Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 13:51:43 (8155)

2002-04-23 13:51:43# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, SvH
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Afstaða mín og Frjálslynda flokksins kom skýrt fram við 1. umr. þessa máls og af þeim sökum líka gæti ég stytt mál mitt þótt af mörgu sé að taka. Enn fremur hafa 1. og 2. minni hluti efh.- og viðskn. gert ítarlega grein fyrir afstöð sinni og niðurstöðu og þar má einvörðungu lesa gagnrýni á málið. Engin rök hafa komið fram í þessu máli sem styðja það, alls engin.

Enginn Íslendingur, enginn einstaklingur mundi hætta fé sínu með þessum hætti til slíks málefnis. Ekkert fyrirtæki um víða veröld mundi heldur gera það. Ég skal ekki fullyrða um að til séu ríkisstjórnir eins og ráðstjórn Íslands sem mundu taka slíkt til bragðs, a.m.k. er það ekki í Bandaríkjunum eins og menn þekkja þótt þeir séu ósparir á fé til ýmissa hluta eins og fyrirtækið Enron getur borið vitni um.

Hér er verið að leggja til að ganga í 20.000 millj. kr. ábyrgð fyrir deCODE-fyrirtækið. Hvaða fyrirtæki er deCODE, með leyfi? Allar upplýsingar um innviði þess fyrirtækis skortir í þá málafærslu sem tillögumenn hafa hér í frammi. Í greinargerð með frv. er ekkert að finna sem upplýsir um þetta fyrirtæki. Það er aðeins lofgjörð, sjálfsagt samin út í ...

(Forseti (HBl): Ég bið hv. þm. afsökunar, en mér sýnist á öðrum þingmönnum mörgum sem ekki eru í ræðustól að þeim liggi á að komast þangað og bið þá að halda smáfundi utan þingsalar.)

Ég mun taka tillit til þess og einhvern tíma hætta.

Ekkert er að finna í þessari greinargerð nema lofgjörðarrullu um Íslenska erfðagreiningu sem eftir öllum líkum að dæma er samin úti í Vatnsmýri.

Hvað mundi fjármálafyrirtæki gera sem beðið væri um að taka ábyrgð, ég tala ekki um svo gríðarlega ábyrgð sem hér um ræðir? Það mundi afla sér allra upplýsinga um fyrirtækið sem væri að biðja um slíka ábyrgð. Það mundi beita sérfræðingum sínum til þess arna, að snara öllum kurlum til grafar sem varða fjárhagsstöðuna og aðra stöðu síns fyrirtækis. Það mundi, ef um stórvægilega hluti væri að tefla, vafalaust fá óhlutdræga, hlutlausa sérfræðinga til að gera á þessu rækilega úttekt. Ekkert slíkt er viðhaft í þessu ógnarlega máli sem er fráleitasta mál sem nokkru sinni, að minni hyggju, hefur verið borið undir atkvæði á hinu háa Alþingi Íslendinga.

Framsögumaður og formaður efh.- og viðskn. er hér fjarstaddur, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. En ég ætlaði að biðja hann um að leggja fram fyrir 3. umr. upplýsingar sem komu fram, að vísu aðeins að nafninu til, í máli forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar á opinberri ráðstefnu sem haldin var fyrir skemmstu. Þar upplýsti hann að hann þekkti til þess að 120 slíkar ábyrgðir hefðu verið veittar en aðeins ein hefði farið forgörðum, aðeins ein hefði fallið á ábyrgðaraðila. Nú hlýtur tölvumönnum að vera nærtækt að fletta upp þessum staðreyndum og ég fer fram á að fá nákvæmar upplýsingar um hverjir áttu hér í hlut, um hvað verið var að tefla og hvaða ábyrgðir þarna voru á ferðinni.

Fyrirtækið deCODE hefur á undanförnum örfáum árum verið á hríðfallandi gengi. Þegar það fyrst nam hér land var heldur hátt á því skrúfið sem menn muna og menn voru að selja á genginu yfir 60, a.m.k. er mér fullkunnugt um að fjármálastofnanir nörruðu umbjóðendur sína og viðskiptavini til þess að kaupa á genginu yfir 60. Hvert er gengið í dag? Það stendur, minnir mig, í nefndaráliti að það hafi verið þetta 8--10. Hvenær var það síðast? Ég veit ekki betur en það hafi verið frétt undanfarin tvö ár hafi þetta gengi farið yfir 7. Hvert er það í dag? Það er 5,5. Formaður efh.- og viðskn. segir að það sé bara af því að öll hlutabréf séu á svona lágu gengi. Af þessu gengi má aðeins eitt lesa ef það er borið saman við fyrra gengi þessa stórfyrirtækis. Það er á hríðfallanda fæti og ekkert höfum við í höndunum annað en þá viðmiðun því innihald þess þekkjum við ekki og það hafa menn sem ætla sér að ganga í stórábyrgðina ekki tíma til að kynna sér. Ekkert annað höfum við til að miða við en að þetta fyrirtæki sé komið að fótum fram. Og svo á að ganga í ábyrgð fyrir það til sjö ára.

Í meirihlutaálitinu sem ég hef í höndum er gríðarlöng upptalning um þau fyrirtæki og einstaklinga sem kallaðir voru á fund nefndarinnar til ráðslags, en ekkert orð er neins staðar að finna um hvert var álit þeirra, ekki eitt einasta orð og ekki eitt einasta orð kom fram í ræðu formanns nefndarinnar í morgun um hvað allur þessi fjöldi einstaklinga og fyrirtækja hafði um málið að segja. Af því hlýtur manni að vera óhætt að álykta að þeir hafi allir verið andsnúnir því. Ekkert annað getum við ályktað því að ella hefði formaðurinn sem var í vandræðum með að flytja þetta mál vegna samvisku sinnar, sem eitthvað mun vera eftir af þar af leiðandi, kallað þessa menn fram til vitnis með sér til eflingar þessu fráleita máli.

Formaðurinn talaði um í ræðu sinni að ráðstjórnin okkar vildi efla samkeppnishæfni atvinnulífsins --- þó það nú væri! --- og það ætti að gera með almennum ráðstöfunum en ekki sértækum aðferðum eins og hér eru hafðar í frammi. Hann nefndi máli sínu til stuðnings --- og er mættur þarna sem betur fer --- Írland, Lúxemborg, Sviss og Holland. Hann nefndi að þau hefðu laðað til sín fyrirtæki öll sömul og aðallega með skattbreytingum, með nýjungum í skattamálum, þ.e. að gera fyrirtækjunum greiðara fyrir með minni skattálögum. Þetta eru altækar ráðstafanir en ekki sértækar. Öll fyrirtæki sem þarna námu land eða áttu þar heima nutu þess arna. En það var ekki verið að velja eitt deCODE eins og nú er verið að gera.

[14:00]

Stefna hæstv. ríkisstjórnar, hinnar nýju ráðstjórnar og aðalritara hennar, er sú að hér skuli forðast sértækar aðgerðir. (SJS: Hvar er aðalritarinn?) Ja, það er von að spurt sé. Mér skilst að hann sé að styrkja Schröder í Þýskalandi eftir mikið fall þar í einu ríki sem þeir biðu. Hann kannski kemur við í París á heimleið til þess að hugga þá þar. (LB: Eftir að hafa huggað þá í Ósló?)

Forðast ber sértækar aðgerðir og þetta er grundvallarstefna íslensku ríkisstjórnarinnar. Samt sem áður brjóta þeir hana svo rækilega að ég hygg að ekki sé finnanleg nein aðferð sem jafnrækilega gengur frá þessu atriði í grundvallarstefnuskrá þeirra dauðu og það sem þeir nú ætla að aðhafast. Svo er verið að nefna sem einhvers konar fordæmi að við höfum gengið í ábyrgð vegna flugrekstrar vegna þess ástands sem ríkir í veröldinni. Var það eitthvað skylt þessu máli þó að við yrðum að bjarga samgöngum okkar allra Íslendinga við útlönd, að við gengum að vísu undir það jarðarmen sem hlaut að vera okkur mikið áhyggjuefni en við áttum engra annarra kosta völ? Það er kannski að menn haldi því fram að við höfum ekki átt annarra völ en þeirra að hætta til íslenskum fjármunum með þeim hætti sem hér er verið að leggja til.

Hver er sá sem ekki mundi óska eftir því að auka og efla fyrirtæki af þeirri tegund eins og t.d. Íslenskrar erfðagreiningar? Hver mundi ekki vilja fá fleira menntað fólk í landið? Hver mundi ekki vilja auka menntun og þjónustu almennt? En eitt er að vilja og annað að geta. Hæstv. ríkisstjórn hefur engan siðferðilegan rétt til að ganga í neins konar ábyrgð af þessu tagi.

Það var fimbulfambað um það af hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að deCODE gæti svo sem bjargað sér með því að bjóða út hlutabréf. Það getur það ekki neitt. Það vill enginn kaupa þau, að sjálfsögðu ekki. Auðvitað yrðu þau á tombóluprís ef einhver mundi vilja líta við þeim. Auðvitað getur það ekkert bjargað sér með þeim hætti. Talað var um að þeir gætu líka bjargað sér með því að sameinast öðrum fyrirtækjum. Eins og fyrirtækið stendur er ekki líklegt að neitt fyrirtæki mundi vilja sameinast því. Allt er þetta bara fjargviður. Ég verð að segja að eins og ég ber virðingu fyrir hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, þá fann ég þar af leiðandi til mikillar samúðar með honum að þurfa að standa hér uppi og mæla fyrir þessu, manni sem opinberlega er búinn að tilkynna að hann sé andvígur þeirri aðferð sem hér á að viðhafa. Hann fer þess vegna ekki eftir samvisku sinni eins og talið er að þingmönnum beri að gera.

Eftir hverju fer hann þá? Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það, en hann fer eftir því sama og flestir aðrir þingmenn Sjálfstfl. að ávinna sér framhaldslíf í pólitík með því að þjóna í einu og öllu undir aðalritarann í hinni nýju ráðstjórn sem hér hefur ríkt um hríð.

Já, hver væri sá sem ekki mundi vilja efla þekkingu á Íslandi og nýja tækniþróun, að geta veitt sem flestum hálaunastörf? Það eru yfirgnæfandi líkur fyrir því, kannski allt upp í 90%, að deCODE hrapi á höfuðið. Þar við bætist að sá iðnaður sem á að taka ábyrgð á er þrefalt áhættusamari en meðaltal annarra iðngreina, þrefalt áhættusamari. Hvað er þá orðið eftir af því öryggi sem menn hljóta að krefjast fyrir því að hætta fjármunum sínum með þessum hætti? Hvað er eftir?

Ég verð að segja að mér er alveg óskiljanlegt hvernig er hægt að draga heilu þingflokkana til slíks leiks. Mál sem er útbúið einkanlega milli vina og skólafélaga og síðan kúgað í gegn með þessum hætti. Það getur ekki verið annað en að hávaðinn af þingflokki Sjálfstfl. gangi grátandi til þessa leiks. En hann lætur sig hafa það. Það er verst að hæstv. iðnrh. er ekki við. Ég ætlaði að koma á framfæri við hann tillögu um hvernig hægt væri, kannski með áhættuminni árangri, að efla iðnað á Íslandi. Hefur hæstv. ráðherra látið sér detta í hug kannski að ganga fyrir Norðmenn?

(Forseti (HBl): Ég geri ráðstafanir til þess að láta skýra hæstv. iðnrh. frá því að hv. þm. kjósi að eiga orðastað við hann.)

Já, takk fyrir, þó ég að öðru leyti sakni hans ekki. En hvernig væri að láta sér detta í hug að ganga fyrir nánasirnar í Noregi og bjóða þeim eins og 2.000 millj. kr. til þess að semja við okkur um byggingu álvers í Reyðarfirði? (Gripið fram í: 20 þús.) 20 þús. milljónir, já, 20 þús. millj. kr. Það upplýsa þó þeir sem næstir standa verkefninu að bæði sé Kárahnjúkavirkjun arðbær og einnig álver, að vísu án þess að vita mikið um það. Þar mundum við ekki hætta mjög miklu til þó við gæfum þeim 20 þús. millj. kr. til þess að hefjast handa ef það er rétt sem hæstv. ráðherra og aðrir formælendur álversins halda fram, að þetta sé stórlega arðbært. Af rekstri þessa fyrirtækis sér Ísland aldrei krónu. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Hér er líka gert ráð fyrir að ríkisábyrgðarlögin séu sett til hliðar með öllu. Það á að sniðganga þau með öllu, aðeins að láta 5. gr. þeirra laga gilda. Þetta eru mjög nýlega sett lög vegna þess að þetta þótti hriklegt, þetta kerfi okkar, ríkisábyrgðakerfið, og það er ein grundvallarstefna hæstv. ríkisstjórnar sem birtist þar.

Hæstv. iðnrh. er mættur og ég ætla ekki að fara mörgum orðum um hugmynd mína, en mér datt í hug rétt aðeins að víkja því að hæstv. ráðherra hvort reynandi væri að í stað þess að henda 20 þús. millj. kr. út um gluggann vegna ábyrgðar deCODE að bjóða Norðmönnum þær bara að gjöf, það er miklu álitlegra en verja þeim þannig, og vita hvernig þessir samansaumuðu nirflar í Noregi mundu bregðast við. Þar værum við þó með því að fá þá til þess leiks að reisa álver sem menn fullyrða að sé arðbært og koma á stórvirkjun við Kárahnjúka sem er afar girnileg framkvæmd. Þetta þyrftu menn að athuga.

En ég var að ræða um lög um ríkisábyrgðir sem eiga ekki að gilda fyrir þessa ábyrgð. Það á ekki að taka neitt ábyrgðargjald og þó er í lögunum ákveðið að það megi vera milli 0,25 og 4% árlega. Þetta þýðir í falli deCODE 50--800 millj. kr., hvorki meira né minna. Ábyrgðin verður að hyggju manna deCODE að gagni með því að þeir fá hagstæðari kjör á lánum en ella sem er talið muna 3--4% og gæti numið öðrum 800 millj. kr. Nei, hér á með öllu að sniðganga þau lög. Tekið er sérstaklega fram að allur lagabálkur um ríkisábyrgðir skuli ekki gilda heldur eingöngu haldið inni 5. gr. þar sem talað er um að halda skuli afskriftareikning vegna veittra ábyrgða. Það er vissara því að hann fer fljótlega upp í 20 þús. millj. kr. og verður einfalt mál að halda þann afskriftareikning. Í 5. gr. segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Eigi sjaldnar en árlega skal endurmeta áhættu og afskriftaþörf Ríkisábyrgðasjóðs vegna ábyrgða og endurlána og á grundvelli þess endurákvarða framlag á afskriftareikning.`` Ég hef þau orð ekki fleiri.

Einnig á að sleppa þeirri grein sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Gjaldskyldir aðilar skv. 6. gr. skulu skila skýrslu í því formi sem Ríkisábyrgðasjóður ákveður þar sem fram komi brúttófjárhæð allra gjaldskyldra skuldbindinga eins og höfuðstóll þeirra er hinn 10., 20. og síðasta dag hvers mánaðar á hverju gjaldtímabili. Gjaldstofn ábyrgðargjalds er einfalt meðaltal fyrrgreindra fjárhæða.`` --- Auðvitað á að hlífa þessu fyrirtæki við öllu þessu.

Nú eru menn að velta fyrir sér, eins og hv. formaður efh.- og viðskn., hvort þetta mál, þessi ábyrgð standist EFTA-mat. En það er til ráð ef þetta stenst ekki. Það er að breyta um póstnúmer á því, heimilisfesta það uppi í Hvalfirði eða austur á Reyðarfirði. Það er ráðið sem má bregða á því að þá mundi þetta falla undir byggðastefnu (Gripið fram í: Ekki fjárhættuspil.) og ekki fjárhættuspil. Síðan reyna menn enn fremur að verja sig með því, og það gerði formaður efh.- og viðskn. ekki nema á mjög varkáran hátt, að þetta yrði ekki eftirbreytnivert, þetta yrði ekki fordæmi. Hann tók það fram að svo yrði a.m.k. í ýmsu falli en það yrði þá tekið til sérstakrar meðferðar hverju sinni. Við vitum alveg hvernig það mundi ganga fyrir sig. Það færi bara eftir smekk aðalritara hvort það hlyti náð, slíkt fyrirtæki. En það eru byrjaðar að streyma inn ábyrgðarbeiðnir. Norðurljós hafa beðið um 8 milljarða ábyrgð. Ég er ekki viss um að það fyrirtæki hljóti sérstaka náð fyrir augum þeirra sem öllu ráða því þar eru á ferð ýmsir þeir sem í Hólaræðu voru ýmist kallaðir eiturlyfjabarónar eða mafíósar. Nei, ef að líkum lætur munu menn ganga í sjóðinn og sækja sér hnefa, þeir sem erfitt eiga uppdráttar. Allir innan þessa geira, hvort sem heldur er Lyfjaþróun eða önnur fyrirtæki sem starfa á þeim vettvangi, hvað eina sem til fellur að því leyti. En það hlýtur að vera endanlegt spursmál hverjir eiga ekki erindi eftir að erlendu fyrirtæki hefur verið gefin slík ábyrgð eins og hér um ræðir.

Bismarck járnkanslari sagði eitt sinn þegar honum ofbauð afgreiðsla máls og ég tek mér orð hans í munn: ,,Þetta er verra en glæpur. Þetta er heimska.``