Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 17:05:54 (8168)

2002-04-23 17:05:54# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[17:05]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. ,,Ég trúi, ég trúi,`` er megininntakið í málflutningi hv. þm. Ég trúi, segir hann, mönnum sem til þekkja hjá Íslenskri erfðagreiningu, mönnum sem til þekkja þessara mála. --- Nú er komið að okkur að kynna okkur sjálf hver raunveruleikinn er. Menn geta ekki vikið sér undan ábyrgri umræðu með þessum hætti.

Ég spurði hvort hv. þm. hefði sjálfur kynnt sér þessi gögn. Það hefur hann greinilega ekki gert. Ég vék að lánum tekin hafa verið á síðustu mánuðum, í desember 27,5 milljón dollarar, 17,8 aftur í desember 2001, 13,8 milljónir í mars 2002, 7,3 milljónir dollara með 6% álag á Libor-vexti, sem sérfræðingar á fjármálamarkaði segja að sé mjög mikið. Menn spyrja: Hvernig stendur á þessum versnandi lánskjörum?

Hefur hv. þm. kynnt sér sjóðsbrunann hjá fyrirtækinu? Hefur hann gert það sjálfur? Ekki: Einhverjir menn hafa sagt mér og ég trúi, ég trúi.

Það er rétt að þessar upplýsingar eru fyrir hendi. Nú er komið að því að íslenskir alþingismenn, sem gert er að taka ákvörðun fyrir hönd þjóðarinnar í þessu máli, kynni sér málin sjálfir og brjóti þau sjálfir til mergjar. Það er komið að því.