Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 11:03:53 (8180)

2002-04-24 11:03:53# 127. lþ. 127.4 fundur 359. mál: #A almannatryggingar o.fl.# (tekjuhugtak, bótaútreikningur o.fl.) frv. 74/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[11:03]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég gagnrýni það að menn miða við og bera saman hækkun og þróun lífeyris miðað við lægstu taxta sem voru 42 þús. kr. 1995 og hafa verið hækkaðir upp í 90 þús. kr. og áttu ekki að hafa áhrif neins staðar af því menn voru að reyna að komast út úr þeirri úlfakreppu að hækka lægstu taxta án þess að það hefði áhrif alls staðar. Svo leyfa menn sér að bera lífeyrisgreiðslur og þróun þeirra við þessa taxta. Það er allt í lagi að bera það saman við eðlilega launaþróun og þar er líka myndin allt önnur vegna þess að lægstu taxtarnir hafa hækkað miklu meira en launaþróunin almennt. Ég vil að það komi fram.

Svo er það að lífeyrir frá lífeyrissjóðunum, sem t.d. Benedikt Davíðsson átti þátt í að móta, hækkar bara eins og verðlag, algjörlega óháð launaþróun sem hefur hækkað sem betur fer, vegna góðrar ríkisstjórnar, miklu meira en verðlag á undanförnum árum. Það þýðir að allur þessi lífeyrir hjá lífeyrissjóðunum, sá mikli lífeyrir sem greiddur er þaðan, hækkar eins og verðlag, ekki eins og laun. Þar af leiðandi eru lífeyrisþegar verr settir að því leyti að lífeyririnn frá lífeyrissjóðunum hefur ekki hækkað eins og laun. En það er ekki hægt vegna þess að á bak við lífeyri frá lífeyrissjóðunum standa lán til sjóðfélaga sem eru verðtryggð miðað við neysluvísitölu. Ef menn ætla að breyta því og fara að miða við laun er ég hræddur um að margur skuldarinn kveinkaði sér.