Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 11:58:19 (8138)

2002-04-23 11:58:19# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[11:58]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt ef ég hef eitthvað mistúlkað umsögn hv. þm. en hann er auðvitað færastur um það sjálfur að skýra sitt álit. Mér fannst það athyglisvert sem fram kom í áliti hans um áhættuna og ég las orðrétt upp úr henni og dró að vísu af þessu ákveðna ályktun, að þingmaðurinn teldi gjaldþrotalíkurnar ansi miklar í þessu efni og ég hef alltaf skilið hv. þm. þannig að hann teldi það.

En fyrst ég hef tækifæri vil ég spyrja hv. þm. út í þá brtt. sem hann flytur við frumvarpið sem mér finnst hálfóskiljanleg. Mér skilst að hv. þm. vilji hafa það valkvætt að veita þessa ríkisábyrgð, ef maður les þessa brtt. þingmannsins, að fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, sé heimilt, í þeim tilgangi að stuðla að uppbyggingu hátækniiðnaðar á sviði lyfjaþróunar hér á landi, að veita einfalda ábyrgð á skuldabréfum, eða kaupa slík skuldabréf, útgefin af móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar eða kaupa slík skuldabréf að fjárhæð 20 milljarða kr. til fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. á sviði lyfjaþróunar. Fjármálaráðherra veitir ábyrgðina eða kaupir skuldabréfin að uppfylltum þeim skilyrðum sem hann metur gild.

Ég skil þessa brtt. þannig að hv. þm. sé að leggja það í hendur hæstv. fjmrh. að hafa það valkvætt, annaðhvort að veita ríkisábyrgðina ef hann kýs svo eftir að Alþingi hefur veitt heimildina, eða að fjmrh. hafi heimild til að kaupa slík skuldabréf þannig að það verði að veita fjmrh. enn ríkari rétt með tillögu hv. þm., ef ég skil hana rétt, og mér finnst það vera í andstöðu við það sem þingmaðurinn hefur til þessa talað um þetta mál.