Lokafjárlög 1999

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 12:08:30 (8191)

2002-04-24 12:08:30# 127. lþ. 127.14 fundur 667. mál: #A lokafjárlög 1999# frv. 102/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[12:08]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til lokafjárlaga fyrir árið 1999 og hefur hv. þm., varaformaður fjárln., Einar Oddur Kristjánsson, mælt fyrir því.

Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að þessi frumvörp til lokafjárlaga fyrir árin 1998 og 1999 eru mjög seint á ferðinni og meðferð þess máls er ekki í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins. Frumvörpin hefðu átt að koma fram miklu fyrr og raunar fyrir nokkrum árum.

Ég vil einnig vekja athygli á því að búið er að prenta og ganga frá ríkisreikningi fyrir þessi sömu ár og þær tölur sem við erum með til umfjöllunar um breytingar á fjárlögum í lokafjárlögum eru þegar komnar inn í ríkisreikninginn. Það er heldur ekki þingleg meðferð á málinu og reyndar röng. Það er því í sjálfu sér, virðulegi forseti, óheimilt að prenta út og ganga frá ríkisreikningi með fjárupphæðum sem ekki hafa hlotið samþykkt á Alþingi.

Mjög mikilvægt er að þetta komi fram og þetta kemur líka fram í athugasemdum Ríkisendurskoðunar við slík vinnubrögð og við lokafjárlögin. Virðulegi forseti, þessu verður að koma í lag.

Ég hef áður í umræðum um fjárlagagerð og meðferð fjárlaga gagnrýnt það að framkvæmdarvaldið hefur tekið sér vald sem það hefur ekki til að ákveða útgjöld á vegum ríkisins án þess að þau hafi fyrst verið samþykkt og afgreidd á Alþingi. Ég vil ítreka það að í meðferð fjárlaga af hálfu ríkisins ber að fara að settum þingræðislegum reglum og það ber að verja stöðu þingsins í meðferð á fjárlögum og afgreiðslum og ákvörðunum um fjárútlát.

Þess vegna gagnrýni ég þá meðferð að gengið skuli fyrst frá ríkisreikningi áður en frv. til lokafjárlaga sem heimilar þær upphæðir sem þar eru færðar er afgreitt á þinginu.

Annars vil ég vekja athygli á nokkrum atriðum sem koma fram í lokafjárlögunum. Í fyrsta lagi eru heimildir til þess að færa upphæðir á milli ára. Einstakar stofnanir og einstök ráðuneyti hafa heimildir til þess að færa upphæðir á milli ára, hvort sem það eru inneignir eða skuldir og síðan er þá ákvörðunaratriði hvað af þeim er niðurfellt, hvort sem eru skuldir eða eignir og hvað af þeim eru fært á milli ára.

Þetta ráðslag er mjög vafasamt þegar lokafjárlög eru afgreidd svo löngu seinna. Við erum að afgreiða lokafjárlög fyrir 1998 og 1999 og þá eru allar þessar ákvarðanir löngu formlega teknar, þannig að afgreiðsla þingsins verði bara til málamynda.

Ég vil enn fremur vekja athygli á því að allmargar stofnanir á vegum ríkisins eru fjármagnaðar með gjaldtökum sem eiga í megindráttum að fjármagna reksturinn og sumar þeirra stofnana eru nú að safna inneignum sem þær fá þá að flytja áfram á eins konar inneignarreikning hjá sér, án þess að það sé skoðað nákvæmlega hvort sú gjaldheimta sem verið er að taka sé í samræmi við þau útgjöld sem viðkomandi stofnun hefur.

Ég vil nefna í því sambandi stofnun eins og Einkaleyfastofuna sem safnar eignum. Ég vil nefna fyrirtæki eins og Löggildingarstofuna sem safnar eignum og er að fjármagna sig á því að taka gjöld fyrir þjónustu sína, stöðluð gjöld. Gott er að stofnanir sýni góða ráðdeild en engu að síður þarf að gæta þess að þau gjöld sem þær eru að innheimta séu í takt við þann kostnað sem er raunkostnaður. Innheimtist meiri tekjur en sem svarar þeim nauðsynlegu útgjöldum á móti eiga þær að mínu mati að renna í ríkissjóð, nema sérstaklega sé kveðið á um annað.

Fleiri slík dæmi birtast við gerð lokafjárlaga hvað þetta varðar, virðulegi forseti, sem ég tel afar brýnt, bæði fyrir þingið og fyrir hv. fjárln. að fara ofan í og kanna hvort eigi ekki að vera betri og réttari háttur á í meðferð á fjárreiðum.

Annars er athyglisvert, virðulegi forseti, að á árinu 1999 tókst ekki að nýta einu sinni það fjármagn sem var varið til niðurgreiðslna á rafhitun í landinu. Eftir stendur afgangur upp á 41 milljón og sömuleiðis varðandi styrki til fráveitna sveitarfélaga á árinu 1999, þá verða þar eftir 138 milljónir af þeim 200 milljónum sem hafði verið ráðstafað til þess verkefnis. Það sýnir sig að þarna þarf að huga betur að hvers vegna þau verkefni sem ætlunin var að veita þetta fé í gengu ekki upp.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa að öðru leyti fleiri orð um þetta. Frumvörp til lokafjárlaga fyrir 1998 og 1999 eru að sjálfsögðu unnin á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og hún ber ábyrgð á þeim. Þetta sem hér birtist er frágengið í raun, þannig að hér er um formsatriði að ræða af hálfu Alþingis að ljúka við hina þinglegu afgreiðslu málsins, en ég ítreka að hinn rétti háttur er að fyrst séu lögð fram fjárlög og fjárlagaheimildir samþykktar áður en þær eru bókaðar í ríkisreikningi á einstökum stofnunum, ráðuneytum og verkefnum á vegum ríkisins og vonandi verður þetta til bóta við næstu afgreiðslu lokafjárlaga.

Að öðru leyti mun Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sitja hjá við afgreiðslu á þessum lokafjárlögum, en hvetur til þess að þau verði afgreidd á þessu þingi.