Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 16:42:08 (8161)

2002-04-23 16:42:08# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[16:42]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur skýrt sjónarmið sín og ég deili því sjónarmiði hans að við eigum ekki að gera þetta. Ég hef ávallt sagt það. En ég spyr hv. þm. hverjar hann meti líkurnar, ef illa fer á næstu sjö árum eða svo, á að svo ómæld ábyrgð sem ríkissjóður tæki á sig yrði til þess að menn freistuðu þess að fara enn dýpra í fenið ef illa gengur.

Mig langar að fá fram hjá hv. þm. hvernig hann líti á stöðuna í framhaldi af því, ef illa fer eftir 5--7 ár, hvort menn standi frammi fyrir því, eins og svo oft gerist í svona dæmum í viðskiptalífinu, að freista þess að taka enn meiri áhættu í nokkur ár til viðbótar áður en til endanlegs uppgjörs kemur.