Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 15:14:11 (8158)

2002-04-23 15:14:11# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[15:14]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Þau mál sem rekur á fjörur okkar þingmanna eru af býsna misjöfnum toga og þau mál sem send eru inn á Alþingi frá hæstv. ríkisstjórn eru ýmissa tegunda. Mér er hins vegar næst að halda að málið sem við fjöllum um nú sé eitt af þeim kúnstugri sem hingað hafa borist. Ekki er eingöngu um að ræða efnisinnihald þessa frv. heldur umgjörð alla og aðdraganda, ekki síst þann veruleika að frv. kemur frá ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl., ríkisstjórn sem hefur æ ofan í æ hér í þessum sal og úti í samfélaginu barið sér á brjóst fyrir að ætla að markaðsvæða samfélagið, fyrir að ætla að draga mjög verulega úr þátttöku ríkisins í atvinnulífi og viðskiptalífi öllu. Þessi ríkisstjórn fór af stað fyrir sjö árum með þau háleitu markmið, að henni fannst, að selja velflest fyrirtæki í eigu ríkisins, ríkisfyrirtæki á borð við Símann, ríkisfyrirtæki á borð við Landsbankann og Búaðarbankann.

[15:15]

Að vísu hefur ríkisstjórnin af öðrum ástæðum þurft að kokgleypa með öllu hin stóru áform varðandi einkavæðingu og sölu þessara stóru fyrirtækja þjóðarinnar, Símans og þjóðarbankanna. En ég átti satt að segja ekki von á því að svo hratt og mikið yrði undanhaldið að ríkisstjórnin hefði gjörsamlega kúvent, hefði gjörsamlega hrokkið yfir á hinn vænginn og væri ekki eingöngu hætt við að selja ríkisfyrirtæki, ekki eingöngu hætt við að markaðsvæða atvinnulífið heldur væri hún komin niður á hina stefnuna og ætlaði sér í stórauknum mæli að leggja fé til atvinnulífsins og taka beint eða óbeint þátt í rekstri stórfyrirtækja á vettvangi hins almenna atvinnulífs í landinu. Það er það sem hefur gerst á þeim örfáu vikum frá því að símaklúðrið og bankaklúðrið gerðu það að verkum að ríkisstjórnin gafst upp á tilraunum sínum með sölu á þessum ríkisfyrirtækjum að hún er komin alla leið yfir á vinstri vænginn, lengst yfir á vinstri vænginn og ætlar nú að fara að eiga, þó með óbeinum hætti sé, hlut í áhættusömum atvinnurekstri hér á landi, nefnilega í lyfjafyrirtæki Íslenskrar erfðagreiningar. --- Já, lyfjafyrirtæki Íslenskrar erfðagreiningar, herra forseti. Það fyrirtæki hefur borið á góma í þessum sal áður og fyrr og það var í tíð þessarar sömu ríkisstjórnar þannig að kannski þarf þetta ekki að koma mér jafnmikið á óvart og ég held fram að þessi ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. gengi fram með ámóta hætti því að þetta fyrirtæki, Íslensk erfðagreining eða deCODE, kom til tals í þessum sölum fyrir einum þremur árum og þau mál sem lutu að fyrirtækinu í þá daga fengu allítarlega umfjöllun og fleiri vikna umræðu.

Hvað var það sem var á ferðinni í þá daga, fyrir þremur árum? Þá gekk ríkisstjórnin fram með oddi og egg að tryggja að þetta fyrirtæki eitt, einsamalt og ekkert annað fengi einkarétt á öllum upplýsingum um heilsufar og sjúkdóma þeirra einstaklinga sem lifa í okkar landi og ekki eingöngu þeirra sem lifa í landinu heldur líka hinna sem þegar hafa kvatt og lagt í vegferð til annarrar strandar. Það var nefnilega lamið í gegn af hálfu þessarar ríkisstjórnar frelsisins að búinn væri til miðlægur gagnagrunnur, sá einasti í víðri veröld, sá einasti fyrr og síðar og erum við fyrsta landið sem hefur til hugar komið að leggja í slíka vegferð að hella öllum upplýsingum um heilsufar allra Íslendinga lífs og liðinna í sama pottinn og rétta veskú í ,,mónópólí`` einu einstöku fyrirtæki góðvina til frjálsrar ráðstöfunar.

Það var nefnilega þessi sama ríkisstjórn, ríkisstjórn frelsisins, ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. sem gaf okkur kannski til kynna hvað fram undan væri fyrir þremur árum þótt við hefðum ekki alveg áttað okkur á því þá. Það er ekki eingöngu að þessi ríkisstjórn frelsisins ætlaði sér að rétta þessu fyrirtæki Kára Stefánssonar kroppinn okkar heldur átti hún það eftir þremur árum síðar að rétta því líka peningana okkar og nú rennur upp sá dagur. Er von að fólk spyrji: Hvað næst? Hvað er þá eftir? Spyr sá er ekki veit. Ég hef ekki hugarflug í það, enda hafði ég ekki hugarflug til þess að renna í grun að eitthvað væri eftir sem athafnamaðurinn Kári Stefánsson og hans samstarfsmenn í Íslenskri erfðagreiningu ættu eftir að sækja til íslensku þjóðarinnar. Þeir voru búnir að taka heilsufarsupplýsingarnar, helgasta rétt hvers einstaklings og fá leyfi hjá hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutanum til að safna þeim saman og hella öllu í einn pott og nota að vild og selja að vild. Í millitíðinni hafa þeir raunar gengið skrefinu framar og gert samninga við allar helstu sjúkrastofnanir í landinu, langflestar raunar. Að vísu eru þau mál ekki alveg í höfn komin hvað varðar stóru ríkissjúkrahúsin í Reykjavík. Það er í burðarliðnum þannig að heilbrigðiskerfið er orðið nátengt þessu fyrirtæki og var ekki seinna vænna að viðskiptalífið yrði það líka og fjmrh. fengi að koma nærri þessu þannig að heilbrrn. væri ekki eitt í för í samningamakkinu við þetta stórfyrirtæki.

Herra forseti. Ég er satt að segja algerlega orðlaus þegar maður horfir á þann veruleika sem við okkur blasir. Það er kannski ekki undarlegt, herra forseti, að þingmenn stjórnarmeirihlutans beri kinnroða og séu ekkert sérstaklega áfjáðir í að tala um þessi mál á hinu háa Alþingi því að veruleikinn er sá að hér í þessum sal er ekki einn einasti þingmaður stjórnarflokkanna að undanskildum fjmrh. sem hefur setið hér frá kl. 10 í morgun og ekki sagt eitt aukatekið orð, ekki eitt einasta aukatekið orð. (Gripið fram í.) Hann hefur ekkert um málið að segja. Hann ber það ekki við að reyna að svara efnislegum fyrirspurnum sem hver ræðumaðurinn á fætur öðrum hefur lagt fram. Hann ber það ekki við að reyna að þétta málstað ríkisstjórnarinnar, reyna að skjóta einhverjum stoðum undir hann heldur situr hér hálflamaður og þegjandalegur, en situr hér þó samt sem er meira en sagt verður um aðra hv. þm.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson fór í ræðu sinni mjög skilmerkilega yfir það hvers konar stórsnillingar það væru sem sætu í efh.- og viðskn. fyrir þennan stjórnarmeirihluta sem hefðu hraðlesið lyfjaheiminn í einum vettvangi á sex dögum (Gripið fram í: Þó að Seðlabankinn geti það ekki.) Guð almáttugur skóp jörðina á sjö dögum forðum daga. En það tók efh.- og viðskn. eingöngu sex daga að glöggva sig á því að hér væri engin hætta á ferðinni og hér væri allt eins og vera bæri.

Herra forseti. Ég ætlaði að eiga orðastað við meiri hluta efh.- og viðskn. um þessi mál og ég fer þess allra auðmjúklegast á leit við forseta að hann kalli þessa stórsnillinga, sem lesa lyfjaiðnaðinn á sex dögum, til þessa fundar þannig að þeir geti leiðbeint mér um þau völundarhús sem þessi alheimsiðnaður svo sannarlega er, þessi iðnaður sem sveiflast upp og niður, hefur þó af ýmsum ástæðum einkanlega verið á ferðinni niður á síðustu mánuðum og missirum. En stórsnillingarnir í Stjórnarráðinu, í ríkisstjórninni, í stjórnarmeirihlutanum hafa gefið sér að það muni vafalaust fara á hinn veginn á næstunni og skila landi og þjóð stórgróða þegar til lengdar lætur. (Gripið fram í.) Að vísu fær maður það ekki séð, hvorki í nefndaráliti meiri hlutans né í frv. fjmrh., að sannfæringin sé sérstaklega sterk og mikil. Og þar, eðli málsins samkvæmt, er þess vandlega gætt að fullyrða sem minnst, enda er ekkert skrifað á vegginn í þessum efnum. Ég hef ekki hitt þann mann, hvort sem hann er sérfróður á hlutabréfamarkaði hér heima eða í þjóðaumhverfi ellegar hinn almenna mann á Íslandi, sem þorir eitt aukatekið andartak að fullyrða að hér sé ekki veruleg áhætta á ferðinni fyrir þann sem þessa ábyrgð ætlar að veita.

Mætir nú til leiks hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn. Alþingis. (Gripið fram í: Leiðtogi snillinganna.) Hann situr hér einn og hefur raunar gert það stærstan hluta þessa dags. En hann hefur setið hér aleinn. Hann þarf auðvitað enga hjálp frá meðreiðarsveinum sínum í efh.- og viðskn., hinum snillingunum sem tókst að lúslesa þennan flókna markað á eingöngu sex dögum og komast að þeirri niðurstöðu að 20 milljarða kr. ábyrgðarveiting væri áhættunnar virði og vel það. En auðvitað heyrðum við það hér í þessum sal, við sem fylgdumst með í morgun og þeir aðrir sem áttu þess kost að fylgjast með sjónvarpsútsendingu héðan, að það fór ekki mikið fyrir sannfæringunni hjá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni þar sem hann að eigin sögn hélt lengstu framsögðuræðu sína til þessa fyrir máli úr efh.- og viðskn., væntanlega þá á þessu kjörtímabili eða nokkrum hinum síðustu, því að mestallur tími ræðu hv. þm. fór í það að afsaka þennan gjörning og hann reyndi með alls konar Krýsuvíkurleiðum að finna einhverjar hliðstæður, einhver fordæmi, var kominn langt út í heim, staldraði hvað lengst við í Sviss og átti þar góða viðdvöl og fann hliðstæður. Hann staldraði við líka, ef ég man rétt, í Noregi og víðar. En, herra forseti, það vissu allir sem með fyldust að þessi hinn sami þingmaður hefur ítrekað og aftur þau tólf ár eða svo sem hann hefur setið á Alþingi farið með allt annan kveðskap en þennan, nefnilega þann að ríkisvaldið eigi ekki, alls ekki að koma nærri atvinnulífi og viðskiptalífi, hvorki beint né óbeint. Þeir þingmenn sem hér á hlýddu höfðu því vitaskuld mikla samúð með þessum hv. þm. af því að hann er hinn vænsti maður og vill vel. En menn höfðu auðvitað samúð með honum þegar það lá fyrir svart á hvítu í viðtali við hann í fjölmiðlum, því að svo vænn er hann að hann segir sannleikann, að hann var knúinn til þess, hann var beygður til þess, hann var píndur til þess að gangast undir þetta ok. Honum var sagt hvað hann ætti að gera.

[15:30]

Verður maður ekki að hlýða ráðherrunum sínum? sagði hv. þm. efnislega í dagblaði fyrir ekki mörgum dögum. ,,Já, ráðherra`` hét þetta einu sinni. Ég er því í hópi þeirra sem höfðu mikla samúð með þessum þingmanni. Ég vorkenndi honum og geri það enn. Það er ekkert ömurlegra en það hlutskipti að þurfa að ganga gegn sannfæringu sinni, að þurfa að tala með allt öðrum hætti en viðhorf og skoðanir manns segja til um. Herra forseti. Þannig er það að það er ekki eingöngu hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem ber þessar byrðar. Þessir tómu þingsalir sýna það, uppgjöfin í þessari umræðu af hálfu stjórnarmeirihlutans, þetta hvíta flagg sem dregið var upp strax í upphafi umræðunnar af hálfu frsm. efh.- og viðskn. og undirstrikað var enn og aftur með hinni æpandi þögn fjmrh. sem situr þegjandalegur og beygður undir þessari umræðu, æpandi þögn hinna stórsnillinganna í efh.- og viðskn. sem lásu lyfjaheiminn á sex dögum og þora ekki að horfast í augu við þann veruleika sem við blasir og við þingmenn stjórnarandstöðunnar erum að draga upp með efnislegum hætti, höfum hér hver á fætur öðrum farið yfir það hvernig hvað rekst á annars horn í þeim málatilbúnaði sem hér er kynntur fyrir hinu háa Alþingi.

Vil ég nú fagna því alveg sérstaklega, herra forseti, að hingað mætir enn einn stórsnillingurinn í efh.- og viðskn. til þessa leiks, einn þeirra fimmmenninga sem las lyfjaiðnaðinn og áhættur og þróun mála á þeim vettvangi á sex dögum. Þar er um að ræða hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur sem er jafnframt formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Ég var hins vegar að vekja máls á því einkum og sér í lagi, herra forseti, að allt er þetta kannski eftir efninu. Það líður tæpast sú vika að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, þessi samstarfsstjórn Framsóknarslokks og Sjálfstæðisflokks, þessi helmingaskiptaríkisstjórn komi ekki hér með hverja þvæluna á fætur annarri. Það er eftirtektarvert að nú er þetta ekki samstarf tveggja flokka, nú er hvor ríkisstjórnarflokkurinn fyrir sig.

Auðvitað hafa menn tekið eftir því að þegar harðnar á dalnum og upp koma snúin, erfið og vandræðaleg mál á borð við þetta, þá er það orðin lenska, ekki undantekning heldur regla, að hinn stjórnarflokkurinn lætur sig hverfa. Í þessu máli er það algjörlega borðliggjandi að Framsfl. er ekki ,,memm``. Hann ætlar sér ekki að taka þátt í umræðunni um þetta vandræðalega mál. Hann ætlar að reyna að leika þann leik að láta Sjálfstfl. það eftir að bera hita og þunga dagsins. Það er auðvitað allt of mikið að segja hita og þunga dagsins því það er enginn hér heldur úr þeim flokki sem reynir að bera hönd fyrir höfuð sér eða verja þennan gjörning og ætlar sér að ýta á hinn græna hnapp einhvern tímann síðla nætur og laumast út í skjóli myrkurs og vonast til þess að menn gleymi þessu fljótt og vel. En auðvitað verður þeim ekkert kápan úr því klæðinu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við sjáum þetta hjá þessari ríkisstjórn sem er á fallanda fæti og er á hröðum flótta undan sjálfri sér. Við fylgdumst með því í Þjóðhagsstofnunarmálinu þar sem Sjálfstæðisflokknum var látið það eftir, enda það hans mál og einkanlega formanns hans, Davíð Oddssonar, og prívatmál hans raunar, að koma þeirri stofnun fyrir kattarnef. Við tókum líka eftir því hvernig Sjálfstfl. hvarf af vettvangi og beitti raunar Morgunblaðinu gegn samstarfsflokknum, Framsfl., þegar uppstytta varð í samningunum við Norðmennina vegna uppbyggingar stóriðju á Reyðarfirði. Þá hlakkaði í þeim sjálfstæðismönnum og þeir tóku lítið þátt í umræðunni eða vörninni þegar harðnaði á dalnum hjá framsóknarmönnum í þeim efnum. Það var líka eftirtektarvert í Símamálinu stóra þegar Sjálfstfl. var kominn fullkomlega á hnén í málsvörninni gegn stórspillingunni á þeim vettvangi sem varð til þess að lækka verð þessa fyrirtækis þjóðarinnar. Það er kannski ekki fjarri lagi að nota sömu tölu, 20 milljarða kr. sem fóru þá út um gluggann vegna óvarlegra yfirlýsinga sérstakra klíkubræðra og trúnaðarmanna Sjálfstfl. sem gengisfelldu það fyrirtæki á örfáum dögum með rugli og bulli úti í samfélaginu og ekki var ráðherrann sem bar ábyrgð á máinu öllu betri. Niðurstaðan varð auðvitað sú, sem í raun og sanni var óhjákvæmileg, að fyrirtækið varð óseljanlegt. Það var ekki söluvara lengur. Sjálfstfl. var búinn að ganga þannig um dyr og ganga að það var ekki hægt að selja þetta fyrirtæki sem þegar best lét var metið á 50--60 milljarða kr. Það seldist ekki einu sinni á 40 á þessum tímum þó slegnir hafi verið 20 milljarðar kr. af því verði sem hæst var þegar fyrstu áform um sölu litu dagsins ljós.

20 milljarðar kr. milli vina, herra forseti, hvað er það þegar Sjálfstfl. á í hlut? Þeir eru nokkrir 20 milljarðarnir sem nú eru að tapast milli skips og bryggju, sem menn eru að sjá hér á eftir af verðmætum þjóðarinnar. Herra forseti. Er ekki komið nóg? Fer þetta ekki að verða býsna gott? Fara ekki að koma kosningar? Getum við ekki farið að andæfa þessu stjórnleysi, þessu rugli?

Herra forseti. Stundum heyrir maður það úti í samfélaginu á almennum fundum eða þegar maður heimsækir atvinnufyrirtæki og vill eiga orðastað við vinnandi fólk í landinu um landsins gagn og nauðsynjar og pólitík að almenningur hefur stundum uppi hörð orð í garð okkar stjórnmálamanna og segir að það sé sami rassinn undir okkur öllum og það sé ekki mark á okkur takandi því við segjum eitt og gerum síðan allt annað. Ég hef reynt að halda því til haga í samtölum við fólk við þær aðstæður að það sé nú ekki alveg sama hvaða rassinn það er og þannig er það og ég hef sagt að það skipti máli hverjir stjórna. En, herra forseti, er það sérstaklega undarlegt að raddir af þessari tegund heyrist hjá fólki þegar við almenningi í landinu blasir til að mynda það sem hér um ræðir, að Sjálfstfl., sem hefur farið mikinn um mikilvægi þess að atvinnulífið fái að njóta sín og hefur gjarnan notið atbeina Samtaka atvinnulífsins í því sambandi, ég tala nú ekki um Verslunarráðs, er allt í einu mættur til leiks með sértækar aðgerðir þar sem þeir rétta greiða á báðar hendur, einkanlega þó aðra, einkanlega þó á aðra, einkanlega þó til þeirra sem teljast til einkavina þessa stjórnmálaflokks?

Mér þætti gaman að vera fluga á vegg núna, herra forseti, og hlýða á mas þeirra félaga, snillinganna í efh.- og viðskn., Vilhjálms Egilssonar og Sigríðar Önnu Þórðardóttur, þar sem þau greina örugglega í horni þessa salar lyfjaiðnaðinn í heild og breidd og munu vafalaust miðla af þekkingarbrunni sínum til okkar hinna þegar líða tekur á umræðuna. Kannski munu þau koma einhverjum þeim skilaboðum áleiðis til þjóðarinnar sem gætu hjálpað henni að komast á aðra skoðun því að hafi þingmenn ekki tekið eftir því, þá er almenningur í landinu enginn kjáni. Þetta er ósköp skýrt og einfalt mál að mörgu leyti. Það er því ekki að undra þó að 75%, þó að þrír af hverjum fjórum Íslendingum séu einfaldlega andvígir gjörningi á borð við þennan.

Herra forseti. Það er einmitt í málum af þessum toga sem fólk og kjósendur eiga að taka mið, eiga að glöggva sig á því hvað er alvöru og hvað er plat. Því miður er það engin ný bóla í sögu Sjálfstfl. að hann taki sveigjur og beygjur í þessari frelsisafstöðu sinni þegar honum þykir það henta. Menn þurfa ekki annað en líta áratugi aftur í tímann --- og ekkert áratugi, eitthvert árabil --- til að skoða það með hvaða hætti Sjálfstfl. hallaðist ævinlega að hagsmunum hinna stóru í atvinnulífinu. Heildsalarnir voru þeir stundum kallaðir. Stórfyrirtækin, eins og Eimskipafélagið og fleiri, nutu sérstaks velvilja þessa flokks. Margir voru hins vegar farnir að trúa því að á þessu væri einhver raunveruleg breyting og að almenn viðmið, almennar leikreglur sem giltu fyrir alla, alls staðar, alltaf, væru nú gengnar í garð. En auðvitað var það tóm vitleysa því að veruleikinn er auðvitað allt, allt annar.

Herra forseti. Mér er það fullkunnugt og þetta er ekki í fyrsta sinn sem búnar hafa verið til væntingar til þessa fyrirtækis, deCODE. Og án þess að ég eða nokkur annar hafi um það haldbærar tölur, þá liggur það fyrir að þúsundir Íslendinga keyptu hlut í þessu fyrirtæki þegar gengi þess var í hæstu hæðum. Mér er skapi næst að halda að á þeim tíma hafi það ekki síst verið tiltekinn hópur stjórnmálamanna sem hafi talað þetta fyrirtæki upp og það hafi skipt mjög miklu máli hvernig um fyrirtækið var m.a. talað í þessum sölum þar sem látið var í veðri vaka að það að rétta hinn miðlæga gagnagrunn í hendur þessa fyrirtækis jafngilti því að þá hefði fyrirtækið gripið guði í fótinn og þá væri framtíðin björt og fögur.

Það var einmitt við þær kringumstæður sem einstaklingar, margt launafólk, alþýðufólk í landinu fylgdi með í þeirri stemmningu sem þá var sköpuð og keypti hlut í fyrirtækinu á 50, jafnvel upp í 60, hlut sem er núna tíu sinnum verðminni. Ég þekki til fjölskyldna, m.a. í mínu kjördæmi, sem í þessari stemmningu, þar sem hlutabréfamarkaðurinn átti öllu að bjarga, þar sem hinn miðlægi gagnagrunnur átti að búa til dollara í stórum stíl, fór í banka og sló sér lán til þess að festa kaup í þessu fyrirtæki. Einhver sagði mér að tala hluthafa væri 7.000. Ég hef ekki um það nákvæmar upplýsingar. Mér finnst það ekki fjarri lagi. Vissulega er hægt að svara þessu fólki sem svo og segja: Hér er bara um áhættufjárfestingu að ræða, minn kæri. Þú máttir vita betur, þú áttir að hugsa málið betur. Þetta er einu sinni það sem gildir í hinum harða heimi viðskiptanna. En það er létt í vasa fyrir þetta fólk sem þarf að standa skil á lánunum sem það tók til að kaupa hlut í þessu framtíðarfyrirtæki þjóðarinnar.

Í fyrstu var mér sagt að sú ábyrgð sem hér um ræðir mundi kannski létta þessu fólki lífið, þessum litlu hluthöfum í deCODE, sem lögðu spariféð sitt í hlutabréfakaup í fyrirtækinu, en eiga svo auðvitað sáralítinn hlut í því þegar allt kemur til alls. En það eru stórar upphæðir á þeirra mælikvarða. Að þessi fjárfesting, þessi kaup, þessi samrumi á erlendu fyrirtæki og tilflutningur á starfsemi þess hingað heim í formi dótturfyrirtækis mundi hækka gengi bréfanna í deCODE --- mér er sagt að sennilega standi frekar líkur til þess að a.m.k. fyrst um sinn muni þetta gengi lækka þannig að ekki sýnist mér sérstaklega verið að huga að hagsmunum þessa fólks. Nei, það er ekki verið að því.

[15:45]

Mér þætti hins vegar fróðlegt að heyra snillingana fimm í efh.- og viðskn. fara aðeins yfir það með mér hér og þeir spáðu aðeins fyrir um það fyrir þessa litlu hluthafa í deCODE þannig að þeir gætu nú lagt við eyrun hvernig þeir litu á það hver yrði þróun gengis móðurfyrirtækisins ef þessi mál gengju fram eins og hér er ráð fyrir gert. Ég held það væri fróðlegt fyrir okkur hér á hinu háa Alþingi sem ætlum að taka ákvörðun um þetta mál á næstu dögum, og ekki síður fyrir hina, litlu eigendurna, meðeigendurna í deCODE sem eru með hlut sem er tíundi hluti af því sem hann var þegar þeir keyptu. Ég vænti því þess að stórsnillingurinn hv. þm. Vilhjálmur Egilsson fari aðeins yfir það hér með okkur hvernig hann meti þróun móðurfyrirtækisins og gengi hlutbréfanna þar á bæ.

Ég sá, herra forseti, í gögnum þessa máls, það var þó hægt að sjá það sem menn hafa vitað um langan aldur vegna þessa fyrirtækis að veikleiki þess liggur auðvitað í því að kaupandi þjónustu og rannsókna er fyrst og síðast einn og lengi framan af nær eingöngu einn, Hoffmann-La Roche. Það er auðvitað stór hætta fyrir fyrirtæki á slíkum vettvangi. Þótt samningar hafi verið gerðir til einhvers tíma milli þessara tveggja aðila, að annar kaupi af hinum, þá þekkjum við það öll og þarf ekki stórsnilligáfu til að átta sig á því að það er aldrei skynsamlegt að hafa öll eggin í sömu körfunni. Það á við líka hjá því fyrirtæki sem við fjöllum um hér, að það þarf að reiða sig fyrst og síðast á einn viðskiptaaðila sem kaupir afraksturinn af rannsóknum deCODE.

Nákvæmlega sama, herra forseti, á við af okkar hálfu gagnvart þessari ábyrgðarveitingu. Er það nú allt í einu mjög skynsamlegt að setja öll eggin í þá sömu körfu og það sé eingöngu eitt fyrirtæki á þeim vettvangi, ég vil segja í atvinnulífinu almennt, sem eigi að njóta styrks af slíkri stærðargráðu og stuðnings af slíkri stærðargráðu af ríkisins hálfu, ef menn eru yfirleitt farnir að hugsa samkvæmt þessum leiðum? Nei, segi ég og ég hygg að það séu margir mér mjög sammála.

Herra forseti. Ég sá það í svörum fjmrn. við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn., þeir þurftu nefnilega að spyrja við umfjöllun málsins og stórsnillingarnir í meiri hluta efh.- og viðskn. hafa ekki borið það við að því er virðist, að í ljós kemur varðandi samningana sem Íslensk erfðagreining hefur gert við heilbrigðisstofnanir á landinu, einar 19 talsins, að ekki er farið að borga neitt, enda hefur engin vinnsla hafist, herra forseti. Eins og hér segir að enn sé ósamið við stærstu heilbrigðisstofnunina, Landspítala -- háskólasjúkrahús. Síðan er spurt um það líka og því reynt að svara af hálfu fjmrh. hvort þessi rekstrarleyfishafi gagnagrunnsins, einkaréttaraðilinn, hafi nokkuð farið að borga leyfisgjaldið vegna gagnagrunnsins. Nei, þær greiðslur hafa heldur ekki verið inntar af hendi.

Það verður sennilega þá þannig að leyfið er komið á sinn stað. Það hefur ekkert verið greitt fyrir það. En áður en að því kemur mun ríkisstjórn frelsisins, Sjálfstfl. og Framsfl., hafa gengið skrefinu framar og skaffað eins og eitt stykki ríkisábyrgð upp á 20 milljarða kr. vegna frekari fjárfestinga og samruna eða kaupa á dótturfyrirtæki. Er furða þó maður spyrji og endurtaki: Hvar ætlar þetta að enda?

Herra forseti. Það verður þó að halda því haga og sýna sanngirni í þessum efnum að kannski er þessi stórsnilligáfa ekki eins mikil og maður gæti ætlað því hv. talsmaður stjórnarmeirihlutans á hinu háa Alþingi, formaður efh.- og viðskn., lét nefnilega það frá sér fara í framsöguræðu, eða hvort það var í andsvarahrinu í kjölfar ræðu hans, að hann, og ég reikna þá með samstarfsmenn hans í meiri hlutanum, hefði nefnilega haft aðgang að trúnaðarupplýsingum. Ég hef það nákvæmlega niður ritað að þeir hefðu haft aðgang að trúnaðarupplýsingum úr ráðuneytinu því það hefur verið upplýst að ráðuneyti, væntanlega forsætis- og fjármála- og ef ekki fleiri ráðuneyti, höfðu legið yfir þessu máli í tvo mánuði. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sagði það fyrr í morgun að ... (VE: Þetta er misskilningur.) Misskilningur, segir hv. þm. Ég ætla að láta fletta því upp hér á eftir. En þá hefur hann mismælt sig í þeirri umræðu. Hann talaði um trúnaðarupplýsingar sem hann hafi fengið úr fjmrn. og hafi hann ekki fengið þær trúnaðarupplýsingar og hafi hann mismælt sig hér, þá undirstrikar það enn og aftur þvílík snilligáfa er á ferðinni hjá meiri hluta efh.- og viðskn. að þurfa ekkert slíkar upplýsingar. Ráðherrarnir hafa hins vegar gengist við því og embættismenn fjmrn. hafa gengist við því að þeir hafi þurft að skoða þetta mál í einhverja mánuði. Forsrh. hefur gengist við því. Þetta hafi nú staðið í honum fyrst um sinn og hann hefði þurft að fara mjög rækilega yfir málið og komist að þessari niðurstöðu. (Gripið fram í.) En fulltrúar stjórnarmeirihlutans í efh.- og viðskn. þurftu þess ekki.

Ég sé það á minnispunktum mínum og ætla að halda því ákveðið til haga og ætla að fletta því upp á eftir að hv. þm. sagðist hafa fengið trúnaðarupplýsingar við meðferð málsins. Ég tók nefnilega sérstaklega eftir því og ég tók sérstaklega eftir því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kvartaði yfir því að hafa beðið um slíkar upplýsingar en ekki fengið. Það vakti sérstaka athygli mína. En úr þessu getum við fengið mjög auðveldlega skorið með því að fara yfir ræðu og orðaskipti hv. þm. í andsvörum í morgun milli tíu og ellefu.

Herra forseti. Menn hafa eðli máls samkvæmt staldrað við fordæmið í þessum efnum. Það verður auðvitað ekki skilið við það álitamál hér öðruvísi en því verði svarað fyrir fullt og fast. Í fyrstu sögðu hæstv. ráðherrar, forsrh. og fjmrh., að þetta mál væri í engu fordæmisgefandi. Eins og þeir gætu bara með einfaldri yfirlýsingu tekið um það ákvörðun. Síðan hafa þeir eðli máls samkvæmt dregið dálítið í land. Hæstv. fjmrh. hefur sagt m.a. í sjónvarpsfréttum sem ég fylgdist með, þegar sambærileg fyrirtæki leituðu til hans með þá áleitnu spurningu hvernig yrði á móti þeim tekið með sambærilegt erindi og deCODE, þá svaraði hann því að það yrði að skoða alveg sérstaklega. Þetta hefur hv. þm. Vilhjálmur Egilsson endurómað hér við umræðuna en borið þá fyrir sig þeim skildi að það væri allt of fljótt og ekki tímabært að taka um það ákvörðun og svara þeirri spurningu fyrir fullt og fast með almennum orðum, þó ekki væri meira sagt, fyrr en ESA væri búin að véla um þessi mál.

Herra forseti. Þetta er ekki nægilega gott. Þetta gengur ekki svona. Ef það er svo að hægt sé að ganga frá 20 milljarða kr. ábyrgð til þessa fyrirtækis meðan verið er að --- og nú nota ég orðrétt orðalag hv. þm. Vilhjálms Egilssonar --- ,,makka við ESA um þau mál``, þá hljóta nákvæmlega sömu viðmið að gilda gagnvart öðrum ámóta fyrirtækjum, eins og fyrirtækinu Lyfjaþróun hf., að meðan verið er að makka við ESA og verið er að vinna í því hvort ESA leggi blessun sína yfir þennan gjörning fái það fyrirtæki nákvæmlega sömu meðhöndlun og Íslensk erfðagreining. Það getur ekki eitt átt við það fyrirtæki og annað átt við annað fyrirtæki. Það er eitthvað sem gengur ekki.

Herra forseti. Þessi undandráttur og sá flótti frá veruleikanum að bregða ESA fyrir sig þegar Lyfjaþróun hf. á í hlut en það eigi ekki við þegar deCODE er annars vegar, gengur ekki. Það er ekki í samræmi við þann grundvöll sem við byggjum á í stjórnsýslu okkar, um jafnræðisregluna í atvinnulífi og öðrum þáttum stjórnsýslu okkar.

Herra forseti. Þessu máli verður auðvitað ekkert lokið hér á hinu háa Alþingi. Það væri fyrir neðan allar hellur ef menn ætluðu sér að loka málinu og ljúka því án þess að þeirri grundvallarspurningu sé svarað: Hvað svo? Hverjir fleiri? Og hvernig á að afgreiða þau mál? Hvaða önnur sambærileg mál eru hugsanlega í pípum? Auðvitað er ekki hægt að svara því með tæmandi hætti en menn verða að búa sig undir það þegar liggur fyrir formlegt erindi í þá veruna og gætu orðið miklum mun fleiri.

Ég hef dálítið velt því fyrir mér hvort það gangi líka að einskorða, þó við bara stöldruðum við það, stuðning af þessari tegund við lyfjaiðnað og líftækniiðnað. Ég er ekkert handviss um að það standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég hef raunar miklar efasemdir um það. Ég hef það mjög sterkt á tilfinningunni að við séum hér að sigla inn í umhverfi sem við vitum ekkert hvert muni leiða okkur og að hér séu aðeins fyrstu áratogin í þá veruna. Ég vona svo sannarlega að íslenskt atvinnulíf geti spjarað sig án slíkra afskipta ríkisvaldsins.

Ég gengst alveg við því, herra forseti, að ég og flokkur minn höfum stundum talað um það að sprotafyrirtæki, smáiðnað og smáfyrirtæki þyrfti að efla í landinu. Við höfum oft fengið þá um leið spurningar, erfiðar spurningar, gjarnan frá sjálfstæðismönnum, gjarnan frá frjálshyggjumönnum í Sjálfstfl., þegar þeir spyrja: Hvernig ætlið þið að gera þetta? Hvernig ætlið þið að komast hjá jafnræðisreglunni? Hvernig ætlið þið að komast hjá samkeppnisþætti mála? Hvernig ætlið þið að velja þau fyrirtæki sem má styðja og má ekki styðja? Og auðvitað er þetta mjög vandasamt.

En, herra forseti, þetta er smávandamál. Það eru örlítil vandamál sem þar eru á ferðinni, vandamál og verkefni sem þjóðlönd í kringum okkur eru að fást við, að efla slíkar greinar, smáfyrirtæki sem telja einn til fimm eða tíu starfsmenn. En þegar við erum komnir út á markað stórfyrirtækjanna, þá spyr ég hvar við endum.

[16:00]

Herra forseti. Hv. þm. bar í morgun ábyrgðarveitingu til Flugleiða og Atlanta, sem var bein afleiðing hryðjuverkanna 11. september, saman við þennan gjörning hér. Hv. þm. veit miklu betur en svo að bera saman epli og appelsínu með þeim hætti sem hann gerði áðan. Hann veit það mætavel og talaði fyrir því máli að í kjölfar 11. september var slíkt uppnám í þessum atvinnurekstri, flugrekstri, að tryggingafélög margfölduðu tryggingar vegna hryðjuverka og hækkuðu tryggingariðgjöldin svo mikið og ábyrgðirnar, bakábyrgðirnar vegna þess arna að það var ekki á færi smáfyrirtækja í heiminum, stórfyrirtækja á íslenskan mælikvarða eins og Flugleiða og Atlanta, að gera það ein og sér. Það átti að vera tímabundinn gjörningur en það hefur þurft að framlengja hann illu heilli nokkrum sinnum. Vonandi rennur sú stund upp að menn komast í eðlilegt andrúmsloft í því samhengi. Þar var um krísuástand að ræða sem á ekkert skylt við það sem hér um ræðir.

Ég ætla hins vegar ekkert að leyna því, þó að allt of lítið sé um það fjallað hér, að varðandi þá ábyrgðarveitingu eru vissir þættir sem menn hefðu þurft að gaumgæfa eilítið betur. Þá á ég við það að annað þeirra fyrirtækja sem þarna á hlut að máli er með útgerð á flugvélum sem aldrei koma hingað til lands og hafa hér út af fyrir sig enga heimahöfn og afskaplega litla skírskotun til íslensks atvinnulífs, er tæpast með íslenska flugliða. Ég velti því fyrir mér hversu langt væri eðlilegt fyrir íslenska ríkið að ganga í ábyrgðarveitingu gagnvart slíkum atvinnutækjum. Það er þó önnur saga og eins og ég segi er það gert og væntanlega mun það taka enda fyrr en síðar. En það er fjarri lagi að reyna eitt andartak að bera þær kringumstæður saman við það sem hér er verið að gera með galopin augu og undir engum sérstökum þrýstingi. Það er bara verið að gera það til að gera það.

Ég vil spyrja hv. þm. Vilhjálm Egilsson hvort hann hafi reynt að gera sér í hugarlund hversu miklum fjárhæðum hann teldi að mætti verja í heild á næstu, við skulum segja næstu þremur árum til ábyrgðarveitinga af þessari tegund. Hér erum við að ræða um 20 milljarða. Telur hann að án þess að það hefði áhrif á lánshæfi og efnahagsstöðu ríkissjóðs, peningalega stöðu ríkissjóðs, að ríkissjóður sé í stakk búinn til þess að hafa þá tölu 40 milljarða eða 60 milljarða eða 80 milljarða? Hversu hátt vill hv. þm. fara þegar kemur að ábyrgðarveitingu af þessari tegund? Ég vil trúa því að hann vilji að leikreglurnar séu alltaf þær sömu fyrir alla, en þeim sé ekki breytt fyrir suma, stundum.

Ég spyr: Hvað er hann reiðubúinn til að fara hátt með sértækar aðgerðir af þessum toga í formi ábyrgðarveitinga til fyrirtækja í lyfja- og líftækniiðnaði og ellegar þá annarra fyrirtækja í samkeppnisiðnaði, fyrirtækja sem vilja hasla sér völl í alþjóðlegu umhverfi, fyrirtækja sem væri mjög spennandi og skemmtilegt að fá hingað heim til að blómsta, til að skapa störf fyrir 200--500 manns, vel menntað fólk sem gæti hér látið gott af sér leiða? Er þetta eitt einstakt dæmi eða eru hv. þm. og flokkur hans tilbúin að feta þessa vegferð miklum mun lengra eða á að hætta hér? Þetta er spurning sem verður að fást svar við.

Hér hefur líka eitt annað verið rætt sem menn hafa eðlilega staldrað við þegar ljóst er að þetta einstaka fyrirtæki muni að áliti sérfróðra aðila spara sér 600--800 millj. kr. í vaxtakostnaði vegna þeirra skuldbindinga sem það ætlar að undirgangast, vegna þess að vaxtakjör muni lækka um 3--4%. Því hefur ekki enn þá verið svarað hvað þetta ábyrgðargjald eigi að vera hátt, hversu mikið eigi að greiða fyrir þessa ríkisábyrgð. Það er eitt af þeim atriðum sem verður að fást skýrt svar við. Öðruvísi er ekki hægt að skilja við þetta mál á hinu háa Alþingi.

Síðan er það ein akademísk spurning, þ.e. spurning í viðtengingarhætti, ef-spurning, því þær spurningar eru býsna margar, því miður, við þessar kringumstæður því svörin eru svo fátækleg. Nú er réttilega á það bent að hér er um einfalda ábyrgð að ræða. Ég vil spyrja hv. þingmenn samviskuspurningar. Ef svo færi, sem við vonum auðvitað ekki, að þetta lán gjaldfélli og að skuldarinn, deCODE, sé ekki greiðsluhæfur þá segir einfalda ábyrgðin að fyrst eigi að ganga að fyrirtækinu og bjóða upp eignir þess til þess að standa skil á þessari skuldbindingu. Spurning mín er þessi: Telja menn mjög líklegt í ljósi aðdraganda máls að íslenska ríkið, að núverandi stjórnarmeirihluti eða Alþingi Íslendinga, mundi nokkurn tímann ganga að þessu fyrirtæki og leggja það á hliðina? Telja menn það líklegt eitt andartak að að þessu fyrirtæki yrði gengið, það lagt á hliðina og gert gjaldþrota? Nei, það er auðvitað ekkert mjög líklegt þegar horft er til sögu samskipta stjórnvalda og þessa fyrirtækis. Það er satt að segja mjög ólíklegt að svo verði nokkurn tímann. Sjá menn það fyrir sér að Davíð Oddsson forsrh. hringi í góðvin sinn Kára Stefánsson og segi: ,,Nú er þetta búið, minn kæri``? Nei, því miður er það þannig að við erum föst í þessum köngurlóarvef. (VE: Þingmaðurinn sér greinilega fyrir sér að Davíð Oddsson verði forsrh. eftir fimm ár.) Það yrði ekkert gert á næstu sex árum, herra forseti, það gæti gerst á næstu sex mánuðum. Ég sagði hins vegar ekki Davíð Oddsson forsrh. Ég sagði bara Davíð Oddsson. Hann getur verið í stjórnarandstöðu þá en hættir hins vegar ekki að hringja í góðvin sinn Kára Stefánsson. (Gripið fram í.) Það er önnur saga.

Ég er hins vegar mjög klárlega (Gripið fram í.) að gera hv. alþm. það skýrt að samskiptamunstur þessa fyrirtækis og stjórnvalda á liðnum árum hefur verið með þeim hætti að afskaplega litlar líkur eru til þess, sama hver ríkisstjórnin er hverju sinni, að að þessu fyrirtæki verði gengið og það lagt á hliðina. Þvert á móti standa öll rök til þess að það er búið að segja A. Það var gert þegar kroppurinn var gefinn í miðlæga pottinn. Það er búið að segja B þegar peningunum, skattpeningum þjóðarinnar er hellt í þennan sama pott. Halda þá menn að það sé bara hægt að hætta með stafrófið? Nei, auðvitað verða menn að segja C. Ef mál fara á hinn verri veg þá er auðvitað sendur út nýr björgunarleiðangur til þess að verja þá hagsmuni sem menn þurfa að verja í þessu fyrirtæki, gagnagrunninn. Við skiljum hann ekki eftir í höndunum á gjaldþrota fyrirtæki. Ætlum við að láta bjóða hann upp kannski til hæstbjóðanda (Gripið fram í.) í gjaldþrotahrinu eða 20 milljarða ábyrgðir? Nei, herra forseti, þessi köngurlóarvefur er þegar til staðar og ríkissjóður er fastur í honum. Þannig er veruleikinn sem við okkur blasir.

Ég vil því spyrja hv. þm.: Hvað telur hann að muni gerast ef hlutir færu á hinn verri veg hjá þessu fyrirtæki og ekki tækist að standa skil á þeim skuldbindingum sem hér um ræðir, 35 milljörðum, þar af 20 milljörðum með ríkisábyrgð? Telur hann að líkur standi til þess að ríkissjóður mundi ganga að þessu fyrirtæki, ýta því út í horn og hætta ekki fyrr en hver einasta króna sem tæk er er fengin úr hugsanlegu þrotabúi?

Herra forseti. Ég vil hafa það algerlega á hreinu að hér er ég bara að draga upp mynd. Ég vona svo sannarlega eins og þjóðin öll að þessu fyrirtæki gangi allt í haginn. Ég er jafnspenntur fyrir því að þetta fyrirtæki getið spjarað sig (Gripið fram í.) eins og önnur sprotafyrirtæki í þessum iðnaði og öðrum. (KPál: Þú vilt ekki stuðla að því?) Hv. þm. spyr hvort ég vilji ekki stuðla að því. Jú, vissulega vil ég stuðla að því með því að leyfa þessu fyrirtæki að vera í friði og fá að njóta sín á almennum markaði miðað við þær leikreglur sem gilda hér á Íslandi og í alþjóðlegu umhverfi. (KPál: Ekki hjálpa því að vaxa?) ,,Hjálpa því að vaxa``, segir hv. þm. Kemur annar stórsnillingurinn. (JóhS: Hann er í Sjálfstfl.) Hann er í Sjálfstfl. þessi stórsnillingur, er hv. þm. og heitir Kristján Pálsson. Nú á það við, nú passar það, að það eigi að hjálpa fyrirtækjum að vaxa. Ég hef ekki orðið sérstaklega var við að hv. þm. hafi farið mikinn í því að hjálpa fyrirtækjum að vaxa eða að hann hafi lagt hér fram frv. eftir frv. til þess að styðja atvinnulífið í landinu, til að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna. (Gripið fram í.) Er þess kannski að vænta næst að hann ætli að leggja til stuðning við olíufyrirtækin (Gripið fram í.) eða Eimskipafélagið? Hvað verður næst, herra forseti? (Gripið fram í.) Hvers má vænta næst hjá þessum hv. þm. þegar hann ætlar að fara að hjálpa fyrirtækjum samkvæmt geðþótta? (KPál: Styrkja.) Við skulum hafa það styrkja. Hann notaði að vísu orðið hjálpa.

Það var ágætt að fá þetta innskot hjá hv. þm. Það verður fróðlegt að heyra frá honum seinna í dag þegar hann heldur sína merku ræðu hvaða önnur fyrirtæki verðskuldi hans hjálp, verðskuldi hans stuðning í íslensku atvinnulífi. Það er best að þeir hringi, forstjórarnir og hluthafarnir í fyrirtækjum á markaði á Íslandi, í hv. þm. Kristján Pálsson og biðji hann um hjálp. Hann veitir þeim vafalaust sams konar hjálp og hann leggur nú til að veitt verði þessu einstaka fyrirtæki. (Gripið fram í.) Ég er alveg handviss um að hann verður fljótur til og leggur fram lista yfir þau fyrirtæki sem þarfnast sérstakrar hjálpar.

Við hv. þm. höfum verið í sama kjördæmi um nokkurra ára skeið. Ég man ekki til þess að hann hafi komið með langa lista af merkum og góðum fyrirtækjum í kjördæmi okkar, sem stundum hafa þarfnast hjálpar, og barist fyrir því með kjafti og klóm að þau fengju ríkisábyrgð, annaðhvort til að losa sig út úr vandamálum ellegar þá til þess að ráðast út á nýjar og áður óþekktar veiðilendur. (KPál: Flugfélagið.) Hér á það við. ,,Flugfélagið``, segir hv. þm. Hafi hann lagt við hlustir áðan varðandi 11. september þá fékk hann svar við því.

Herra forseti. Auðvitað lenda menn í tómri rökleysu, algjörlega upp við vegg, úti í horni. Það fer vel á því, herra forseti, að þeir sitji úti í horni þessir ágætu hv. þm. Sjálfstfl. og geti sig hvergi þaðan hrært því þeir eru rökþrota í málinu. (Gripið fram í.) Þessi afstaða þeirra á ekki samhljóm í neinu við það sem þeir hafa áður sagt. Þess vegna er viðlagið svo falskt sem raun ber vitni.

Herra forseti. Auðvitað á maður ekki að láta þessa barbapabba íslenskra stjórnmála æsa sig upp því öll börn þekkja að barbapabbar eru þeirrar tegundar og gerðar að þeir geta brugðið sér í hverrar tegundar líki, orðið feitir einn daginn, mjóir hinn daginn, hægri menn einn daginn og vinstri menn hinn daginn. Það er eðli og innihald Sjálfstfl. og hefur alla tíð verið. Auðvitað á maður að hafa gaman af svona skrípó. Ég hef gaman af barbapabba. Af hverju ætti ég ekki að hafa gaman af Sjálfstfl. á sama hátt? Mér þætti það vafalaust ef það væri ekki þannig að hann stjórnar þessu landi.

Herra forseti. Ég segi enn og aftur: Með mínútu hverri, með degi hverjum styttist í næstu kosningar og við getum farið að stjórna þessu landi eins og vit er í. (Gripið fram í.)