Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 16:48:38 (8165)

2002-04-23 16:48:38# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, KPál
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[16:48]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það mál sem við ræðum í dag virðist vera umdeilt hjá þjóðinni. Hluti hennar virðist halda að hér sé verið að fara í mjög áhættusamt mál og það er út af fyrir sig eðlilegt að skiptar skoðanir séu um mál eins og þessi. Upphæðin sem hér um ræðir er líka mjög há og áhætta sem henni fylgir er kannski meiri en menn hafa horft framan í áður. En það er ekki sama við hvað er verið að eiga og stundum þarf að stíga stærri skref en menn hafa séð áður til að ná þeim árangri sem stefnt er að.

Ég er einn af þeim sem hafa frá fyrstu dögum haft mikla trú á Íslenskri erfðagreiningu og þeim hugmyndum og rannsóknum sem þar eru í gangi. Þess vegna hef ég stutt þær aðgerðir sem eru ætlaðar til þess að styrkja grundvöll þess fyrirtækis. Sú aðgerð sem hér er verið að ræða um er að vísu annars eðlis en þær fyrri og að sönnu áhættusöm fyrir ríkissjóð.

Eftir að hafa rætt við nefndarmenn í hv. efh.- og viðskn. hef ég komist að þeirri niðurstöðu að sú áhætta sem menn telja vera í þessu máli sé ekki eins mikil og margir halda. Ljóst er að Íslensk erfðagreining og móðurfyrirtækið deCODE eru nánast skuldlaus. Fyrirtækin eiga sjóði til allt að sjö ára til að mæta hallarekstri og nokkuð ljóst að á þeim tíma á fyrirtækið ekki að þurfa að safna rekstrarskuldum. Í því nýja fyrirtæki sem verið er að tala um að stofna hér, lyfjaþróunarfyrirtæki, er líka gert ráð fyrir að tekjur skapist á fyrsta degi en séu ekki byggðar einvörðungu á því að eitthvert eitt lyf finnist einhvern tímann og jafnvel ekki. Ég tel því að ekki sé verið að taka þá áhættu að 20 milljarðarnir mundu falla á ríkissjóð eftir sjö ár. Ef illa færi mundi þessi tala verða mun lægri.

Ástæða þess að ég hef stutt Íslenska erfðagreiningu er sá möguleiki sem þetta fyrirtæki hefur fært íslensku menntafólki til að starfa og fólkinu, íslenska menntafólkinu, er gert kleift að starfa á Íslandi. Fyrirtækið er orðið einn fjölmennasti vinnustaður á landinu, með um 600 manns í vinnu. Menntamenn víða úr heiminum hafa komið hingað til landsins og auðgað hátækniiðnaðinn með menntun sinni og flóra menntaðs vinnuafls hefur vaxið geysilega og meira en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni.

Það sem á undan er gengið hefur fært mér sönnur á að hér sé á ferðinni fyrirtæki sem staðið hefur undir væntingum og gott betur. Ísland er komið í hóp þeirra þjóða sem skipa sér á bekk í þróaðri hátækni, þjóðum margfalt fjölmennari en við sem hafa miklu meira fjármagn til umráða en við til að taka þátt í svo framsæknum atvinnurekstri.

Með þetta allt í huga hef ég tekið þá ákvörðun að styðja frv. ríkisstjórnarinnar og fagna því í raun að það risastökk sem hér er verið að stíga skuli vera tekið á sviði lyfjaþróunar á Íslandi. Ég tel að með þessu getum við verið að marka okkur spor í heimssögunni að þessu leyti. Okkar litla þjóð hefur þor og þrótt til að stíga skref sem getur markað þau spor. Til þess þarf kjark og ég tel að hann sé sýndur með því að samþykkja frv.

Fram hefur komið að ekkert annað fyrirtæki á Íslandi er með nein svipuð áform á prjónunum eða er í einhverri framleiðslu á þessu sviði. Því er ekki verið að trufla starfsemi annarra fyrirtækja á Íslandi með slíkri ákvörðun. Að mínu áliti mun þessi ákvörðun styrkja önnur fyrirtæki í hátækni á Íslandi og auka líkur á árangri þeirra í framtíðinni.

Við höfum séð það eftir að Íslensk erfðagreining kom til starfa á Íslandi að önnur fyrirtæki í líftækniiðnaði hafa risið upp og dafnað sem aldrei fyrr. Íslensk erfðagreining er eins og móðurskip hvað þetta varðar og virkar sem möguleiki og hvati sem breiðir úr sér um allt land. Þau 250--300 nýju störf sem hámenntaðir menn og konur munu fá og bætast við íslenska menntaflóru munu að mínu áliti virka sem vítamínsprauta á háskólalíf á Íslandi. Háskóli Íslands og vonandi aðrar íslenskar menntastofnanir munu taka við sér í kjölfar þess.

Mér finnst, herra forseti, margir haga sér í þessu máli eins og við höfum aldrei veitt ríkisábyrgðir áður og hér hafi allt verið slétt og fellt að þessu leyti og engin fordæmi séu til. Það er að sjálfsögðu mjög rangt. Alþingi hefur tekið margar sambærilegar ákvarðanir á síðustu áratugum eða frá síðustu öld sérstaklega og má þar nefna mörg lykilfyrirtæki í íslensku atvinnulífi áratugum saman. Þar eru fyrirtæki eins og Eimskip, Flugleiðir, Landsvirkjun, togaraútgerðir um allt land og síðast flugábyrgð til þess að tryggja flug á milli Íslands og annarra landa.

Ýmsar aðgerðir aðrar hafa verið gerðar til að laða hingað stórfyrirtæki, eins og Ísal og fleiri stórfyrirtæki á sviði stóriðju. Þau fyrirtæki hafa fengið skattaívilnanir sem engin önnur fyrirtæki fengu á þeim tíma. Þetta hefur orðið til þess að fyrirtæki eins og Ísal hefur stækkað og þróast hér á landi sem hefði ekki orðið ef ríkissjóður hefði ekki gripið inn í með sérstökum aðgerðum.

Margir hér inni hafa haft áhuga á því að auðga flóru iðntæknifyrirtækja og iðnþróunar á Íslandi. Þar höfum við litið til þess hvað Írar hafa þótt framsæknir og notað ríkisábyrgðir og skattaívilnanir til að laða að sér fyrirtæki, sprotafyrirtæki, með ýmsu móti með því að opna svokölluð frísvæði. Írar byrjuðu á þessu fyrir nokkrum áratugum eða á 6. áratugnum. Starf þeirra að þessu leyti hefur leitt írsku þjóðina inn í mestu hagsældartíma sem Írar hafa séð og þeir eru taldir vera iðnvæddasta þjóð í heiminum í dag.

Sem betur fer hefur margt verið gert hér á undanförnum árum sem hefur einmitt verið í svipaða átt og það er m.a. með því að lækka almenna skatta. Við erum nýbúnir að lækka t.d. almenna tekjuskatta á íslensk fyrirtæki niður í 18%. Á Írlandi hafa þeir verið 10% til langs tíma. Þetta tel ég allt skref í rétta átt og það hefur tvímælalaust styrkt íslenskt atvinnulíf og á eftir að koma þar mjög til góða. Hægt er að segja að þar hafi verið um mjög almenna aðgerð að ræða sem öllum nýtist.

Að sjálfsögðu er hægt, herra forseti, að ofbjóða þjóðinni með ríkisábyrgðum og styrkjum en það var einmitt raunin þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var hér við lýði á árunum 1988--1991. Þá var ábyrgðum og fjármunum ríkisins spreðað út um hvippinn og hvappinn án nokkurar stefnu né sýnar til framtíðar. Í fjölda tilfella var verið að púkka upp á löngu gjaldþrota fyrirtæki vítt og breitt um landið. Þær aðgerðir komu svo sannarlega í bakið á okkur. Hér er allt annað á ferðinni að mínu áliti, herra forseti, eins og ég hef komið að fyrr í ræðu minni.

Ég held, herra forseti, að hér sé verið að brjóta í blað í atvinnusögu þjóðarinnar þar sem við getum breytt ímynd þjóðar okkar úr því að vera fiski- og álversþjóð í þjóð sem er að færast úr frumframleiðslu í að byggja upp framtíð sína á hugviti. Það hófst með Íslenskri erfðagreiningu og fer nú annað risastökk á nýrri braut lyfjaþróunar. Það er sú framtíð sem flestar iðnvæddar þjóðir sjá fyrir sér og mun tryggja tilverurétt þjóðarinnar þegar til lengri tíma er litið.

Ég tel að við séum að tryggja þann tilverurétt og þess vegna styð ég þetta mál. Við viljum framþróun í landi okkar. Við viljum tryggja hag fólksins. Við viljum vera sjálfstæð þjóð sem tekur sjálf á sínum málum.

Úrtölur stjórnarandstöðunnar lýsa ótrúlegu afturhaldi. Þeir sömu menn sem hafa einmitt viljað stöðva stór virkjunaráform og byggja einungis á hugviti hafa snúist öndvert við þessu máli. Hvað hafa t.d. Vinstri grænir gert í að hjálpa til í málinu? Að sjálfsögðu ekki neitt. Þeir hafa tekið upp fyrri háttu og eru nú alfarið á móti uppbyggingu með þessum hætti, þeir sömu aðilar sem vildu heldur ekki stóriðju.

Að sjálfsögðu er sorglegt til þess að vita að menn skuli ekki geta séð ljósið í þessu. Ekki var við því að búast að Samfylkingin gæti verið samkvæm sjálfri sér í þessu máli frekar en öðrum. Þeir vita yfirleitt ekki í dag hvað þeir ætla að gera á morgun og það sýndi sig við upphaf umræðunnar í málinu að menn voru ekki vissir um hvað þeir vildu gera. Ég, herra forseti, er alveg viss um hvað ég vil að verði gert í málinu. Ég vona að það fái góðan byr hér í þinginu. Það geri ég fyrir framtíð þjóðarinnar.