Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 12:00:22 (8139)

2002-04-23 12:00:22# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[12:00]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég mun mæla fyrir þessari tillögu minni á eftir og útskýra hvernig á henni stendur. Ég mun svo eftir það draga hana til baka til 3. umr. vegna þess að ég tel að ef Alþingi samþykkir við 2. umr., sem ég mun greiða atkvæði gegn, að veita þessa ríkisábyrgð, þá sé það þó minni skaði að fjmrh. megi þó líka veita lán og ég mun færa rök fyrir því einmitt vegna þess að þá fær ríkissjóður eitthvað í sinn hlut. Vegna umbreytingarskilyrða lánveitingarinnar sem getið er um í greinargerðinni á ríkissjóður möguleika á því að hagnast ef vel gengur með því að veita lán og ég treysti því að fjmrh. muni velja þann kost að kaupa skuldabréfin frekar en að veita hreina ríkisábyrgð vegna þess að það er skynsamlegra fyrir ríkissjóð.

Þetta mun ég gera eftir að hv. Alþingi, ef svo bæri við, væri búið að samþykkja það að veita einfalda ríkisábyrgð vegna þess að ég er þá að reyna að minnka það tjón jafnvel þó að ég sé hjartanlega á móti þessu bixi öllu saman.

Ég vil undirstrika að ég hef afskaplega mikla trú á starfi Íslenskrar erfðagreiningar en það er mikil áhætta í þeirri starfsemi og mér finnst að sú starfsemi eigi að vera rekin með áhættufé eins og gert hefur verið hingað til og sömuleiðis hef ég enn meiri trú á þessu nýja dæmi sem menn eru að fara út í. En það er enn þá og miklu, miklu meiri áhætta. Það eiga menn þá að reka með hreinu áhættufé, ekki með lánsfé og alls ekki með ríkisábyrgð.