Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 10:04:14 (8174)

2002-04-24 10:04:14# 127. lþ. 127.4 fundur 359. mál: #A almannatryggingar o.fl.# (tekjuhugtak, bótaútreikningur o.fl.) frv. 74/2002, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[10:04]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hér er komið til 3. umr. frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um málefni aldraðra, lögum um heilbrigðisþjónustu og sóttvarnalögum.

Eins og fram kom í 2. umr. skrifa fulltrúar Samfylkingarinnar í heilbr.- og trn. undir þetta mál með fyrirvara. Fyrirvarinn lýtur m.a. að því að í lögunum um almannatryggingar er enn þá tekjutenging á tekjutryggingu við tekjur maka. Vegna þessarar tekjutengingar við tekjur maka eru settar kvaðir á lífeyrisþega um að upplýsa um tekjur maka síns í ákvæði í þessu frv. Það hefur Öryrkjabandalagið talið mjög íþyngjandi fyrir skjólstæðinga sína. Ekki var vilji í nefndinni til að breyta þessum tekjutengingum og ég minni á, herra forseti, að enn er 67% tekjutenging í lögunum sem kom inn eftir öryrkjadóminn.

Annað sem ég vil gera að umræðuefni hér er 14. gr. frv. Hún hefur verið algerlega umorðuð. Þessi grein frv. er í raun 33. gr. almannatryggingarlaganna. En þó orðalaginu hafi verið breytt á það hvorki að breyta að neinu leyti réttindum þeirra sem þurfa að sækja til Tryggingastofnunar né greiðsluþátttöku almannatrygginganna í þeirri þjónustu sem greinin kveður á um. Þó greinin hafi verið umorðuð á ekki að vera nein efnisbreyting á 33. gr.

Ég vil að eitt komi mjög skýrt fram vegna þess að fram komu athugasemdir frá hagsmunasamtökum þeirra sem heyra undir þessa grein eftir að málið var komið til 2. umr. Menn höfðu áhyggjur af því að þarna væri verið að skerða réttindi. En ég vil að það komi skýrt fram að svo er ekki. Það er alls ekki vilji nefndarinnar að þarna sé á nokkurn hátt verið að skerða réttindi.

Nú við 3. umr. er komin inn brtt. frá formanni heilbr.- og trn. þar sem skerpt er á því, m.a. því sem snýr að psoriasissjúklingum.

Ég fagna sérstaklega brtt. við frv. sem kemur frá heilbr.- og trn. inn í almannatryggingalögin, þ.e. lögin um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, sem heimilar greiðslur fyrir umönnun lífeyrisþega í heimahúsi. Það hefur lengi verið baráttumál mitt og fleiri þingmanna Samfylkingarinnar að heimila greiðslur fyrir umönnun lífeyrisþega heima. Eins og lögin eru í dag, þ.e. 5. gr. laganna um félagagslega aðstoð, er aðeins heimilt að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega fyrir umönnun á heimili. Ljóst er að fleiri en makar sinna þeim störfum. Aðrir á heimilinu geta sinnt þeim. Þess vegna er mikið réttlætismál að gera þá breytingu sem hér verður á lögunum, þ.e. að fleiri en makar fái greitt fyrir slíka umönnun. Gert er ráð fyrir því að ráðherra setji síðar reglur um hvernig slíkar greiðslur skuli inntar af hendi og sömuleiðis hversu háar þær verða.

Eins og heilbrigðisþjónustan hefur þróast, sjúkrahússþjónustan og hjúkrunin á hjúkrunarheimilum, þá er alllöng bið eftir hjúkrunarplássum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það eru sjúklingar á spítölunum sem ekki eru á réttu þjónustustigi, þ.e. sem ekki er hægt að útskrifa þó að þeir hafi fengið þá þjónustu sem hægt er að veita þeim á sjúkrahúsinu. Ástæðan fyrir því að ekki hefur verið hægt að útskrifa þá er að bið er eftir hjúkrunarplássum eða að enginn er heima til að annast þá. Sú breyting á almannatryggingalögunum sem hér er verið að gera ætti að létta aðeins undir með því og gefa mönnum færi á að fara heim til sín. Þeir sem eru með þeim á heimili eða annast þá heima fá þá greitt frá Tryggingastofnun. Það verður alveg áreiðanlega sparnaður að þessari ráðstöfun og hagræði auk þess sem hún mun létta undir í heilbrigðiskerfinu.

Ég vék aðeins að fyrirvara okkar þingmanna Samfylkingarinnar við bótaupphæðirnar. Það má líka nefna frítekjumarkið. Það hefur ekki hreyfst. Við gerum athugasemd eða fyrirvara við það. Við hefðum viljað sjá hækkun á frítekjumörkum, hækkun á bótum og afnám tekjutengingar við tekjur maka. Vissulega er okkur ekki að skapi að lífeyrisþegar þurfi að tilkynna um tekjur maka síns um leið og þeir sækja um greiðslur frá Tryggingastofnun. Nógu slæmt er að þurfa að segja verðandi maka sínum að hann verði að sjá manni farborða ef maður er lífeyrisþegi þó maður þurfi ekki líka að tilkynna honum að hann verði að fara niður í Tryggingastofnun og upplýsa um tekjur sínar til þess að lífeyrisþeginn fái greiddar bætur.

Herra forseti. Ég held að ég sé ekki að orðlengja þetta frekar. Ég fagna þeirri breytingu sem verður á umönnunargreiðslum til þeirra sem annast lífeyrisþega heima, aldraða og öryrkja. Hún er mikil réttarbót og mikill áfangi fyrir þá sem hafa verið að berjast fyrir þeim greiðslum og réttindum. Jafnframt vil ég ítreka að þó að 14. gr. frv. sé umorðuð í brtt. frá nefndinni þá felur það hvorki í sér neinar efnislegar breytingar né heimildir til aukinnar greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðisþjónustu.