Lokafjárlög 1999

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 11:57:53 (8189)

2002-04-24 11:57:53# 127. lþ. 127.14 fundur 667. mál: #A lokafjárlög 1999# frv. 102/2002, Frsm. meiri hluta EOK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[11:57]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til lokafjárlaga fyrir árið 1999 frá meiri hluta fjárln.

Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir. Enn fremur var óskað eftir áliti Ríkisendurskoðunar. Frávik að fjárhæð um 40 millj. kr. er á niðurstöðum rekstrarreiknings, fjárheimilda og flutnings milli uppgjörsára. Ríkisendurskoðun beinir því til fjárlaganefndar að þessi mismunur verði skýrður og leiðréttur þegar lokafjárlög fyrir árið 2001 verða afgreidd af Alþingi.

Meiri hlutinn gerir sjö breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 124,5 millj. kr. til lækkunar. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í þessari framsögu.

Allar þessar tillögur varða leiðréttingar og tæknivillur. Þar er fyrst um að ræða Námsgagnastofnun, vegna sölu á Skólavörubúðinni, sem kemur bæði inn og út í menntmrn. Breytingar sem þar verða vegna uppgjörs reyndust aðeins minni. Síðan verður breyting í félmrn. varðandi Byggingarsjóð verkamanna. Í fjórða lagi eru ýmis verkefni varðandi Ferðaskrifstofuna CGI, þ.e. ábyrgðir sem ekki þurfti á að halda upp á 0,5 millj. kr. Síðan er liður varðandi Vegagerðina, varðandi afborganir og vexti af ferjum og flóabátum. Þar er um það að ræða að þetta er millifært annars staðar. Síðan kemur ein leiðrétting varðandi Hagstofuna. Þar hafði gleymst í uppgjöri 1 millj. kr. og er verið að færa þessa 1 millj. kr. til samræmis við það sem gert er í öllum öðrum tilfellum.

[12:00]

Skýringar á þessum breytingum koma fram á bls. 57, þar eru athugasemdir í lokafjárlögunum. Þetta eru allt tæknilegar breytingar, varða engu um raunverulega stöðu ríkissjóðs.

Varðandi þá villu sem kemur fram um 40 millj. kr., þá hefur Ríkisendurskoðun farið yfir það með fjárln. og ljóst er að um tæknimál er líka að ræða. Það er álit manna að við getum ekki komið þessu fram í lokafjárlögum fyrir árið 2000 sem verða lögð fyrir þingið nú í haust, heldur verðum við að bíða með það til ársins 2003 í lokauppgjör fyrir árið 2001 að koma þessu þar fram. Það er vegna þess að eiginlega er svo gott sem búið að ganga frá frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2000, þannig að við getum ekki leiðrétt þessa villu fyrr en þá.

Um þetta er þá að segja að fjárreiðulögin gera ráð fyrir að lokafjárlögin gangi eins hratt fyrir sig og hægt er, það eru að vísu ekki dagsetningar eða tímasetningar á því, en það hefur verið unnið mjög mikið í þessum málum að undanförnu og stefnt er að því að það verði í mjög góðu lagi, þannig að þetta dragist ekki eins og oft hefur gerst áður að það hefur safnast upp og frá frv. gengið löngu seinna. Allt útlit er fyrir að þessi mál verði í góðum skilum framvegis.