Lokafjárlög 1999

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 12:02:18 (8190)

2002-04-24 12:02:18# 127. lþ. 127.14 fundur 667. mál: #A lokafjárlög 1999# frv. 102/2002, GE
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[12:02]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Það er kannski ekki ástæða til að setja á langa ræðu en þó eru nokkur atriði sem er rétt að fara aðeins yfir.

Nú á vordögum ársins 2002 er lagt til af hálfu meiri hluta fjárln. að samþykkja lokafjárlög, þ.e. uppgjör áranna 1998 og 1999. Mönnum má ljóst vera að vinnuferlið varðandi árið 1998 er ekki ásættanlegt og má t.d. geta þess að aðeins eru sex af ellefu sem þá sátu í fjárln. enn þá í nefndinni. Það er því óheppilegt að mál dragist. En þetta breyttist með fjárreiðulögunum, þá breyttist tæknin við reikningshaldið og má kannski segja eins og ég nefndi áðan að það sé ekki komið í viðunandi lag, en 40 milljóna skekkja, villa eða frávik, það er spurning hvaða orð er notað um þetta, er vegna niðurstöðu rekstrarreiknings fjárheimilda á árinu 1998 sem um er að ræða, og það var útskýrt mjög rækilega fyrir okkur í fjárln., hvernig best væri að gera þessa hluti. Það virðist ekkert vera óljóst um þá fjárupphæð, þannig að í rauninni er búið að fallast á það hvernig með þetta er farið með því að gera ekki athugasemdir við málið.

Ég má til með að nefna það, virðulegur forseti, að ég tel að fjárlagaferlið hafi færst til betri vegar, sérstaklega með fjárreiðulögunum. En að undanförnu hefur verið töluverð umræða, ekki bara hér, heldur á alþjóðavettvangi um slíkt ferli, um þinglega afgreiðslu og almennt um framkvæmd fjárlaga. Búið er að skoða þetta á alþjóðavettvangi og tengsl eru á milli þess hvernig fjárlög eru gerð og ástands fjármála í hverju landi og það mun vissulega vera rétt. Það er því ástæða til að setja þá hugsun fram að eðlilegt er að gera kröfu til þess að fjárlög eða fjárlagaáætlanir séu til lengri tíma en eins árs í senn. Vitna má til þess að sveitarfélögunum er skylt að leggja fram fjárhagsáætlanir til þriggja ára og ég tel í rauninni að þá þurfi að vera til langtímaáætlun önnur en samstarfssamningur í ríkisstjórn eða áætlanir ríkisstjórnar. Ég tel að nákvæmari plögg þurfi.

Ég minnist þess að hafa kynnt mér fjárlagaferli bæði í Bretlandi og í Svíþjóð. Þar eru mál unnin með nokkrum öðrum hætti, en þó er um rammafjárlagagerð að ræða sem ég tel að hafi orðið til hins betra hér þegar farið var út í rammafjárlagagerð. Ef maður veltir því fyrir sér hvernig með þessa hluti er farið í Bretlandi, þá er lögð tillaga fyrir fagnefndir sem fagnefndirnar mega fjalla um, þær mega ekki fara upp fyrir þann ramma sem um er rætt en þær mega breyta tillögunni, fagnefndirnar mega vinna þannig.

Mér finnst það sem við vorum að reyna hér að setja ákveðin verkefni út til fagnefndanna, ég tel að við þurfum að hugsa það mál upp á nýtt og jafnvel er mjög óþægilegt að fá inn tillögur frá fagnefndum sem stangast kannski á við upplýsingar sem liggja fyrir í fjárln. Það er spurning hvernig á að fara með það mál, ég er ekki að gera það að umræðuefni hér, en mér finnst að menn ættu að skoða það.

Ég get sagt það eins og ég sagði áðan að fjárlagaferlið hefur færst til betri vegar með fjárreiðulögunum. Ég tel að þar sé grundvöllinn að finna. Nauðsynlegt er að ljúka þessu máli og þessum málum báðum, hvort sem er fyrir árið 1998 eða 1999. Þess vegna ætla ég ekki að gera athugasemdir við þær breytingar sem gerðar hafa verið og kynntar í fjárln. og skýrðar bæði af fulltrúum fjmrn. og í viðræðum og með yfirferð Ríkisendurskoðunar, því ég tel best að þessum málum sé lokið. En Samfylkingin mun sitja hjá við afgreiðslu málsins eins og ég gerði grein fyrir áðan vegna þeirrar aðkomu sem við í raun höfum að fjárlagagerðinni. En það er ekki vegna þess að ekki sé bærileg sátt og samvinna í fjárln. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka fyrir þá samvinnu sem hefur verið þar og ég tel að þó svo að pólitískar meiningar séu milli manna, þá sé samstarfið með því besta sem gerist.