Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 18:12:14 (8171)

2002-04-23 18:12:14# 127. lþ. 126.4 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[18:12]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um frv. til laga um heimild til handa fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar.

Hér hefur margt verið sagt um þetta frv. Ég tek það skýrt fram, herra forseti, í upphafi máls míns að ég á ekki sæti í efh.- og viðskn. sem fór vel yfir efnahagsþætti þessa máls. Það hefur komið fram að fjölmörgum spurningum sem þar voru lagðar fram varðandi efnahagsþætti málsins hefur ekki verið svarað og verður ekkert hægt að svara alveg á næstunni. M.a. er verið að meta innan Evrópska efnahagssvæðisins þætti sem lúta að lögum þess og eins lögum sem snúa að samkeppnisákvæðum þessarar aðgerðar ef af verður.

En, herra forseti, þetta er lítið frv., einungis tvær greinar, en eftir sem áður er þarna bæði um stefnubreytingu að ræða og eins mikla fjárhagslega ábyrgð því að ríkið ætlar að ganga í ábyrgð fyrir eitt fyrirtæki, alveg hreint á skjön við bæði lög um ríkisábyrgðir og eins um samsvarandi fyrirgreiðslu til annarra fyrirtækja sem að vísu hefur ekki reynt á enn þá en ég tel að hljóti að koma í framhaldinu.

[18:15]

Það hefur komið skýrt fram að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er algerlega andvíg því að þetta frv. verði að lögum og það hefur komið fram í okkar máli og við munum öll greiða atkvæði gegn frumvarpinu. Þegar það var kynnt til að byrja með komu upp í hugann þær tálbeitur sem lagðar eru fram, þ.e. að með samþykkt frumvarpsins muni hér skapast störf fyrir 250--300 vísindamenn á sérsviði. Að vísu þurfa mjög margir að koma erlendis frá vegna þess að við eigum ekki þann fjölda vísindamanna til að fylla þessar stöður. Auðvitað horfir maður til þess að þetta geti haft mikil áhrif á íslenskt atvinnulíf og umhverfi og verið jákvætt fyrir þá þróun sem við viljum sjá hér. En það þurfti ekkert að liggja mikið yfir frv. til þess að sjá hvað þetta er í raun og veru úr öllu sambandi við það sem eðlilegt má teljast, hvort sem það er út frá þessari ríkisábyrgð og þeirri áhættu sem ríkissjóður er að taka á sig fyrir hönd allra Íslendinga gagnvart samkeppnishæfni þessa fyrirtækis við önnur á sama sviði sem við sem betur fer höfum hér á landi og gagnvart öðrum fyrirtækjum á öðrum sviðum sem eru að reyna það sama, þ.e. að þróa með útflutning í huga framleiðsluvöru sem krefst sérfræðiþekkingar, en fyrirtækin þurfa ákveðinn stuðning til þess að geta komist í gang og hafið framleiðslu. Þetta er ekki eingöngu innan lyfjaiðnaðarins eða líftæknisviðsins heldur einnig í öðrum fyrirtækjum sem á sínu sviði gætu haft sömu áhrif og þetta fyrirtæki innan líftæknigeirans.

Það er alveg ljóst að fyrirtækið Íslensk erfðagreining --- og þá vil ég taka það fram, herra forseti, að þar er ég ekki að tala um starfsmenn fyrirtækisins heldur um fyrirtækið sem rekstrareiningu --- hefur frá því það kom fyrst fram fengið alveg sérstaka meðferð og fyrirgreiðslu hjá hinu opinbera. Það á sérstaklega við hvað varðar möguleika á að setja hér upp miðlægan gagnagrunn með einokun á þeim grunni og með þá sýn í huga að á þeim grunni yrði svo hægt að fara út í þá lyfjaþróun sem núna er komin til sögunnar. Öll þessi fyrirgreiðsla hefur verið langt umfram það sem eðlilegt má teljast og algjörlega úr takt við það sem samsvarandi fyrirtæki eins og Urður, Verðandi, Skuld hefur fengið.

En burt séð frá þessari sérstöðu og sérmeðferð sem Íslensk erfðagreining hefur alla tíð fengið, þá er þessi iðnaður, líftækniiðnaðurinn og lyfjaþróunariðnaðurinn, mjög áhættusöm starfsgrein og það er þannig sem við verðum að líta á ábyrgðina. Og þegar við lesum svo 2. gr. og með tilliti til þess hvað lyfjaiðnaðurinn er mikil áhættufjárfesting, þá er alveg ótrúlegt að mönnum hafi dottið í hug að fella nær alfarið úr gildi lög um ríkisábyrgðir og fara ekki að þeim lögum, að fara ekki í það mat sem kemur fram í lögunum til þess að sýna þá ábyrgð, sem ég tel að ríkissjóði sé skylt, að fara ekki út í slíkar ríkisábyrgðir nema það sé nokkuð ljóst að ekki sé um mikla áhættufjárfestingu að ræða og að talið sé að aðgerðin sem um ræðir muni verða til þess að tryggja meiri hagsæld og betri afkomu fyrir þjóðarbúið.

Það hefur verið farið yfir ákvæði um lög um ríkis\-ábyrgðir, en þar kemur fram að ríkissjóður megi aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar nema heimild sé veitt til þess í lögum. Það segir líka að þegar ríkisábyrgð er veitt skuli liggja fyrir umsögn Ríkisábyrgðasjóðs samkvæmt lögum um Lánasýslu ríkisins með eftirtöldum þáttum, þ.e. mat á greiðsluhæfni, mat á afskriftaþörf vegna áhættu á ábyrgðum, mat á tryggingum og mat á áhrifum ríkisábyrgðar á samkeppni á viðkomandi sviði. Ekkert af þessu liggur fyrir. Það er alveg ljóst hvers vegna varð að fella þessi lög úr gildi, nema 5. gr., um afskriftareikning vegna veittra ábyrgða. Þetta frv. er ekki í takt við eitt eða neitt sem er að gerast í okkar þjóðfélagi. Það er málið.

Það eru fleiri en við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem gagnrýna frv. Þeirra á meðal er þingmaður meðal stjórnarliða, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem gagnrýnir frv. mjög harkalega, e.t.v. ekki alveg á sömu nótum og við gerum, en hann gerir það samt. En úti í þjóðfélaginu er mjög mikil andstaða við frv. og þeirri sérþjónustu sem Íslensk erfðagreining á að fá.

Nú er ekki svo, herra forseti, að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði séum að hlaupa eftir skoðanakönnunum eða hvað fólki finnst úti í þjóðfélaginu eða að við stillum okkar strengi alfarið eftir því. Við höfum okkar stefnu. Við höfum okkar sannfæringu. Og við reynum að meta mál eins og þetta. Og það gerðum við. Við sögðum ekki í upphafi að þetta kæmi ekki til greina. Það var ekki fyrr en við vorum búin að skoða málið. Við þurftum hins vegar ekki að liggja lengi yfir málinu til að sjá að það var alfarið út fyrir sviga og því ekki hægt að leggja því lið.

En úti í þjóðfélaginu er mjög mikil andstaða við frumvarpið. Það má ekki gleyma því, herra forseti, að það eiga mjög margir um sárt að binda vegna kaupa á hlutabréfum. Það má hugsanlega segja að við Íslendingar höfum ekki langa hefð í hlutabréfakaupum og kunnum lítið á þann markað. En í þessu tilfelli var hægt að spila upp svo miklar væntingar í garð þessa fyrirtækis og umsýslunnar í kringum það allt saman og hvað þetta fyrirtæki mundi gefa mikið af sér fyrir hluthafa og íslenska ríkið og alla veltuna sem hér átti að koma inn o.s.frv., að mjög margir stukku á agnið, tóku jafnvel bankalán til þess að fjárfesta í hlutabréfum í deCODE. Og því miður, herra forseti, þó að allur þessi fjöldi hafi tapað fé, því að bréfin hafa lækkað í verði og hríðfallið, þá eru mjög margir sem standa slyppir og snauðir eftir, fólk sem við getum sagt að hafi í óvitaskap eða af vankunnáttu gagnvart verðbréfamarkaðnum tekið bankalán til þess að fjárfesta í þessu fyrirtæki og kaupa hlutabréf. Við bankalánin verður að standa. Það er gengið að eignum þessa fólks þannig að það eru margir sem standa eftir slyppir og snauðir.

Þegar svo kemur frumvarp eins og þetta um að veita þessu sama fyrirtæki svona mikla fyrirgreiðslu, þá er ekki nema von að margir séu undrandi og hugsi sem svo: Hvers vegna núna? Hvað á að gera fyrir okkur? Ekki hefur okkur verið hjálpað.

Þessi frumbernska okkar Íslendinga á verðbréfamarkaðnum verður okkur og var okkur dýrkeypt reynsla og ég hygg að menn fari hægar í sakirnar, taki alla vega ekki bankalán til þess að verða ríkir á augabragði við að kaupa bréf í fyrirtækjum eins og þessu heldur sé litið á hlutabréf sem langtímafjárfestingu sem geti tekið sveiflum. En ég nefni þetta því að það eru mjög margir sem setja sig ekkert faglega inn í þetta mál, hvorki fjárhagslega né faglega, og snúast öndverðir gegn þessu vegna fyrri persónulegrar reynslu.

En þá kemur, herra forseti, að stórum hópi fólks sem er mjög andvígur frumvarpinu. Þá er ég bæði að tala um vísindamenn og fólk sem skynjar áhættuna varðandi ábyrgðina, en líka fólk sem er með rekstur annarra fyrirtækja og er andvígt því að eitt fyrirtæki öðrum fremur fái slíka fyrirgreiðslu. Það eru jafnvel fyrirtæki, eins og ég nefndi í upphafi máls míns, sem hafa staðið í miklu basli í þróunarstarfi og að reyna útflutning á sinni framleiðslu og hafa ekki fengið mikinn stuðning.

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur það ekki á stefnuskrá sinni að vera andvígt ríkisábyrgðum, enda sé farið að lögum um ríkisábyrgð og eðli hvers verkefnis fyrir sig sé metið, bæði hvað varðar áhrif á þjóðarhag og eins staðbundnari áhrif á afkomu byggða og svæða. Við erum ekki á þeirri forsendu andvíg frv., nema að því leytinu til að hér er tekin allt of mikil áhætta og ekki farið að lögum um ríkisábyrgð, sem er algjör forsenda fyrir því að hægt sé að styðja þetta mál.

[18:30]

Varðandi lyfjaþróunina sem slíka þá er alveg ljóst að það þarf mjög fjársterka aðila til þess að vera í slíkri framleiðslu. Hugmyndir einar eru ekki nægilegar. Það þarf að vera mjög sterkur fjárhagslegur stuðningur eða sterkur rekstur á fyrirtækjunum. Í raun hafa orðið til nokkrir lyfjarisar sem ráða orðið markaðnum og þeir risar eru í Bandaríkjunum. Fyrirtæki í Evrópu, sem eru í þessari þróun, hafa ekki fengið sömu hvatningu eða sama stuðning og fyrirtæki í Bandaríkjunum, hvort sem það er vegna þess að ekki er nægilegur stuðningur við þróunarstarfið sjálft eða að ekki er nægilegt fjármagn í markaðssetninguna. Ég þekki ekki nægilega vel til, herra forseti, til að dæma um það. Því að það er eitt að finna og framleiða lyf sem hefur tiltekna virkni og annað að hafa fjármagn til að koma þessu lyfi á markað til þess að það gefi fyrirtækinu þær tekjur sem allar væntingar standa til. Þar kemur hugsanlega inn hin sterka staða lyfjaþróunarfyrirtækja á Bandaríkjamarkaði að markaðssetningin þar fær svo mikinn og góðan stuðning og það er hugsanlega út á þann þátt sem þau fyrirtæki hafa náð markaðssetningu á ákveðnum lyfjum sem gefa þá þennan gróða.

En það er ekkert undarlegt, herra forseti, þó að marga langi til þess að komast í þá stöðu að geta þróað lyf alveg til enda þannig að það fari í framleiðslu, nái markaðssetningu, því ef það gerist er talið að það þurfi ekki nema eitt, í mesta lagi tvö slík lyf sem ná útbreiðslu, til þess að gróði fyrirtækisins verði ásættanlegur og í raun og veru þurfi svo ekki meir. Það er því eftir miklu að slægjast. En samkeppnin er hörð og með dýrustu þróunarverkefnum sem eru í gangi eru lyfjaþróunarverkefnin. Kröfurnar eru mjög strangar í framleiðsluferlinu og eins hvað varðar prófun á lyfjunum þannig að frá því að hugmynd kemur fram og þar til að lyfið er komið í dreifingu liggja þúsundir tilrauna í valnum og miklu fjármagni hefur verið eytt í hverja tilraun til þess að ná þróuninni til enda. Það eru ekki öll fyrirtæki sem hafa slíkt fjármagn. Enda má lesa það í þeim gögnum sem ég hef safnað að mér í kringum vinnuna við að fylgjast með þessu frv. að það væri ásættanlegt að hefja þróun lyfja á grunni þeirrar líftækniþekkingar sem er hjá Íslenskri erfðagreiningu og á grunni miðlægs gagnagrunns og fara ekki alla leið heldur geta selt hugmyndina einhvers staðar á þróunarstiginu. Því lengra sem þessi þróun nær að halda áfram, því verðmeiri er varan og það má alveg hugsa sér að það séu fleiri fyrirtæki en Íslensk erfðagreining sem fara þá leið að þróa ekki vöruna alveg til neytenda því þá er dýrasti þátturinn eftir sem er markaðssetningin.

Það eru víða uppi hugmyndir um að styrkja vísinda- og rannsóknastörf og það er vel. Herra forseti. Mér komu í hug orðaskipti við fyrirspurn sem ég lagði fram fyrr í vetur. Það hafa í nokkur ár verið að þróast hugmyndir um að setja upp vísinda- og rannsóknastöð á Kvískerjum í Skaftafellssýslu. Nú hefur nefnd sem til þessa var skipuð lokið störfum og bent á að það væri ákjósanlegt að Háskóli Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands hefðu aðsetur fyrir vísinda- og rannsóknastörf og mætti hugsa sér að á því sviði sem vísinda- og rannsóknastöð í Kvískerjum mundi starfrækja gæti á sviði náttúruvísinda í framtíðinni þróast mjög öflugt samstarf við sérfræðinga út um allan heim vegna þeirra aðstæðna sem þarna eru, náttúran, jökullinn o.s.frv. En því miður. Þegar kemur að hinu smáa virðist vanta sama skilning og sama stuðning og hvatningu og kemur fram í þessu frv.

Þeir vísindamenn sem yrðu á Kvískerjum, ef af yrði, yrðu ekki margir til að byrja með, en hér er verið að tala um 250--300 vel menntaða sérfræðinga á sviði lyfjaþróunar. Þetta yrðu, eins og ég sagði áðan, að mestu innfluttir starfskraftar og þá spyr maður um lögheimili og skatttekjur og annað slíkt. Þetta er ekki bara spurning um að hafa veltu hjá fyrirtækinu. Og eins þegar kemur að ráðningu starfsmanna þá hlýtur eftirspurnin fyrst og fremst að vera á innlendum markaði og við vitum mætavel, herra forseti, að hér er skortur á ýmsum sérfræðingum, t.d. innan heilbrigðisþjónustunnar. Þarna byðust því fólki eflaust betri störf og það yrði hörð samkeppni um þessa sérfræðinga. Ég er alveg sannfærð um að hér verða stofnanir eftir í sárum sem eiga eftir að lenda í vandræðum með að ráða til sín nauðsynlega sérfræðinga, þó að við nefndum ekki nema t.d. meinatækna og fleira slíkt ómetanlegt starfsfólk sem vinnur á heilbrigðisstofnunum.

Þegar við erum að tala um jafnræðisregluna er það ekki síður gagnvart þeim fyrirtækjum sem hafa verið að þróa starfsemi sína, eins og Marel, og við 1. umr. var nefnt t.d. lúðueldi. Seiðin eru framleidd hér á landi, en síðan er fyrirtækið með áframeldi á Írlandi þar sem það vantar allan stuðning til þess að koma á áframeldinu hér heima, en áframeldið er það sem virkilega gefur af sér, bæði fyrirtækinu og ríkissjóði. Því tel ég að ef þetta frv. til laga verður samþykkt geti bæði það fyrirtæki og fleiri farið fram á samsvarandi fyrirgreiðslu til þess að koma áframeldi á lúðuseiðum hér heima.

Herra forseti. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum styðja við öll þau sprotafyrirtæki sem eru víða um landið og teljum að þar gagnist sú þáltill. sem við fluttum í vetur um svæðisbundið átak fyrir fjórðungana um að leggja t.d. 400 millj. kr. í þróunarfélögin. Við lögðum til að það yrði byrjað á Austurlandi, að fjármagn færi í fyrirtæki þar, sprotafyrirtæki og fyrirtæki sem eru að ryðja sér þar til rúms og gætu orðið að sterkum fyrirtækjum ef þau fengju þann stuðning í upphafi sem þau þurfa. Við teljum að slíkum hugmyndum eigi að sinna því þær hafa margfeldisáhrif og ekki bara á viðkomandi stað heldur ekki síður til þess að styrkja svæðin þannig að brottflutningur fólks af landsbyggðinni verði stöðvaður og ekki bara stöðvaður heldur verði einhver von til þess að hægt verði að snúa þróuninni við.

Það hefur líka komið fram í þessari umræðu að fyrirtæki úti á landi fái ekki einu sinni eðlilega fyrirgreiðslu hvað varðar lán í bönkum þar sem lánshæfni þeirra er ekki metin á sama hátt og fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru þær grunnforsendur sem við viljum að séu í lagi og fyrir alla þannig að fyrirtækin geti blómstrað en ekki sé gripið til sértækra stórra aðgerða eins og þetta er.

Herra forseti. Ég ætla að fara að ljúka máli mínu. Það er alveg ljóst að samkvæmt þessu frv. á ábyrgðin að gilda næstu sjö árin og þar sem þetta er áhættufjárfesting --- það eru miklar sveiflur í þessari framleiðslu og það er að sumu leyti heppni hvernig fyrirtækin fara út úr sínum tilraunum, hvort þau detta niður á rétta lyfið eða hvernig tekst til með markaðssetninguna, hvernig gengið er, það eru svo ótal atriði sem hafa áhrif á möguleika lyfjaþróunarfyrirtækjanna til þess að standast samkeppnina --- þá er alveg ljóst að ef við erum með svo stórt og mikið fyrirtæki sem hér er að stefnt, með nokkur hundruð starfsmanna og það í hálaunastörfum, og ef illa færi, sem maður vonar að verði ekki, ef út í þetta verði farið, þá má alveg gera ráð fyrir því að þetta verði ekki nein sæluganga þessi sjö ár. Og ef illa fer og erfiðleikar verða í rekstrinum verði mjög sterkar kröfur um að láta fyrirtækið ekki rúlla þó ekki væri nema vegna starfsöryggis þess fólks sem þar vinnur. Því er þetta að hluta til ávísun á áframhaldandi aðgerðir af hendi ríkisins ef illa fer.

Herra forseti. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram sem afstöðu mína í málinu, en hér hefur verið vel farið yfir það og ég tel að það séu fleiri sem það muni gera þannig að ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að sinni.