Tollalög

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 11:21:36 (8184)

2002-04-24 11:21:36# 127. lþ. 127.6 fundur 583. mál: #A tollalög# (sektir, barnabílstólar) frv. 66/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[11:21]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Herra forseti. Hér er tekið til 3. umr. frv. til laga um breytingu á tollalögum með síðari breytingum. Efh.- og viðskn. hefur haft þetta mál til skoðunar. Ég skrifaði undir nál. efh.- og viðskn. með fyrirvara, en hafði ekki tök á að vera viðstödd 2. umr. Það er meginástæðan þess að ég tek til máls hér við lokaumræðuna.

Þetta frv. felur í sér tvær breytingar. Í fyrsta lagi er um að ræða hækkun á sektarheimild tollstjóra og hins vegar um niðurfellingu á tolli á barnabílstólum.

Ég vil fyrst fara nokkrum orðum um þessa fyrri heimild, þ.e. sektarheimild tollstjóra. Með frv. er lagt til að tollstjórum verði heimilt að ljúka málum með sektarboði sem nemi allt að 300.000 í stað 75.000 kr. áður. Ég held að hér sé á ferðinni eðlileg og rétt breyting. Í fyrsta lagi er ástæða að nefna að í lögum um meðferð opinberra mála, er lögreglustjóra heimilt að leggja sekt á mann vegna tiltekinna brota að tiltekinni fjárhæð. Síðan bregður svo við að dómsmrh. getur ákveðið slíkt hið sama með reglugerð. Það hefur sem sagt ekki lagastoð að dómsmrh. geti ákveðið slíkt þegar um er að ræða að beita sektum t.d. við umferðarlagabrot. En þegar kemur að tollstjóra að beita slíkum sektarákvæðum þá þarf til þess lagastoð. Við teljum að í þessu sé verulegt ósamræmi og ég tek undir það sem kemur fram í nál., þ.e. að nefndin gerir alvarlegar athugasemdir við það fyrirkomulag að unnt sé að ákveða sektarfjárhæð í reglugerð og bendir dómsmrh. á að taka málið til nánari skoðunar. Það hefði reyndar þurft að skoða þetta ákvæði í hv. allshn. þar sem framkvæmdarvaldið, í þessu tilfelli dómsmrh., getur beitt sektarfjárhæðum og farið með þær að vild án lagaheimildar, en síðan þegar kemur að tollalögunum þá hefur fjmrh. ekki sömu heimild. Það er vitaskuld með öllu óheimilt að hægt skuli að ákveða slíkt með reglugerð eins og hv. dómsmrh. gerir.

Ég hafði af því nokkrar áhyggjur að í lögunum eins og þau eru sett fram hér og í lagaákvæðinu kemur fram, herra forseti, að einungis sé verið að hækka þá sektarheimild tollstjóra sem nú er upp að 75 þús. kr., þ.e. það er verið að hækka þessar 75 þús. kr. í 300 þús. kr. og um það segir svo í athugasemdum um þessa grein:

,,Núverandi ákvæði 2. mgr. 139. gr. tollalaga heimilar tollstjóra að ljúka máli með sektarboði ef brot er skýlaust sannað og það varðar ekki hærri sekt en kr. 75.000. Lagt er til að heimilað verði sektarboð tollstjóra allt að 300.000 kr. til þess að samræmi ríki annars vegar milli sektarheimilda tollstjóra samkvæmt tollalögum og hins vegar lögreglustjóra skv. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála, ...``

Ég hafði svolitlar áhyggjur af því að engar reglur eða fyrirmæli væru um hvernig ætti að beita þessar heimild. Þarna er bara gefið svigrúm upp að 300 þús. kr. án þess að nokkur fyrirmæli séu um það í lögum hvernig eigi að beita þessari heimild. Ég fór þess á leit við fjmrn. og tollstjórann í Reykjavík að við í nefndinni fengjum upplýsingar um hvernig beita ætti þessu ákvæði og ég held, miðað við þau gögn sem lögð voru fram af hálfu tollstjórans í Reykjavík, að þessum málum sé vel fyrir komið. Til eru fyrirmæli eða leiðbeiningarreglur um sektarheimildir, þ.e. hvernig eigi að beita lögreglustjórasektum að því er varðar lög um meðferð opinberra mála og líka að því er varðar ýmis brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og brot gegn áfengislögum að því er varðar lögreglusamþykktir. Hins vegar er um að ræða ákveðin fyrirmæli eða leiðbeiningarreglur vegna brota á tollalögum, t.d. varðandi smyglvarning og annað slíkt og ólöglegan innflutning á áfengi og tóbaki, svo að dæmi sé tekið. Þarna virðist þetta vera í ágætu horfi að því er varðar leiðbeiningarreglur um þetta efni.

Herra forseti. Reyndar kemur eftirfarandi fram, sem staðfestir að þetta er rétt og eðlileg breyting, í erindi eða minnisblaði sem tollstjórinn í Reykjavík sendi nefndinni, dagsett 12. apríl, vegna þess frv. til laga um breytingu á tollalögum sem við ræðum hér. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í framkvæmd mun þetta vera þannig að þegar tollalagabrot koma til afgreiðslu hjá tollstjórum utan Reykjavíkur bregða þeir sér í hlutverk lögreglustjóra og ljúka málunum með lögreglustjórasátt í samræmi við þær heimildir sem þeir hafa til þess. Hvað varðar embætti tollstjórans í Reykjavík er staðan hins vegar sú að komi upp mál þar sem sektarfjárhæð fer fram úr 75.000 kr. verður hann að senda þau mál til lögreglustjórans í Reykjavík eða eftir atvikum til lögreglustjóra utan Reykjavíkur. Þau embætti geta svo lokið málunum fari sektin ekki fram úr 300.000 kr. Það þarf vart að taka það fram að hér er um hliðsett stjórnvöld að ræða og verður að telja að það sé í hæsta máta ankannalegt að það stjórnvald, (tollstjórinn í Reykjavík) sem hefur samræmingar-, eftirlits- og rannsóknarhlutverki að gegna gagnvart tollstjórum utan Reykjavíkur, svo sem fram kemur í tollallögum, þurfi að sæta því að geta ekki lokið málum sem upp koma hjá embættinu með sama hætti og fyrrnefnd hliðsett stjórnvöld. Þá má benda á að með lagabreytingunni mundu fleiri mál fá greiða meðferð jafnframt því sem færri mál af þessu tagi kæmu til kasta lögreglustjórans.``

Mér finnst þetta sem ég gríp í hér úr minnisblaði tollstjórans í Reykjavík skýra það mætavel að hér sé á ferðinni eðlileg breyting sem rétt er að styðja.

[11:30]

Herra forseti. Síðan vil ég taka til umræðu seinna atriðið, þ.e. niðurfellingu á tolli á barnabílstólum sem er hin raunverulega ástæða fyrir þeim fyrirvara sem ég set í þetta nál. meiri hluta efh.- og viðskn. sem ella styður þetta mál. Þar taldi ég ástæðu til þess að vekja athygli þingheims á umsögn fjölskylduráðs sem er ríkisstjórninni og á að vera ríkisstjórninni til ráðgjafar um málefni sem snerta fjölskylduna. En, herra forseti, ég hef því miður orðið vör við það í störfum mínum í efh. - og viðskn. þar sem ég hef leitast við að senda fjölskylduráði mál til umsagnar sem með einum eða öðrum hætti snerta fjölskylduna, að svo virðist ekki vera að ríkisstjórnin hafi í einu eða neinu máli leitað eftir umsögn fjölskylduráðs.

En að því er þetta mál varðar segir fjölskylduráð eftirfarandi í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Fjölskylduráð hefur áður vakið athygli efh.- og viðskn. á mikilvægi þess að stjórnvöld láti sig sérstaklega varða velferð barnafjölskyldna og komi til móts við sérstakar þarfir þeirra. Því vill ráðið nota tækifærið og benda á að hér á landi er virðisaukaskattur 14% af þurrmjólkurdufti og ungbarnamat og 24,5% af bréfbleium, barnabílstólum, barnavögnum og kerrum. Það væri mikil bót að því fyrir foreldra ungra barna að virðisaukaskattur yrði afnuminn af þessum vöruflokkum eins og gert hefur verið víða í nágrannalöndum okkar.``

Hér er sem sagt stigið hálft skref til þess með því að breyta tollalögum og fella niður toll af barnabílstólum. En enn situr eftir að 24,5% virðisaukaskattur er á barnabílstólum. Tek ég þá hér sérstaklega út, þó að fjölskylduráð nefni fleiri atriði sem snerta ungbarnafjölskyldur, þar sem við erum hér að ræða um öryggistæki, sem barnabílstólar eru. Út af fyrir sig væri full ástæða til þess að skoða, og hef ég fullan hug á að gera það, hvort ekki sé athugandi að flytja um það sérstakt mál á þingi að fella niður skatta á þessum nauðsynjavörum fyrir ungbarnafjölskyldur. En í þessari umræðu tek ég sérstaklega fyrir barnabílstólana.

Ég gerði tilraun til þess í efh.- og viðskn., af því við vorum líka með til umfjöllunar frv. um virðisaukaskatt, að reyna að leita að samstöðu um að fella líka niður virðisaukaskatt af barnabílstólum. Um það náðist ekki samkomulag. Nú skyldi maður ætla að hér væri um einhverjar verulegar fjárhæðir að ræða sem miklu máli skiptu að því er varðar ríkissjóð, en svo er ekki.

Ég leitaði til fjmrn. með útreikninga á þessu, herra forseti. Þá kemur í ljós að ef felldur yrði niður virðisaukaskattur á barnabílstólum mundi það kosta um 1--1,5 milljónir. Það er nú allt og sumt, herra forseti. En það er auðvitað alveg ljóst að það mundi skipta verulegu máli fyrir ungbarnafjölskyldur í landinu ef Alþingi stigi það skref að fella niður virðisaukaskatt af barnabílstólum.

Í þeim útreikningum sem ég hef við höndina frá fjmrn. kemur í ljós að miðað við virðisaukaskatt sem greiddur var af barnabílstólum í janúar, febrúar og mars á þessu ári, er einungis um að ræða 272 þús. kr. í virðisaukaskatt. Ef við færum þetta yfir á heilt ár þá losar þetta einhvers staðar á bilinu 1--1,5 milljónir. Hér eru því ekki háar fjárhæðir á ferðinni, en þær geta skipt sköpum um að ungbarnafjölskyldur sem ekki hafa mikil efni geti veitt sér það að kaupa það öryggistæki sem barnabílstóll er.

Af þessu tilefni sé ég ástæðu til þess að gera þetta að umtalsefni, sérstaklega af því að hér var á dögunum verið að ræða um stefnumótun um aukið umferðaröryggi, og vitna í leiðinni í Óla H. Þórðarson hjá Umferðarráði um hvað hann segir um notkun á barnabílstólum, vegna þess að þar koma fram athyglisverðar upplýsingar sem styðja það að rétt er og eðlilegt hjá Alþingi að fella niður alla skatta af barnabílastólum, ekki bara tollana, heldur einnig virðisaukaskattinn. Í umsögn Umferðarráðs kemur fram, með leyfi forseta:

,,Það er mikið hagsmuna- og réttlætismál foreldra ungra barna að almennur tollur af barnabílstólum sem eru viðurkenndir og E-merktir samkvæmt reglum Evrópusambandsins eða viðurkenndir samkvæmt bandarískum og kanadískum stöðlum verði afnuminn. Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er enginn tollur á öryggisbeltum en 10% tollur á barnabílstólum sem eru nauðsynlegir hverju ungu barni sem ferðast í bíl.

Í þessu sambandi má geta þess að í könnunum sem gerðar hafa verið undanfarin ár á vegum Umferðarráðs og fleiri aðila við leikskóla í rúmlega 30 sveitarfélögum, kom í ljós að árið 2001 voru 72% leikskólabarna í barnabílstólum við komu í skólann. Þegar sú staðreynd er höfð í huga að börnin eru á aldrinum tveggja til sex ára er þetta ekki nógu góð útkoma.``

Það er alveg ljóst að það er alvarlegt að einungis 72% leikskólabarna skuli vera í barnabílstólum og þarf auðvitað að gera átak til þess að breyta því, herra forseti, og það væri auðvitað liður í því ef við mundum afnema virðisaukaskatt af barnabílstólum, eins og ég reyndi að tala fyrir í efh.- og viðskn., sem kostar ríkissjóð ekki meira en 1--1,5 millj. kr. en getur ráðið úrslitum um það hvort ungbarnafjölskyldur hafi efni á því að kaupa sér barnabílstól. Ef þessi leið væri farin væri sennilega hægt að lækka barnabílstólana um 4.000--5.000 kr.

Eins og svo oft áður er Alþingi að marka stefnur í hinum og þessum málum, í þessu tilfelli um aukið umferðaröryggi og setja á blað falleg orð um að nú eigi að fara að vinna að ákveðnum verkefnum til að tryggja þetta og hitt og í þessu tilviki eru settir á blað 15 töluliðir um stefnumótun um aukið umferðaröryggi. En hvað segir hér um þessi atriði? Það segir að það eigi að auka forvarnir. Síðan segir í 13. tölulið þessarar umferðaráætlunar:

,,Auka þarf vitund vegfarenda um hve miklu máli skiptir að nota tiltækan öryggisbúnað, þ.e. bílbelti, hjálma, hlífðarfatnað og öryggisbúnað fyrir börn í bílum. Aukið verði eftirlit og aðhald með notkun öryggisbúnaðar.``

Þetta er nú þingið að samþykkja, herra forseti. En á sama tíma er því hafnað af meiri hluta í efh.- og viðskn. að fara þá leið að afnema virðisaukaskatt af barnabílstólum sem kostar ekki nema 1--1,5 millj. kr.

Herra forseti. Mér hreinlega ofbýður þetta og taldi fulla ástæðu til þess að fara yfir þetta mál við lokaumræðu þess þar sem ég hafði ekki tök á því að fara yfir fyrirvara minn við 2. umr. málsins.

Mér finnst reyndar skelfilegt, herra forseti, að hugsa til þess að verið sé að samþykkja stefnumótun um aukið umferðaröryggi þar sem á að taka á þessum málum, en síðan sé því hafnað að leggja 1--1,5 millj. í að lækka virðisaukaskatt af barnabílstólum, sem eins og ég segi getur ráðið úrslitum um það hvort ungbarnafjölskyldur geta keypt barnabílstól sem getur haft úrslitaþýðingu fyrir öryggi barna í bílum.

Herra forseti. Við horfum líka til þess að umferðarslysum hefur farið fjölgandi hér á landi og allir hljóta að vera sammála um varðandi þessa auknu slysatíðni að mjög mikilvægt sé að efla allar forvarnir að því er varðar öryggi barna í umferðinni. Erum við þá ekki síst í því sambandi að tala um það öryggi sem fylgir öryggisbúnaði í bílum. Þar eru barnabílstólar ekki síst ofarlega á blaði.

Ég vil láta þessa getið hér, herra forseti. En um þetta náðist ekki samstaða og mun ég vissulega gera aðra tilraun til þess, herra forseti, á komandi þingi að reyna að ná breiðri samstöðu um að fara þessa leið vegna þess að það er ekki nokkur hemja að skattleggja slíkan öryggisbúnað, eins mikilvægur og hann er fyrir ungbörn.