárfestingum, en heildarfjárfestingin er 35 milljarðar kr. 1. minni hluti leitaði eftir að fá upplýsingar um hvað ríkisábyrgðir og ríkisstyrkir sem ESA hefur veitt heimild fyrir hafi verið hátt hlutfall af heildarfjárfestingu hingað til. Í þeim dæmum sem rakin voru í nefndinni var yfirleitt um að ræða helmingi minni aðstoð hlutfallslega af heildarfjárfestingu en hér er getið. Það kemur fram í umsögnum með áliti okkar í 1. minni hluta varðandi þá aðstoð sem var heimiluð af hálfu ESA og greint var frá í umsögnum, t.d. umsögn frá fjmrn. sem við leituðum eftir, að sem hlutfall af heildarfjárfestingu í viðkomandi verkefni var um að ræða helmingi minni aðstoð hlutfallslega en hér á að veita.

Herra forseti. Allir aðilar á fjármálamarkaðnum sem veittu umsögn um málið eða tjáðu sig um þessa ríkis\-ábyrgð eru á einu máli um að þetta sé mjög áhættusamt verkefni, enda er lyfjaiðnaðurinn og lyfjaþróunarstarfsemi með áhættusömustu atvinnugreinum. Fram kom að fjármálamarkaðurinn ætti sjálfur að velja arðbærustu viðskiptahugmyndina í hátækniiðnaði en ekki löggjafarþingið.

Gylfi Magnússon, dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, sagði í Viðskiptablaðinu nýverið að þessi ríkisábyrgð væri fráleit og þýði að aðhald markaðarins sé ekki lengur fyrir hendi, þ.e. hvatinn til að velja á milli góðra og slæmra viðskiptahugmynda.

Ég vil vitna líka í Morgunblaðið 12. apríl sl. Þar er viðtal við ýmsa aðila, m.a. Gylfa Magnússon dósent. Þar heldur hann því fram líkt og ég greindi hér frá að alveg fráleitt væri að fjármagna ríkisábyrgðina með skuldabréfum með ríkis\-ábyrgð. Ég er að vitna í Gylfa Magnússon, dósent í hagfræði við háskólann. Hann gagnrýnir fyrirhugaða ríkisábyrgð og segir, með leyfi forseta:

,,,,Almennt séð er ríkisábyrgð mjög varahugaverð af þeirri ástæðu að ef vel gengur, hirða einkaaðilar hagnaðinn, en ef illa gengur lendir hann á skattborgurunum. Það er uppskrift að sóun á fjármunum. Það er hægt að tína til fleiri dæmi um það en kæmust fyrir í nokkrum bindum af Morgunblaðinu,`` segir Gylfi.

Hann segir alveg ljóst að mikil áhætta sé tekin með því að veita umrædda ríkisábyrgð. ,,Það eru umtalsverðar líkur á því að þessir 20 milljarðar hreinlega lendi á ríkinu og þar með á skattgreiðendum.`````

Síðar í þessu sama viðtali segir, með leyfi forseta:

,,Hann segir ómögulegt að meta líkurnar á því hvort fyrirtækinu muni takast að þróa lyf sem geri kleift að sækja fjármagn út á fjármálamarkaði áður en það fé sem safnað er í upphafi er þorrið. ,,Hins vegar eru verulegar líkur á að það takist ekki og þar með eru verulegar líkur á að þessir 20 milljarðar hreinlega falli á ríkissjóð,`` segir Gylfi Magnússon.``

Hér var ég að vitna í dósent í hagfræði við Háskóla Íslands sem menn hljóta að taka eitthvert mark á. Ekki höfum við miklar tölulegar upplýsingar við að styðjast í þessu sambandi eða áhættumat sem stíft var kallað eftir í nefndinni. Við hljótum því að líta til hlutlausra aðila á markaði sem þekkja til svona mála. Því er eðlilegt að vitna til umsagna þeirra þar sem þeir meta áhættuna í þessu máli verulega mikla eins og fram kom hjá þessum dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.

Greiningardeild Búnaðarbankans segir að fyrirtækja\-áhætta lyfjaþróunarfyrirtækja sé metin allt að þrefalt meiri en meðaltalsáhætta fyrirtækja almennt. Greiningardeildin segir að fyrirtæki í nýsköpun séu almennt talin mjög áhættusöm og slík fyrirtæki eigi afar erfitt með að nálgast langtímafjármögnun. Í gögnum sem greiningardeildin lagði fyrir efh.- og viðskn. kemur fram að óhætt sé að gera ráð fyrir að ríkisábyrgðin tryggi deCODE lánskjör sem séu a.m.k. 3--4% hagstæðari en ella og á ársgrundvelli sé um að ræða vaxtasparnað sem nemi a.m.k. 600--800 millj. kr. og þeir segja að fyrirtækjaáhætta deCODE sé mikil. Benda þeir á að af þeim 100 atvinnugreinum sem skoðaðar hafa verið voru 11 atvinnugreinar með meiri fyrirtækjaáhættu en fyrirtæki í líftækni og lyfjaþróunariðnaðinum en 87 atvinnugreinar með minni fyrirtækjaáhættu. Greiningardeild Búnaðarbankans bendir á að efnahagslegar eignir lyfjaþróunarfyrirtækis séu takmarkaðar og takist ekki að þróa lyf til að standa undir kostnaði getur eigandi skuldabréfanna því ekki gengið að þeim.

Fulltrúar greiningardeilda Íslandsbanka og Kaupþings vöruðu einnig við mikilli áhættu í þessum rekstri og töldu að langtímafjármögnun væri mjög erfið í þessum atvinnugreinum. Fulltrúi Kaupþings sagði að mjög erfitt væri að sækja lánsfjármögnun erlendis hvort sem væri með lánum eða hlutafé. Samkvæmt upplýsingum frá fjmrn. kom fram að erlendir lánsfjár- og hlutabréfamarkaðir væru erfiðir um þessar mundir til fjármögnunar á verkefnum á þessu sviði vegna almenns samdráttar í efnahagslífi og afleiðinga atburðanna frá 11. september. Orðrétt segir fjmrn., með leyfi forseta:

,,Því er líklegt að bein lánsfjármögnun án ríkisábyrgðar yrði fyrirtækinu það óhagstæð að álitamál yrði hvort það sæi sér hag í að fara þá leið.``

Þetta kemur beint frá fjmrn. Eftir því er spurt hvort aðrir fjármögnunarmöguleikar séu ekki til staðar en þeir að leita ríkisábyrgðar en þá segir fjmrn. að líklegt sé að bein lánsfjármögnun án ríkisábyrgðar yrði fyrirtækinu það óhagstæð að álitamál yrði hvort það sæi sér hag í að fara þá leið.

Herra forseti. Skattgreiðendur sem að lokum standa uppi með að greiða þessa ábyrgð ef allt fer á versta veg hljóta líka að spyrja hvort réttlætanlegt sé, ef ekki finnast aðrir fjármögnunaraðilar sem tilbúnir eru að lána til slíkrar fjárfestingar vegna áhættunnar, að íslenska ríkið eigi þá að veita 20 milljarða, hætta til 20 milljörðum í svona gífurlega mikinn áhætturekstur þegar aðrir aðilar á markaði treysta sér ekki til þess.

[11:30]

Það var, herra forseti, útilokað fyrir nefndarmenn í efh.- og viðskn. að leggja mat á hver áhættan yrði fyrir ríkissjóð og skattgreiðendur með því að veita fyrirtækinu 20 milljarða kr. ríkisábyrgð fyrir þessum áhætturekstri. Því var einnig varpað fram í meðferð nefndarinnar á málinu hvort ekki væri réttara að ríkið legði fram hlutafé frekar en ábyrgð því að þá fengist a.m.k. hlutdeild í hagnaði ef viðskiptahugmyndin gengi upp. Nefndarmenn voru settir í þá stöðu, herra forseti, að hafa ekki nauðsynleg gögn til að geta metið þessa áhættu. Til þess hefði nefndin þurft að hafa viðskiptaáætlun fyrirtækisins fyrir þessari nýju starfsemi og mat á gjaldþrotalíkum. Það eru höfuðatriðin, herra forseti. Út af fyrir sig má kannski líka --- málið er jú allt óeðlilegt --- varpa því fram hvort eðlilegt sé að þingmenn fái slíkar innherjaupplýsingar. Þingmenn eru settir í óþolandi stöðu en viðskiptaáætlun fyrirtækisins fyrir þessari nýju starfsemi og mat á gjaldþrotalíkum eru forsenda fyrir því að hægt sé að leggja skynsamlegt mat á þetta. Við báðum um þessar viðskiptaáætlanir í trúnaði fyrir nefndina þótt ekki væri með öðrum hætti en við því var heldur ekki orðið. Eina raunverulega matið sem efh.- og viðskn. hefur í þessu máli þar sem gerð var heiðarleg tilraun til að leggja mat á þessa áhættu kemur fram í umsögn eins þingmanns sem sendi nefndinni umsögn sína og álit og þar með mat þingmannsins á þeirri áhættu sem hann telur að felist í þessari viðskiptahugmynd. Þingmaðurinn er stærðfræðingur, kann vel á reiknistokkinn og að leggja mat á svona starfsemi en það var það eina sem nefndin fékk til að geta metið þessa viðskiptahugmynd og áhættuna af henni.

Hv. þm. Pétur Blöndal mun væntanlega koma í ræðustól á eftir og greina frá máli sínu. Umsögn hans að því er varðar gjaldþrotalíkurnar og áhættuna af þessari starfsemi er ansi svört. Hv. þm. segir hér, með leyfi forseta:

,,Ef ekkert annað kæmi til er hér sennilega um hreina punkt-áhættu að ræða. Líkur á því að finna ekkert lyf gætu kannski verið 90%. Líkur á að finna eitt lyf eða kannski fleiri eru kannski 10%. Líkur á gjaldþroti eru þá 90% og líkur á afar góðri niðurstöðu væru 10%.`` --- Hann kemst neðar með gjaldþrotalíkurnar ef fyrirtækið hyggst dreifa áhættunni og milda hana með sölu á efnasamböndum og rannsóknum á mismunandi stigum til annarra lyfjaþróunarfyrirtækja sem fyrirtækið áformar að gera. Með slíkum samstarfssamningi við þriðja aðila og með þróun á efnasamböndum frá þriðja aðila telur hv. þm. að það megi giska á að gjaldþrotalíkurnar verði 60%, líkur á sæmilegri afkomu verði 30% og líkur á afar góðri niðurstöðu væru áfram 10%. Hv. þm. sem situr í þeim ágæta flokki sem ber þetta fram hefur ekki mikla trú á að þetta gangi eftir, og lesa má úr umsögn hans að hann hafi meiri trú á að þessi ríkisábyrgð muni á endanum falla á skattgreiðendur.

Í viðskiptaáætlun sem við vorum að kalla eftir þyrfti að koma fram áhættugreining byggð á mismunandi forsendum á tekjuáætlun á þeim tíma sem ríkisábyrgðin á að vara. Þær áætlanir var ekki hægt að fá, ekki einu sinni í trúnaði eins og ég nefndi. Við hefðum, ef vel hefði átt að vera, getað metið ýmsar forsendur um áhættu út frá minnstu áhættu, út frá mestu áhættu, meðaláhættu, út frá tekjuáætluninni miðað við mismunandi forsendur en því var ekki að heilsa eins og hér hefur komið fram.

Málið er líka allt mjög óvanalegt. Eins og ég hef ítrekað er það ekki hlutverk þingmanna að leggja mat á hvort eitt tiltekið fyrirtæki í atvinnugrein eins og lyfjaþróun eigi að fá fyrirgreiðslu umfram önnur á grundvelli áætlaðrar arðbærni eða möguleikum á fjölgun hátekjustarfa í vísindagreinum.

Ég ætla að halda til haga skriflegum svörum við spurningum okkar til fjmrn. varðandi áhættuna. Fjmrn. sem hefur kynnt sér þessar viðskiptaáætlanir telur að áhættan sé með þeim hætti að hægt sé að veita þessa ábyrgð. Í svarinu segir, með leyfi forseta:

,,Sú staðreynd að tekjumyndun er ekki bundin við endanlega niðurstöðu tiltekinna verkefna heldur er hægt að innleysa tekjur á mismunandi stigum leiðir til þess að áhætta vegna starfseminnar í heild minnkar. Í samræmi við þetta hafa ráðuneytinu verið kynntar áætlanir sem byggja á mismunandi forsendum hvað tekjumyndun varðar.`` --- Fjmrn. hefur því greinilega fengið að sjá þessar viðskiptaáætlanir sem ég nefndi. Fjmrn. segir um mat á áhættu --- það er rétt og eðlilegt að halda því til haga í þessari umræðu --- með leyfi forseta: ,,Umfangsmiklar upplýsingar eru fyrir hendi um rekstrarlega stöðu deCODE sem m.a. koma fram í ársskýrslum sl. ára og skýrslum greiningaraðila á markaði. Ef litið er til ársreikninga félagsins er ljóst að fjárhagsleg staða er sterk sem sýnir sig í góðri eiginfjárstöðu, lítilli skuldsetningu og sterkri lausafjárstöðu sem nægir til þess að tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækisins til a.m.k. þriggja ára. Langtímaáætlanir greiningarfyrirtækja gera ráð fyrir að á þeim tíma verði reksturinn farinn að skila afgangi. Byggt á þessum upplýsingum verður að telja að núverandi starfsemi feli ekki í sér mikla áhættu á allra næstu árum.`` --- Gott og vel, herra forseti. Þetta er mat fjmrn. Við erum samt í engri stöðu til að sannreyna þetta mat sem hér er lagt upp með af hálfu ráðuneytisins.

Það kom einmitt fram í svari við einni af þeim spurningum sem ég lagði fyrir fjmrn. að þeir telja að fjárhagsleg staða fyrirtækisins sé með þeim hætti að hún nægi til að tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækisins í þrjú ár. Að þeim tíma loknum benda þeir á langtímaáætlanir greiningarfyrirtækja sem gera ráð fyrir að reksturinn verði þá farinn að skila afgangi. Á það ber þó að líta, herra forseti, að þegar metin er framtíðarstaða fyrirtækisins er augljóslega um mikla viðbótaráhættu að ræða með þessu verkefni.

Það kemur fram í nál. sem ég mæli fyrir að áhættan sem felst í ábyrgðinni er mikil. Lyfjaþróunargeirinn er með áhættusömustu atvinnugreinum veraldar, miðað við gögn sem lögð voru fram í nefndinni. En við tökum undir að hægt er að draga nokkuð úr þessari áhættu með því að selja lyfjaþróunarverkefni frá fyrirtækinu á mismunandi stigum og jafnframt að taka við slíkum verkefnum frá öðrum fyrirtækjum. Þetta felur í sér tvenns konar ávinning: Í fyrsta lagi er áhættu dreift milli fyrirtækja í greininni og í öðru lagi byrja tekjur að koma inn áður en þróun lyfs er lokið. Þessi áhættudreifing breytir ekki hinu að ábyrgðin sem óskað er eftir er hlutfallslega miklu hærri en í dæmum af samsvarandi ríkisábyrgðum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Við segjum því í nál. okkar að frumskilyrði þess að hægt sé að fallast á slíka ábyrgð sé að fyrir liggi áhættumat af hálfu traustra greinenda á markaði.

Herra forseti. Þegar menn velta fyrir sér áhættunni af þessu er ástæða til að nefna að fram kom í fréttum fyrir skömmu að breska tímaritið Economist stóð fyrir ráðstefnu í Lundúnum nýlega þar sem fjallað var um kostnað og þann tíma sem tekur að framleiða lyf. Kostnaðurinn við lyfjaþróun og framleiðslu hefur verið að aukast og tíminn sem það tekur hefur jafnframt lengst. Árið 1980 tók að meðaltali 11 ár frá því að visst efni fannst og þangað til það komst á markað. Núna tæki það 15 ár. Einungis 12 ný lyf komu á markað í Bandaríkjunum í fyrra en fjöldi þeirra fyrirtækja sem eru að framleiða og þróa lyf er mikill.

Í viðtali við Rannveigu Gunnarsdóttur, lyfjafræðing og forstjóra Lyfjastofnunar Íslands, kom fram nýverið í fjölmiðli hér á landi að aðeins brot af þeim virku efnum sem finnast verði að lyfjum. Hún segir að aðalástæðan fyrir áhættunni sé langur framleiðslutími og jafnframt aðeins eitt af hverjum þúsund til 100 þúsund virkum efnum sem finnast verði að lyfjum en erfitt sé að fá nákvæmar tölur. Fram hefur einnig komið að það kosti 80 milljarða íslenskra króna að koma einu lyfi á markað.

Fram hefur komið hjá fjmrn. að gert sé ráð fyrir því að skuldabréfin verði öll gefin út í upphafi lánstímans og því væri ábyrgðartíminn í mesta lagi sjö ár frá útgáfudegi. Full ástæða er þó til að óttast að þessi ríkisábyrgð komi til með að vinda upp á sig og kallað verði eftir meiri ríkisábyrgð ef gengi bréfanna hreyfist lítið á ábyrgðartímabilinu og tekju\-áætlanir ganga ekki eftir. Það er einmitt þessi hlið á málinu, herra forseti, sem ég óttast mjög. Ég óttast að þingið geti aftur staðið frammi fyrir því að þurfa að vega og meta --- eftir að hafa veitt 20 milljarða kr. ríkisábyrgð til þessa fyrirtækis --- hvort hagsmunum ríkisins væri betur borgið við að framlengja ábyrgðina með von um að úr viðskiptahugmyndinni rættist síðar eða láta ábyrgðina sem nú á að veita að hluta eða öllu leyti falla á ríkið. Það er þetta sem ég óttast, að þetta sé byrjunin á því að við vefum okkur inn í ríkisábyrgð sem erfitt verður að losna út úr ef hún þá ekki fellur á ríkið.

Þetta ásamt fleiru sem ég hef nefnt, sérstaklega varðandi áhættuþáttinn, samkeppnisrökin og jafnræðissjónarmiðin, eru meginástæður þess að ég mun greiða atkvæði gegn þessu frv.

Fyrsti minni hlutinn lagði fram spurningu um hvað megi áætla að núverandi eigið fé og áætlaðar tekjur dugi lengi til að reka fyrirtækið án nýrrar innspýtingar eða aðgerðar til að styrkja reksturinn. Það er athyglisvert, herra forseti, að þá svaraði fjmrn. því, eins og ég lýsti áðan, að áætlaðar frjálsar og bundnar bankainnstæður væru um 167 millj. dollarar sem er nægilegt til að reka núverandi starfsemi í þrjú ár. Einnig kom fram hjá fjmrn. að samkvæmt áætlun fyrirtækisins sé gert ráð fyrir að lánsfjármögnun vegna nýrrar starfsemi samsvari kostnaði næstu fjögur árin. Gert er ráð fyrir að innan þess tíma verði einnig um að ræða tekjumyndun af verkefnum, eigin framlögum og/eða nýjar lántökur, en það er erfitt að staðreyna þessar áætlanir eins og ég nefndi. Á liðnum árum hefur verið verulegt tap á fyrirtækinu, um 158 millj. dollarar eða nálægt 16 milljörðum kr., en áætlanir fyrirtækisins gerðu líka ráð fyrir slíku tapi.

[11:45]

Herra forseti. Nokkur orð um umbreytingarskilmálana. Gert er ráð fyrir því að skuldabréfin verði gefin út með umbreytingarskilmálum sem felur það í sér að við ákveðið markaðsgengi hlutabréfa í félaginu verði skuldabréfunum breytt í hlutafé og íslenska ríkið losni þar með undan ríkisábyrgðinni. Gengi bréfanna er nú í sögulegu lágmarki og hefur sveiflast frá 5,5 dollurum á hlut í 10 dollara á hlut á undanförnum mánuðum en samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í efh.- og viðskn. er gert ráð fyrir að heimilt verði að breyta skuldabréfunum í hlutafé ef gengið fer í 18 dollara á hlut. Og það er fyrirtækið en ekki ríkisvaldið sem hefur þessa heimild. En síðan er gert ráð fyrir að kveðið verði á um að skuldabréfin breytist sjálfkrafa í hlutafé ef gengi hlutabréfanna í félaginu fer yfir ákveðið hlutfall, yfir 18 dollara á hlut í tiltekinn lágmarkstíma. Það er ekki búið að festa neitt niður í þessu sambandi, en það var þó nefnt af ráðuneytismönnum að rætt hafi verið um 24--25 dollara á hlut í því sambandi. Það er orðið ansi hátt, herra forseti, ef gengið á bréfunum sem núna er í einhverju sögulegu lágmarki upp á 5 dollara þarf á lánstímanum, á þessum sjö árum, að fara upp í 24 eða kannski 25 dollara til þess að ríkisábyrgðin falli niður. Eins og hv. framsögumaður efh.- og viðskn. sagði áðan er það hagstætt fyrir ríkið ef miðað er við lágt gengi í umbreytingarskilmálum en hagstætt fyrir fyrirtækið ef miðað er við hátt gengi.

Herra forseti. Aðilar vinnumarkaðarins, samtök fjárfesta, fyrirtæki í lyfjaþróun og lyfjaiðnaði eru í hópi margra umsagnaraðila sem vara við ríkisábyrgðinni, m.a. vegna jafnræðissjónarmiða og samkeppnisröskunar. Samtök atvinnulífsins og samtök iðnaðarins vara mjög sterklega við að fara þessa leið en athyglisvert er að fram kom á fundinum, eins og ég nefndi áðan, að Verslunarráðið leggst ekki gegn veitingu þessarar ríkisábyrgðar, a.m.k. ekki í heimsókn hjá nefndinni þó að komið hafi fram önnur skoðun utan nefndarfundar.

Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, benti á hve litlar styrkveitingar hafi verið til rannsóknar- og þróunarverkefna og kom fram til samanburðar hjá honum að undanfarin sex ár hafi ráðstöfunarfé Tæknisjóðs verið um 200 millj. kr. á verðlagi hvers árs og á árinu 2000 hafi verið úthlutað 70 verkefnastyrkjum samtals að upphæð 151 millj. kr. Nefnir hann sem dæmi að 20 milljarðar kr. sem nú á að hætta með ríkisábyrgð í eitt fyrirtæki samsvari 100 ára ráðstöfunarfé Tæknisjóðs sem nú á að sameina Vísindasjóði en hann hefur á undanförnum árum haft til ráðstöfunar um 160--180 millj. kr. Það er ágætt að rifja upp þessar tölur þegar við erum að veita einu fyrirtæki í hátækniiðnaði 20 milljarða ríkisábyrgð.

Stjórn samtaka fjárfesta telur að með frv. séu aftur teknar upp beinar og óbeinar ríkisábyrgðir á rekstri almennrar atvinnustarfsemi á Íslandi. Telja þeir að ríkisábyrgð á láni fyrir Íslenska erfðagreiningu raski starfsgrundvelli sumra fyrirtækja með óeðlilegum hætti og geti beinlínis skaðað þau og fjárfesta sem að þeim standa. Fyrirtæki sem starfa á líftæknisviði eins og Pharmaco, Delta og Lyfjaþróun hafa öll sett fram að þessi sértæka aðstoð til eins fyrirtækis í sama iðnaði raski samkeppni og er þá ekki síst verið að tala um starfsfólk. Allir fulltrúar allra þessara fyrirtækja sem komu á fund nefndarinnar, nefndu starfsfólk. Að vísu nefndi Lyfjaþróun að það væri bæði samkeppni um starfsfólk og verkefni og fjármagn en einkum var rætt um samkeppni um starfsfólk.

Margir hafa fullyrt að ríkisábyrgðin verði fordæmisgefandi og tekur 1. minni hlutinn undir það og það er afar sérkennilegt að hæstv. fjmrh. skuli halda öðru fram og beinlínis láta hafa eftir sér að þessi aðstoð sé ekki fordæmisgefandi.

Lyfjaþróunarfyrirtækið Lyfjaþróun sótti samstundis um hliðstæða ríkisábyrgð en fjárþörf þess fyrirtækis umfram eigin tekjur á næstu fimm árum er áætluð um 2,9 milljarðar kr. Þeir telja að einhliða ríkisábyrgð eins og hér á að veita valdi samkeppnishindrun bæði að því er varðar starfsfólk, fjármagn og verkefni. Þeir telja sig vera með sambærilega starfsemi og Íslensk erfðagreining er nú að hefja á sviði lyfjaþróunar. Og það kom fram hjá fulltrúa Samkeppnisstofnunar að það væri fyrst og fremst í verkahring ESA að meta samkeppnisröskunina en hann sagði þó að hún væri augljósust á sviði vinnumarkaðarins.

Lyfjaþróunarfyrirtækið Lyfjaþróun hf. stundar rannsóknir og þróun á nýjum lyfjum, nýjum lyfjameðferðum og nýjum lyfjaformum. Í umsögn sinni segja þeir að ný lyf komi annaðhvort frá þriðja aðila eða séu þróuð af fyrirtækinu með efnafræðilegri nýsmíði, t.d. lyf við meðferð á kókaínfíkn, lyf við meðferð á liðagigt og fleira, eða með notkun erfðafræðilegra aðferða og sameindalíffræði, t.d. þróun á nýjum krabbameinslyfjum, veirudrepandi lyfjum o.fl.

Markmið Lyfjaþróunar hf. er að byggja upp aðstöðu og búnað til að koma þessum lyfjaefnum í gegnum allt þróunarferlið og í gegnum svokallaða klíníska fasa. Í dag er Lyfjaþróun hf. að þróa ný efni til meðhöndlunar á sjálfsofnæmissjúkdómi, liðagigt, veirusýkingum, krabbameini og tannholdsbólgu. Lyfjaþróun er einnig með sex einkaleyfisumsóknir sem fjalla um efnafræði nýrra virkra efna, nýja rannsóknarferla, nýjar mæliaðferðir og ný lyfjaform. Ljóst er að hér er um að ræða fyrirtæki sem starfar á sambærilegu sviði og Íslensk erfðagreining að nýsköpun í lyfjaþróun og erfitt að sjá hvernig ríkisvaldið og Alþingi ætla að ganga fram hjá því að veita þessu fyrirtæki sömu ríkisábyrgð og hér á að veita Íslenskri erfðagreiningu.

Í umsögn fyrirtækisins kemur fram að samþykkt frv. í óbreyttri mynd geti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir Lyfjaþróun hf. sem hugsanlega gæti leitt til þess að fyrirtækið þurfi að flytja aðsetur sitt úr landi. Þetta er auðvitað alvarlegt sem hér kemur fram. Því er haldið fram af Lyfjaþróun að gangi þetta eftir að einungis Íslensk erfðagreining fái aðstoð en þeir fái ekki sambærilega aðstoð þá geti svo farið, m.a. vegna samkeppni um starfsfólk, að þetta fyrirtæki þurfi að flytja aðsetur sitt til útlanda. Það komu reyndar svipuð sjónarmið, sett fram af fulltrúum lyfjafyrirtækisins Delta, sem mættu á fund efh.- og viðskn. Þeir hafa verið að leita eftir starfsfólki sumpart á sama sviði og Íslensk erfðagreining og höfðu leitað til hinna Norðurlandanna, auglýst þar eftir starfsfólki en ekki fengið þannig að samkeppnin er gífurleg um slíkt starfsfólk. Íslensk erfðagreining sem fær þarna sértæka fyrirgreiðslu sem skiptir verulegu máli fyrir fyrirtækið, m.a. að þeir geta greitt hærri laun, verður auðvitað í allt annarri stöðu í samkeppninni um starfsfólk heldur en önnur fyrirtæki á þessum sama markaði.

Herra forseti. Ég hef í tiltölulega knöppu máli farið yfir álit 1. minni hluta efh.- og viðskn. Það er alveg ljóst og kemur fram í nefndarálitinu að 1. minni hluti getur ekki stutt málið. Aðdragandi þess og eðli er með þeim hætti að ríkisstjórnin verður ein að bera ábyrgð á málinu. Það er, herra forseti, algjörlega út í hött að ætla Alþingi að meta svona algjörlega sértæka aðgerð til eins fyrirtækis eins og hér er gert ráð fyrir og verra er að Alþingi hafði engan tíma til að skoða málið ítarlega út frá öllum hliðum eins og fram kemur í nefndaráliti okkar, m.a. út frá samkeppnissjónarmiðum, jafnræði og áhættumati. Ég tel að þessi málsmeðferð sé þinginu til vansa en það er greinilega ætlun þingmeirihlutans og ríkisstjórnarinnar að keyra málið nánast óskoðað í gegnum þingið.

Þar sem ríkisvaldið tók ákvörðun um að leggja málið fyrir þingið bar því skylda til að gefa þinginu eðlilegan tíma til að fjalla um það og m.a. hefði þurft að leita til óháðra sérfræðinga, hugsanlega erlendis frá --- við nefndum það m.a. á fundi efh.- og viðskn. --- til þess að leggja sjálfstætt mat á málið sem við nefndarmenn í efh.- og viðskn. hefðum þá getað skoðað og hefði það verið mikilvægt innlegg hjá okkur til þess að vega og meta það sem hér á að ganga fram af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég skal ítreka það í lokin að ég tel að það sé fyrir neðan allar hellur að gefa umsagnaraðilum engan tíma til að skila inn vönduðum og ítarlegum umsögnum um málið heldur aðeins að hlaupa yfir málið á nokkurra klukkutíma fundi þar sem tugum umsagnaraðila er skellt saman á einn eða tvo stutta fundi til að tjá sig um málið. Ég tel að þingið hafi ekki rétt til að bjóða þjóðinni upp á svona glæfraspil og mun greiða atkvæði gegn þessu máli. Við erum að tala um, herra forseti, bæði jafnræðisrök, samkeppnisrök og gríðarlega áhættu og það ber allt að sama brunni í því efni eins og ég hef lýst. Ég tel, herra forseti, að þetta mál sem stjórnvöld eru að krefja þingið um að keyra í gegn á stuttum tíma standist ekki jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar eða heilbrigðar samkeppnisreglur.

Herra forseti. Ég tel að þetta mál sé stærsta einstaka áhættufjárfestingin sem skattgreiðendur hafi verið látnir taka þátt í. Það má í reynd líkja þessu við að verið sé að knýja alla þjóðina í fjárhættuspil þar sem sérhver fjögurra manna fjölskylda hættir til um 280 þús. kr. Það er því ekki forsvaranlegt að mínu mati að þingið taki afstöðu til þessa máls eins og ég hef hér lýst.